2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Börn í móðurkviði heyra og skynja“

  Stella Bára Eggertsdóttir hefur brennandi áhuga á að gera fólki grein fyrir því að grunnur barna skapi raunveruleika þeirra í framtíðinni. Hún er dáleiðari og notar Rapid Transformational Therapy, eða RTT-meðferð í dáleiðslunni, og vinnur við að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir áföllum eða búið við erfiðar aðstæður í æsku.

   

  „Ég er alltaf að sjá betur og betur hvað við foreldrar gleymum að gera einfalda hluti fyrir börnin okkar sem gætu sparað þeim gríðarlegan andlegan sársauka, kvíða, lítið sjálfstraust og jafnvel líkamlegan sársauka á fullorðinsaldri,“ segir Stella Bára þar sem við sitjum á notalegri stofunni hennar í Spönginni í Grafarvogi.

  „Mig hafði lengi langað til að læra dáleiðslu áður en ég lét drauminn rætast árið 2017. Ég hafði þá sjálf farið í RTT-dáleiðslumeðferð sem gerði það að verkum að ég tók nýja stefnu í lífinu og þorði að vera sýnileg, sem ég hafði ekki þorað áður.“

  Fór að finna fyrir höfnun sem barn
  Stella Bára segist koma úr stórum systkinahópi og vissar aðstæður í uppeldinu hafi orðið til þess að henni fannst hún ekki mega láta á sér bera og þá tilfinningu hafi hún tekið með sér úr æsku og yfir í fullorðinsárin. „Ég er þriðja barn foreldra minn en þau eignuðust svo þrjú börn eftir það. Þegar móðir mín var um 25 ára, og ég sextán mánaða, fæddist fjórða barnið, bróðir minn. Móðir mín var yndisleg og ég fékk mikla ást þar til ég þurfti að fara að deila henni með bróður mínum sem ég var nú ekki alveg til í,“ segir Stella Bára og brosir.

  AUGLÝSING


  „Mamma var líka þreytt og uppgefin og hafði ekki eins mikið að gefa. Ég var líka fyrirferðarmikið barn. Þegar litli bróðir minn fæddist, og ég bara sextán mánuðum eldri, fór mamma að ýta mér frá, segja mér að hafa ekki hátt og svo framvegis. Mér fannst ég vera fyrir og aldrei nógu góð. Mamma áttaði sig auðvitað ekkert á því að ég fór þá að finna fyrir höfnun, að mér liði eins og ég væri fyrir, það væri of mikill hávaði í mér og ég tæki of mikið pláss. Svo þegar pabbi kom heim úr vinnunni á kvöldin var hann þreyttur. Ég mátti sitja hjá honum á meðan hann horfði á fréttirnar en ég mátti ekki segja neitt og varð að sitja kyrr. Þarna var búið að bæla niður litlu stelpuna og hægt og rólega fór ég með árunum að loka mig af inni í herbergi því ef ég var frammi var ég of hávær og tók of mikið pláss. Þessa tilfinningu tók ég svo með mér áfram út í lífið. Ég gerði því aldrei almennilega það sem mig langaði að gera því ég var bara alltaf að hugsa um að láta lítið á mér bera.“

  „Foreldrar leita mikið til mín með börnin sín og unglinga og þá sérstaklega vegna kvíða.“

  Það var ekki fyrr en Stella Bára fór sjálf í RTT-dáleiðslumeðferð sem hún fór að trúa því að hún gæti gert það sem hana langaði til og hún mætti sjást. Hún segist hafa fundið mikinn mun á sér eftir þriggja vikna meðferð. Líðanin hafi orðið allt önnur og hún hafi fundið fyrir auknu sjálfstrausti og fór að hafa trú á því að hún gæti gert það sem hana dreymdi um.

  „Ég er lærður fatahönnuður og er búin að reka fyrirtæki í mörg ár en hef alltaf unnið heima. Ég starfaði sem dagmóðir heima hjá mér og svo rak ég saumastofu í bílskúrnum. Ég þorði aldrei að taka skrefið og verða áberandi og komst þess vegna aldrei áfram með mitt. Það var ekki fyrr en ég fór á sjálfshjálparnámskeið þar sem ég kynntist þessari dáleiðsluaðferð, RTT, að hlutirnir fóru að breytast og ég öðlaðist sjálfstraust og trú á að ég gæti gert það sem mig langaði til. Allt í einu áttaði ég mig á því hvers vegna ég hafði aldrei getað látið saumastofuna mína verða að einhverju meiru en lítilli saumastofu í bílskúrnum og hvernig ég hafði byrjað að gera mig ósýnilega sem barn. Eftir bara eina dáleiðslu var ég búin að sjá að ég gat aldrei gert neitt sem mig langaði til af því að ég var alltaf að reyna að vera ekki fyrir neinum. Eins og mér var sagt að gera þegar ég var barn.“

  „Farið djúpt inn í undirmeðvitundina“
  Frumkvöðull RTT-dáleiðsluaðferðarinnar er hin breska Marisa Peer sem Stella Bára segir að sé margverðlaunaður meðferðaraðili í Bretlandi en hún hafi þróað RTT-aðferðina síðustu þrjátíu árin og fengið fjölmörg verðlaun fyrir nálgun sína á þessu efni ásamt því að hafa skrifað margar bækur um það. Stella Bára segist hafa verið ákveðin í að læra aðferðina hjá Marisu eftir að hafa prófað hana sjálf með góðum árangri. Hún hafi því farið á þriggja vikna námskeið hjá Marisu í London og sé með skírteini bæði sem RTT-meðferðaraðili og dáleiðari frá The Marisa Peer School in London.

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Beðin um að útskýra RTT-aðferðina fyrir blaðamanni, og lesendum, segir Stella Bára að hún sé meðferðardáleiðsla. „RTT, sem stendur fyrir Rapid Transformational Therapy, er dáleiðslumeðferð sem er notuð til að hjálpa fólki með alls konar vandamál; kvíða, sjálfstraust, fóbíur, ýmiss konar hræðslu eða til að ná árangri í lífinu. Ég hef mestan áhuga á að nota hana til að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir áföllum eða búið við erfiðar aðstæður í æsku, þótt ég hjálpi samt líka við aðra hluti. Í RTT-dáleiðslunni er farið djúpt inn í undirmeðvitundina en þannig er auðveldara að finna grunn vandans og skilja hvaðan hann kemur í raun. Það er hægt að losa um gamla trú og tilfinningarnar sem henni fylgja, sem í rauninni valda sársaukanum, og með því myndast rými til að búa til nýjar hugsanir og tilfinningar. Í samráði við hvern og einn skjólstæðing geri ég svo upptöku fyrir hann eftir dáleiðsluna á stofunni hjá mér, sem hann hlustar á daglega í að minnsta kosti tuttugu og einn dag. Á þessari upptöku eru aðeins uppbyggjandi upplýsingar um hvernig honum vill líða eftir meðferðina. Það er mjög mikilvægt að fólk hlusti á upptökuna á hverjum degi.“

  Stella Bára segist mikið hafa hafa unnið með einstaklingum sem hafi orðið fyrir áföllum í æsku. „Ég vann sem dagmóðir í sautján ár og hjarta mitt er hjá litla barninu sem býr enn i undirmeðvitund fólks og hefur ekki náð að þroskast og skilja af hverju því líður ekki vel. Ég fer með fólk í ferðalag í undirmeðvitundina til að finna grunn vandans. Í meðferðinni eru tekin ákveðin skref sem miða að því að losa burt tilfinninguna sem hefur jafnvel setið föst í manni alla tíð. Það er verið að slíta þráðinn við fortíðina. Og það er magnað að sjá hvað vöntun á ást og umhyggju hefur valdið mikilli vanlíðan hjá allt of mörgum. Margir eru búnir að fara í gegnum lífið á hnefanum og vita ekki hvaðan þessi vanlíðan og sársauki sem þeir hafa fundið fyrir alla tíð kemur, en RTT-aðferðin er notuð í dáleiðslu til að komast lengra niður í undirmeðvitundina og finna grunninn að vandamálinu. Ef við getum ekki fundið uppruna þess þá getum við ekki klárað að vinna úr því. Það er bara svo einfalt.“

  Ekki hægt að dáleiða fólk sem vill það ekki
  Blaðamaður hefur á orði að hann, eins og örugglega margir, sjái dáleiðslu fyrir sér sem atriði á sviði þar sem dáleiðarinn fær þátttakendur úr áhorfendahópnum til að gera hluti á borð við að gelta eins og hundur. Stella Bára brosir og segir að það sem fólk viti ekki er að þetta fólk sem lætur tilleiðast í slík atriði, myndi aldrei gelta á sviðinu nema af því að það væri tilbúið til þess. „Dáleiðarinn fær fólk vissulega til að gera ótrúlega hluti í dáleiðslunni en það getur hann bara af því að fólk er opið fyrir því og langar að taka þátt. Það er alltaf búið að senda einhverja niður af sviðinu áður en atriðið byrjar, því dáleiðarinn sér að hann kemst ekkert áfram með suma,“ segir Stella Bára og hlær.

  „Það skiptir máli í dáleiðslu að viðkomandi sé opinn fyrir hlutunum og sé tilbúinn að láta dáleiða sig. Það er ekki hægt að dáleiða fólk sem vill það ekki. Ég hef ekki oft lent í því að ná ekki að dáleiða einhvern sem hefur leitað til mín en það hefur gerst. Þeir einstaklingar eru ekki tilbúnir að sleppa stjórninni og eru aðallega konur,“ segir hún og skellir upp úr. „En það er þetta fólk sem þarf að hafa stjórnina og heldur að ég sé að fara að taka hana af því en skilur ekki að ég er í rauninni að gefa því alla stjórnina. Fólk getur hætt í dáleiðslunni hvenær sem er og getur byrjað aftur ef það vill, það ræður alveg hvort það taki þátt eða ekki því maður er fullkomlega meðvitaður um það sem er í gangi allan tímann. Maður er ekki sofandi og er algjörlega maður sjálfur. Þetta er ekki mjög djúp dáleiðsla en nógu djúp til að maður komist alveg niður í undirmeðvitundina og það er það eina sem ég vil.“

  Gætirðu sem sagt ekki dáleitt mig og sagt mér að ræna banka fyrir þig?
  „Nei, það myndi því miður ekki ganga,“ segir Stella Bára hlæjandi. „Ég get aldrei dáleitt fólk og látið það gera eitthvað sem það vill ekki gera. Það þarf að vera einhver löngun til staðar til að breyta hlutunum. Ég gæti til dæmis ekki látið þig fara að reykja nema þig langaði til þess. Það væri hins vegar öllu verra ef þú værir fyrrverandi reykingamanneskja og værir að berjast við fíknina því þá gæti ég kveikt í henni aftur. Ég vænti þess þegar fólk kemur til mín í meðferð að það sé að leitast við að breyta einhverju. Í RTT-dáleiðslunni er farið í gegnum slökun og svo förum við að finna minningarnar sem valda tilfinningunum sem láta viðkomandi líða illa. Og þetta eru sömu tilfinningar og fólk hafði í æsku, maður er að eiga við nákvæmlega sömu tilfinningar þá og nú sem fullorðin manneskja.“

  Algengast að fólk komi vegna kvíða og lítils sjálfstrausts
  Stella Bára segir að dáleiðsla sé eðlilegt ástand líkamans og fólk fari í þetta ástand jafnvel aftur og aftur yfir daginn. „Til dæmis þegar maður situr og fær störu. Eða þegar maður er að sofna á kvöldin þá er maður búinn að fara í dáleiðslu á leiðinni í svefninn. En ég kenni fólki að fara í dáleiðslu og svo læt ég það hafa upptöku sem færir það í dáleiðsluástand. Eins og ég sagði áðan, þá er gríðarlega mikilvægt að fólk hlusti á upptökuna á hverjum degi í að minnsta kosti þrjár vikur. Ef fólk er duglegt að hlusta þá finnur það breytinguna fyrr en hún getur verið að mjatlast inn hægt og rólega í marga mánuði. Maður finnur þó mestu breytinguna á þessum fyrstu þremur vikum. Svo hægt og rólega stígur maður einhver skref í lífinu sem maður hefði kannski aldrei gert.“

  Hverjar eru helstu ástæðurnar fyrir því að fólk leitar til þín?
  „Algengast er að fullorðnir komi út af kvíða og litlu sjálfstrausti. Foreldrar leita mikið til mín með börnin sín og unglinga og þá sérstaklega vegna kvíða hjá þeim. En það er svo magnað að sjá fólk átta sig á því hvaðan þessar tilfinningar koma. Það hefur jafnvel haldið að þetta stafaði út af einhverju ákveðnu atviki í bernsku, er alveg ákveðið í að það sé út af því, en með dáleiðslunni kemur svo í ljós að það var eitthvað allt annað sem olli þessu. Meira að segja eitthvað sem gerðist löngu á undan hinu atvikinu sem fólk taldi ástæðuna vera.“

  Aðspurð hvort hún geti nefnt dæmi um slík atvik, segir Stella Bára að það þurfi ekki meira til en einhver í leikskólanum hafi sagt að úlpan manns væri ljót. „Svo kemur einhver seinna sem segir að maður sé með ljót gleraugu og maður fer smám saman að átta sig á því að maður er ekki eins og maður á að vera og fer að læðast með veggjum til að láta ekkert á sér bera því ef enginn tekur eftir manni þá segir enginn neitt ljótt. Það hleðst sem sagt alltaf meira og meira ofan á þessa tilfinningu þangað til að undirmeðvitundin segir að þessi tilfinning sé vond og það þurfi að fara að bregðast einhvern veginn við henni. Og maður finnur leið til að bregðast við hvort sem það er með því að læðast með fram veggjum, borða meira, nota hugbreytandi efni eða deyfa sig á hvaða mögulega hátt sem er. RTT-meðferðin hjálpar manni að finna út úr því hvað það er sem maður finnur sér til að geta lifað af sem lítið barn með þessa tilfinningu. Það getur sem sagt nægt að einhver krakki sem maður var með í leikskóla hafi sagt að úlpan manns væri ljót.“

  Stella Bára segir að hægt sé að dáleiða börn niður í um það bil fimm ára aldur en hún sjálf dáleiði helst ekki börn yngri en tólf ára. „Ég vil að þau séu samþykk því að koma og vilji hjálpina því eins og ég sagði áðan þá skiptir miklu máli að maður vilji hana. Ég spyr því alltaf foreldra hvort barnið sé örugglega samþykkt því að koma í tíma til mín, því það skiptir svo miklu máli að það sé móttækilegt fyrir hjálpinni.“

  Hlutverk undirmeðvitundarinnar að passa upp á mann
  Blaðamaður veltir upp þeirri spurningu hvort flestir séu ekki að glíma við eitthvað úr æskunni, miðað við dæmið um úlpuna í leikskólanum og Stella Bára segir að vissulega séu eiginlega allir að burðast með eitthvað úr æsku. „Það er bara misjafnt hvernig við tökum því og hversu mikil áhrif það hefur á okkur,“ segir hún. „En heilinn gleymir engu; allt er vandlega skráð í undirmeðvitundina. Og hennar hlutverk frá fyrsta degi er að passa upp á mann, að maður fari sér ekki að voða og lendi ekki í lífshættu. En hún áttar sig ekki á því að einn daginn verður maður fullorðinn einstaklingur og getur passað sig sjálfur. Segjum sem svo að lítið barn hafi dottið í læk og einhver kemur og rífur það upp úr læknum í ofboði; mikil læti verða út af því að barnið hefði auðveldlega getað drukknað í læknum. Litla barnið áttar sig á því hvað er um að vera í kringum það og fattar að það var í lífshættu. Undirmeðvitundin skráir þetta hjá sér og rennandi vatn verður því stórhættulegt upp frá þessu. Síðan eldist barnið og kemur að læknum og finnur fyrir hræðslu, vill ekki koma nálægt læknum því það fær á tilfinninguna að þarna sé það í lífshættu. Svo verður barnið fullorðið og fær vinnu þar sem það þarf á hverjum degi að fara yfir á til að komast til vinnu. Smám saman fer viðkomandi að finna fyrir kvíða en veit ekkert hvaðan hann kemur. Kvíðinn eykst stöðugt og einn daginn fær hann ofboðslegan hausverk og getur varla mætt í vinnuna en tekur verkjatöflu og lætur sig hafa það. Hvað á undirmeðvitundin að gera þá? Hún er búin að reyna hausverkinn sem virkaði ekki. Þá lætur hún viðkomandi fá illt í hnéð en hann tekur bólgueyðandi lyf og mætir bara haltrandi í vinnuna. Og undirmeðvitundin skilur ekkert í þessu, búin að reyna allt sem hún getur til að passa að þessi manneskja þurfi ekki að fara yfir ána því það er svo hættulegt. Það endar með því að einn daginn kemst viðkomandi ekki fram úr rúminu, því hann er með kvíða, verki út um allt og svo illa haldinn að hann er hreinlega rúmliggjandi. Þarna stoppar undirmeðvitundin mann bara af til að passa að maður fari sér ekki að voða.“

  „Ég vil hjálpa fólki að trúa að það sé nóg, það megi sjást, að það geti treyst öðrum og sjálfum sér til að mega vera það sjálft eins og hver og einn vill vera.“

  Stella Bára segir að þetta geti komið fram á ýmsan hátt í lífinu. „Segjum sem svo að þú sért alltaf að rekast á konu í vinnunni sem þér sé ofboðslega illa við en þú veist samt ekkert af hverju. Hún hefur ekkert gert þér en það er bara eitthvað óþægilegt við hana. Svo kannski ferðu í dáleiðslu og áttar þig á því að ástæðan fyrir því að þér líkaði ekki við þessa konu var sú að hún notaði alltaf eitthvað eitt ákveðið orð. Þú heyrðir þetta orð þegar þú varst lítil og í hvert skipti sem það var sagt við þig þá varstu slegin utan undir. Þér líkar ekki þetta orð þar sem þú mátt alltaf búast við kinnhesti um leið og það er sagt. Þess vegna segir undirmeðvitundin að þér líki ekki við þessa konu. Það er mjög áhugavert að finna þessa tilfinningalegu tengingu við fortíðina og geta hætt að líða eins og manni leið þegar maður var lítill. Það er svo hamlandi að hafa einhverja trú sem maður lærði sem lítið barn, sem virkar ekkert fyrir fullorðið fólk en samt er maður enn þá að haga sér eins og lítið barn.“

  Mikilvægt að börn beri ekki ábyrgð á hlutum sem þau hafa ekki þroska til
  Sem fyrr segir starfaði Stella Bára lengi sem dagmóðir og hefur mikinn áhuga á litlum börnum og hvernig hægt er að gera líf þeirra betra á fullorðinsárum.

  Hvernig geta foreldrar lagt sitt af mörkum til þess?
  „Mér finnst í fyrsta lagi mjög mikilvægt að börnin okkar viti frá fyrstu stundu að þau séu velkomin í þennan heim. Og það er mikilvægt að foreldrar átti sig á því að börn í móðurkviði heyra og skynja. Ég hef fengið til mín einstakling í dáleiðslu sem var búinn að burðast með vanlíðan yfir því að móðir hans var mjög veik þegar hún gekk með hann og allir sögðu henni að fara í fóstureyðingu. Þetta skynjaði viðkomandi strax í móðurkviði og fann til mikillar sektarkenndar yfir því að hafa átt sök á veikindum móður sinnar. Hann auðvitað áttaði sig ekkert á því hvaðan vanlíðanin kom fyrr en hann fór í dáleiðslu. En það skiptir gríðarlega miklu máli að foreldrar sýni börnunum sínum að þau hafi fæðst af því að foreldrana langaði til að eignast þau. Og halda utan um börnin sín. Segja þeim að þau séu elskuð og einhverjum þyki vænt um það, finnist það duglegt og flott. Að það standi sig vel. Ég er ekki að segja að það eigi að hrósa börnum fyrir hluti sem þau eiga ekki skilið eða ofhrósa þeim. En það skiptir máli að þau finni að einhverjum þyki vænt um þau og þau séu metin. Svo skiptir líka ofboðslega miklu máli að fólk segi ekki hluti við börn eða í kringum þau sem þau eiga ekki að heyra. Jafnvel þótt maður haldi að barnið heyri ekki neitt því það sé að leika sér og athygli þess sé öll við leikinn eða eitthvað annað, þá meðtekur það allt sem verið er að segja í kringum það og skilur nákvæmlega hvað er um að vera. Ég hef dáleitt fólk og farið með það þar sem það liggur í vöggu og heyrir og skilur orðin sem mamma og pabbi sögðu yfir vöggunni. Einn skjólstæðingur minn gat sagt nákvæmlega það sem foreldrar hans höfðu rifist um þar sem þau stóðu yfir honum sem ungbarni í vöggu.“

  Stella Bára segir að einnig sé mikilvægt að börn séu ekki látin bera ábyrgð á hlutum sem þau hafi ekki þroska til. „Allt of oft er verið að setja ábyrgð á börn sem þau hafa ekki getu til að bera. Ábyrgðin þarf ekki einu sinni að vera stór. Það þarf að vanda sig við hvernig hlutirnir eru sagðir og hvað er sagt. Börn skilja aðstæðurnar sem þau eru í, þau skilja orðin sem eru sögð og þau skilja tilfinningarnar sem eru í kringum þau. Og fólk verður að átta sig á því að það sem er sagt og gert í kringum börn skráist í forritið þeirra, undirmeðvitundina, og þau fara að trúa þessu. Fyrir sjö ára aldur meðtekur maður nefnilega allt; maður þarf eiginlega ekkert að læra það, það bara gerist. Eftir sjö ára aldur breytist það, þá er maður kominn með meðvitundina og fer að fá svona stoppara á það sem fer inn í gagnabankann. Þá er búið að fylla á prógrammið þarna undir svo það þarf að fara að sigta aðeins úr því hvað fær að fara meira þarna niður. Og það tekur mann lengri tíma að læra en sem lítið barn þurfti maður að læra rosalega hratt til að vera virkur í sínu umhverfi.“

  Hún segir að lærdómurinn byrji strax í móðurkviði. „Barnið byrjar þar að heyra allt sem er sagt og lærir af því. Kemur svo út í heiminn og lærir hvernig því er tekið; maður er frábær í byrjun og með sjálfstraustið í botni. Allir dást að manni þegar maður grætur er maður tekinn upp og þegar maður brosir, þá brosa allir til manns og svo framvegis. Maður er bara æðislegur! Svo gerist eitthvað í lífinu, maður grætur en enginn kemur að hugga mann. Þá kemur tilfinningin að enginn vilji mann. Svo gerist eitthvað seinna í lífinu, maður dettur og meiðir sig en enginn kemur að hugga mann og svona hleðst ofan á þetta og sjálfstraustið sem maður hafði þegar maður fæddist fer minnkandi. Hægt og rólega hverfur meira og meira af sjálfstraustinu, þangað til maður er kannski ekki með neitt sjálfstraust lengur. En ég vil breyta þessu. Það er mitt hjartans mál að fólk viti að það er von. Ég vil hjálpa fólki að trúa að það sé nóg, það megi sjást, að það geti treyst öðrum og sjálfum sér til að mega vera það sjálft eins og hver og einn vill vera.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum