2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Skömmin þrífst í þögninni“

  Hjördís Dalberg, Dísa, kynntist skuggahliðum sínum, ótta við álit annarra, tilhneigingu til að þóknast öðrum og kröfunni að virðast sterk og fela skömm við þá lífsreynslu að verða fyrir áfalli á háskólaárunum. Í kjölfarið ákvað hún að takast á við þessa þætti í fari sínu. Í dag starfar hún sem hugarfarsþjálfi og hjálpar konum að hafa trú á sér og framkvæma út frá hjartanu.

  Rauðu flöggin

  Dísa kynntist manni á háskólaárunum þegar hún var í BA-námi í mannfræði og þýsku. Hún segir hann hafa verið mjög heillandi, jákvæðan og hvetjandi til að byrja með.
  „Þegar ég lít til baka sé ég að það voru rauðu flöggin í sambandinu sem urðu á endanum til þess að ég sleit því eftir stuttan tíma. Nú átta ég mig á því að ég var með lágt sjálfsmat á þessum tíma og auðvitað var gaman að fá endalaust hrós og svona en þessu fylgdi líka stjórnsemi og neikvæðar athugasemdir þegar leið á sambandið. Þetta var ekki heilbrigt samband og ég vissi það, ég kem úr góðri fjölskyldu og vissi að hlutirnir væru ekki eins og þeir ættu að vera. Á þessum tíma gat ég samt ekki alveg sett fingurinn á það nákvæmlega hvað væri rangt í þessu öllu saman og svo fann ég líka alltaf afsakanir fyrir hann.“

  Dísa segir að innri röddin hafi fyrst reynt að segja henni að þetta væri ekki eðlilegt ástand en hún hafi ekki hlustað. Þó hafi komið að því að hún hafi ákveðið að slíta sambandinu þegar hún var nýflutt í stúdentaíbúð á jarðhæð í Reykjavík.

  „Þegar ég lít til baka sé ég að það voru rauðu flöggin í sambandinu sem urðu á endanum til þess að ég sleit því eftir stuttan tíma.“

  „Þá byrjaði ballið,“ segir Dísa. „Hann varð fyrir mikilli höfnun við sambandsslitin og þegar ég horfi til baka sé ég að hann hafði orðið fyrir höfnun áður sem hafði haft mikil áhrif á hann og skapað hjá honum mikið óöryggi. Hann fór að fylgjast með mér á kvöldin sem endaði svo með því að hann braust inn til mín um miðja nótt og réðst á mig.“

  Hélt ró sinni á meðan á árásinni stóð

  Með fram háskólanáminu vann Dísa helgarvinnu og eina nóttina, þar sem hún átti að mæta til vinnu snemma næsta morgun, rumskaði hún við hávaða sem heyrðist að utan.
  „Ég heyrði öskur; karlmannsrödd sem kallaði nafnið mitt, mér leið eiginlega eins og ég væri með martröð. Svo vaknaði ég við það að hann var kominn í íbúðina, inn í svefnherbergið og að ráðast á mig í rúminu. Hann var auðvitað miklu sterkari en ég líkamlega og hélt mér niðri og var gjörsamlega stjórnlaus. Ég vissi ekkert hvað hann væri fær um að gera. En það var svo magnað að þótt ég yrði auðvitað rosalega hrædd fyrst þá helltist yfir mig einhver ótrúleg ró og ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég yrði að halda ró minni og mögulega bjarga lífi mínu.“

  AUGLÝSING


  Dísu tókst einhvern veginn að fá hann til að róa sig með því að lofa honum að þau tækju aftur saman og náði að flýja út úr íbúðinni. „Hann elti mig en flúði af vettvangi þegar ég náði að banka upp á hjá nágranna mínum sem kveikti ljósin. Til allrar hamingju. Annars veit ég ekki hvað hefði getað gerst. Ég held að það hafi verið lykilatriði að ég skyldi halda ró minni. Hefði ég sagt eitthvað rangt eða öskrað eða brugðist við á einhvern hátt sem hefði gert illt verra, þá hefðu hlutirnir getað farið á versta veg.“

