2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Einstaklingar sem eitra út frá sér

  Flestir eru þannig gerðir að þeir vilja sýna samhug og samlíðan með öðrum. Þá langar að vera kurteisir, góðir vinir og í hópi þeirra sem eru tilbúnir að styðja við og styrkja samborgara sína. Sumir eru hins vegar eins og botnlaus tunna þegar kemur að tilfinningalegum þörfum og kröfum til annarra. Þetta eru einstaklingar sem eitra út frá og sér spilla hvar sem þeir eru. Hér eru nokkur einkenni slíkra.

   

  -Eftir að hafa umgengist viðkomandi finnst þér þú gersamlega útkeyrð/ur og tilfinningalega tóm/ur. Þú reynir að hlusta, gefa góð ráð, sýna hlýju og styðja en samræðurnar leiða ekki til neinnar niðurstöðu. Hann er fastur í sama farinu og endurtekur aftur og aftur sömu ávirðingarnar og sárindin. Í raun er hann ekki að leita að hlustanda heldur ruslafötu til að hella sárindum sínum í. Þú hefur hins vegar engin ráð með að tæma þig af ruslinu og ert því gersamlega búin/n á sál og líkama eftir samvistirnar. Sá eitraði hefur hins vegar fengið góða útrás.

  -Viðkomandi reynir að þvinga þig til að gera einmitt það sem hann vill. Þú býður aðstoð en getur ekki mætt á þeim tíma sem viðkomandi bað um en hann getur ekki sætt sig við það. Þú neitar að taka þátt í einhverju sem hann vill gera og hann reynir með hótunum, væli og tilfinningalegri kúgun að neyða þig til að gera það samt.

  -Eitraði einstaklingar stjórna með sektarkennd. Þegar þeir fá ekki fram vilja sinn er höfðað til sómatilfinningar þinnar. „Þú kallar þig vin minn en neitar að hjálpa mér í þessum erfiðu aðstæðum.“ „Við tilheyrum sömu fjölskyldu og fjölskyldur styðja hver aðra, ekki satt?“ „Ég er alltaf að hjálpa þér en þegar ég þarf greiða getur þú aldrei komið til móts við mig.“ „Ég bið nú aldrei um neitt og þegar ég þarf á því að halda ert þú svo kaldlynd/ur að þú getur hugsað þér að segja nei.“

  AUGLÝSING


  -Afbrýðisemi er þeim eðlislæg. Stjórn á öðrum er markmið eitraðra einstaklinga og þeir nota öll þau tól sem hugsast getur til þess. Afbrýðisemi er ágætis stjórntæki. Öll viljum við jú vera trygglynd og sýna að okkur sé treystandi og njóta þess sama til baka frá okkar nánustu. En það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að krefjast að fólk gangi til að sanna trúfestu sína. Enginn hefur rétt á að takmarka frelsi annars í þeim einum tilgangi að draga úr eigin ástæðulausum ótta.

  -Eitraðir einstaklingar telja sig ævinlega fórnarlömb mikils óréttlætis. Algengt er að fólk gefist upp á þeim fyrr eða síðar og þá sitja þeir eftir sárir og daprir yfir grimmd annarra. Þeir hafa þolað órétt. Vinurinn sveik þá þrátt fyrir að þeir hafi gert allt rétt og sýnt einstaka vináttu. Þeir eru ófærir um að sjá eigin sök í nokkru máli.

  -Þeir gera lítið úr öðrum á lúmskan hátt. Jafnvel þegar þeir hrósa öðrum felst í því broddur. Í raun er verið að tala niður til manneskjunnar. „Já, þetta er voða fínt hjá þér en af hverju hafðir þú rendurnar rauðar en ekki brúnar?“ „Þú ert voðalega fín í þessu pilsi þótt það sé nú fullstutt.“ „Þetta er góð byrjun og þú gerir örugglega betur næst.“ Hið jákvæða er kryddað með ofurlitlum votti af neikvæðni því í raun er verið að segja: Þú ert sæmileg/ur en ég er betri.

  -Þeir segja þér mun meira en þú vilt heyra. Með því að deila með fólki afskaplega persónulegum og jafnvel óþægilegum upplýsingum um sjálfa sig, stundum of snemma er verið að krefjast meiri hlýju og nándar af þér en þú ert tilbúin/n til að veita. Í sumum tilfellum er sá eitraði farinn að trúa þér fyrir sambandsörðugleikum sínum strax fyrsta kvöldið sem þið hittist. Þú ættir alltaf að varast að gefa af þér til baka. Vegna þess að um leið og viðkomandi skynjar einhvers konar neikvæðni frá þér, að þú dragir þig til baka eða sért of hreinskilin/n munu þeir móðgast og notfæra sér allt sem þeir vita til að koma höggi á þig.

  Fólk af þessu tagi er einfaldlega farsælast að forðast og ef einhver í þínum vinahópi sýnir framkomu af þessu tagi losaðu þig við hann sem allra fyrst. Hann mun ekki breytast og samskipti ykkar munu aldrei gefa þér neitt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is