2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gerðu samning við maka þinn

  Fyrir um það bil öld eða svo var hjónaband í langflestum tilfellum háð samingum. Yfirleitt voru það foreldrar brúðhjónanna sem stóðu í viðræðum fyrir hönd barnanna sinna og samið var um heimanmund og morgungjafir. Stundum voru hin og þessi sérákvæði. Okkur kann að finnast þetta órómantískt en það er margt vitlausara en að semja við maka sinn.

   

  Nú á dögum þykir sjálfsagt að giftast af ást en þótt samið hafi verið um fjármálin fyrirfram hér áður hafði ástarneisti iðulega kviknað milli unga fólksins. Það hafði hist, skrifast á og kynnst. Hjónaefnin bjuggu einnig að því að vita töluvert hvort um annað. Þau voru alin upp í svipuðu umhverfi í íslenskri sveit, við sömu trúarbrögð og höfðu því í langflestum tilfellum líkar væntingar til lífsins.

  Þetta er allt breytt á 21. öld. Fólk kynnist og verður ástfangið þvert á menningarheima, trúarbrögð og heil úthöf skilja að bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Hjónabandsráðgjafar segja, og rannsóknir styðja mál þeirra, að best sé að hjón hafi svipuð grundvallarviðhorf til lífsins.

  Það er einkum þrennt sem verður að ásteytingarsteinum í hjónabandi og margt má forðast með því að kynna sér gildismat væntanlegs maka til þeirra fyrirfram og semja um hvernig skal bregðast við.

  Peningar

  AUGLÝSING


  Samkvæmt rannsóknum er langalgengast að fólk í sambúð eða hjónabandi rífist um peninga. Viðhorf til fjármála geta verið óskaplega ólík. Einum kann að finnast mjög eðlilegt að taka lán meðan annar telur að það eigi að forðast í lengstu lög. Sumir spara skipulega og vilja hafa fjármálin í mjög föstum skorðum meðan aðrir vilja helst ekki hugsa um peninga. Flestir reyna þó að taka skynsamlega á þessum málum og vilja því semja um og komast að niðurstöðu um hvernig á að haga heimilisbókhaldinu.

  Þá kemur að skiptingu kökunnar. Öll heimili hafa ákveðnar tekjur og ákveðin útgjöld. Hvað á að gera við afganginn getur reynst ágreiningsefni. Það sem einum þykir eðlilegt að verja peningum í kann öðrum að þykja sóun og eyðsla. Hversu dýr mega áhugamálin vera, sumarleyfisferðir fjölskyldunnar, fötin sem keypt eru eða húsgögnin? Með því að kynna sér gildismat væntanlegs maka gagnvart peningum og í hvað þeim er best varið má spara sér mikil leiðindi. Ef mönnum hefur láðst að gera það er heilbrigðast að setjast niður og semja hreinlega um krónur og aura, hvað eigi að ganga fyrir og hvað bíða, hversu margar krónur koma í þinn hlut og hversu mörgum maki þinn getur ráðstafað.

  Hér verður að gæta sanngirni í hvívetna, taka tillit til heildartekna heimilisins fremur en tekna hvors aðilans um sig. Ef annar aflar 70% af tekjunum getur hann ekki vænst þess að hinn borgi reikninga til jafns við hann. Sá tekjulægri á að eiga jafnmikið eftir af sínu kaupi og sá sem aflar meira.

  Börn og uppeldi þeirra

  Sinn er siður í landi hverju segir máltækið en það mætti ekkert síður tala um að hverju heimili fylgdu sérstakar venjur. Fullorðið fólk dregur ævinlega dám af því uppeldi sem það hefur hlotið og það mótar á einhvern hátt hvernig það elur upp eigin börn. Ræðið saman um reglur, refsingar, umgengnisvenjur á heimilinu og hvað þið viljið leggja áherslu á í þessum efnum. Ef skoðanir eru mjög skiptar semjið um ágreiningsefnin því ef börnin upplifa að foreldrarnir standi saman og setji sömu mörk ganga öll samskipti mun betur.

  Verkaskipting

  Hvernig heimilisverk og ábyrgð á þeim skiptist milli hjóna er samningsatriði. Hér er ekki nauðsynlegt að skipta jafnt heldur aðeins að tryggja að báðir séu sáttir. Það þarf einnig að ríkja einhugur um að ef annar getur ekki sinnt sínu af einhverjum ástæðum taki hinn við. Þetta er rétt eins og á góðum vinnustað þar sem allir hafa sín verkefni, skila þeim með sóma og hjálpa síðan hinum ef tími gefst til. Þegar óánægja kemur upp þarf að ræða hana og endurskipuleggja vinnuna.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is