2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ekki má vanmeta meðfætt fegurðarskyn barna

  Líklega vilja flestir ungir foreldrar að börn þeirra kynnist heillandi heimi bóka, sérstaklega ef þeir eru sjálfir bókaunnendur. Hjónin Sverrir Norland og Cerise Fontaine falla sannarlega í þann flokk en þau ganga lengra en flestir aðrir. Þau stofnuðu eigin bókaforlag til að tryggja að barnið þeirra og önnur íslensk börn fái að kynnast eftirlætisbókunum þeirra. AM forlag býður í dag upp á nokkrar vel valdar og vandaðar bækur og útgáfan er alltaf að vaxa.

  Hjónin Sverrir Norland og Cerise Fontaine. Mynd / Hákon Davið Björnsson

  Það er vel í lagt að stofna eigið forlag bara til að koma á framfæri skemmtilegustu barnabókunum sem maður þekkir. Hvernig kom það til?
  „Vegna þess að við elskum bækur!“ segir Cerise.

  „Bækur hafa alltaf verið miðlægar í lífi okkar beggja svo að það kom eiginlega svolítið af sjálfu sér,“ bætir Sverrir við. „Við höfum bæði alltaf lesið mikið. Mér skilst af tengdaforeldrum mínum úti í París að Cerise hafi eytt barnæskunni með nefið í bók. Sjálfur tók ég snemma að skrifa og teikna mínar eigin sögur og fylgdi þá mjög framúrstefnulegum stafsetningarreglum. Bækur – og sögur – hafa því alltaf fylgt okkur.“

  Kröfuhörð á innihald og útlit bóka
  „Við löðumst líka að bókum sem áþreifanlegum hlutum, sem er mikilvægt að nefna í okkar stafrænu veröld,“ heldur Cerise áfram. „Sverrir er rithöfundur og ég hef starfað við bókaútgáfu í bæði Frakklandi og Bandaríkjunum og einnig í listasöfnum og galleríum og meðal annars komið þar að útgáfu listaverkabóka. Við erum því kröfuhörð á bæði innihald og útlit bókanna.

  AUGLÝSING


  Þegar Alma, dóttir okkar, fæddist rann upp fyrir okkur að íslenskar bækur handa börnum voru ekki aðgengilegar í því magni og oft ekki í þeim gæðaflokki sem við hefðum kosið. Okkur langaði að geta lesið fyrir Ölmu spennandi og hugvíkkandi sögur með hrífandi teikningum sem prentaðar væru á úrvalspappír – og það á íslensku ekki síður en á ensku og frönsku. Úr varð að við ákváðum að ýta sjálf úr vör forlagi sem hefði slíkt markmið. Við hefjum leik með íslenskum útgáfum af völdum eftirlætisverkum okkar. Íslensk bókaútgáfa er ótrúlega kröftug og fjölbreytt, en okkur fannst engu að síður eins og hér og þar leyndust gloppur og þar með tækifæri sem okkur langaði að kanna.“

  „Við höfum ólíka styrkleika og hæfileika sem nýtast vel í samvinnu. Og okkur finnst gaman að vinna saman: við höfum svipaðan smekk sem þó er nógu ólíkur til að það verði áhugaverður núningur.“

  „Við höfum víðtæka reynslu úr útgáfu og góðan hóp vina og vandamanna sem stendur við bakið á okkur og þar er til staðar öll sérþekking og rúmlega það; yfirlestur, uppsetning, hönnun, ljósmyndun, kynningarstarf, klapplið o.s.frv. Ég held að það endurspeglist í útgáfunni að við gerum þetta af metnaði og ástríðu,“ segir Sverrir með áherslu.

  Löngu tímabært að Tomi Ungerer kæmi til Íslands
  Alma er í dag tveggja og hálfs árs en þegar hún fæddist voru þau búsett í New York. Síðastliðið ár nýttu þau til að ferðast en settust nýlega að í Reykjavík. Meðan á ferðalaginu stóð undirbjuggu þau útgáfu þriggja fallegra bóka sem nefnast Máni, Ræningjarnir þrír og Tröllið hennar Sigríðar. Þetta eru sígildar barnabækur eftir hinn margverðlaunaða Tomi Ungerer, sem bæði semur sögurnar og teiknar myndirnar. Þetta er í fyrsta skipti sem verk eftir hann koma út á íslensku. Ykkur langaði að deila bókum Ungerer með öðrum. Hvað er svona töfrandi við þessar bækur?

  „Tomi Ungerer var algjörlega magnaður listamaður og skipar í mínum huga sömu úrvalssveit og hin dáða Tove Jansson okkar hér á Norðurlöndum, Astrid Lindgren og H.C. Andersen,“ segir Sverrir. „Hann bæði teiknaði og skrifaði bækurnar og samdi um hundrað og fimmtíu á löngum ferli, sumar eru reyndar enn óútgefnar. Sögurnar hans ólga ævinlega af mikilli hugmyndakynngi og sköpunargleði svo að lesendur á öllum aldri – þriggja til hundrað og þriggja ára – breytast sjálfir í hugmyndaríka listamenn á meðan á lestrinum stendur og varðveita vonandi andagiftina enn þá lengur, jafnvel í slíku magni að þeir taki sjálfir að skrifa og teikna sögur.“

  Fullt af sígildum sagnaminnum en koma á óvart

  „Tomi er mjög þekktur í Frakklandi, bækurnar hans eru sígildar þar og allir þekkja þær,“ segir Cerise. „Þær ferðast líka auðveldlega yfir landamæri. Þær hefjast oft eins og þjóðsögur með sígildum sagnaminnum – þar úir og grúir af ræningjum, tröllum, köstulum, litlum stúlkum með ljósa lokka – en svo þróast ekkert með þeim hætti sem lesandinn sá fyrir í upphafi. Á heimsvísu hafa bækurnar hans komið út á fleiri en tuttugu tungumálum. Það var því löngu orðið tímabært að þær bærust til Íslands.“

  „Ég held að Tomi hafi gjörbreytt því hvernig barnabækur 20. aldarinnar voru skrifaðar. Hann sýnir börnum aldrei dauðhreinsaðan og falskan heim, þar sem allar sögupersónur eru einfaldar, flatar og hamingjusamar. Hann ber mikla virðingu fyrir börnum, veit að þau eru miklu skynugri en hinir fullorðnu vilja oft viðurkenna, og hann er óhræddur við að draga upp mynd af flókinni veröld, takast á við myrkari hliðar tilverunnar,“ segir Sverrir.

  „Hann sagði einhvern tíma að mikilvægt skapgerðareinkenni á öllum börnunum í sögunum sínum væri að þau væru alltaf óttalaus. Það finnst mér góð athugasemd og í bókunum sem við gefum út núna koma til að mynda fyrir tvær afar sterkar stelpur sem hafa úrslitaáhrif á framvindu sögunnar. Lesendur þurfa að alast upp með sterkum kvenpersónum og karlpersónum auðvitað líka. Við þurfum að trúa því að við getum haft jákvæð áhrif á heiminn og það verður sífellt mikilvægara að hafa það í huga, nú þegar ungu kynslóðirnar standa frammi fyrir svo stórum áskorunum,“ bætir Cerise við.

  Vilja að bækurnar segi skemmtilegar sögur

  En hvað er góð barnabók? „Það er góð spurning!“ segir Cerise. „Í góðri barnabók gegna bæði saga- og orðanotkun lykilhlutverki. Við viljum að bækurnar okkar segi skemmtilegar sögur á fallegri íslensku. Texti í barnabók dregur oft dám af ljóðlist; hann virðist einfaldur en hvert orð er engu að síður valið af kostgæfni og þjónar hlutverki bæði í því að að ýta áfram framvindunni en einnig hljóðrænt því barnabækur eru svo oft lesnar upphátt. Þær bestu geyma því framúrskarandi sagnalist og einnig tónlist og myndlist. Við viljum að myndskreytingarnar séu örvandi og fallegar og bækurnar sjálfar fagrar á að líta, fagmannlega prentaðar á endingargóðan og vandaðan pappír.“

  „Börn eru kröfuharðir lesendur,“ segir Sverrir, „og hafa meðfætt fegurðarskyn sem við ættum aldrei að vanmeta. Við viljum að það sé ánægjulegt að horfa á bækurnar okkar, handleika þær, lykta af þeim. Nú þegar skjáir eru alls staðar er sérstaklega mikilvægt að bjóða börnum upp á bækur sem eru spennandi og örvandi fyrir hugarflugið og sköpunarkraftinn en veita um leið kyrrð, ró, hægara tempó, áþreifanlega reynslu. Loks finnst okkur nauðsynlegt að segja fjölbreyttar sögur um fjölbreytt fólk af alls konar uppruna. Það mun endurspeglast í frekari útgáfu.“

  Bókmenntir heimsins magnað samvinnuverkefni

  Tomi Ungerer fæddist árið 1931 í Strassborg í Frakklandi og lést 2019. Hann var framleiðsluglaður og frumlegur listamaður. Teikningarnar hans voru í senn einfaldar – penni, svart og litað blek – og útpældar og snjallar, skreyttar óvæntum smáatriðum og hugviti. Sverrir, þú ert rithöfundur. Hefði ekki verið einfaldast að skrifa bara sjálfur þær bækur sem þú vildir að Alma fengi að njóta?

  „Ég held að ég sjálfur, sem bæði höfundur og manneskja, sé bútasaumsteppi úr öllum bókunum sem ég hef lesið; sögum, ljóðum, öðrum hugmyndaríkum textum. Að kynna Ölmu höfund eins og Tomi Ungerer, sem stendur mér svo nærri að hann er einhvern veginn samanfléttaður inn í hugsunarheim minn og eins hjartastað, er að kynna sjálfan mig fyrir henni,“ svarar hann og brosir. „Bókmenntir heimsins eru magnaðasta samvinnuverkefni mannkyns fyrr og síðar. Það eru til svo margar undursamlegar bækur sem aldrei hafa borist til Íslands, og það er yndislegt að geta snarað völdum úrvalsverkum yfir á móðurmálið okkar fallega og unnið þannig starf sem ég tel að sé mikilvægt samfélagslega. Staða þýðandans er líka á vissan hátt auðmýkri en höfundarins, sem er kærkomið. Í framtíðinni væri gaman að gefa út barnabækur frumsamdar á íslensku en til að byrja með langar okkur að sækja í þann mikla fjársjóð sem þegar er til úti í hinum stóra heimi.“

  Hafið þið sem sagt hugsað ykkur að víkka út útgáfuna, þ.e. gefa út bækur fyrir fullorðna líka? „Ekki spurning,“ segir Cerise. „Við erum með augastað á nokkrum. Vonandi gerist það í náinni framtíð.“

  Bæta hvort annað upp

  Hverjir eru kostirnir við að vera einyrkjar og frumkvöðlar í nýsköpun og vinna saman?

  „Við höfum ólíka styrkleika og hæfileika sem nýtast vel í samvinnu. Og okkur finnst gaman að vinna saman: við höfum svipaðan smekk sem þó er nógu ólíkur til að það verði áhugaverður núningur,“ segir Cerise.

  „Ég get verið hvatvís, það flæðir eitthvað frá mér og svo er ég rokinn í næstu hugmynd; Cerise er hins vegar yfirveguð og skipulögð, listaflink í að útfæra hugmyndir á besta mögulegan hátt. Hún er líka frábær hönnuður,“ bætir Sverrir við.

  „Það skemmtilega við að koma að útgáfunni á öllum stigum er að við erum með puttana í öllum smáatriðum – og þar sem við höfum sterkar skoðanir á hverju einasta þeirra, hönnun bókanna, innihaldi og svo framvegis,“ skýtur Cerise inn í. „Við viljum til dæmis að bækurnar okkar séu af hóflegri stærð og að verðið sé sanngjarnt. Við lítum svo á að barnabækur eigi ekki að vera dýr munaðarvara og eins viljum við að auðvelt sé að bera þær á sér í dagsins önn – og lesa uppi í rúmi á þægilegan hátt. Við viljum að vandvirknin og ástríðan skíni alls staðar í gegn: Við vöndum okkur við að pakka inn bókunum, svörum öllum pöntunum sem við fáum með persónulegum hætti og höfum gaman af því að læða óvæntum glaðningi með í sendingar. Eins finnst okkur gaman að vinna í samstarfi með uppáhaldsbókabúðunum okkar.“

  Föndur, bækur, kökur og krakkar

  Er eitthvað á döfinni hjá ykkur á næstunni? „Já, við höfum verið að skipuleggja spennandi viðburði sem haldnir verða í nóvember og desember; þá fara fram upplestrar og við föndrum með krökkum, teiknum, borðum köku, allir velkomnir! Við verðum á bókamessunni í Hörpu, barnabókamessunni í Laugardalnum og víðar. Lesendur ættu endilega að fylgja okkur á Instagram og Facebook svo að viðburðirnir fari ekki fram hjá þeim og eins að skrá sig á póstlistann okkar á heimasíðu AM forlags til að fá nýjustu fréttir af útgáfunni.

  Við erum einnig að undirbúa vorútgáfuna. Þá kemur út ein þekktasta barnabók tuttugustu aldar hjá okkur, vinsælt verk og mikill heiður að gefa það út hér. Hin bókin, sem við gefum út næsta vor, er minna þekkt en ekki síður yndisleg. Það er hrífandi saga handa ungum börnum, með fallegum teikningum, bæði skrifuð og teiknuð af japanskri listakonu sem býr í Frakklandi. Í framtíðinni langar okkur svo að opna rými í Reykjavík sem helgað yrði barnabókum og þar sem einnig yrði boðið upp á vinnustofur fyrir krakka,“ segir Cerise að lokum. Frekari upplýsingar má finna á amforlag.com.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum