2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Verum hugrökk, verum stolt af því sem við erum“

  Í nýjustu Vikunni er að finna viðtal við Sigurð Andrean Sigurgeirsson dansara sem margir kannast við úr atriði Hatara í Eurovision. Hann segist vera baráttumanneskja í húð og hár.

  Hver er þinn ástríða eða drifkraftur í lífinu? „Það er að sjálfsögðu dansinn. En þar fyrir utan felst hann einfaldlega í að reyna að gera heiminn að betri stað. Ég hef verið baráttumanneskja í húð og hár síðan ég man eftir mér. Ég var varaformaður ungliðahreyfingar Amnesty International og formaður Ungs fólks að sjálfbærni á mínum menntaskólaárum. Ég hef einnig nýtt mér vinsældir Hatara til þess að sýna hinsegin fólki í löndum þar sem það mætir miklu mótlæti, samstöðu og stuðning.

  „…ég breiddi út á tónleikum vitandi að ég væri að leggja líf mitt að veði með þessum gjörningi.“

  Ég fór t.d. með Hatara til Rússlands og lét búa til risastóra regnbogavængi sem ég breiddi út á tónleikum vitandi að ég væri að leggja líf mitt að veði með þessum gjörningi. Ég fór líka til Póllands þar sem ég var í bol sem á stóð stjórnarskrá og togaði út úr mér borða sem á stóð frelsi á pólsku til að mótmæla íhaldsamri ríkistjórn Póllands.

  Mynd / Unnur Magna

  AUGLÝSING


  Ég var nýverið kjörinn í stjórn Samtakanna ´78 og hlakka til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og mun halda áfram þar að samhnýta listina og aktívisma. Mér finnst listin oft vanmetin sem áhrifaafl. Það er auðvelt að fara fyrir framan Alþingi og vera reiði mótmælandinn en með listinni er hægt að ná til fólks og fá það til að hugsa dýpra og endurspegla hlutina inn á við.“

  „Fólk er svo litríkt“

  Hann segir drag-ið sterkt pólitískt afl. „Sérstaklega í því landslagi sem við lifum í dag þar sem íhaldsamar ríkistjórnir víðs vegar um heim hafa verið að grafa undan ákveðnum hópum, persónum og þeirra sjálfsmyndum,“ segir Andrean.

  „Drag-ið setur niður fótinn og gerir það skýrt að það er ekki þeirra að ákveða hvernig við tjáum okkur, heldur okkar. Drag-ið brýtur niður úreltu kynjahlutverkin, brýtur niður karlmennskufangelsin, ögrar feðraveldinu og hvetur fólk til þess að vera nákvæmlega eins og það vill vera. Fólk er svo litríkt, sama hvaða kynhneigð eða kynvitund það hefur. Enginn veit hversu lengi hann lifir og hvers vegna að lifa lífi sínu til þess að þóknast einhverjum öðrum og bæla eigin persónu. Verum hugrökk, verum stolt af því sem við erum og fögnum fjölbreytninni.“

  Lestu viðtalið við Andrean í heild sinni í nýjustu Vikunni.

  Kaupa blað í vefverslun

  Myndir / Unnur Magna

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is