2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Þekkir þú dramadrottningu?

  Dramadrottningar og -kóngar eru þreytandi og iðulega erfið í samskiptum. Margt bendir hins vegar til að þau geti lítið að þessu gert. Tilfinningarskali þeirra er einfaldlega þannig að engin stig virðast vera á milli djúprar sorgar og hoppandi gleði. Í byrjun partísins er þetta fólk skemmtilegast allra, slær á létta strengi, spjallar við alla og hlær hæst en í lokin er líklegt að það sitji með hópinn í kringum sig, grátandi yfir óréttlæti heimsins og maður gangi undir manns hönd að hugga.

   

  Hversu ákafar tilfinningar fólks eru stjórnast af líffræðilegum þáttum, að sögn Drew Westen, prófessors í sálfræði og geðlækningum við Emory-háskólann í Atlanta. Dramadrottningar og -kóngar eru frá náttúrunnar hendi þannig innréttuð að tilfinningaviðbrögð þeirra eru hraðari og öflugri en annarra en einnig koma til venjur og samskiptahefðir í uppvexti. Líkt og venjulega er þetta samspil erfða og umhverfis. Rannsóknir Drew prófessors benda til að foreldrar sem eru mjög uppteknir af eigin tilfinningum og tengja lítið við líðan annarra, sérstaklega barna sinna, eru líklegri til að skila út í lífið börnum sem glíma við miklar tilfinningasveiflur.

  Þessi börn eru einnig stöðugt í leit að athygli og umhyggju því meirihluta æsku sinnar var tilfinningalegum þörfum þeirra lítið sinnt. Sálfræðilega hugtakið „histrionic personality“ lýsir þessu ágætlega. Viðkomandi er ávallt staddur í eigin leikriti og mjólkar hverja senu til hlítar. Þetta fólk þarf sífellt að fá hrós, uppörvun, huggun, viðurkenningu og upplyftingu. Það ýkir sjálft eigin líðan og í þess huga eru hversdagsleg atvik blásin upp og úr öllu samhengi. Auk þess kunna slíkir einstaklingar sérlega vel við sig í sviðsljósinu og gera nánast hvað sem er til að kastljósið beinist að þeim og halda því þar.

  Lítil innsýn í eigið tilfinningalíf

  AUGLÝSING


  Gallinn er sá að fólk þetta hefur litla innsýn inn í raunverulegt tilfinningalíf sitt og erfitt er að gera sér grein fyrir hvar það er statt hverju sinni. Almenn tilhneiging er til að tengja þessa hegðun við konur og homma fyrst og fremst en það er ekki svo. Samfélagið sendir drengjum hins vegar þau skilaboð að þeir eigi að bæla tilfinningar sínar og ekki sýna of mikil viðbrögð. Það kann að vera ástæða þess að dramakóngar eru yfirleitt heldur rólegri á fullorðinsaldri en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu. Hið sama gildir ekki meðan börnin eru ung. Margir dramakóngar halda aftur af sér af ótta við viðbrögð samfélagsins. Þeir eru engu að síður stöðugt í leit að viðbrögðum frá öðrum og þeim duga engin rólegheit eða yfirvegun. Í gegnum tilfinningalegt uppnám annarra staðfesta þeir í eigin huga að þeir skipta máli.

  Tilfinningarskali dramadrottninga er einfaldlega þannig að engin stig virðast vera á milli djúprar sorgar og hoppandi gleði.

  Dramadrottningar og -kóngar eiga ýmislegt sameiginlegt með fólki með „borderline“-persónuleikaröskun, m.a. skort á hæfni til að skapa sér sjálfsmynd og djúpstæð tengsl við aðrar manneskjur. Þessu hefur verið lýst þannig að meðan verið er í samskiptum við þetta fólk virðist það óskaplega hrifið af þér og tengt þér en um leið og þú gengur yfir í næsta herbergi er eins og það hafi náð að gleyma þér gersamlega. Því miður eru þessir eiginleikar líklegir til að kosta dramadrottninguna og -kónginn einmitt það sem þau þrá heitast innst inni, nefnilega varanleg sambönd við annað fólk.

  Dívustælar eru ákaflega þreytandi og enginn heldur út til lengdar umgengni við manneskju sem sveiflast stöðugt frá gleði til sorgar, reiði til iðrunar, vonbrigðum til tilhlökkunar og svo framvegis. Margt bendir einnig til að persónuleiki þeirra geti kostað þau heilsuna. Adrenalínframleiðsla er mun meiri hjá þeim en öðrum og hátt kortisól er viðvarandi. Það þýðir að aukið álag er á hjartað og meltingarveginn og kvillar tengdir þessum líffærum eru mjög algengir hjá þeim. Það sem verra er að þau kalla fram sömu viðbrögð hjá sínum nánustu og þeir eru því í sömu hættu.

  Fólk af þessu tagi mun leggja hart að sér til að fá aðra til að dansa þeirra dans en hafa ber í huga að enginn getur breytt þeim. Þörf þeirra fyrir ást og athygli er slík að það er jafnárangursríkt að veita þeim umhyggju og að henda mat í botnlausa tunnu. Eina ráðið til að takast á við dramadrottningu eða -kóng er einfaldlega að forða sér. Ef fólk kýs að flækjast í net þeirra taka við áratugir er einkennast af stöðugu uppnámi, eilífum tilfinningasveiflum og örfáum stundum jafnvægis. Best er að ráðleggja þeim að leita sér hjálpar sérfræðinga og koma sér svo eins langt frá þeim og hægt er.

  Aðferðir dramadrottninganna

  -Allar uppákomur eru blásnar upp og úr öllu samhengi. Maki þeirra tefst um klukkstund og um leið eru dramadrottningarnar og -kóngarnir sannfærð um að verið sé að halda fram hjá þeim.

  -Öskra á hjálp sama hversu lítið kemur upp, t.d. ef hitinn er kominn upp í 39 stig í flensunni hringja þau á sjúkrabíl sannfærð um að þau séu að deyja.

  -Vangaveltur um líf annarra verða þráhyggjukenndar og einkennast af öfund. Konan eða maðurinn í næsta húsi hafa það svo gott. Hvers vegna get ég ekki leyft mér það sama?

  -Grípa ævinlega fram í umræður um einhver slys eða sjúkdóma til að toppa söguna með eigin reynslu sem er ávallt verri og erfiðari viðfangs.

  -Allar smæstu móðganir eða neikvæð orð eru tekin sem árás og þá skiptir engu hvernig þetta var meint.

  -Hvað sem gerist er ævinlega öðrum um að kenna og einhver blóraböggull fundinn í hverju einasta tilviki.

  -Dramadrottningar og -kóngar hika ekki við að ásaka aðra og í raun kenna þeim um eigin mistök. Þetta fólk er því yfirleitt mjög óvinsælt á vinnustað.

  -Þetta fólk þarf alltaf á athygli að halda og gerir nánast hvað sem er til að kastljósið beinist ævinlega að því. Skap þeirra getur breyst eins og hendi sé veifað. Það hikar ekki við að sýna tilfinningar á mjög ofsafenginn hátt hvar sem það er statt. Talar mikið en hlustar sjaldan á aðra. Muna aldrei eftir því sem er að gerast í lífi annarra í kringum þá. Virða ekki trúnað og geta tekið upp á að skaða sjálfa sig ef það skortir athygli.

   Hvað gerir dramadrottning lífs síns þér?

   –Þeir er næst standa dramadrottningum og -kóngum tapa fljótlega áttum og skynjun þeirra á eðlilegu jafnvægi í mannlegum samskiptum fer úr skorðum.

  -Þeir fyllast gjarnan sektarkennd og finnst þeir aldrei gefa nægilega af sér.

  -Þeir verða óskaplega þreyttir og kvíði og vanlíðan eykst.

  -Aðstandendur dramadrottninga og -kónga finnst þeir alltaf þurfa að þræða krókótta stíga. Ef eitthvað hendir þá sjálfa og þeim líður illa er líklegra að dramadrottning lífs þeirra hafi meiri áhyggjur af sjálfri sér en þeim.

  -Eftir vissan tíma sitja aðstandendur uppi með brenglaða sjálfsmynd. Þeir hafa misst sjálfstraust og finnst þeir aldrei nægilega góðir.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is