2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hafði fyrst engan sérstakan áhuga á sakamálum

  Hinn margreyndi fjölmiðlamaður Sigursteinn Másson er aftur kominn á stjá með syrpu af Sönnum íslenskum sakamálum, nú í Storytel en það er frumkvöðlafyrirtæki sem einbeitir sér að streymi hljóðbóka og að skila sem bestri rafrænni bókaupplifun.

  „Upphaflegu hugmyndina að röð íslenskra sakamálaþátta fyrir sjónvarp áttu forsvarsmenn kvikmyndafyrirtækisins Hugsjónar árið 1998. Þeir fengu mig þá til að semja handrit, vera umsjónarmaður og þulur að þáttaseríu undir heitinu Sönn íslensk sakamál fyrir sjónvarp. Þættirnir slógu eftirminnilega í gegn, fengu strax metáhorf og unnu til Edduverðlauna,“ segir Sigursteinn og brosir. „Bróðir minn, Arnar Þór Másson, var mér til aðstoðar og við fórum að skoða allskyns sakamál. Það hefur alltaf verið styrkleiki þáttanna hve fjölbreytt málin hafa verið og ég get sagt að á næstunni munu hlustendur heyra mjög ólík sakamál krufin í þáttunum. Fyrir utan morð- og manndrápsmál eru þetta mansals- og vændismál, vopnuð rán, stór fíkniefnamál sem og misnotkunar- og svikamál. Þættirnir eru sem sagt alfarið á Storytel og sem hljóðbókaseríur. Þeir koma út á mánudögum sem virðast koma mjög vel út sem vikulegir glæpasagnadagar, miðað við viðtökurnar.

  Hver þáttur er allajafna á bilinu 40-50 mínútur að lengd og verða 18 talsins fram á vorið. Gert er ráð fyrir allt að 18 þáttum til viðbótar næsta haust og fram í desember þannig alls gætu þættirnir á þessu ári því orðið 32.“

  En hvar finnurðu þessi sakamál? „Fyrstu 16 þættirnir eru blanda af endurgerðum þáttum sem áður voru framleiddir sem þættir fyrir sjónvarp undir heitinu Sönn íslensk sakamál þar sem efnistök eru á ýmsan hátt önnur sem og mál sem ekki hafa áður verið tekin til umfjöllunar. Ég legg áherslu á fjölbreytni málanna en einnig að umfjöllunin bæti einhverju við það sem áður hefur komið fram. Það er af nægu að taka.“

  AUGLÝSING


  Áskorun að takast á við nýjan miðil

  Þurftirðu að takast á við nýjar áskoranir við að miðla þessu efni? ,,Það er alltaf í sjálfu sér áskorun að takast á við sönn sakamál í hvaða formi sem er en í nær þrjá áratugi hefur vinna mín við fjölmiðla aðallega verið tengd sjónvarpi. Það er mjög ólíkt á margan hátt að vinna að heimildarþáttum þar sem myndefnið gegnir lykilhlutverki og svo aftur þar sem allt snýst um hljóðið. Það er mjög spennandi fyrir mig og mitt góða samstarfsfólk að vinna með þetta form, skapa hljóðmyndir fyrir hlustendur þar sem í raun þeir sjálfir eru við stjórnvölinn. Það er undir hverjum og einum hlustanda komið hvernig myndir hann býr til í huganum af fólki og atburðum með því að virkja ímyndunaraflið. Sveigjanleikinn er meiri en sjónvarp eða kvikmyndir geta gefið manni. Báðir miðlar eru ákaflega heillandi og ég finn mig í hvorutveggja en nú um stundir einbeiti ég mér að þessu áhugaverða verkefni með Storytel.“

  „Ég ætla að ljóstra því hér upp að ég hafði engan sérstakan áhuga á sakamálum þegar ég byrjaði að gera fyrstu þættina af Sönn íslensk sakamál 1998. Fyrir mér þá var þetta bara eins og hvert annað verkefni sem ég ætlaði bara að klára.“

  Sigursteinn svarar aðspurður að hlustendur á Storytel séu ákaflega þakklátur hlustendahópur. „Ég tek eftir því að aldurshópurinn sem hlustar á þættina er mjög breiður og jafnt konur sem karlar hafa haft samband við okkur og lýst ánægju sinni. Þetta er nýtt form líka fyrir mig sem ég er að kynnast og setja mig inn í. Hljóðbókin og hlaðvörpin eru í hraðri sókn og það er augljóst að tækifærin eru mörg. Fyrir mig skiptir mestu máli að vanda vel til verka og sýna hlustendum og viðfangsefninu fulla virðingu með því að undirbúa efnið vel og það er að skila sér í sterkum viðbrögðum áskrifenda.“

  Stundum koma nýjar upplýsingar fram

  Hvernig rannsakarðu málin, tekst þér að leysa þau öll? „Ég er ekki í því hlutverki að leysa sakamál. Það er hlutverk lögreglu og eftir atvikum saksóknara. Hins vegar hefur það gerst að óupplýst mál sem var til slíkrar umfjöllunar í sjónvarpsþætti leystist í framhaldi af sýningu þáttarins fyrir nokkrum árum. Vitni gaf sig fram sem án þáttagerðarinnar hefði kannski aldrei gert það. Við fjöllum um þetta mál og lausn þess í sjöunda og áttunda þætti. Tilgangur þáttagerðarinnar er öðrum þræði að varpa nýju ljósi á mál sem hefur kannski ekki fengið athygli eða umfjöllun áður og kafa dýpra í málin og persónurnar sem koma við sögu. Þegar ég ásamt félögum mínum vann að Aðför að lögum, um Geirfinns- og Guðmundarmál, gerðist það að við fundum fyrir tilviljun ný gögn, dagbækur Síðumúlafangelsisins, sem reyndust mikilvæg við ákvörðun endurupptöku málanna. Núna hefur það gerst við þáttagerðina hjá Storytel um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílsstjóra að upplýsingar eru að koma fram sem varpa nýju ljósi á það dularfulla 52 ára morðmál. Þetta er alls ekki eitthvað sem maður getur gert ráð fyrir að gerist í öllum óleystum málum en þegar nýjar uppgötvanir verða í tengslum við svona þáttagerð þá er það óneitanlega mjög spennandi.“

  En hvað er það sem þér finnst svona áhugavert og spennandi við að rannsaka sakamál? „Ég ætla að ljóstra því hér upp að ég hafði engan sérstakan áhuga á sakamálum þegar ég byrjaði að gera fyrstu þættina af Sönn íslensk sakamál 1998. Fyrir mér þá var þetta bara eins og hvert annað verkefni sem ég ætlaði bara að klára en smám saman runnu upp fyrir mér hinar mörgu og áhugaverðu hliðar mannlegrar tilveru sem endurspeglast í sakamálum. Ég hef mikinn áhuga á mannlegu eðli og hegðun, hvað það er sem fær okkur til að gera ákveðna hluti og hugsa eins og við hugsum. Í því tilliti eru sakamál sérlega áhugaverð. Sakamál endurspegla líka að sumu leyti þjóðfélagið á hverjum tíma. Það eru tískubylgjur í þessu eins og öðru og það er líka nokkuð sem hefur vakið áhuga minn.“

  Eru þetta ekki oft viðkvæm mál þar sem ættingjar og fleiri sem tengjast brotamanninum/mönnunum eru jafnvel enn á lífi? „Jú, það er sérstök áskorun að fást við sönn íslensk sakamál vegna smæðar samfélagsins. Nálægðin hér og tengslin gera það að verkum að málin verða oft viðkvæmari en í stærri þjóðfélögum. Þetta gat verið erfitt með sjónvarpið þar sem gerendur, fórnarlömb, vitni og aðstandendur veigruðu sér stundum við því að koma í viðtal en þetta er einfaldara þegar maður er bara að vinna með hljóð og fólk þarf ekki að óttast að þekkjast í Hagkaup um kvöldið. Með heimildaþáttunum um sakamál í gegnum árin held ég að ótti fólks við að koma fram í slíkum þáttum hafi minnkað. Gerendur jafnt sem fórnarlömb og aðrir átta sig í auknum mæli á að það að koma fram og segja frá, opna fyrir erfiða reynslu, getur styrkt viðkomandi á margan hátt. Þetta er eins og annað þegar fréttamennska er annars vegar að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er hin gullna regla og virði maður hana er margt hægt að gera og mörgu hægt að segja frá án þess að meiða nokkurn.“

  Texti / Unnur Hrefna Jóhannesdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum