2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Setur svart fólk í nýtt samhengi

  Sú venja hefur skapast í Bandaríkjunum að í lok valdatímabils hvers forseta sé listamaður fenginn til að mála af honum mynd og hún síðan hengd upp í Smithsonian-safninu. Það vakti talsverða athygli þegar Barack Obama valdi til verksins Kehinde Wiley. Hann hefur á undanförnum árum gerbreytt viðhorfum fólks til mannamynda og málverksins yfirleitt. Myndir hans minna á endurreisnartímann, eru lifandi, litríkar og senda áhrifamikil skilaboð.

   

  Kehinde er alinn upp í fátækrahverfi í Los Angeles. Faðir hans fékk skólastyrk til að stunda nám í Bandaríkjunum, hitti móður hans, eignaðist með henni sex börn og sneri síðan aftur heim að námi loknu. Freddie Mae Wiley var ekki fisjað saman og henni tókst að koma öllum sínum börnum til manns. Hún skildi og sá hverslags hæfileika sonur hennar hafði því hann gat endurskapað allt sem hann sá á blað fengi hann penna eða blýant í hönd. Hún sendi hann og tvíburabróður hans í myndlistartíma þegar þeir voru ellefu ára. Piltarnir voru ekkert sérlega hrifnir af framtakinu, enda þurftu þeir að leggja á sig tveggja og hálfs tíma strætóferð hvora leið til að sækja tímana. Kehinde náði þó að þroska hæfileika sína og seinna átti hann eftir að segja að teikningin hafi bjargað sér frá einelti. Skólagöngu sinni varði hann í að teikna skólafélagana og draga upp fyrir þá myndir af því sem þá langaði að sjá. Þótt tilgangurinn í fyrstu hafi verið að vinna sér sess meðal hinna barnanna fékk hann þar þó góða æfingu og vann að lokum styrk til að stunda myndlistarnám við Yale-háskóla.

  Barack Obama valdi Kehinde Wiley til að mála mynd af sér.

  Kehinde heillaðist af mannamyndum endurreisnartímans. Hvernig ríkidæmi og eignir fyrirmyndanna voru dregnar fram í málverkinu og umgjörðin oft áhugaverðari en manneskjan. Í Hollandi mátti sjá mat og húsbúnað hinna ríku fyrirsæta en á Englandi urðu perlur, pell og flauel í fatnaði þeirra miðpunkturinn. Þessi ungi svarti Bandaríkjamaður ákvað að endurgera myndir af þessu tagi á sinn hátt. Hann fór út í hverfi svartra, hverfi eins og þau sem hann ólst upp í og bað fólk sem hann hitti að sitja fyrir hjá sér. Fyrsta myndaröðin var af ungum svörtum karlmönnum. Hann bað þá að mæta í fatnaði sem þeim liði vel í, eitthverju sem væri lýsandi fyrir þá og þeim mikilvægt.

  AUGLÝSING


  Fátækar konur í Givenchy-kjólum

  Seinna sneri hann sér að konum og fór þá í samstarf við tískuhúsið Givenchy og bað aðalhönnuð þess að hanna kjóla á fyrirsæturnar. Þarna voru einstæðar mæður úr verklýðsstétt, þjónustustúlkur og skúringakonur klæddar í loftkennda undurfagra kjóla með hárið uppsett og myndaðar af frægum tískuljósmyndara. Kehinde hélt svo til Kína í vinnustofu sína með myndirnar og lagðist í að túlka þær. Útkoman er hreint út sagt ævintýraleg.

  Kehinde leggur sig allan fram um að mála raunsannar myndir. Hann dregur fram andlitsdrætti fyrirmyndanna og gerir enga tilraun til að túlka. Hans skilaboð eða ádeila felst í samhenginu. Bakgrunnurinn er iðulega skrautleg blóm, suðræn mynstur á borð við þau sem tíðkuðust í veggfóðri nítjándu aldar. Þetta er framandi umhverfi, sterkt og ríkulegt, ekkert líkt þeim raunveruleika sem flestar hans fyrirsætur lifa og hrærast í.

  Bakgrunnurinn er iðulega skrautleg blóm, suðræn mynstur á borð við þau sem tíðkuðust í veggfóðri nítjándu aldar.

  Ungir svartir menn hafa illt orð á sér í Bandaríkjunum. Margir óttast þá og telja þá stórhættulega. Upp til hópa tilheyri þeir glæpaklíkum og séu þeir sem beri ábyrgð á flestum glæpum sem framdir eru í landinu. Að setja þá í þetta umhverfi, mála þá í uppáhaldsfötunum sínum á risastóran striga. Verk sem síðan enda á virtum listasöfnum innan um herforingja, ríka kaupsýslumenn, kónga og hertoga fortíðar er hreint út sagt dásamleg kaldhæðni.

  Pólitískur skilningur á sjálfinu

  Verk Kehinde Wiley falla undir stefnu sem kölluð er „Identity Politics“ eða pólitískur skilningur á sjálfinu. Hún teygir sig inn í listina, kvikmyndir og skáldskap og snýst fyrst og fremst um aðskiljanleg sjónarmið hvað varðar skilning listamannsins á sjálfinu og stöðu sinni í samfélaginu hvort sem hann skilgreinir sig með tilliti til litaháttar, kyns eða kynhneigðar. Í huga Kehinde skiptir það sköpum að svart fólk í Bandaríkjunum, sérstaklega svartir karlmenn séu bæði viðfangsefni og neytendur listar hans. Á tímum þegar ungir svartir menn eru stöðugt níddir niður í prentmiðlum og hefðbundnum ljósvakamiðlum og jafnvel myrtir á götum úti af byssuglöðum lögreglumönnum að þeir séu sýndir sem ímynd styrks, fegurðar og velgengni. Úr myndum hans skín kraftur, tíska, fjölbreytileiki og fegurð svartra Bandaríkjamanna.

  Í huga listamannsins birtist vettvangur valds í myndum hans. Með því að vísa til þess hvers vegna og hvernig mannamyndir voru málaðar á endurreisnartímanum sé hann að gefa fyrirsætum sínum möguleikann á valdeflingu, mála þær öðrum litum og í öðru umhverfi en þær hafa fram að því séð sig. Þar með sé hann einnig að snúa siðvenjunum hvað portrett varðar. Í stað þess að mála þann sem valdið hefur, málar hann hinn valdalausa á sama hátt og hinir hafa hingað til verið túlkaðir.

  .

  Árið 1975 viðraði Laura Mulvey hugmyndina um augnaráð karlmanna. Kenningin var sú að ímyndir kvenna á ljósmyndum, í málverkum og kvikmyndum væru settar fram fyrir karlmenn til að njóta. Þær væru kyrrstæðir hlutir fremur en persónur og karlmenn notuðu ímyndir þeirra til að skapa sér ánægju án þess að leiða hugann að því að þar færi manneskja. Síðar kom fram sú gagnrýni að hugmyndir Lauru væru gallaðar að því leyti að ekki væri tekið tillit til þess að svartir karlmenn féllu ekki undir þessa skilgreiningu. Þeim hefði allt frá tímum þrælahalds verið refsað fyrir að horfa á hvítar konur og lengi einnig útlokaðir frá konum af sama litarhætti. Þeir fengu aðeins að giftast og eignast fjölskyldur ef eigendum þeirra sýndist svo og þá iðulega konum sem voru valdar fyrir þá.

  Hið „öndverða augnatillit“

  Svartar konur hefðu á hinn bóginn búið við þann raunveruleika að þær þóttu einfaldlega ekki fallegar. Þess vegna var þeim lengi ekki stillt upp sem áhugaverðum hlutum, einhverju til að girnast. Til að mæta þessari menningarlegu mismunun bættu hugmyndafræðingar við kenningu Lauru og töluðum um hið öndverða blik eða áhorf. Þegar það á sér stað þrýstir svart fólk sér inn á sjónsviðið, inn í kastljósið sem hvítir hafa átt einkarétt á og trufla hið starandi augnatillit. Þar með er valdi hinna hvítu ógnað. Segja má að Kehinde Wiley hafi tekið sér það bessaleyfi að gera einmitt þetta. Viðfangsefni hans eru holdgervingar hans öndverða augnatillits. Hann neyðir einnig aðra til að horfa á þau á sama hátt, sem fagrar verur, girnilegar manneskjur. Persónur sem njóta þess að sýna sig og vita að á þær er horft. Þótt margt hafi breyst með auknum sýnileika svartra fyrirsæta á undanförnum áratugum og síðan Laura setti fram kenningu sína hefur sú umbylting ekki náð inn í hinar fögru listir. Hún hefur mest átt sér stað í tískuheiminum og í kvikmyndum.

  Kehinde leggur sig allan fram um að mála raunsannar myndir.

  Þegar Kehinde tekur og endurgerir frægar mannamyndir, eins og portrett af Napóleon á hesti sínum eða Madame Recamier horfandi yfir öxl sér á áhorfandann með fæturna útteyga á gulum sófa, er hann að gagnrýna og endursegja söguna, senda skilaboð um það hvernig hvítt fólk var málað og gefið eilíft líf gegnum listina, því lyft á hærra plan en hinir svörtu fengu að njóta. Kehinde Wiley hefur hins vegar nú þegar aukið sýnileika þeldökkra á helstu listasöfnunum heimsins og risastórar myndir hans má sjá skína í allri sinni litadýrð í sölum þar sem hvítt fólk hefur hingað til eingöngu verið sjáanlegt.

  Kehinde Wiley hefur nú þegar aukið sýnileika þeldökkra á helstu listasöfnunum heimsins.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is