2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Á sviðinu frá sjö ára aldri

  Þótt Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir sé ekki nema tvítug er hún reynslubolti í leiklistinni og hefur tekið þátt í sýningum Leikfélags Akureyrar frá sjö ára aldri, nú síðast í uppsetningu Leikfélagsins á söngleiknum Vorið vaknar. Hún æfir jafnframt dans og er að læra söng við Tónlistarskólann á Akureyri en það er þó leiklistin sem á huga hennar allan og hún stefnir á að gera hana að ævistarfi.

  „Ég hef tekið þátt í sýningum hjá LA alveg síðan ég var lítil,“ útskýrir Bjarklind Ásta. „Ég fór í allar prufur sem voru í boði og alveg frá því ég prófaði fyrst að leika hefur mig bara langað að halda því áfram.“

  Fyrsta atvinnusýningin sem Bjarklind tók þátt í var Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur, þá sjö ára gömul, en áður hafði hún sótt nokkur leiklistarnámskeið hjá Leikfélaginu. Hlutverk hennar í Vorið vaknar er þó eitt það stærsta sem hún hefur tekist á við til þessa.

  „Þetta er samt ekki eitt af aðalhlutverkunum,“ segir hún og hlær. „Bara svona meðalstórt.“

   „Ég fer bráðum að verða einn elsti starfsmaðurinn í húsinu, en ég er samt auðvitað rétt að byrja. Vonandi fæ ég mörg fleiri tækifæri í framtíðinni.“

  AUGLÝSING


  Söngleikurinn er eftir þá Duncan Sheik og Steven Slater en byggir á leikriti Franks Wedekind frá árinu 1891, eru þau vandamál sem unglingarnir í verkinu takast á við eitthvað svipuð þeim sem unglingar glíma við í dag?

  „Já, að einhverju leyti,“ segir Bjarklind hugsi. „Þótt það sé meiri fáfræði í gangi á þeim tíma sem verkið gerist á þá vilja unglingar í dag líka fá meiri fræðslu um kynlíf og þær tilfinningar sem ég held að flestir á þessum aldri upplifi enn í dag. Mesti munurinn er kannski að í dag fær fólk frelsi til að tala um þessar tilfinningar og upplifa þær í friði.“

  Langar að læra leiklist í London

  Bjarklind lauk stúdentsprófi af heilbrigðisviði frá MA síðastliðið vor, hver eru framtíðarplönin? Ætlar hún ekki að mennta sig meira í leiklistinni?

  „Ég fór í prufu fyrir sviðslistadeildina í Listaháskólanum og komst ekki inn,“ útskýrir hún. „Þannig að ég ákvað að bíða og reyna aftur eða leita fyrir mér með nám í leiklist erlendis. Mig langar mikið að læra í London, ef ég kemst ekki inn á Íslandi, en það kemur bara allt í ljós hvernig það fer.“

  Þannig að leiklistin er ofar á áhugasviðslistanum en tónlistin og dansinn?

  „Já, í augnablikinu allavega,“ segir Bjarklind og hlær. „Ég hef æft dans síðan 2008 og er í söngnámi hjá Þórhildi Örvarsdóttur við Tónlistarskólann hérna, en leiklistin er samt það sem ég hef mestan áhuga á í bili, þótt þetta skarist auðvitað allt saman.“

  Spurð hvort hún sé að læra klassískan söng og stefni kannski á frama á óperusviðinu með fram leiklistinni neitar Bjarklind því.

  „Ég er að læra djass- og dægurlagasöng,“ útskýrir hún. „Mér finnst rosalega gaman að syngja og byrjaði eiginlega á því um leið og ég byrjaði að tala en þegar ég fæ tækifæri í leiklistinni, sem er auðvitað ekkert alltaf, þá lendir söngurinn í öðru sæti, þótt þetta tengist allt saman meira og minna og sé á svipuðum stað í forgangsröðinni hjá mér.“

  Starfsemi Leikfélagsins blómstrar

  Stundum er lögð mikil áhersla á að gera skörp skil á milli áhugaleikara og menntaðra leikara en Bjarklind segist aldrei hafa fundið fyrir neinum fordómum í sinn garð frá því leiklistarmenntaða fólki sem hún hefur unnið með, eiginlega þvert á móti.

  „Þau eru bara öll yndisleg,“ segir hún og brosir út að eyrum. Þetta er algjörlega frábært fólk og mjög gott og gaman að vinna með því.“

  Fyrir nokkrum árum kom smávegis bakslag í starfsemi Leikfélags Akureyrar en Bjarklind fullyrðir að nú sé félagið aftur farið að blómstra og ætli sér stóra hluti.

  „Starfsemin hefur algjörlega blómstrað síðan Marta Nordal tók við sem leikhússtjóri,“ segir hún. „Hún hefur verið að gera frábæra hluti hérna og Leikfélagið, tónlistarhúsið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands eru öll komin undir hatt Menningarfélags Akureyrar þannig að það eru oft mjög skemmtileg samstarfsverkefni í gangi.“

  Bjarklind er ekki algengt fornafn en Bjarklind Ásta segir samt að þær séu að minnsta kosti sjö á Íslandi sem beri það. Hún segir nafnið algjörlega út í bláinn og hún hafi enga tengingu við ættina sem hefur Bjarklind sem eftirnafn.

  „Fólk spyr mjög oft hvort ég sé skyld þeim,“ segir hún. „En ég er það ekki og þekki engan sem heitir þessu eftirnafni, þannig að ég verð stundum pínu þreytt á þessari spurningu. Þetta er bara nafnið mitt.“

  Fótboltinn ekki að gera sig

  Bjarklind er fædd og uppalin á Akureyri, hvernig er að alast upp í bænum?

  „Mér finnst þetta mjög góður staður,“ segir hún. „Það er gott að vera hérna. Ég bý enn þá heima hjá foreldrum mínum og býst við að gera það þangað til ég kemst inn í leiklistarnám einhvers staðar.“

  Hefurðu einhvern tíma til að sinna einhverjum öðrum áhugamálum en þessum þremur listgreinum; leiklist, söng og dansi?

  „Þær eru að minnsta kosti aðalmálið,“ segir Bjarklind. „Það er kannski ekkert voðalega mikill tími fyrir neitt annað. Ég var í fótbolta þegar ég var yngri en það var ekki alveg mitt svið og var eiginlega ekki að gera sig.“

  Fyrir utan vinnuna hjá Leikfélagi Akureyrar hefur Bjarklind líka verið þátttakandi í starfsemi frjálsra leikhópa en er það þó ekki eins og er.

  „Ég hef sett upp sjálfstæða sýningu með vinum mínum,“ útskýrir hún. „Það var fyrir nokkrum árum og við fengum þá smávegis aðstoð frá Leikfélaginu. Við sýndum barnasýningu sem hét Ævintýri í Inniskógi og einnig sýninguna Listin að lifa tveimur árum seinna. Í fyrri sýningunni vorum við á aldrinum tólf til sextán ára og sömdum verkið sjálf og settum upp. Það var mjög skemmtileg reynsla að fá aðeins að prófa að vinna þetta allt saman sjálf.“

  Væri til í taka þátt í Eurovision

  Hver er framtíðardraumurinn? Hollywood?

  „Ja, hver veit,“ segir Bjarklind og skellir upp úr. „Draumurinn er náttúrlega bara að fá að starfa sem leikkona, en ég hef ekki enn þá leikið í neinum kvikmyndum. Ég myndi alveg vilja prófa það.“

  En hvað um sönginn? Þig dreymir ekki um að stofna eigin hljómsveit og taka kannski þátt í Eurovision eða eitthvað slíkt?

  „Ég hafði allavega mikinn áhuga á því sem krakki að komast í Eurovision,“ segir Bjarklind og kímir. „Og kannski bara gerist það einhvern tíma. Ég hef ekki enn þá haldið einkatónleika en það er hugsanlega á dagskránni fljótlega, það er ekki alveg komið á hreint. Ég hef stundum sungið ein með hljómsveit og hef tekið þátt í tónleikum þar sem eru fleiri sem syngja saman, það fer því alveg að verða tímabært að skella í einkatónleika og kemur að því von bráðar.“

  Spurð hvað hún hafi tekið þátt í mörgum uppfærslum Leikfélags Akureyrar þarf Bjarklind aðeins að hugsa sig um. „Þetta er sjöunda sýningin sem ég tek þátt í hjá Leikfélaginu,“ segir hún svo. „Ég fer bráðum að verða einn elsti starfsmaðurinn í húsinu, en ég er samt auðvitað rétt að byrja. Vonandi fæ ég mörg fleiri tækifæri í framtíðinni.“

  Myndir / Auðunn Níelsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum