2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Fólk er svo auðmjúkt og gott hvert við annað“

  Elenora Rós Georgsdóttir var alinn upp við mikinn heimabakstur og hjálpaði móður sinni oft að baka þegar hún var ung að aldri. Hér gefur hún uppskrift að köku sem hún bakaði fyrir jólin eitt árið og hitti beint í mark.

  Elenora Rós Georgsdóttir.

  „Ég er alin upp við mikinn heimabakstur og hjálpaði mömmu oft að baka strax við ungan aldur. Ég byrjaði svo að baka ein þegar ég var svona tíu ára en hóf svo minn feril þar sem ég byrjaði að selja kökur og vinna í bakaríi fimmtán ára gömul,“ segir Elenora Rós, spurð að því hvenær hún hafi byrjað að baka.

  Á kakan sem þú gerðir einhverja sögu? „Jólasleikjóar eru eitthvað sem ég held að fái bókstaflega alla til að hugsa til jólanna þegar þeir sjá þá. Hvítt súkkulaði, bismark-brjóstsykur og vanillukaka var eitthvað sem mér fannst hljóma sjúklega vel þegar ég var að baka fyrir jólin eitt árið og sló rækilega í gegn.“

  Hvernig er jólaundirbúningnum annars háttað hjá þér? „Við byrjum yfirleitt að skreyta mjög snemma. Jólahátíðin er haldin hátíðleg lengi hjá okkur en ég á afmæli á Þorláksmessu, svo er aðfangadagur og á jóladag er alltaf matur hjá ömmu þar sem við fáum hangikjöt og öll stórfjölskyldan kemur saman. Desember er aldrei rólegur hjá mér og minni fjölskyldu. Ég held alltaf stóra afmælisveislu, svo eru allar klassísku hefðirnar varðandi að baka smákökur og njóta með fjölskyldunni. Þá er allt annað sem fylgir þegar maður er bakari, þ.e.a.s. allar útskriftarkökurnar og löngu vaktirnar í bakaríinu meðan jólatónlistin er leikin og ilmurinn af smákökum liðast um húsið.“

  AUGLÝSING


  Jólakaka
  Vanillubotnar
  500 g hveiti
  2 tsk. lyftiduft
  250 g smjör
  1 tsk. salt
  500 g sykur
  2 tsk. vanilludropar
  4 stk. egg
  350 ml mjólk

  Bræddur Bismark-brjóstsykur
  250 g rjómi
  1 poki bismark-brjóstsykur frá Nóa Síríus

  Bismark-Smjörkrem
  500 g smjör
  500 g flórsykur
  5 msk. brædur bismark-brjóstsykur, sjá aðferð
  2 tsk. vanilludropar

  Kakan góða.

  Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveiti, lyftiduft og salt í skál, hrærið létt saman og setjið til hliðar.
  Setjið smjör, sykur og vanilludropa í hrærivélarskál og hrærið þar til deigið er létt og ljóst. Svo eru eggin sett út í, eitt og eitt í einu og hrærið vel á milli. Látið hveitiblönduna varlega út í, ég set alltaf 1/3 í einu og hræri inn á milli þar til allt hveitið er komið saman við deigið. Og að lokum, bætið mjólkinni saman við og hrærið þetta saman. Smyrjið form og setjið deigið í formið. Bakið í um 40 mínútur við 180°C.

  Látið kökuna kólna vel og á meðan setjið bismark-brjóstsykurinn og rjómann í pott og bræðið saman við mjög lágan hita. Hér skiptir máli að fara ekki frá pottinum. Búið síðan til smjörkremið. Byrjið á því að þeyta smjörið í góðar 4-7 mínútur. Þegar smjörið er orðið létt og ljóst, bætið flórsykrinum út í og þeytið í nokkrar mínútur. Þegar komin er kremáferð á blönduna, bætið brædda bismark-brjóstsykrinum og vanilludropunum út í. Skerið botninn í tvennt og setjið smjörkrem og brædda bismark-brjóstsykurinn á milli botnanna. Skreytið síðan kökuna eins og þið viljið með smjörkreminu og öllu því sem ykkur dettur í hug.

  Myndir / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum