Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Að alast upp við alkóhólisma brýtur sjálfsmyndina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur lengi barist fyrir því að börn alkóhólista fái sálfræðiþjónustu á vegum borgarinnar, en sú tillaga hefur ekki hlotið hljómgrunn. Kolbrúnu er þetta hjartans mál enda þekkir hún sjálf afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma á sjálfsmynd og sjálfsmat barna. Hún segist hafa verið komin á fullorðinsár þegar hún loks fór að trúa því að hún gæti eitthvað og væri einhvers virði.

Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

„Ég er yngst fjögurra systkina og þegar ég fæddist bjó fjölskyldan á Víðimel hjá móðurömmu í agnarsmárri þakíbúð,“ segir Kolbrún beðin um að gera grein fyrir bakgrunni hennar. „Pabbi var þá byrjaður að byggja í Sólheimunum, var í góðri vinnu á Keflavíkurflugvelli og foreldrar mínir voru fólk sem átti mikla möguleika á að koma sér vel fyrir. Á yfirborðinu var allt slétt og fellt og fallegt, fjögur börn og foreldrar og föðuramma mín sem bjó hjá okkur síðar í Sólheimunum, virkilega falleg mynd utan frá séð. En alkóhólismi pabba hvafði verið að þróast í töluverðan tíma um það leyti sem ég er að fæðast og smátt og smátt fór þessi fallega mynd að molna og það endaði með því að pabbi missti allt út úr höndunum og foreldrar mínir skildu þegar ég var sex ára. Þá vorum við búin að vera að þvælast milli staða, búa heima hjá móðurömmu minni í annað sinn í einni kös. Áfengið var búið að taka allt frá okkur.“

„Síðasta minning mín um pabba heima er að hann kom heim fullur og reiður, sem við höfðum öll kviðið fyrir meira að segja ég var hrædd þótt ég væri ekki eldri en þetta, þá fann maður alltaf þegar hættan steðjaði að.“

Kolbrún segir föður sinn hafa verið góðan mann, hjálpsaman, ljúfan og rólegan, en hann hafi oft verið ofbeldisfullur þegar hann drakk og það hafi hann tekið út aðallega á móður hennar.

Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

„Ég vissi alltaf að pabba þótti mjög vænt um okkur systkinin en sjúkdómurinn alkóhólismi var bara búinn að taka hann. Síðasta minning mín um pabba heima er að hann kom heim fullur og reiður, sem við höfðum öll kviðið fyrir meira að segja ég var hrædd þótt ég væri ekki eldri en þetta, þá fann maður alltaf þegar hættan steðjaði að,“ segir Kolbrún. „Í þetta sinn réðst hann á mömmu og elsti bróðir minn, sem þá var fjórtán ára, sópaði okkur systrunum inn í herbergi en ég kíkti fram því ég heyrði öskur og læti. Þá var bróðir minn að reyna að hjálpa mömmu og ég sá hann koma út úr sínu herbergi sínu og glíma við pabba til að reyna að hjálpa mömmu. Á endanum var pabbi borinn út í lögreglubíl. Eftir þetta hafði mamma með aðstoð bróður míns loks kjark til þess að skilja við hann. Við fluttum í eitt ár á Barónsstíg en síðan tókst mömmu að kaupa þakíbúðina í hinum enda blokkarinnar þar sem móðuramma mín bjó.“

„Ég var bara algjörlega búin að fá upp í kok af fullum mönnum. Þetta var góður maður en með þennan erfiða sjúkdóm. Þegar hann var í lagi var hann yndislegur, studdi mig og hvatti til dáða.“

Algjörlega búin að fá upp í kok af fyllibyttum

Kolbrún var sjö ára þegar hér var komið sögu og á Víðimelnum bjó fjölskyldan þangað til hún var tólf ára. Móðir hennar var þá ein með þau systkinin og Kolbrún segir þessi ár hafa verið þau bestu í uppvextinum, þrátt fyrir allt.

- Auglýsing -

„Pabbi sem var einkasonur, bjó hjá mömmu sinni á Ásvallagötu. Þessi ár voru öruggari,“ segir hún. „Ég vissi það þegar ég fór að sofa að það yrðu engin læti um nóttina. En ég var líka mikið hjá föðurömmu minni og pabbi var auðvitað oft að koma þangað fullur þannig að hræðslan og ógnin voru alltaf skammt undan. Það er mikið myrkur í kringum þessi ár út af þessari hræðslu við pabba fullan og reyndar bara alla fulla karla. Skömmin og feluleikurinn umlukti allt. Ekki bætti úr skák að ég var lögð í einelti um tíma af kennara mínum í Hagaskóla. Ég varð að lokum að flýja bekkinn“.

Þegar Kolbrún var tólf ára flutti móðir hennar á Nesveginn og fermingarárið fór hún í sveit á Grund í Eyjafirði, þar sem henni líkaði vel en hún varð ekki glöð þegar hún kom heim úr sveitinni og komst að því að móðir hennar var tekin saman við annan mann sem var einnig alkóhólisti og hann var fluttur inn.

„Ég var bara algjörlega búin að fá upp í kok af fullum mönnum,“ segir hún. „Þetta var góður maður en með þennan erfiða sjúkdóm. Þegar hann var í lagi var hann yndislegur, studdi mig og hvatti til dáða. Hann hafði líka þann kost, að áliti mömmu, að hann var aldrei reiður þegar hann var drukkinn og beitti aldrei ofbeldi. Hann gat hins vegar gjörsamlega drepið mann úr leiðindum þegar hann var drukkinn og ég var alveg rosalega þreytt á honum næstu árin. Ég reyndi allt til að losna við hann á tímabili, var í kringum 15 ára þegar ég reyndi að henda honum út fyrir fullt og allt, tók af honum lyklana, fór síðan heim til vinkonu minnar og þegar ég kom heim aftur seinna sama dag var hann kominn inn aftur. Þá var mér allri lokið.“

- Auglýsing -
Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

Lagast allt ef við eignumst barn

Kolbrún segist hafa gefist upp á ástandinu á heimilinu þegar hún var fimmtán ára og flutt til systur sinnar. Fljótlega eftir það kynntist hún Vigni Ljósálfi Jónssyni, en samband þeirra varð um margt óvenjulegt og lauk með því að Vignir kom út úr skápnum sem samkynhneigður maður árið 1983. Þau eiga eina dóttur saman og þrjú barnabörn og Kolbrún segir þau hafa skilið sem vinir og viðhaldi nánu sambandi.

„Ég var alltaf í dansi,“ segir hún um upphaf kynna þeirra Vignis. „Það var eitt af því sem mamma passaði alltaf upp á að ég fengi að gera því hún hafði sjálf verið lengi í dansi. Þar hafði ég hitt Vigga og við höfðum verið danspar lengi áður en við byrjuðum að vera saman sem par. Við bjuggum eiginlega saman frá því að ég var sextán ára, heima hjá honum fyrir utan útskriftarárið en þá höfðu foreldrar hans flutt aftur til Keflavíkur. Eftir að ég útskrifaðist úr Verzló og Viggi kláraði Kennaraskólann fluttum við til Stokkseyrar þar sem við fórum bæði að kenna og bjuggum í þrjú ár. Svo kom hann út úr skápnum og okkar leiðir skildu.“

Spurð hvenær hana hafi farið að gruna að Vignir væri samkynhneigður segist Kolbrún hafa verið mjög lengi að átta sig á því.

„Það var ekki fyrr en eftir að við fluttum aftur í bæinn og vorum komin með barn,“ útskýrir hún. „Ég hélt alltaf að sambandið myndi lagast og sagði meira að segja við hann að þetta myndi allt saman lagast þegar við værum búin að eignast barn. Ég vissi samt ekkert hvað ég var að segja eða hvað ætti að lagast því við vorum alltaf svo miklir vinir og mjög náin, en vissum samt, held ég, að sambandið var kannski ekki alveg eins og það átti að vera. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum kom Viggi þrisvar sinnum út og var hjá okkur og dóttur sinni í þrjár vikur yfir jólin. Það var alveg yndislegt.“

Spurð hvort að þáverandi eiginmanni, Clarence Glad, hafi ekki fundist neitt athugavert við það að fyrrverandi eiginmaður dveldi langdvölum hjá þeim segir Kolbrún að það hafi aldrei valdið honum neinu hugarangri.

„Það stendur engin ógn af samkynhneigðum fyrrverandi eiginmanni fyrir hjónaband,“ segir hún. „Vignir ógnaði eiginmanni mínum aldrei á nokkurn hátt. Við hlökkuðum alltaf mikið til þegar hann var væntanlegur í heimsókn.

Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

Fannst ég allt of léleg til að geta neitt

Kolbrún flutti til Bandaríkjanna með „millimanninum“ eins og hún kallar Clarence, en hann fór þangað til doktorsnáms í fræðum Nýja testamentisins og ári síðar hélt hún á eftir honum með dótturina Karen Áslaugu.

„Þegar við kynntumst var Clarence að byrja í doktorsnámi og við vorum í fjarbúð í eitt og hálft ár á meðan ég kláraði kúrsa í BA-námi í Háskólanum og í janúar 1986 flutti ég út til Rhode Island til hans,“ útskýrir Kolbrún. „Ég byrjaði á því að klára BA-ritgerðina þarna úti og fór svo í MA-nám um haustið og við bjuggum þarna í fimm ár.“

Spurð hvort bakgrunnur hennar og barnæska hafi verið ástæðan fyrir því að hún valdi sálfræðina segir Kolbrún svo ekki vera.

„Mér gekk vel í námi og eftir þessi fimm ár og tvær MA-gráður var ég bara ansi ánægð með mig eftir að hafa eiginlega ekkert vitað hvað eða hvort ég gæti orðið nokkuð.“

„Nei, veistu, ég hef yfirleitt alltaf vitað nákvæmlega hvað ég hef viljað, er alltaf með mjög skýra sýn á mín markmið nema þegar kom að því að velja hvaða starf ég vildi leggja fyrir mig. Ég vissi bara ekkert hvað ég vildi gera,“ segir hún. „Ég var með svo brotna sjálfsmynd sem háði mér og gerir stundum enn, þótt það sé ekki í samræmi við þann karakter sem ég er. Ég trúði aldrei að ég gæti neitt, kem úr þessu alkaumhverfi og var alltaf með skömm og þá tilfinningu að ég væri ekki á réttum stað á réttri stund. Heimilislífið í æsku var náttúrlega bara dapurlegt og snerist svo mikið í kringum alkóhólisma pabba, meðvirkni og skömmina að eiga pabba sem drakk. Ég var bara mjög illa á mig komin og með svo litla trú á sjálfri mér að korteri áður en ég setti upp stúdentshúfuna trúði ég ekki að ég myndi verða stúdent.

Þessi tilfinning var svo lýjandi og erfið að ég get varla lýst því. Það hefur rekið mig áfram við að halda þessum málaflokki á lofti. Þetta hafði líka áhrif þegar að því kom að velja nám í háskóla, ég fletti háskólabæklingnum og spurði sjálfa mig hvað ég gæti eiginlega orðið, mér fannst ég eiginlega allt of léleg til að geta orðið neitt. Það endaði með því að ég byrjaði í uppeldisfræði, fannst að ég gæti kannski mögulega eitthvað í henni. Síðan leiddi eitt af öðru en ég fer alltaf mjög sérkennilegar leiðir að öllu vegna þess að ég hef aldrei trú á að ég geti nokkurn skapaðan hlut. Ég byrjaði reyndar á því í háskólanum að klára þrjátíu einingar í latínu, því mér hafði gengið vel í henni í Verzló, en það var auðvitað ekki undirbúningur að neinu framtíðarstarfi þannig að ég skipti yfir í uppeldisfræðina. Það fannst mér alveg hundleiðinlegt enda var námið nokkuð nýtt á þessum árum og ekki nógu vel formað. Ég slæddist svo inn í einhverja sálfræðikúrsa og mitt BA-próf er sambland af latínu, uppeldisfræði og smávegis sálfræði. Þann farangur hafði ég með mér til Bandaríkjanna og þá vaknaði spurningin hvað ég ætti að gera við svona skrýtið BA-próf.

Ég fór í nám sem heitir Educational Psychology and Counselling, en „counselling“ er þekkt starf í Bandaríkjunum. Ég kláraði master-gráðu í því og verð að segja að þetta var alveg ótrúlega flott nám. Eftir masters-námið ákvað að bæta við mig öðru námi, skipta um deild og fara í sálfræði. Það var reyndar vesen því ráðgjafanámið var ekki metið neitt þar inn og ég þurfti að byrja frá grunni þannig að það fór alveg heil önn í að ná mér í fleiri grunnáfanga í sálfræðinni. Mér gekk vel í námi og eftir þessi fimm ár og tvær MA-gráður var ég bara ansi ánægð með mig eftir að hafa eiginlega ekkert vitað hvað eða hvort ég gæti orðið nokkuð. Þá átti ég reyndar auðvitað eftir að fara heim og fá leyfi sem sálfræðingur og það var eiginlega ekki fyrr en það leyfi kom sem ég var komin á leiðarenda með það hvað ég væri. Þegar heim kom dreif ég mig í kennsluréttindin og hef kennt samhliða sálfræðivinnu á öllum skólastigum.“

Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

Þolir ekki stjórnleysi

Kolbrún segir sjálfstraustið hafa eflst mjög mikið þessi ár í Bandaríkjunum, það hafi eiginlega skipt sköpum í lífi hennar að komast út, ná tökum á enskunni og ljúka viðurkenndu starfsréttindanámi. Árin í Bandaríkjunum hafi verið góð ár.

„Þarna var ég orðin dálítið til í hvað sem var og þegar ég kom heim byrjaði ég bara að vinna, opna stofu og gerði allt mögulegt,“ segir hún og brosir. „Ég byrjaði að vinna hjá Fangelsismálastofnun, fór þaðan yfir á Stuðla þar sem ég var yfirsálfræðingur í nokkur ár. Svo var ég í barnaverndarmálum í Kópavogi í nokkur ár og alltaf með sálfræðistofuna mína og að kenna með, halda námskeið, þýða kafla í bók, skrifa greinar í blöðin, skrifaði bók og svona hélt lífið áfram. Síðustu árin áður en ég fór í pólitíkina var ég á Heilsugæslustöðinni í Mjódd og svo hef ég verið verktaki á Göngudeild sóttvarna þar sem ég aðstoða hælisleitendur. Ég er líka enn þá með stofuna mína, en það gefst reyndar lítill tími til að sinna henni eftir að ég komst inn í borgarstjórn.“

Nokkrum árum eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum skildu Kolbrún og Clarence, þá búin að eignast eina dóttur, Hörpu Rún Glad.

„Eftir skilnaðinn var ég ein í þrjú ár með dætur mínar þangað til ég hitti Jón Guðmundsson sem er búinn að vera eiginmaður minn núna í átján ár,“ segir hún. „Hann er plöntulífeðlisfræðingur, hefur verið að rækta upp land á Rangárvöllum í mörg ár og við eigum bústað þar sem við erum mikið í. Hann á tvö uppkomin börn af fyrra hjónabandi og sex barnabörn, ég á þessar tvær dætur og fjögur barnabörn, þannig að þetta er orðin ansi stór fjölskylda.“

Spurð hvort hún hafi aldrei farið í það munstur, sem mörg uppkomin börn alkóhólista festast í, að velja sér maka sem eru alkóhólistar segir Kolbrún það aldrei hafa komið til greina.

„Það hefði sko aldrei getað gerst, get ég sagt þér,“ segir hún og glottir. „Taugakerfi mitt hefði bara ekki þolað það. Ég þoli stjórnleysi mjög illa og þoli illa að vera innan um fólk sem er komið á það plan að vera búið að missa stjórn á lífi sínu. Það fyllir mig óöryggi sem stafar auðvitað bara af gömlum sárum síðan ég hafði enga stjórn á aðstæðum. Ég er svo mörkuð af þessu uppeldi þótt fólk trúi því oft ekki þar sem ég hef alltaf verið þessi frakka týpa, áræðin og er séð sem sterk, einhver sem lætur ekki vaða yfir sig. Oft fer það ekki saman, hvernig manni líður og hvernig maður birtist öðrum út á við.“

Kolbrún Baldursdóttir
Mynd / Unnur Magna

Ákvað bara að nú væri tímabært að hella sér í pólitík

Hvernig stóð á því að Kolbrún gerðist aktíf í pólitík? Var það einhver gamall draumur?

„Nei, ég hef engan pólitískan bakgrunn úr fjölskyldunni, nefnilega,“ segir Kolbrún og hlær. „Ég veit ekki alveg hvaðan ég fékk þá hugmynd að láta að mér kveða í pólitíkinni, en þessi þrjú ár eftir skilnaðinn bjó ég rétt hjá Valhöll og fékk þá hugmynd að kannski væri tími til kominn að fara út í pólitíkina. Ég byrjaði á því að fara á stjórnmálanámskeið í Valhöll og fannst það alveg ægilega gaman svo ég varð strax ákveðin í því að ég vildi komast á lista. Það endaði með því að ég fór í prófkjör og varð fjórði varaþingmaður fyrir Geir Haarde um tíma. Svo gerðist það að allt í einu var röðin komin að mér að setjast á þing því allir aðrir varaþingmenn voru uppteknir.

Geir Haarde hringdi í mig og spurði hvort ég væri tilbúin í slaginn. Ég hélt það nú og mætti á þing með frumvarp til laga um hækkun ökuleyfisaldurs í átján ár, sem enginn í Sjálfstæðisflokknum hafði áhuga á nema Pétur Blöndal heitinn, honum fannst þetta fínasta frumvarp. Það fór svo auðvitað bara sína leið inn í nefnd og sofnaði þar. Ég vildi endilega komast í fjölskyldumálin, verandi sálfræðingur á kafi í eineltismálum, og hafði svo mikið fram að færa að ég var alveg að rifna, en mér fannst félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum ekki hafa mikinn áhuga á þessum málum. Þannig að ég datt bara út úr þessu pólitíska starfi, nema hvað ég fór í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins um árabil eftir að nefndinni var gert að skipa fagfólk í hana. Löngunin til að komast í pólitík var þó alltaf til staðar, að þoka málum til betri átta og laga það sem betur má fara og er jafnvel ósanngjarnt, er það sem ég brenn fyrir.“

Það var þó ekki fyrr en Kolbrún komst í kynni við Ingu Sæland og Flokk fólksins sem hjólin fóru að snúast.

„Þegar Flokkur fólksins kom fram á sviðið og fór að leggja áherslu á fjölskyldumálin fórum við Inga að tala saman á messenger og það gerðist mjög hratt að ég gaf kost á mér í oddvitasæti flokksins í borgarstjórnarkosningunum,“ útskýrir Kolbrún. „Og nú er ég búin að vera næstum tvö ár í borgarstjórn og hef lagt fram örugglega á fjórða hundrað mála, alls konar mál. Við í minnihluta höfum engin völd og mér finnst mjög leiðinlegt hvað meirihlutinn tekur illa í okkar mál, ýmist fellir þau eða vísar frá. Komist einhver í gegn eru þau aftengd þeim sem lagði þau fram upphaflega.“

Er það ekkert frústrerandi?

„Jú, það er mjög frústrerandi,“ segir Kolbrún með áherslu. „Ég hef stundum farið af fundum bara hálfgrátandi, oft reið og svekkt. Ég hef alveg látið vita af hversu ósátt ég er við þetta. Meirihlutinn gæti gert svo margt til að stuðla að samvinnu en ekki sundrungu. En um leið og ég fæ að vera með í einhverjum starfshóp gengur þetta ljómandi vel, vil bara fá að deila reynslu og þekkingu minni til góðs fyrir heildina. Ég hef alltaf átt gott með að vinna með fólki og gengið vel í samstarfi, held ég, en ég þarf að fá að vera með. Ég verð ljúf sem lamb ef ég fæ að vera með.“

„Nema þú ætlir bara að vera í borgarstjórn upp á punt og ég er aldrei neins staðar upp á punt. Ég vil alltaf þoka málum áfram.“

Þarf að komast í meirihluta

Ertu enn jafnástfangin af pólitíkinni og þú varst í upphafi?

„Jú, jú, ég þarf bara að komast í meirihluta,“ segir Kolbrún. „Ég vil vera þar sem ég get komið einhverju til leiðar. Það er mjög erfitt að vera með háleit markmið fyrir borgina og borgarbúa og þann hóp sem kaus mig og vera í minnihluta. Nema þú ætlir bara að vera í borgarstjórn upp á punt og ég er aldrei neins staðar upp á punt. Ég vil alltaf þoka málum áfram. Ég sat í átta ár í samninganefnd fyrir hönd sálfræðinga, var formaður Stéttarfélags sálfræðinga og þau ár voru mjög skemmtileg. Þar var ég að djöfla málum áfram með blóði, svita og tárum og náði bara ofboðslega fínum árangri. Mér fannst alveg æðislegt þegar nýja launakerfið komst í gegn, til dæmis.“

Stefnir þú kannski á þing í næstu kosningum?

„Ég veit það ekki,“ segir Kolbrún brosandi. „Það er best að tala varlega. Mér þætti það örugglega æðislegt, ef ég á að vera alveg hreinskilin. En þá finnst kannski einhverjum ég vera að svíkja borgarbúa sem treysta á mig. Ég treysti svolítið á guð og lukkuna með það að fá leiðbeiningar um hvar minn staður er hverju sinni þótt ég viti alltaf sjálf hvað ég vil. Maður er stundum mjög einmana í þessari baráttu. Ég hef ekki átt foreldra lengi, þau eru farin fyrir löngu en mér finnst þau samt einhvern veginn nærri. Fyrir utan að eignast börnin mín og barnabörnin mín var það að vera kosin í borgarstjórn einn stærsti áfangi lífs míns. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og vil standa mig vel.“

Það eru tvö ár eftir af kjörtímabilinu, hvaða mál eru það sem Kolbrúnu dreymir mest um að koma í gegn innan borgarstjórnar?

„Ég hef lagt fram mjög mörg mál sem varða skólamál, börn, líðan og velferð þeirra,“ útskýrir hún. „Sérkennslumálin og sérúrræði í skólum. Mér finnst sá málaflokkur ekki vel staddur. Flokkur fólksins var búinn til utan um öryrkja, fátæka og barnafjölskyldur. Við erum flokkur sem vill taka utan um þá sem minna mega sín. Ég hef verið með mörg mál um félagsbústaði. Mér finnst bara svo ótrúlegt hvernig ástandið í þeim málum hefur verið en ég ræð engu þar. En með því að benda á hluti og gefast ekki upp þá held ég það skili sér með einum eða öðrum hætti þótt meirihlutinn myndi auðvitað aldrei viðurkenna að það væri mér eða öðrum úr minnihlutanum að þakka.“

Spurning um að sýna virðingu og virða sjónarmið annarra

Því er gjarnan slegið upp í fjölmiðlum þegar ágreiningur verður í borgarstjórninni og stór orð falla, en er fólkið í borgarstjórn ekki bara ágætis félagar svona á heildina litið?

„Jú, jú,“ fullyrðir Kolbrún. „Það er stundum talað harkalega en ég held að þetta sé allt saman gott fólk og þessi ágreiningur er ekkert persónulegur. Ég er alveg viss um að ef meirihlutinn biði minnihlutanum ríkari aðkomu að málum og tæki betur á móti okkar tillögum þá myndum við vinna mjög vel saman.“

Hefur það að komast í sviðsljós stjórnmálanna og verða andlit sem allir kannast við breytt einhverju fyrir þig persónulega?

„Þegar þú ert alin upp við svona mikla óreiðu skiptir það gríðarlegu máli að hafa skipulag á lífinu, reyna að vanda sig og gera eins vel og maður getur.“

„Nei, ég held ekki,“ segir Kobrún ákveðin. „Líf mitt er í mjög föstum skorðum, ég á fáa og góða vini, er ekki mikið fyrir að umgangast stóra hópa, hef ekki lengur gaman að því að ferðast mikið erlendis, hef ferðast mjög mikið um ævina og búin að fá nóg í bili. Ég er rosalega heimakær, finnst ofboðslega gott að vera heima og hef alltaf nóg að gera. Svo sinni ég börnunum mínum og barnabörnum, borða hollt, hreyfi mig reglulega, fer snemma að sofa og svo framvegis. Þegar þú ert alin upp við svona mikla óreiðu skiptir það gríðarlegu máli að hafa skipulag á lífinu, reyna að vanda sig og gera eins vel og maður getur. Ég er ekki að segja að það sé endilega alltaf gott, það vantar í mig kæruleysið kannski og ef ég geri mistök líður mér mjög illa. Ég hlusta mjög mikið á mína innri rödd, hvað innsæið segir mér og er tilbúin að standa með sjálfri mér í erfiðum hlutum. Þegar ég finn að tilfinningin er sönn þá geri ég það sem gera þarf sama þótt það kæmi heill her og gargaði á mig. Meðvirkni er ekki til í mér, ég henti henni burt í öllu þessu alkaveseni í fjölskyldunni, ég segi hlutina bara hreint út en reyni alltaf að segja þá mildilega. Ég hef verið farsæl bæði í einkalífi og starfi, þrátt fyrir allt, og ég er innilega þakklát fyrir það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -