2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ekkert tiltökumál að upphugsa glæpi í frístundum

  Nýr sakamálasagnahöfundur hefur kveðið sér hljóðs hér á Íslandi. Íris Ösp Ingjaldsdóttir er höfundur sálfræðitryllisins Röskun. Sagan gerist í kjallaraíbúð í Reykjavík. Ung framakona flytur inn í hana en fljótlega fer hún að hafa á tilfinningunni að einhver annar gangi um íbúðina og smám saman eykst óttinn og kvíðinn. Lesandans bíður svo spennandi lesning sem heldur alveg fram á síðustu síðu.

   

  Íris Ösp er lögfræðingur að mennt og á það sameiginlegt með aðalpersónu bókarinnar, Heru. Hún segir að hugmyndin að sögunni hafi kviknað í byrjun árs 2017 en er einhver ástæða fyrir að hún kaus að skrifa sálfræðitrylli fremur en hefðbundna lögguráðgátu?

  „Ég hef sjálf mjög gaman af því að lesa sálfræðitrylla og langaði þess vegna að prófa hvort það form hentaði mér,“ segir hún.

  „Ég er virkilega ánægð með viðbrögð lesend…“

  „Mig langaði til að reyna að ná til lesandans snemma í sögunni og halda honum spenntum allt til enda. Ég er virkilega ánægð með viðbrögð lesenda og hef heyrt marga segja að þeir hafi átt erfitt með að leggja bókina frá sér sem er nákvæmlega það sem ég stefndi að.“

  AUGLÝSING


  Hefur þú skrifað lengi?

  „Ég hef verið eitthvað að dunda við að skrifa frá því að ég var barn og unglingur, mest ljóð og einhverjar smásögur. Árið 2007 var ég í fæðingarorlofi með yngsta barninu mínu og fylltist miklum innblæstri. Ég dreif mig á námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum og eftir það var ekki aftur snúið. Ég fór að skrifa fleiri smásögur, gera tilraunir með lengri sögur og sækja önnur námskeið tengd skapandi skrifum. Að lokum skrifaði ég skáldsöguna Röskun.“

  Sagan gerist í kjallaraíbúð í Reykjavík. Ung framakona flytur inn í hana en fljótlega fer hún að hafa á tilfinningunni að einhver annar gangi um íbúðina og smám saman eykst óttinn og kvíðinn.

  Langar að skrifa fleiri spennusögur

  Má vænta fleiri bóka og er þá planið að halda áfram að skrifa sakamálasögur?

  „Ég stefni að því að halda skrifunum áfram, ég er komin með nokkrar hugmyndir sem ég er að vinna úr. Það væri óskandi að geta gefið út bók á eins til tveggja ára fresti en tíminn verður að leiða í ljós hversu vel það gengur með fram fullri vinnu. Ég sé fyrir mér að halda mig við spennusögur, ég hafði mjög gaman af því að skrifa Röskun.“

  Hver er uppáhaldsrithöfundurinn þinn?

  „Það er erfitt að nefna einn rithöfund, ég held upp á svo marga. Í fagurbókmenntum langar mig að nefna Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem skapar svo ljóslifandi persónur og Jón Kalmann Stefánsson sem skrifar einstaklega fallegan texta. Í spennusögunum er það Stephen King sem heillar mig mest, hann heldur lesandanum á tánum með góðri uppbyggingu spennu.“

  Áttu þér einhverja fyrirmynd í hópi glæpasagnahöfunda?

  „Ég lít upp til svo margra rithöfunda en úr hópi glæpasagnahöfunda langar mig að nefna Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson. Þau sinna bæði glæpasagnaskrifum með fram vinnu og það má kannski segja að þau hafi rutt brautina fyrir aðra í þeim efnum. Það þykir ekkert tiltökumál lengur að fólk upphugsi glæpi í frístundum sínum og sé jafnframt fagmenn sem takandi er mark á í sínu starfi. Þau eru líka mjög dugleg við að hvetja nýja glæpasagnahöfunda áfram sem er sérlega lofsvert,“ segir Íris Ösp að lokum og aðdáendur hennar hlakka áreiðanlega til að sjá meira efni frá henni.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum