2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fann aðra konu meðan mamma var á fæðingardeildinni

  Lífsreynslusaga úr Vikunni

  Ég er alin upp hjá móður minni og stjúpföður og var alltaf í litlu sambandi við líffræðilegan föður minn. Mamma talaði aldrei um samband sitt við hann og það var ekki fyrr en nýlega að ég fékk að heyra alla sólarsöguna.

   

  Mamma var 18 ára þegar hún kynntist pabba og hann 20 ára. Þau voru bæði í menntaskóla, hann að klára og hún að byrja á þriðja ári. Þau áttu í frábæru sambandi, gerðu allt saman og voru afar samrýnd. Mamma sagðist oft hafa hugsað til þess hve heppin hún væri að hafa kynnst honum því meðan vinkonur hennar voru í alls konar dramasamböndum þá var hennar alltaf ljúft og gott.

  Rétt áður en mamma kláraði stúdentinn komst hún að því að hún var ófrísk. Þau pabbi voru rosalega ánægð með það og með hjálp foreldra sinna keyptu þau sína fyrstu íbúð og fluttu inn um sumarið. Mamma sagði mér að lífið hefði ekki getað verið betra og henni leið eins og í ævintýri þar sem ekkert annað en „þau lifðu hamingjusöm til æviloka“ kom til greina.

  AUGLÝSING


  Strax á þriðja mánuði fóru að koma ýmis vandamál hjá mömmu á meðgöngunni. Grindargliðnun fór að gera vart við sig, mikil bjúgsöfnun og meðgöngusykursýki. Hún átti erfitt með gang og varð fljótlega að hætta í vinnunni sem hún hafði fengið eftir útskrift. Hún reyndi að bera sig vel en var meira og minna heima við alla meðgönguna því hún var alltaf svo þreytt. Þegar líða fór að fæðingunni bættist meðgöngusýki við og síðustu tvær vikurnar lá mamma alveg inni á spítalanum. Mamma sagðist hafa fundið fyrir fullum stuðningi frá pabba meðan á þessu stóð en hann hefði reynt að gera allt sem hann gat fyrir hana.

  Á endanum var ég tekin með keisaraskurði sem þýddi nokkra daga af spítalavist til viðbótar. Mamma var rosalega glöð þegar þessu var lokið og hún komst loksins heim með mig. Pabbi sótti okkur á spítalann og mamma sagðist ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í fari hans. Hún sá fram á bjartari tíma þar sem hún færi smám saman að jafna sig á erfiðri meðgöngu og nú gætum við litla fjölskyldan farið að móta okkar stað í tilverunni.

  Gekk út

  Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar pabbi settist niður með mömmu um tveimur vikum eftir heimkomuna og tilkynnti henni að hann vildi skilja. Aumingja mamma hélt í fyrstu að hann væri að grínast því hún átti á þessari stundu frekar á dauða sínum von en þessu. Hann sagðist hafa farið út að skemmta sér meðan mamma lá á fæðingardeildinni og hefði kynnst annarri konu. Milli þeirra hefði myndast einhver órjúfanlegur straumur og hann væri yfir sig ástfanginn. Hann pakkaði fötunum sínum niður í tösku sama kvöld, kyssti mig á ennið og flutti út. Eftir sat mamma algerlega stjörf. Á einhverjum tímapunkti náði hún þó að hringja í mömmu sína sem kom strax og var með henni um nóttina.

  „Hann pakkaði fötunum sínum niður í tösku sama kvöld, kyssti mig á ennið og flutti út. Eftir sat mamma algerlega stjörf.“

  Næstu dagar liðu eins og í leiðslu og það var ekki fyrr en nokkrum dögum seinna sem reiðin tók við. Hvað var hann að hugsa? Hvernig var hægt að yfirgefa kærustu sína til nokkurra ára og nýfætt barn með þessu hætti? Og hver var þessi kona sem hafði rænt hana allri undirstöðunni í lífi mínu? Var hann þessi karlmaður sem gat ekki tekist á við erfiðleika? Gat hann ekki tekist á við kynlífsleysi undanfarinna mánuða? Hún hringdi í hann og hellti sér yfir hann en það varð fátt um svör.

  Hann gaf mömmu sinn hluta í íbúðinni og hún tók við láninu. Pabbi fór fljótlega að búa með nýju konunni og þau eru saman enn þann dag í dag. Mamma var hins vegar ein með mig og sambandið milli hennar og pabba var alltaf mjög stirt. Þar sem ég var svo lítil þegar þau skildu fór ég skiljanlega ekkert til hans í heimsóknir. Samskiptin voru lítil sem engin og því varð það einhvern veginn þannig að ég fór nánast aldrei til pabba. Ég ólst samt upp við að vita hver hann væri, og konan hans og systkini mín tvö þeim megin. Þau komu alltaf með afmælis- og jólagjafir. Þá kíktu þau stundum í kaffi í smástund og í dag veit ég að þetta voru alltaf erfiðustu stundir mömmu.

  Langaði ekki að umgangast hann

  Mamma kynntist stjúpföður mínum þegar ég var tveggja ára og fyrir mér er hann minn eini sanni faðir. Hann gekk mér strax í föðurstað og hefur alltaf komið eins fram við mig og bróður minn sem er fjórum árum yngri en ég. Ég hafði því aldrei neitt sérstaklega sterka löngun til að umgangast líffræðilegan föður minn og fjölskyldu hans, var bara sátt við mitt líf hjá mömmu, stjúpföður mínum og bróður.

  Mamma var á leiðinni í háskólanám eftir fæðingarorlof en frestaði því vegna skilnaðarins við pabba. Henni fannst hún þurfa að fara á vinnumarkaðinn til að geta séð fyrir mér og greitt af húsnæðinu sem hún sá nú um ein. Pabbi greiddi meðlag en það var það eina sem hann lagði til. Mamma fór ekki í nám fyrr en bróðir minn var orðinn fjögurra ára og það varð úr að mamma lærði allt annað en hún hafði hugsað sér í upphafi sem hún segir í dag að hafi verið þvílíkt happ.

  Mamma talaði samt aldrei illa um föður minn eða konuna hans, talaði bara nánast ekkert um þau. Held að henni hafi fundist best að þau væru eiginlega ekki til.

  Samband tekið upp

  Þegar ég sjálf varð ófrísk fór ég að hugsa oftar til föðurfjölskyldunnar og velta vöngum yfir því hvort barnið mitt hefði gaman af að kynnast afa sínum og fjölskyldunni hans. Ég ákvað að ræða þetta við mömmu og hún brást vel við. Það var þarna sem hún ákvað að segja mér þessa sögu og það kom mér á óvart að heyra í hversu löngu og nánu sambandi þau höfðu verið. Ég hafði alltaf haldið að þau hefðu þekkst mjög lítið. Þarna skildi ég líka hvers vegna mamma hafði verið svona gagnvart pabba öll þessi ár því hún viðurkenndi að hafa verið lengi að jafna sig. Þar sem pabbi hefði lítið sóst eftir sambandi hefði verið auðveldast að stinga höfðinu í sandinn og láta sem hann væri ekki til. Eftir á að hyggja hefði það verið eigingjarnt af henni gagnvart mér. Ég gat sagt henni að mér hefði aldrei liðið illa út af þessu en núna langaði mig að prófa að koma á sambandi.

  Ég hafði því samband við pabba. Ég sagði honum að ég ætti von á barni og langaði að kynnast þeim betur. Pabbi var ofurglaður að heyra í mér. Hann sagði að hann hefði alltaf langað að hafa mig meira í lífi sínu en ekki þorað vegna viðbragða mömmu. Með árunum hefði þetta svo orðið erfiðara og erfiðara. Nokkrum dögum seinna buðu hann og konan hans mér í mat ásamt hálfsystkinum mínum. Það var mjög gaman að hitta þau öll og við hétum því að halda sambandi og það hefur sannarlega haldist. Þau kíktu bæði í heimsókn strax eftir að ég átti og eru ofurhrifin af litla barnabarninu. Konan hans pabba spurði hvort hún mætti ekki láta kalla sig ömmu og það var guðvelkomið.

  Ég hugsa stundum hvort ég hafi farið einhvers á mis við að kynnast þeim ekki fyrr en hef ákveðið að horfa ekki í baksýnisspegilinn vegna þessa alls og trúi því að hlutirnir hafi þróast á besta veg.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum