2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hvers vegna heldur hamingjusamt fólk fram hjá?

  Ekkert virðist einfalt þegar kemur að ástarsamböndum og þótt margir telji framhjáhald vera merki þess að eitthvað vatni upp á hamingjuna og samskiptin er sú alls ekki alltaf raunin. Þegar gengið er á fólk eftir framhjáhald viðurkennir það oft að ævintýraþrá og skyndihugdetta hafi ráðið meiru en einhvers konar vöntun á ástúð, gleði eða nánd heimafyrir.

   

  Því hefur stundum verið haldið fram að einkvæni sé manninum ekki eðlilegt og há tíðni skilnaða í heiminum vitni um að svo sé. Vissulega er það hugsanlegt og það er erfitt að skilja hvers vegna einhver metur skyndilegan losta eða löngun í tilbreytingu ofar maka sínum og fjölskyldu. Öll vitum við jú, að þetta er gróft trúnaðarbrot og líklegt til að særa þann sem við elskum djúpu og varanlegu sári. Í bókinni State of Affairs: Rethinking Infidelity skoðar Esther Perel, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi, spurningarnar: Hvers vegna heldur hamingjusamt fólk fram hjá? og Er einkvæni úrelt?

  Ein af niðurstöðum hennar er að öll pör þurfi að ræða um framhjáhald og hvað það myndi þýða fyrir einstaklingana ef haldið væri fram hjá þeim. Maki þinn þarf að vita hvort það er í þínum augum svo djúpstætt og eyðileggjandi að þú getir aldrei komist yfir það eða hvort þú telur að hægt sé að vinna sig frá slíku. Hvort sem okkur líkar betur eða verr á framhjáhald sér reglulega stað og ástæða þess að ótal mörg hjónabönd springa. Ef við viljum takast á við þennan vanda og leitast við að skilja hann þarf að skoða fyrirbærið og læra af sögum þeirra sem hafa upplifað ótryggð.

  Margvíslegar skýringar

  Esther Perel hefur þrjátíu og fjögurra ára starfsreynslu í ráðgjöf við hjón í vanda. Hún segir að enginn einn eldrauður þráður liggi í gegnum flestar framhjáhaldssögur. Siðgæði er sannarlega einn þáttur, eða skortur á því ef menn vilja líta þannig á, ótti við að eldast og deyfð. Ótti við að allt verði óbreytt næstu tuttugu og fimm árin og ekkert nýtt að gerast. Í huga sumra sé það yfirþyrmandi og menn bregðist við með að reyna að slíta sig lausa. Hún vill skipta framhjáhaldi upp í tvær tegundir: Vekjarakallið og frelsisópið. Vekjarakallið hefur enn ekki verið kannað til fulls meðan frelsisópið hefur fengið heilmikla umfjöllun og verið rannsakað. Eftir vekjarakallið telur Esther grundvöll fyrir sáttum og það geti leitt til hreinskiptinna samræðna og betri samskipta milli hjóna ef rétt sé haldið á málum. Stíflan bresti oft í kjölfarið og menn séu færir um að finna tilfinningum sínum farveg og ræða þær til fulls og þar með finna lausnir.

  „Esther bendir á að í dag færist í vöxt að fólk endurnýi heit sín, hjón staðfesti reglulega skuldbindingar sínar við hvort annað og leggi virkilega mikla vinnu í að sjá til þess að hjónabandið gangi og sé gott.“

  AUGLÝSING


  Auðvitað er oft skýringar að finna í hvernig sambandið hefur þróast. Stundum finnst fólki það vera vanrækt af makanum. Hann sé of upptekinn af vinnu sinni, áhugamáli eða vinunum. Þá getur verið freistandi að leita athygli annars staðar eða svara af krafti daðri á viðkvæmri stundu. Esther finnst óþarfi að fordæma framhjáhald og þótt hún segi skýrt og greinilega að hún telji að ekki eigi að láta það óátalið sé hugsanlegt að við þurfum að skoða hvernig það atvikaðist áður en það er dæmt.

  Esther hefur lítinn áhuga að skoða hvers vegna óhamingjusamt fólk leitar sér huggunar, enda telur hún það auðskiljanlegt. Henni finnst mun athyglisverðara að komast að því hvers vegna fólk heldur fram hjá eftir áratuglangt og hamingjuríkt hjónaband. Þar sé ekki um að ræða manneskjur sem kalla mætti króníska daðrara eða skuldbindingafælna einstaklinga sem ekki geta gefið sig heilshugar í nokkurt samband. Heldur er þetta ábyrgt fólk, fullt af vilja til að rækta sinn garð, engu að síður verði því á.

  Eitthvað gerist, maður hittir mann

  Þótt oft sé hægt að finna ástæður fyrir því að framhjáhald eigi sér stað þýða það þó ekki að vandamál sé í sambandinu. Jafnvel fullkomlega hamingjusamur einstaklingur geti haldið fram hjá. Eitthvað gerist, maður hittir mann eða kona hittir konu eða maður hittir konu og þau tengjast á einhvern óskiljanlegan og óvæntan hátt og það hefur ekkert með makann að gera. Ekkert með sambandið heimafyrir að gera. Það er ástúðlegt, hamingjusamt og náið en einhver löngun kviknar, minning um hver og hvernig þú varst áður en þú stofnaðir til sambands við makann og ekki allir ná að slíta sig lausa áður en hlutirnir ganga of langt. Hið forboðna hefur einnig alltaf ákveðið aðdráttarafl og það getur verið erfitt að standast það.

  Lykilorðið virðist vera að gæta þess að leyfa ekki hjónabandi sínu að rúlla áfram af gömlum vana. Esther bendir á að í dag færist í vöxt að fólk endurnýi heit sín, hjón staðfesti reglulega skuldbindingar sínar hvort við annað og leggi virkilega mikla vinnu í að sjá til þess að hjónabandið gangi og sé gott. Sumir hafi einnig til siðs að halda fjölskyldufundi eða funda með makanum til að ræða þau ágreiningsefni sem koma upp og viðra tilfinningar sínar. Það geti komið í veg fyrir að fólki finnist makinn vanrækja sig eða hafa gleymt sér.

   „Eitthvað gerist, maður hittir mann eða kona hittir konu eða maður hittir konu og þau tengjast á einhvern óskiljanlegan og óvæntan hátt og það hefur ekkert með makann að gera.“

  Hún leggur einnig áherslu á að það sé gott að skapa einhverja dulúð í sambandinu, rétt nóg til að fólk nái að halda áfram að koma hvort öðru á óvart. Í stað þess að senda sætum samstarfsmanni sexí skilaboð á Facebook gæti verið gaman að senda makanum þau. Að eiga rómantískt kvöld ein heima reglulega er önnur leið eða fara á stefnumót eins og þið gerðuð hér áður. Rómantískar helgarferðir og foreldrafrí eru líka kjörin leið til að rifja upp hver þið voruð og hvernig ykkur leið áður en fjárhagsáhyggjur, börn, þrif og þvottar fóru að taka allan tíma ykkar. Hún segir að það sé líka mikilvægt að halda áfram að tala saman, ekki bara um hver eigi að sækja börnin heldur um bækurnar sem þið eruð að lesa, sjónvarpsþættina sem eru í uppáhaldi, áhugamálin og framtíðardraumana.

  Lykillinn að vellíðan og lífshamingju er einmitt skilningur og sjálfsþekking. Fái pör í hendur tólin til að skilja hvernig sambandi þeirra er háttað, hvar styrkleikarnir liggja, hvar veikleikarnir og hvað heldur þeim saman ná einstaklingarnir að skilja sjálfa sig betur. Framhjáhald geti leitt til slíkrar sjálfskoðunar og niðurstöðu um hvað fólk raunverulega vill fá út úr lífinu og hvaða leiðir það vill fara til að ná því fram. Hver við erum og hvernig við elskum er nefnilega mikilvægustu spurningarnar sem við fáum um ævina. Esther Perel hvetur lesendur sína til að spyrja sig reglulega erfiðra spurninga, segja hreint út það sem þeir eru að hugsa og fara út fyrir þægindarammann í kynlífi og tilfinningalífi. Með því aukum við líkurnar á að við elskum og séum elskuð á heiðarlegan og blæbrigðaríkan hátt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum