2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Óvænt svik: „Í stað ástarorðanna sem ég átti von á kvað við annan og kaldari tón“

  Lífsreynslusaga úr Vikunni

  Skjótt skipast veður í lofti, er haft að orðtaki hér á landi og svo sannarlega á það við um veðurfarið hér á Fróni. Ég hef hins vegar komist að því núna að þetta á ekki síður við um hug og tilfinningar karlmanna sem alast upp við þessar aðstæður. Og þó, sennilega er ekki sanngjarnt að dæma alla eftir einum. Ég ætla því að halda mig við að ræða þennan eina og hans snöggu „veðrabrigði“.

   

  Ég varð ástfangin. Ekki í einu vetfangi og hvorki fyrsta né önnur sýn urðu til þess að hné mín skylfu og hjartað berðist sem aldrei fyrr. Ég kynntist manni á vinnustað og þótt ég fyndi áhuga frá hans hálfu sýndi ég engan á móti þannig að ekkert varð úr neinum kynnum. Ég var gift og tók þær skuldbindingar alvarlega.

  Endurfundir

  Mörgum árum seinna lágu leiðir mínar og þessa manns saman á ný. Nú unnum við hvort hjá sínu fyrirtækinu en þau áttu í miklum viðskiptum sín á milli. Við hittumst oft við vinnuna og ég fann að áhugi hans á mér hafði ekki dvínað. Nú voru aðstæður mínar líka aðrar og tilfinningarnar gagnvart eiginmanni mínum blendnari. Árum saman hafði ég þolað drykkju hans og ýmiss konar ábyrgðarleysi og sorgin yfir vanmætti mínum gagnvart sjúkdómi hans var ráðandi í samskiptum okkar. Þegar ég varð svo samtíða þessum fyrrum samstarfsmanni og núverandi kollega á ráðstefnu lét ég undan freistingunni og við áttum saman ástarfund.

  AUGLÝSING


  Mér leið hræðilega eftir þetta og forðaðist manninn eins og heitan eldinn. Svona hafði ég ekki ætlað að fara að hlutunum og síst af öllu hafði ég viljað gera manninum mínum þetta. Ég hélt að ég gæti afskrifað þetta sem mistök en samviskan lét mig ekki í friði og elskhuginn ekki heldur. Hann skrifaði mér, sendi mér skilaboð á símanum og hringdi í mig. Hann vildi styðja mig, sagði hann, og þótt hann væri ástfanginn ætlaði hann ekki að þrýsta á mig. Ég varð upp með mér og snortin og ástin óx hægt og hægt innra með mér til samræmis við þann áhuga, umhyggju og hlýju sem elskhugi minn sýndi.

  Hann heillaði mig með fallegum orðum, uppbyggilegri nærveru sinni og traustvekjandi framkomu. Hann skrifaði mér ótal bréf þar sem hann talaði um sólskinið sem fylgdi mér, hlýjuna sem hann skynjaði í fari mínu og hvernig tilfinningar hans gagnvart mér yxu og styrktust með hverjum deginum sem liði. Að því kom að ég rétti honum hjarta mitt á silfurfati, sannfærð um að við tvö hefðum eignast lykil að lífshamingju hvort með öðru.

  Erfiður skilnaður

  Við áttum bæði börn. Þótt við hefðum lifað í óhamingjusömum hjónaböndum og ég hefði lengi vitað innst inni að sjálfrar mín vegna og barnanna yrði ég að slíta samvistum við manninn minn, þá var eins og við hefðum hvorugt haft þann kraft sem til þurfti fyrr en þarna. Elskhugi minn fullvissaði mig nefnilega um að þannig væri þessu líka varið í hans tilfelli. Hann hefði hikað lengi en ég hefði gefið honum hugrekki til að taka stökkið og mér fannst ég geta sigrað heiminn með þennan mann mér við hlið. Ég tók því skrefið stóra, flutti að heiman og sótti um skilnað. Maðurinn minn brást illa við og vildi halda í hjónabandið. Hann bað mig að reyna að berjast fyrir því sem við höfðum átt en ég vissi og sagði strax að ég fyndi að engin glóð leyndist í þeim gömlu glæðum.

  Þrátt fyrir orð mín vildi maðurinn minn að við gerðum með okkur samning um að reyna að lífga hjónabandið við og nauðug skrifaði ég undir. Í samkomulaginu fólst að ég flytti aftur inn á mitt gamla heimili til barnanna minna en eiginmaðurinn færi í meðferð og leitaði sér að öðru húsnæði að henni lokinni. Skilnaður er aldrei auðveldur og við fundum öll fyrir því. Fjölskyldur, vinir, kunningjar og ókunnugir töldu sig geta dæmt um aðstæður okkar og skiptust í lið andstæðinga, vinveittra og hlutlausra. Oft tók það á að þurfa að sjá á bak einhverjum sem verið hafði manni kær í lið andstæðinganna og iðulega kom á óvart hverjir skipuðu sér meðal vinveittra. Hlutleysið reyndist flestum erfitt og stór hluti þess hóps sveiflaðist eins og óákveðnir í kosningum milli liðanna.

  Þrátt fyrir allt þetta fannst mér ég geta borið höfuðið hátt. Ég hafði reynt að vera eins heiðarleg og mögulegt var við þessar aðstæður. Ég kunni ekki að látast og leið fyrir það að þurfa að ljúga. Ég vissi þó að börnin mín þyrfti að vernda og ég vildi venja þau við nýjar aðstæður hægt og hægt. Ýmsar sögur voru í gangi um mig og ég leitaðist við að koma í veg fyrir að þær næðu eyrum barnanna. Sjálfri var mér sama um slúðrið og taldi mig vita betur hver sannleikurinn væri.

  Ég var þess líka fullviss að tíminn ynni með mér og fyrr eða síðar lægði öldurnar. Eftir því sem frá leið varð manninum mínum líka ljóst að hjónabandinu væri í raun ekki viðbjargandi. Hann féllst því á að skilja strax og ég ákvað að best væri að ég og elskhugi minn héldum okkur í dálítilli fjarlægð hvort frá öðru meðan ég gengi frá þeim málum. Ég taldi öllum betur borgið með því móti. Næstu daga var ég létt í skapi og bjartsýn. Mér fannst ég loksins sjá fram úr erfiðleikunum og innan örfárra vikna væri ég komin á lygnari sjó og gæti farið að horfa til framtíðar. Þá reið áfallið yfir.

  Óvænt svik

  Dag nokkurn kom ég í vinnuna og opnaði tölvupóstinn minn. Þar blasti við mér skeyti frá ástinni minni, líkt og svo oft áður, og ég opnaði það glöð og spennt. Í stað ástarorðanna sem ég átti von á kvað við annan og kaldari tón. Maðurinn sem hafði mánuðum saman ausið mig lofi og biðlað til mín tilkynnti mér nú að hann vildi slíta sambandi okkar. Hann hygðist reyna að bæta hjónaband sitt, enda væri eiginkonan nú allt önnur og gerbreytt og því forsendur fyrir slíku. Hann yrði því að kveðja mig en hann vonaðist til að við gætum áfram haldið okkar góða vinnusambandi óbreyttu.

  Ég starði á orðin í langan tíma án þess almennilega að skilja hvað fólst í þeim. Undrun mín var algjör því þegar við töluðum saman síðast var hann fullur tilhlökkunar vegna þess að nú færi skilnaður minn loksins að ganga í gegn. Hann hafði ausið yfir mig ástarjátningum og lýst gleði sinni með samband okkar. Frá þessum eldheita fundi voru ekki liðnir nema fimm dagar og á þeim örstutta tíma hafði hann getað gert upp tilfinningar sínar gagnvart mér og í raun afskrifað þær.

  „Ég hélt að ég gæti afskrifað þetta sem mistök en samviskan lét mig ekki í friði og elskhuginn ekki heldur. Hann skrifaði mér, sendi mér skilaboð á símanum og hringdi í mig.“

  Ég skildi það ekki þá hvernig hann gat þetta og skil það ekki enn. Sjálf gekk ég í gegnum vanlíðan og erfiðleika í mörg ár í sambúð við drykkjumann án þess að það hvarflaði nokkru sinni að mér að gefa upp á bátinn samlíf okkar. Ég elskaði manninn minn og það hafði mikið gengið á í langan tíma áður en honum tókst að drepa allar mínar ástartilfinningar. Í þessu tilfelli sveiflaðist fullorðinn maður frá ást til kulda í einu vetfangi líkt og unglingur á skólaballi. Hormónasveiflur unglinganna gera það að verkum að fæstir mynda mjög traust sambönd á þeim árum en flestir vaxa upp úr því, læra að þekkja sjálfa sig og takast ekki á hendur tilfinningalegar skuldbindingar gagnvart öðrum nema alvara búi að baki.

  Óskiljanleg kúvending

  Fjárhagslegar skuldbindingar eru í raun ekkert öðruvísi en þær tilfinningalegu. Flest lítum við hvorutveggja alvarlegum augum og stofnum hvorki til skulda né leggjum inn hjá öðrum nema vegna þess að við höfum fulla trú á markmiðum okkar með fjárfestingunni og ætlum að standa við hana á öllum sviðum.

  Fjárglæframenn eru þeir kallaðir sem tæla aðra með gylliboðum og fögrum orðum til að láta fé af hendi rakna til þeirra án þess að þeir ætli sér nokkru sinni að skila fjárfestinum höfuðstól eða arði til baka. Slíkir glæpamenn eru lögsóttir en þeir sem tæla aðra til að mynda tilfinningaleg bönd án þess að ætla sér að standa við stóru orðin hljóta enga dóma hvorki að lögum né félagslega. Sá eða sú sem leggur allt sitt traust á þannig einstakling getur sjálfum sér eða sjálfri sér um kennt að mati umhverfisins. Manneskjunni var nær að treysta í blindni.

  Í dag ásaka ég sjálfa mig fyrir barnaskapinn. Að hafa trúað því sem þessi maður endurtók á ótal mismunandi vegu í bréfum, skilaboðum og augliti til auglitis. Mér finnst ég svikin og hafa sýnt fádæma heimsku. En þegar upp er staðið er hægt að skilgreina þetta sem barnaskap og einfeldni? Er það ekki í eðli okkar allra að vilja trúa því besta um náungann? Elskhugi minn gaf mér aldrei til kynna á nokkurn hátt að hann efaðist um tilfinningar sínar gagnvart mér og hann virtist fullkomlega ákveðinn í slíta hjónabandi sínu. Ég hef farið yfir síðustu samskipti okkar aftur og aftur í huganum og hvorki orð hans né gerðir þá bentu á nokkurn hátt til þess að staðfesta hans væri að bresta.

  Að líta um öxl skilar engu og sjálfsagt mun ég aldrei skilja kúvendingu elskhuga míns. Ég stend á eigin fótum og hef börnin mín til að telja í mig kjark. Þrátt fyrir vanlíðan og depurðarköst af og til, veit ég að ég mun komast yfir þetta. Hins vegar mun ég alltaf verða þakklát fyrir að eitt gott kom þó út úr þessu, ég fékk nægilegan styrk til að rífa mig lausa úr hjónabandi sem gerði mér ekkert nema illt.

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum