2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Martraðarkennt matarboð

  Lífsreynslusaga úr Vikunni

  Eftir skilnað við drykkfelldan eiginmann minn ákvað ég að taka U-beygju í lífinu. Nokkrum árum síðar kynntist ég heillandi manni en aðeins nokkrum dögum eftir að við fórum að vera saman gerðist óhugnanlegur atburður.

   

  Maðurinn minn tók því vægast sagt illa þegar ég fór fram á skilnað eftir um þrjátíu ára hjónaband og reyndi allt sem hann gat til að fá mig til að skipta um skoðun. Mér varð ekki haggað og tæpu ári síðar hafði líf mitt tekið algjörum stakkaskiptum. Við skiptum eignum og skuldum á milli okkar og ég áttaði mig á því að ég gæti loks látið gamlan draum rætast og farið í framhaldsnám. Við vorum ágætlega stæð og hefðum getað haft það svo gott saman ef hann hefði ekki misnotað áfengi. Börnin okkar tvö voru uppkomin, bæði gift og annað þeirra búið að gera mig að ömmu.

  Ég keypti mér litla íbúð í Þingholtunum og naut þess að vera frjáls frá ofríki og feluleikjum og ekki síst meðvirkni. Fáir vissu af drykkjuvandamáli hans, enda hélt hann því að mestu innan veggja heimilisins.

  AUGLÝSING


  Vinkona mín hafði drifið mig með sér á Al Anon-fundi nokkrum árum áður og þeir voru ágætlega hjálplegir en mér gagnaðist ekki síður vel að lesa mér til um meðvirkni. Með tímanum öðlaðist ég síðan hugrekkið sem þurfti til að binda enda á hjónabandið.

  Námið mitt gekk vonum framar og háskólaárin liðu með örskotshraða. Ég skilaði mastersritgerðinni afar stolt af sjálfri mér og var svo meyr að ég hágrét alla leiðina heim. Ég veit ekki hvað hjólreiðamaðurinn sem var stopp á ljósum við hliðina á mér hélt um þessa miðaldra konu með tónlistina á hæsta í bílnum og tárin fossandi niður kinnarnar.

  Heillandi og hugmyndaríkur

  Það sem ég ætlaði mér aldrei að láta gerast gerðist nú samt. Ég varð hrifin af manni sem drakk allt of mikið. Mér fannst Baldur greindur, fyndinn og hugmyndaríkur, einnig afar myndarlegur. Við vorum jafngömul, eða 55 ára, þegar við kynntumst á bar í miðbænum. Ég var þar á ferð með vinkonu minni og þótt við værum báðar edrú skemmtum við okkur konunglega. Baldur lét mig ekki í friði frá því hann sá mig og á endanum gaf ég honum símanúmerið mitt. Hann hringdi strax daginn eftir og vildi hitta mig. Ég var líka spennt fyrir honum og fannst þetta algjört ævintýri. Í raun var ég þó alls ekki viss um að ég vildi fara í fast samband með honum en hann var bara svo töfrandi. Hvatvísi hans og uppátektarsemi heillaði mig upp úr skónum.

  Fyrsta stefnumótið okkar var magnað en þá bauð hann mér í óvissuferð um miðjan dag. Sótti mig heim og ók sem leið lá upp í sveit. Við stoppuðum á fallegum stað, hann setti geisladisk með vínarvölsum í gang í bílnum og bauð mér upp í dans við árbakkann. Þegar við komum aftur í bæinn bauð hann mér út að borða á fínum stað. Hann pantaði rauðvín með matnum og drakk það nánast allt sjálfur, ég drakk nokkra sopa en eftir langa sambúð með alkóhólista var ég nánast komin með ógeð á áfengi. Ég keyrði hann heim á bílnum hans, afþakkaði að koma inn með honum og sagðist skila bílnum næsta morgun og þá myndi ég þiggja morgunverð. Hann sættist á það.

  Við ræddum saman í síma daglega og kynntumst sífellt betur. Hann talaði um að fara í meðferð, þessi drykkja væri að drepa hann. Ég veit ekki hvort hann sagði þetta til að gera mér til geðs eða meinti þetta en ég sagði þetta vera góða hugmynd hjá honum. Ekki síður þá hugmynd hans um að hætta að reykja en hann reykti minnst tvo pakka á dag.

  Rúmri viku eftir að við kynntumst bauð Baldur mér í mat heim til sín. Hann hafði sagt mér að hann væri afbragðskokkur og ég hlakkaði mikið til að verja kvöldinu í skemmtilegum félagsskap hans. Þegar ég mætti var hann á kafi í eldamennsku, með sleif í annarri og bjór í hinni. Hann bauð mér bjór en ég vildi frekar kaffi. Hann stakk upp á því að ég færi með kaffið út á svalir og sæti í sólinni á meðan hann lyki við eldamennskuna. Ég gerði það og lét fara vel um mig.

  Eins og í hryllingsmynd

  Nokkrum mínútum seinna heyrðist undarlegur hávaði, fyrst brothljóð og síðan miklar stunur sem hljómuðu vægast sagt illa. Ég hljóp inn í eldhús og þar mætti mér óhugnanleg sjón. Baldur lá á gólfinu. Hann var óþekkjanlegur í útliti, það var eins og augun ætluðu út úr höfðinu á honum og þau störðu hvort í sína áttina. Hann var blár í framan og gaf frá sér skelfileg hljóð. Mér leið eins og ég væri stödd í hryllingsmynd. Það var eins og tíminn hægði á sér og ég hugsaði milljón hugsanir á sekúndubroti, eins og: Þvílíkt vesen, ég nenni þessu ekki! Mér var sagt síðar að þetta væru eðlileg viðbrögð, heilinn gerði þetta til að minnka áfallið. Ég hugsaði samt skipulega, byrjaði á því að slökkva undir pönnunni og færa hana á aðra hellu og taka út það sem var inni í ofninum. Síðan hringdi ég í Neyðarlínuna. Ég hafði gleymt gemsanum mínum heima svo ég hringdi úr heimasíma Baldurs sem flýtti án efa fyrir sjúkrabílnum því í sjokkinu hefði ég eflaust ekki munað heimilisfangið hans. Eftir símtalið hóf ég lífgunartilraunir.

  „Ég hnoðaði hann fimmtán sinnum í röð og blés tvisvar og endurtók þetta þangað til ég heyrði í sírenunum.“

  Fyrir nokkrum árum lærði ég skyndihjálp og ég hafði engu gleymt. Ég hnoðaði hann fimmtán sinnum í röð og blés tvisvar og endurtók þetta þangað til ég heyrði í sírenunum. Það liðu bara fimm mínútur frá því ég hringdi og þar til sjúkrabíllinn kom. Ég hljóp út á tröppur og gargaði á neyðarliðina, þeir yrðu að flýta sér, maðurinn væri að deyja! Ég sá að lögreglan hafði lokað götunni beggja vegna við húsið. Neyðarliðarnir komu þjótandi inn og tóku málin í sínar hendur.

  Mér létti ofboðslega. Ég varð eftir í íbúðinni og eins og í leiðslu hreinsaði ég upp glerbrotin á gólfinu, fleygði matnum í ruslatunnuna úti og vaskaði upp. Síðan tók ég nokkra hluti í eigu Baldurs, eins og gemsann hans og lyklana að íbúðinni, og ók upp á spítala. Ég fékk ekki að sjá hann en bað um að þessu væri komið til hans. Svo fór ég heim, enn í algjöru áfalli.

  Bundin eilífum böndum?

  Baldri var haldið sofandi í nokkra daga. Ég hringdi annað slagið á sjúkrahúsið og fékk fréttir af honum, ekki í smáatriðum því ég var ekki ættingi, en ég fékk þó að fylgjast aðeins með. Þegar hann var vaknaður fór ég í heimsókn til hans. Hann mundi ekkert eftir mér. Baldur dó í nokkrar mínútur, hann fór í hjartastopp með tilheyrandi súrefnisskorti. Ef ég hefði ekki gert lífgunartilraunirnar á honum hefði hann ekki haft þetta af, tjáði læknirinn hans mér.

  Ég minnti Baldur á það sem hafði gerst þessa daga okkar saman áður en hann hneig niður og þótt hann myndi ekkert eftir mér sagði hann að þetta væru örlögin, við værum núna bundin eilífum böndum. Hann varð skotinn í mér aftur þarna á spítalanum og eftir að hann var útskrifaður lét hann mig ekki í friði vikum saman. Mig langaði ekki að taka upp samband við virkan alkóhólista þótt heillandi væri. Minningin um hann liggjandi á gólfinu, svartan í framan þar sem augu hans stóðu á stilkum stóð líka í veginum, ég gat hreinlega ekki gleymt þeim hryllingi sem ég hafði upplifað. Baldur minnkaði drykkju sína og reykingar fyrst á eftir og mér skilst að hann hafi farið í meðferð en án árangurs.

  Það er mjög sorglegt að sjá svona snilling eins og hann eyðileggja sig á víni. Hann er veikari alkóhólisti en ég hélt þar sem hjartastoppið vakti hann ekki til vitundar um hvað hann er að gera sér.

  Ég veit að sætur endir á þessari sögu hefði verið að við færum að vera saman. Hann myndi hætta allri óreglu og við lifðum hamingjusöm til æviloka. Það á ekki eftir að gerast. Mér þykir vænna um sjálfa mig en svo. Ég eyddi allt of mörgum árum í að reyna að „bjarga“ fyrrverandi eiginmanni og þeim kafla lífs míns er lokið.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum