2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ákvað að taka sjálfa sig í sátt

  Fyrir tveimur árum var Ásdís Ósk Valsdóttir rúmlega níutíu kíló, alltaf pirruð og reið út í lífið og tilveruna. Á ráðstefnu erlendis fékk hún hugljómun og ákvað að snúa lífi sínu til betri vegar. Það gerði hún svo sannarlega, hleypur nú um fjöll og firnindi, hjólar, syndir og lifir lífinu til fulls.

   

  Ásdís Ósk fer á fætur fimm á morgnana og hleypur fimm til sjö kílómetra áður en hún mætir til vinnu tvisvar til þrisvar í viku. Hún skellihlær þegar hún lýsir því hvað henni hefði fundist um þann lífsstíl fyrir ári síðan. „Þá hefði ég orðið stórhneyksluð á svona fólki,“ segir hún hlæjandi. „Það fer engin heilbrigð manneskja út að hlaupa klukkan sex á morgnana, hélt ég. En eftir að ég tók þá ákvörðun að fara alltaf snemma að sofa og vakna snemma, hætta að glápa á sjónvarpið öll kvöld hafa lífsgæðin aukist gríðarlega, eiginlega meira en mér hefði nokkurn tímann getað dottið í hug.“

  Vildi skrifa nýja ævisögu

  Ásdís veit upp á hár hvenær hún tók þá ákvörðun að snúa lífi sínu við. Það gerðist þann 13. ágúst 2017 á fyrirlestri hjá David Goggins og hún segir upplifunina hafa verið eins og í teiknimyndasögu.

  AUGLÝSING


  Ásdís Ósk prýðir forsíðu 31. tölublaðs Vikunnar.

  „Ég hlustaði á þennan mann og fékk bara hugljómun,“ segir hún. „Það kviknaði á peru fyrir ofan höfuðið eins og í teiknimyndasögu. Hann hafði nefnilega verið feitur og reiður og það var í fyrsta sinn sem ég hitti einhvern sem var eins og ég að því leyti, uppfullur af pirringi út í allt og alla. Svo spurði hann þessarar gullvægu spurningar: „Ef ég myndi lesa ævisöguna þína mundi hún hafa áhrif á mig?“ Ég sat bara höggdofa í salnum þegar ég sá fyrir mér þá sögu sem ég hafði verið að skrifa síðustu tuttugu árin. Sögu um konu sem fannst hún vera svo mikið fórnarlamb af því að hún þarf að hafa fyrir því að létta sig, þarf að leggja eitthvað á sig og kennir öllum öðrum en sjálfri sér um ástandið, tekur aldrei ábyrgð á eigin klúðri.“

  Læknir sem hlustaði ekki á sjúklinginn

  Annað sem stóð Ásdísi Ósk fyrir þrifum var að hún að sumu leyti föst í fortíðinni. Eitt af því sem hún átti erfitt með að sætta sig við var hvernig kvensjúkdómalæknir hafði tekið á síendurteknum fósturlátum hjá henni. „Ég missti fóstur þrisvar sinnum á 18 mánuðum, alltaf með sex mánaða millibili,“ útskýrir hún.

  „Mér fannst hann gera mjög lítið úr því hvað þetta er alvarleg upplifun.“

  „Það var rosalega erfitt. Ég var hjá lækni, sem ég ætla ekki að nafngreina, en var mjög vinsæll og hann sagði mér alltaf að það væri ekkert að mér, þetta væri bara óheppni. Ég bað hann samt að setja mig í einhver próf til að athuga hvort eitthvað væri að en hann neitaði að gera það fyrr en ég væri búin að missa fóstur þrisvar. Mér fannst hann gera mjög lítið úr því hvað þetta er alvarleg upplifun.“

  Mynd / Unnur Magna

  Síðar leitaði Ásdís til annars læknis sem fann út hvað var að og hún eignaðist eftir það tvö börn. En boðskapur þessarar mögnuðu konu er: „Já, ástæðan fyrir því að ég er svona virk opinberlega er ekki sú að ég vilji verða fræg,“ segir hún og glottir. „En því þekktari sem ég verð því auðveldara verður fyrir mig að koma þessu að. Ég er í rauninni að gera þetta fyrir allar hinar Ásdísirnar þarna úti sem hafa enn ekki áttað sig á því hvað lífið getur verið frábært.“

  Lestu viðtalið við Ásdísi í heild sinni í 31. tölublaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Texti / Friðrika Benónýsdóttir
  Myndir / Unnur Magna
  Förðun og hár / Guðný Inga Kristófersdóttir

  Sjá einnig: Fékk nóg af því að vera pirruð, reið, orkulaus og leið

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum