2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Er alltaf á fjöllum“

  Guðrún Ragna Hreinsdóttir er alin upp við útivist og gengur á fjöll allt árið um kring. Hún hefur bæði gengið á fjöll hér heima og erlendis og fór meðal annars í grunnbúðir Everest árið 2016. Hún kolféll fyrir landi og þjóð þegar hún dvaldi í Nepal og segist hafa skilið eftir lítinn hluta af hjartanu þar.

   

  Fyrir um það bil tólf árum segist Guðrún Ragna hafa verið farin að fara reglulega í göngur og aðallega á sumrin en síðastliðin sjö ár hafi hún hins vegar verið mjög virk í fjallgöngum allan ársins hring. „Mér finnst æðislegt að vera á fjöllum á veturna og fjallaloftið svo ferskt. Það er oft auðveldara að ganga á frosinni jörð og mér finnast fjöllin aldrei fallegri en þegar það er kominn í þau snjór því þá verða andstæðurnar svo miklar. Maður þarf bara að vera rétt búinn, bæði varðandi klæðnað og annan útbúnað.“

  Gott að fá tilfinningu fyrir fjöllunum

  Fyrir byrjendur í fjallgöngum, eða þá sem langar að byrja segir Guðrún Ragna að það borgi sig að byrja á réttum stað og ætla sér ekki of mikið í upphafi. „Það er gott að byrja á fjöllum eins og Mosfelli, Úlfarsfelli og Helgafelli, byggja upp þol, finna hvað maður ræður við, fá tilfinningu fyrir fjöllunum og læra inn á aðstæður. Ég mæli líka með því að vera í gönguhóp. Það er frábær leið til að byrja að stunda útivist og maður getur einbeitt sér að því að njóta útiverunnar án þess að þurfa að bera sjálfur ábyrgð á leiðarvali.“

  AUGLÝSING


  Hún segir góða gönguskó vera mikilvæga og gott sé að venja sig á að vera með bakpoka með aukapeysu og vatnsheldum flíkum því veðrið geti breyst á skömmum tíma. „Svo er mikilvægt að hafa smávegis nesti og eitthvað að drekka, því það er slæmt að verða orkulaus. Svo finnst mér gott að nota göngustafi, þeir minnka til dæmis álag á hné og geta veitt góðan stuðning í brekkum. Á veturna er nauðsynlegt að hafa höfuðljós og brodda meðferðis.“

   „Það er gott að fá tilfinningu fyrir fjöllunum og læra inn á aðstæður.“

  Hluti af hjartanu varð eftir í Nepal

  Árið 2016 fór Guðrún Ragna til Nepals þar sem hún gekk upp í grunnbúðir Everest. „Himalayafjöllin eru stórfengleg, fólkið einstakt og mér fannst ég hafa skilið eftir lítinn hluta af hjartanu í Nepal þegar ég fór heim. Eftir þessa ferð stofnaði nafna mín og vinkona, Guðrún Harpa, Íslandsdeild samtakanna Empower Nepali Girls sem styrkja nepalskar stúlkur til náms og ég er í stjórn þeirra samtaka.“

  Markmið samtakanna er að efla og styðja ungar stúlkur í Nepal til náms. „Nepal er eitt af fátækustu ríkjum heims og talið að ár hvert séu yfir tíu þúsund nepalskar stúlkur seldar í kynlífsþrælkun, neyddar barnungar til giftingar eða yfirgefnar á annan hátt. Við höfum síðustu ár staðið fyrir fjáröflunarviðburðinum Mitt eigið Everest á Úlfarsfelli og með þessum viðburðum, áheitasöfnun í Reykjavíkurmaraþoni og mánaðarlegum framlögum frá góðhjörtuðum Íslendingum höfum við getað styrkt margar stúlkur til náms.“

  Árið 2017 fór Guðrún Ragna aftur til Nepals og gekk þá í grunnbúðir fjallsins Annapurna. „Eftir þá göngu fórum við í heimsókn í barnaskóla í Kathmandu þar sem við hittum margar stúlkur sem eru styrktar af samtökunum, bæði grunnskólastúlkur og eldri sem eru komnar í menntaskóla og háskóla og eru frábærir talsmenn samtakanna. Mér finnst góð tilfinning að geta lagt eitthvað af mörkum sem hefur góð og mikilvæg áhrif. Íslenskar krónur margfaldast í Nepal þar sem fátæktin er mikil. Það er því miður ekki hægt að segja að jafnrétti ríki í Nepal en með því að fleiri stúlkur fái menntun breytist það vonandi.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum