2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Dáist að Villanelle fyrir margt

  Jodie Comer er rísandi stjarna í kvikmyndaheiminum. Túlkun hennar á siðblindum leigumorðingja í þáttaseríunni Killing Eve hefur opnað augu heimsins fyrir hæfileikum þessarar ungu konu. Jodie sjálf segir að Villanelle hafi kennt sér að hafa minni áhyggjur af hvað öðrum finnst og kjósa fremur eigin leiðir en að fylgja því sem ætlast er til af henni.

  Jodie var á forsíðu Elle í vor og sat þá fyrir á glæsilegum tískumyndum. Þar klæddist hún hátískufatnaði í anda þess sem Villanelle hefði örugglega kosið sér. Þættirnir um hana og Eve Polastri hafa slegið í gegn og samspil allra þeirra sterku kvenna er þar koma fyrir er gersamlega heillandi, enda er handritshöfundurinn kona, Phoebe Waller-Bridge. Sú er ekki síður áhugaverð, leikkona og handritshöfundur. Hún steig fram í sviðsljósið í einleik, Fleabag, sem hún flutti á Edinborgarhátíðinni. Hann sló í gegn og í framhaldinu skrifaði hún og lék aðalhlutverkið í sjónvarpsseríu byggðri á sömu hugmynd. Þetta er fjölskyldudrama í léttum dúr þar sem fléttast saman örlög tveggja systra. Þær missa móður sína, pabbi þeirra tekur saman við bestu vinkonu hennar og hvor um sig glímir við alls kyns vandamál í einkalífinu. Seinni þáttaröðin var sýnd í Bretlandi í vetur en þar verður aðalpersónan ástfangin af kaþólskum presti.

  En aftur að leigumorðingjanum og hennar flækjum. Tvær konur gera sitt besta til að handsama hana, Eve Polastri og Carolyn Martens. Sú fyrrnefnda er fyrst og fremst skrifstofublók í byrjun en sú síðarnefnda harðskeyttur og gamalreyndur leyniþjónustustarfsmaður. Þær Sandra Oh og Fiona Shaw leika hlutverk  þeirra og eru hreint út sagt stórkostlegar í sínum hlutverkum. Allar persónur þáttanna eru margslungnar og áhugaverðar og söguþráðurinn einstaklega frumlegur. Jodie segir að einstök vinátta og systraþel hafi skapast milli þeirra við gerð þáttanna og kvenorkan sé nánast áþreifanleg þegar horft er á þá.

  Reknar út af hótelherbergi fyrir hávaða

  AUGLÝSING


  Þær Jodie og Pheobe hittust fyrst á BAFTA-verðlaunahátíðinni. Phoebe hampaði þá verðlaunum fyrir fyrri þáttaröð Fleabag og þær tóku tal saman. Fljótlega kom í ljós að þær höfðu dáðst að verkum hvor annarrar úr fjarlægð lengi og að vel fór á með þeim. Þær settust inn á hótelherbergi Jodie, drukku vín og voru svo háværar að hótelstarfsmaður var sendur til að sussa á þær. Þá færðu þær sig yfir á hótel Phoebear og héldu áfram að skemmta sér. Þetta hefur örugglega meðal annars orðið til þess að Phoebe benti á hana þegar til stóð að velja í hlutverk Villanelle.

  Leigumorðinginn kræfi í Killing Eve er hins vegar ekki fyrsta persónan með fremur lélegt siðferði sem hún leikur. Margir Íslendingar muna eftir henni í hlutverki Katie Parks í Doctor Foster. Hún var einnig mögnuð í hlutverki Elisabetar af York í seríunni White Princess. Elísabet giftist Hinrik VII konungi Englands til að tryggja hann í sessi. Þau voru samhent hjón og virðast hafa átt ástríkt samband en frömdu ýmis óhæfuverk til að tryggja Tudor-ættinni áframhaldandi völd. Það kom hins vegar allt fyrir ekki því hún leið undir lok með Elísabetu I.

  Í viðtalinu í Elle talar Jodie um að hún hafi virkilega þurft að efla með sjálfri sér þol gagnvart áliti annarra á sjálfri sér meðan á upptökum þáttanna stóð. Villanelle sé algjörlega laus við áhyggjur af slíku og ekki annað hægt en að dást að henni fyrir það. Jodie nefnir atriðið þar sem Villanelle slær ísskál af borði í fangið á ungri stelpu bara af því að hún getur komist upp með það sem dæmi. Líklega hámark óþokkaskapsins í hugum flestra. Að auki finnur hún ekki fyrir því óöryggi sem flestar konur láta þvælast fyrir sér. Hún nýtur þess að klæða sig upp á og vera áberandi en hikar heldur ekki við að ganga særð í gegnum Parísarborg í náttfötum af þrettán ára dreng, (sem hún var nýbúin að drepa). Vissulega er kaldhæðnislegt að siðblind manneskja sé svo gersamlega frjáls en sjálf hefur Jodie oft þurft að berjast við óöryggið.

  „Hún hefur oft þurft að berjast við óttann um að hún sé orðin of feit til að koma til greina eða sé ekki nógu falleg til að hreppa hnossið.“

  Vissi tólf ára að hún yrði leikkona

  Hún nefnir að í þeim bransa sem hún starfar í snúist hlutirnir oft minnst um hæfileika þína. Iðulega sé valið í hlutverk aðallega eftir útlitinu. Hún hefur oft þurft að berjast við óttann um að hún sé orðin of feit til að koma til greina eða sé ekki nógu falleg til að hreppa hnossið. Þegar hún var unglingur hataði hún tennur sínar. Hún setti stút á munninn þegar teknar voru myndir af henni til að reyna að leyna að brotið var úr tönn. Hún þurfti líka að berjast við aukakílóin og var óánægð með líkama sinn. Nú segist hún vera að sættast við sjálfa sig og læra að meta hæfileika sína. En þótt fæstar konur hafi löngun til að verða skrímsli á borð við Villanelle getum við ábyggilega verið sammála leikkonnunni um að sjálfsöryggi hennar er öfundsvert. Jodie dáist líka að fullkominni hreinskilni Villanelle.

  Jodie hefur ekki hlotið neina formlega menntun í leiklist. Hún er tuttugu og sex ára og býr enn heima hjá foreldrum sínum, en pabbi hennar er íþróttanuddari og vinnur fyrir Everton FC en mamma hennar fyrir Merseyside Travel. Enn er enginn kærasti sýnilegur í kringum hana enda segist hún ætla að einbeita sér að starfsferlinum núna og ekkert annað komist að. Hún segir að tólf ára gömul hafi hún vitað að hún vildi leggja leiklistina fyrir sig. Hún flutti þá einræðu á leiklistarhátíð í Liverpool sem leikskáldið byggði á Hillsboro-harmleiknum. Pabbi hennar var meðal áhorfenda og Jodie sá að henni hafði tekist að hreyfa við honum. Það var til þess að hún reyndi fyrir sér þegar BBC Radio 4 kom í heimabæ hennar í leit að stelpu á hennar aldri í hlutverk í útvarpsleikriti. Hún hreppti hnossið og fannst vinnan stórskemmtileg.

  Þessi unga leikkona þykir einstaklega ljúf í samstarfi og allir bera henni ákaflega vel söguna. Hún setji starfið ævinlega í forgang og láti eigið egó sitja í aftursætinu. Að auki sé hún glaðlynd og skemmtileg svo að ávallt ríki notalegt andrúmsloft í kringum hana. Jodie segir þetta líklega vera vegna þess hve góðir foreldrar hennar hafi ætíð verið. Þau hafi alltaf stutt hana og sagt: „Þetta er þín vegferð, allt veltur beinlínis á þér.“ Og nú eru henni allir vegir færir. Tilboðum rignir yfir hana og allir fjölmiðlar sækjast eftir viðtölum. Áhugasamir sjónvarpsáhorfendur geta byrjað að hlakka til að sjá hana í framtíðinni.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is