  Hún segir að fyrst á eftir hafi hún verið í miklu áfalli og dofin og fundið fyrir miklum ótta. „Næstu þrjár vikur á eftir lá ég bara á sófanum heima hjá mömmu og pabba og bældi niður allar tilfinningar. Og allt í einu varð svefninn ógnvekjandi; sofandi væri ég bjargarlaus og ekki við stjórnvölinn. Þegar ég varð fyrir árásinni hafði ég verið alveg bjargarlaus; inni á heimilinu mínu, þar sem ég hefði átt að vera örugg, var sofandi og átti mér einskis ills von. Svo ég þorði ekki að sofna. Kvíðinn stigmagnaðist og ég fór að þróa með mér skömm. Ég gat ekki talað um það sem hafði gerst og vildi að fáir vissu af því. Ég var svo hrædd um að vera dæmd fyrir að hafa verið með þessum manni sem hefði ráðist á mig.“

  Ætlaði að sýna að hún væri sterk

  Dísa segist hafa hugsað að ef fólk kæmist að þessu myndi það dæma hana. „Það myndi þýða að eitthvað væri að mér og ég væri ekki nógu góð. Ég var uppfull af skömm og ásakaði mig sjálfa; tók þetta allt á mig. Seinna lærði ég svo að skömmin þrífst í þögninni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef maður talar ekki um hlutina þá vex skömmin.“

  Hún segist í raun hafa tekist á við áfallið á hnefanum. „Ég varð reið og ætlaði ekki að láta þetta hafa nein áhrif á líf mitt. Ég ætlaði til dæmis ekki að leyfa þessum fyrrverandi kærasta mínum að hrekja mig úr íbúðinni minni svo ég ákvað að búa þar áfram. Ég ætlaði að sýna að ég væri sterk. En svo varð sífellt erfiðara fyrir mig að fúnkera, því óttinn, kvíðinn og skömmin voru farin að hafa gríðarlega mikil áhrif á allt mitt líf. Ég gat til dæmis ekki farið út með heyrnartól á eyrunum því ég varð að heyra öll hljóð í kringum mig. Ég var líka orðin félagsfælin vegna kvíðans og farin að einangra mig svolítið frá vinum mínum og fjölskyldu.“

  „Hélt að árásarmaðurinn væri búinn að finna mig”

  Nokkrum árum eftir að Dísa varð fyrir áfallinu flutti hún í nýja íbúð á þriðju hæð. Hún var ein heima, heyrði öskur úti og að einhver tók í hurðarhúninn í íbúðinni niðri. „Ég varð alveg brjálæðislega hrædd. Hélt að árásarmaðurinn minn væri búinn að finna mig og nú væri þetta bara búið. Ég læsti mig inni á baðherbergi og fékk mikið kvíðakast. Þá vissi ég að ég gæti ekki haldið svona áfram.“ Það er greinilegt að Dísa kemst við.

  „Vá, það koma enn smávegis tilfinningar upp við að rifja þetta upp,“ segir hún og fær sér kaffisopa. „En, eins furðulegt og það kann ef til vill að hljóma fyrir einhverja, var þetta í raun mikil gæfa fyrir mig. Því þegar ég fékk þetta kvíðakast þarna inni á baðherberginu árið 2011 sá ég að þetta stjórnaði mér allt of mikið og ég yrði að grípa í taumana. Svo ég fór til sálfræðings sem greindi mig með áfallastreituröskun og við tók mikið ferli í að byggja sjálfa mig upp og losa mig við skömmina. Og þetta var erfitt ferli á köflum.“

  „Á þessum tíma gat ég samt ekki alveg sett fingurinn á það nákvæmlega hvað væri rangt í þessu öllu saman og svo fann ég líka alltaf afsakanir fyrir hann.“

  Dísa segir það hafa verið erfitt að mæta myrkinu en hún hafi vitað að hún gæti ekki lengur forðast þessar erfiðu tilfinningar. „Ég þurfti líka að læra að fyrirgefa sjálfri mér og viðurkenna að ég hafði ekki verið einlæg. Þessi sterka mynd sem ég hafði haldið úti af sjálfri mér miðaðist svo mikið við hvað öðrum fannst.“

  Að breyta litlum skrefum í stærri skref

  Eftir háskólanám árið 2013 skráði Dísa sig í nám í svokallaðri NLP-markþjálfun. Hún segir það eitt magnaðasta nám sem hún hafi farið í. „NLP-markþjálfun snýst um tækni til að breyta hegðunarmynstrinu; hætta að nota ákveðna hegðun eða viðbrögð sem valda manni sjálfum eða öðru fólki leiðindum og skipta henni út fyrir hegðun sem gerir gagn. Þannig hættir maður að spóla í sama hjólfarinu. Þetta eru aðferðir til að finna nýjar leiðir og ganga betur í lífinu.“

  Hún segir NLP-markþjálfanámið hafa verið mikla sjálfsvinnu og hún hafi fljótlega séð hvað væri hægt að gera margt til að ná árangri í lífinu. Vinnan hjá sálfræðingnum hjálpaði henni líka við að koma sér út úr vonleysi, lágu sjálfsmati og skömm eins og hún náði meðal annars að gera í náminu auk hugleiðslu sem hún segist hafa byrjað að stunda á þeim tíma. Það sem hún segir þó hafa hjálpað sér einna mest var að setja sér pínulítil markmið. Markmið sem hún vissi að hún gæti náð og tækju lítinn tíma að framkvæma.

  „Sem dæmi hugsaði ég með mér: Hvað ef ég fer strax fram úr næst þegar ég vakna við vekjaraklukkuna, klæði mig í hlaupafötin og fer í fimm mínútna göngutúr. Hvað ef ég geri það á hverjum degi í heila viku? Á svona einfaldan hátt getur maður breytt vana sínum með litlum skrefum yfir í stærri. Þegar vekjaraklukkan hringdi næsta morgun stökk ég fram úr rúminu, klæddi mig í hlaupafötin og fór strax út í göngutúr í stað þess að liggja í rúminu og byrja að hugsa um öll vandamál mín eins og ég hafði gert oft áður. Með tímanum breyttist fimm mínútna göngutúr í fimm mínútna útihlaup. Að hugsa um hvað ég var þakklát fyrir breyttist í að ég skrifaði niður þrjá hluti sem ég er þakklát fyrir á hverjum einasta degi. Ég fór úr því að gera hollan hristing einu sinni í viku yfir í að gera hann á hverjum einasta morgni.“

  Dísa segir að hana hafi síðan langað að tengja við gleði á hverjum morgni. „Hluti af þessari morgunrútínu minni varð því að tengjast mínu innra barni og nú fer ég á róló og róla í tvær til þrjár mínútur. Þessi morgunrútína þarf ekki að taka lengri tíma en fimmtán mínútur og allir geta fundið fimmtán mínútur á dag.“

  Hætti að festast í hugsunum

  Dísa segir að það að hafa ákveðið að taka þessi fyrstu litlu framkvæmdaskref hafi hjálpað sér að brúa bilið á milli þess að hugsa um það sem hana langaði að gera og þess að koma því raunverulega í framkvæmd.

  „Ég kalla þessi litlu framkvæmdaskref sem ég tek daglega að helga sig jákvæðum venjum. Með því að taka þau hætti ég að festast í hugsunum sem héldu mér fastri og lífi mínu fór að miða í rétta átt. Ég hætti að hlusta á neikvæðu hugsanir mínar og fór að hugsa jákvætt. Að helga mig daglega jákvæðum venjum hefur hjálpað mér við að hafa stjórn á kvíðanum, takast á við fullkomnunaráráttuna mína, hætta að slá hlutum á frest, komast í betra líkamlegt form, taka áhættu, efla trúna á sjálfa mig, hjálpa öðrum og síðast en ekki síst að láta vaða og framkvæma.“

  Hún segist finna að hún sé sterkari en nokkru sinni fyrr eftir að hafa snúið lífi sínu við. Og hún hafi brennandi löngun til að hjálpa sem flestum konum að breyta lífi sínu til hins betra og láta draumana rætast. Hún segist ekki vilja kalla sig markþjálfa því hún blandi saman aðferðum í sinni vinnu. „Það er hægt að nota ýmis tæki og tól og alls konar sem maður lærir héðan og þaðan. Ég nota NLP-markþjálfun ásamt ýmsu öðru sem ég hef lært í háskólanámi mínu í mannfræði og sálfræði, í uppeldis- og menntunarfræði. Þar að auki nýti ég auðvitað mína náttúrulega hæfileika að lesa fólk og skynja fólk. Mér finnst mikilvægt að tengjast sem manneskjur og ég kem alltaf til dyranna eins og ég er klædd. Ég er hlý og einlæg. Og ég held að það sé oft það sem fólk tengir við. Einlægnina. Því fyrst og fremst er ég manneskja sem hefur upplifað ýmislegt. Sjálf man ég alveg eftir því þegar ég sat hjá sálfræðingnum og romsaði upp úr mér alls konar hlutum, að mig langaði mest að heyra hvort hann hefði lent í einhverju svipuðu eða gæti miðlað eigin reynslu,“ segir Dísa og hlær.

  „NLP-markþjálfun snýst um tækni til að breyta hegðunarmynstrinu; hætta að nota ákveðna hegðun eða viðbrögð sem valda manni sjálfum eða öðru fólki leiðindum og skipta henni út fyrir hegðun sem gerir gagn.“

  „Ég kalla mig hugarfarsþjálfa (e. Mindset coach) sem hjálpar konum að sleppa takinu á sjálfsefa, fullkomnunar- og frestunaráráttu, að byggja upp orku, sjálfstraust og trú á sig til að framkvæma út frá hjartanu. Margar konur sem koma til mín hafa verið að setja alla aðra en sig sjálfar í fyrsta sæti og passa upp á að öllum öðrum líði vel. Þær sækja mikilvægi sitt í að aðrir þurfi á þeim að halda og verða oft háðar því. Þær eiga erfitt með að setja mörk og fókusinn fer frá þeim sjálfum á hina. Við snúum þessu við og ég hjálpa þeim við að setja sig í fyrsta sæti og byggja upp fallegt samband við sig sjálfar. Ég segist gjarnan hjálpa konum að koma draumum sínum í framkvæmd,“ segir Dísa brosandi.

  Konur vilja halda í ímyndina

  Dísa segir að nokkuð sé um að konum sé tamt að vera stilltar og láta lítið fyrir sér fara því í æsku fái þær hrós fyrir að vera góðar, þægar, nákvæmar og gera allt svo vel. Að mörgu leyti sé það jákvætt að standa sig vel en á móti óttist konur oft að koma sér áfram og gera mistök. „Það er samt svo eðlilegur partur af því að læra og vaxa. Við konur gerum allt of mikið af því að láta aðra dæma virði okkar. Við erum oft hræddar um að ef við erum ekki nógu þetta og nógu hitt í augum annarra, minnki virði okkar. Við viljum oft halda í ímyndina sem fólk hefur af okkur; að við séum fullkomnar og gerum ekki mistök. Það heldur aftur af okkur þar sem að við höldum okkur bara innan þægindarammans, tökum enga áhættu. En að sama skapi gerum við oft ekki það sem okkur dreymir um að gera. Því það sem okkur langar að gera heppnast kannski ekki alveg í fyrstu tilraun; það klúðrast eitthvað pínulítið. En þú lærir af því. Það sem skiptir öllu máli er að stíga inn í óttann og kýla á hlutina.“

  En af hverju bara konur?
  „Oft eru karlar hugrakkari og láta ekki svona hluti stoppa sig eins og mikið og við konur gerum. Þeim er meira sama um hvað öðrum finnst. Við konur missum allt of mikla orku við að þóknast öðrum; við þurfum að læra að setja skynsamleg mörk og þekkja okkar takmörk. Og það getur verið erfitt að breyta þessu. Hvers virði er maður út á við ef maður fellir grímuna og sýnir að maður er ekki fullkominn? Auk þess er auðvelt að detta í fórnarlambsnálgunina en það er svo mikilvægt að muna að þótt eitthvað hafi gerst þýði það ekki að það verði að vera þannig út lífið. Við verðum að sjá að lífið er fullt af tækifærum. Í mínu tilfelli spratt tilgangur minn að efla konur upp úr sjálfsvinnunni sem ég þurfti að fara í út frá áfallinu, sem ég hefði eflaust aldrei gert annars.“ Hún þagnar um stund og sýpur á kaffinu.

  „Það er rosalega valdeflandi að breyta hugsun sinni og finna að maður getur breyst,“ heldur hún áfram. „Gjöf í mótlæti getur verið svo mikil ef við breytum hugarfarinu gagnvart því. Svo er líka mikilvægt að fyrirgefa sjálfum sér og reka burt skömmina. Hættum að ásaka okkur sjálfar; við gerum allar mistök. Við þurfum bara að sjá að það er mikilvægt að við styðjum hver aðra og séum einlægar. Við höfum val um hvort við ætlum bara að halda okkur innan þægindarammans eða finna röddina í eigin hjarta og fylgja hjartanu en ekki hjörðinni. Við erum hjarðhegðunardýr en það er hjartað sem á að vera númer eitt; ekki hjörðin,“ segir Dísa og skellir upp úr. „Fylgdu hjartanu en ekki hjörðinni.“

  Frestunarárátta í framhaldi af fullkomnunaráttu

  Það verður að segjast eins og er að Dísa er sjálfstraustið uppmálað og hefur einstaklega þægilega nærveru. Hún er brosmild og talar af miklum sannfæringarkrafti, eins og ekkert geti stöðvað hana.

  Hefur þú sjálf alltaf þorað að kýla á hlutina?
  „Nei, svo sannarlega ekki. Framan af hafði ég lágt sjálfsmat og það var ekki fyrr en eftir áfallið sem ég fór að vinna í því og styrkjast. Sem barn var ég mjög næm og var viðkvæm fyrir gagnrýni. Ég var mjög dagdreymin, með mikið ímyndunarafl og skapandi að mörgu leyti. Gat jú lært rétt fyrir próf og oft fengið fínar einkunnir, en þessi hefðbundni skólarammi var dálítið takmarkaður fyrir mig og ekki nógu skapandi. Ég flúði oft yfir í dagdrauma og draumaheiminn til að forðast raunveruleikann. Ég var með mikla fullkomunaráttu og í framhaldi af henni kom frestunaráráttan því ég vildi hafa allt fullkomið og frestaði oft hlutunum til að betrumbæta og gera betur,” segir Dísa.

  „Þegar ég var svo komin af stað í sjálfsvinnunni langaði mig að miðla þeim aðferðum sem ég var búin að læra og ákvað að búa til þátt sem heitir Follow your heart, not the herd (e. fylgdu hjartanu, ekki hjörðinni). Ég ákvað að hafa þetta á ensku þrátt fyrir að vera ekkert sérlega góð í henni en þarna sá ég tækifæri til að tækla frestunar- og fullkomnunaráráttuna. Ég setti á mig tímapressu; að ég skyldi gera tíu til fimmtán mínútna þætti í hverju hádegi, fimm daga vikunnar. Og þarna var ég komin með hvata til að standa mig; ég vildi ekki valda fólki vonbrigðum og þetta var það mikil pressa að ég hafði ekki tíma til að gera hlutina fullkomna. Þannig fór ég að æfa mig í að fara ófullkomin í beina útsendingu á Netinu og mæta núna. Ekki í framtíðinni þegar ég væri fullkomin,“ segir hún og hlær.

  Og hún segir mikilvægt að þora að taka skrefið, jafnvel þótt það sé ófullkomið. „Ég segi við þær konur sem ég er að hjálpa: Byrjaðu núna að taka ófullkomið skref. Það er hressandi að sjá flottar konur ófullkomnar. Það krefst sjálfstrausts að leyfa sér að vera ófullkomin. Það eru svo ótrúlega margar hæfileikaríkar konur þarna úti sem eiga sér drauma og láta þá aldrei rætast af ótta við hvað öðrum finnst um þær og hvað aðrir segja. Ég hef unnið mjög mikið í þessu hjá sjálfri mér og brýni fyrir konum að gera það sama. Ég man að þegar ég var að stíga fyrstu skrefin í minni vinnu og skrifaði einhverjar pínulitlar hugmyndir um lífið á Netið var ég með rosalega margar sýnir um hugmyndir fólks um það. Við erum oft búin að ákveða hvað fólk hugsar, segir, gerir fyrirfram,“ segir hún og skellir upp úr. „Og yfirleitt ímyndum við okkur miklu verri gagnrýni en svo kemur á daginn.“

  Dísa segir að það að þóknast öðrum sé vissulega sjálfmiðuð hegðun þótt mörgum finnist stuðandi að heyra það. Þar sem þú ert alltaf að velta þér upp úr því hvað öðrum gæti fundist um þig. „Þess vegna er mikilvægt að færa fókusinn frá sjálfri sér yfir á eitthvað sem þú brennur fyrir. Finndu það sem þú brennur fyrir og ert tilbúin að stíga út fyrir þægindarammann fyrir af því að þú vilt auðga heiminn með því. Ég veit hins vegar að það krefst mikillar orku að fara út fyrir þægindarammann og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að aðstoða konur fyrst við að fylla á orkutankinn með jákvæðum venjum, því það gengur á hann að hugsa alltaf um aðra. Þegar tankurinn er fullur er hægt að fara af stað í framkvæmdavinnuna og taka skref í átt að því að láta draumana rætast.“

  Í erlendri heimildamynd

  Á síðasta ári kynntist Dísa erlendum leikstjóra, Wesley, sem fann hana fyrir einskæra tilviljun á Instagram. Hún segir þau bæði hafa gengið í gegnum áföll sem vöktu þau. „Þegar líf manns snýst allt í einu á hvolf fer maður að skoða lífið frá öðru sjónarhorni en áður og það vakna spurningar eins og hvers vegna maður lifir lífinu eins og maður gerir og væntingar hverra maður sé að reyna að uppfylla.“

  Hún segir Wesley hafa hnigið óvænt niður þegar hann var að hlaupa 10 kílómetra hlaup í Karíbaeyjunum. Hann hafði verið greindur með lifrarbólgu og fengið bráða lifrarbilun sem sé alvarlegasti fylgikvilli lifrarbólgunnar. „Hann beið klukkutímum saman eftir nýrri lifur sem hann sagði mér að hefði verið erfiðasti tími lífs síns þar sem hann var á mörkum lífs og dauða,“ segir Dísa. Til allrar hamingju hafi fundist ný lifur sem tókst að græða í Wesley í tæka tíð og skurðlæknarnir náð að bjarga lífi hans.

  „Þegar þú ert orkulítil og þarft að setja orkuna í forgang ferðu að skilja betur hvað tekur orku frá þér og hvað gefur þér orku.”

  Wesley kom með franskt kvikmyndatökulið til Íslands í febrúar síðastliðnum og tók viðtal við Dísu fyrir heimildamynd sem hann vinnur að og ber nafnið The Explorer. Hún segir hann hafa ákveðið eftir lífsreynslu sína að taka viðtöl við fólk um allan heim sem hafi yfirstigið áföll og spyrja það um sýn þess á lífið. „Í myndinni fjallar Wesley um hvað gerist ef maður ákveður ekki að lifa lífinu til fulls og heiðra tilgang sinn núna og talar við fólk sem hefur jákvæð áhrif á heiminn með því að fylgja tilgangi sínum með það að markmiði að veita öðrum innblástur til að að heiðra sinn eigin tilgang líka. Það sem hann vonast til að myndin muni skilja eftir sig er hvernig við getum umbreytt okkar dýpstu sárum í okkar helsta styrk og ég vona innilega að mín saga veiti fólki innblástur.“

  Áfallið í raun gjöf

  Það er kominn tími til að slá botninn í viðtalið. Þar sem við Dísa gerum okkur tilbúnar að kveðjast spyr ég hvort hún líti í raun á áfallið sem jákvæða lífsreynslu.
  „Já, þetta var í rauninni gjöf. Ef ég hefði ekki lent í þessu áfalli hefði ég ekki neyðst til að setja mörk varðandi mína orku, kannski hefði ég aldrei þorað að gera það, kannski aldrei farið í þessa vegferð. Þegar þú ert orkulítil og þarft að setja orkuna í forgang ferðu að skilja betur hvað tekur orku frá þér og hvað gefur þér orku. Þú ferð að takmarka að hitta fólk og fara á samkomur sem draga úr þér orku. Þótt það geti verið óþæginlegt að valda fólki vonbrigðum með því að segja nei og setja mörk þannig til að byrja með þá er það svo þess virði að forgangsraða líkamlegri og andlegri heilsu minni; það skipti bara allt í einu miku meira máli. Og það er magnað hvað maður þarf mikið á orkunni að halda þegar hún er eiginlega búin, þá finnur maður hvað hún skiptir gríðarlegu máli. Í dag nýti ég það í minni vinnu hvernig ég mætti ótta mínum, hvernig ég komst út úr myrkrinu og það sem ég brenn mest fyrir í dag er að sjá þessar flottu, hæfileikaríku konur hætta að láta nokkuð stoppa sig, fylla sig orku og taka framkvæmdaskrefið, láta drauma sína rætast. Ég valdi að sleppa tökunum á reiðinni út af því sem gerðist fyrir þrettán árum. Auðvitað er ég á móti ofbeldi en þegar eitthvað gerist sem maður hefur ekki stjórn á í lífinu, jafnvel eitthvað sem veldur manni miklu áfalli, þá verður maður á einhverjum tímapunkti að spyrja sjálfan sig hvort maður ætli að láta það eyðileggja lífið fyrir sér eða nota það til að styrkjast. Og það er fallegt að finna tilgang í því.“

  Hægt er að fylgjast með Dísu á Instagram @disadalberg og á Facebook-síðunni Disa Dalberg.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson
  Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi
  Hár / Eyrún á Skuggafall

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is