2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Hjartað geymdi sársaukann“

  Friederike Berger er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi í nítján ár. Hún er meðal annars menntaður jógakennari og stofnaði fyrirtækið Hugarró þar sem hún kennir Kundalini-jóga og Sat nam Rasayan-núvitundarheilun. Hennar einlæga ósk er að gefa fólki von og hjálpa því að sjá að það er líf eftir áfall, grimmd og ofbeldi. Sjálf leitaði Friederike lengi að hugarró en hún varð fyrir kynferðislegri misnotkun sem barn sem hún segir hafa mótað uppeldisárin án þess að hún hafi gert sér grein fyrir því. Það var ekki fyrr en hún leitaði til dáleiðara sem sannleikurinn kom í ljós.

   

  Friederike ólst upp í smábæ í Þýskalandi, yngst þriggja systkina. Þegar faðir hennar hafði starfað sem prestur í bænum í fjórtán ár, eða alveg frá fæðingu yngstu dótturinnar, ákváðu foreldrar hennar að flytja í annan bæ sem var í um það bil fjögurra tíma akstursfjarlægð þaðan sem þau bjuggu áður. „Ég hafði átt erfitt með að tengjast félagslega og var loksins búin að eignast tvær mjög góðar vinkonur á þessum tíma svo það var mikið áfall fyrir mig að flytja,“ segir Friederike.

  Hún segist hafa orðið mjög reið yfir því að vera rifin úr sínu umhverfi þar sem hún hafði fundið fyrir öryggi og átti loksins góðar vinkonur sem hún treysti. „Ég var því reið og í uppreisn. Við flutningana fór öryggi mitt. Enginn spurði mig hvort ég væri sátt við að flytja; ég átti bara að vera glöð yfir því. Í dag sé ég líka að á þessum tíma var ég farin að glíma við áfallastreituröskun en ég áttaði mig ekki á því á þessum tíma. Og enginn í kringum mig heldur.“

  Dáleiðslan kallaði fram atburði úr æsku

  AUGLÝSING


  „Hér hef ég rými til að vera ég sjálf. Svo er náttúrufegurðin hér ótrúleg og það er stutt í náttúruna. Mér finnst æðislegt að búa á Íslandi.“

  Friederike flutti til Íslands þegar hún var nítján ára og hefur búið hér síðan. Hún segist iðulega vera spurð að því hvort hún hafi ákveðið að ílengjast hér vegna hestaáhuga eða af því að hún hafi orðið ástfangin en hún hlær og segir hvorugt ástæðuna. „Ég einfaldlega var bara mjög hrifin af landinu og langaði að prófa að búa hér. Ég vildi líka komast frá Þýskalandi. En ég hafði séð myndir frá Íslandi sem ég hreifst af svo ég réði mig hingað sem au-pair. Eftir að samningi mínum lauk fór ég aftur út til Þýskalands en eyjan í norðri kallaði á mig og hingað kom ég aftur til að vinna í sveit.“

  Þegar Friederike var 25 ára kynntist hún manninum sínum, Sverri. Hún segist muna eftir því að hafa minnst á það við hann að hún hefði orðið fyrir einhverju ofbeldi í æsku sem hún myndi þó bara í litlum brotum. „Ég mundi eftir kynferðisofbeldi sem ég varð fyrir þegar ég var fimm og sjö ára en mér fannst eins og minningarbrot væru að koma fram um eitthvert ofbeldi frá því ég var þriggja ára. Ég mundi eftir einhverju en vissi ekki nákvæmlega hvað það var og hvað hafði gerst. Þegar ég eignaðist svo dætur mínar með tveggja ára millibili fór líkamsminnið af stað og ég fór að fá alls konar endurlit og muna eftir ýmsu varðandi ofbeldið, en bara í svona litlum brotum. Ég hélt hreinlega að ég væri kannski að missa vitið.“

  Friederike ákvað því að prófa að fara í dáleiðslu og þá fóru púslin að leggjast saman og mynda heild. „Í dáleiðslunni sá ég skýrt hvað hafði komið fyrir mig þegar ég var barn. Og þótt það hafi verið mjög erfitt að rifja þetta upp og sjá þetta svona skýrt, þá var gott að fá staðfestingu á því að þetta var ekki ímyndun og ég var ekki að verða geðveik.“

  Heilinn nær ekki utan um þessa grimmd
  Þegar Friederike var þriggja ára fóru foreldrar hennar í frí og skildu hana eftir heima ásamt systur hennar sem var tíu ára, og bróður sem var tólf ára, í umsjá vinahjóna þeirra. „Við systkinin vorum öll sammála um að þessi hjón væru mjög einkennileg og vorum ekki ánægð með að vera skilin eftir í þeirra umsjón. Og þau misnotuðu mig kynferðislega allan tímann. Þau vöktu mig á nóttunni og fóru með mig fram,“ segir Friederike og þagnar um stund og þerrar tárin.

  „Þetta er auðvitað svo hræðileg minning að heilinn bara lokar á þetta. Systkini mín voru auðvitað líka bara börn en þau áttuðu sig á því að þetta var eitthvað skrýtið. Hjónin vildu til dæmis alltaf að ég legði mig á daginn, sem ég var alls ekki tilbúin til að gera enda orðin þriggja ára og hætt að sofa á daginn. En þau neyddu mig til þess að fá mér blund í hádeginu og ég man eftir að hafa grátið og farið í algjört panikk. Systkini mín reyndu að vera hjá mér til að róa mig en allt kom fyrir ekki. Ég veit núna að þetta var ómeðvituð tenging við það að vera dregin fram úr á nóttunni …“
  Í dáleiðslunni sá Friederike nákvæmlega hvað hafði átt sér stað í stofunni heima í Þýskalandi en við hlífum lesendum við þeim lýsingum. Upprifjunin tekur á, eðlilega, og blaðamaður getur ekki varnað tárunum frá því að koma fram þegar Friederike heldur áfram: „Maður skilur ekki þessa grimmd í fólki. Að geta gert þriggja ára barni þetta … Eins og ég segi, þá hefur heilinn bara lokað á þessar minningar því þetta er auðvitað svo hryllilegt en líkaminn geymdi þær allar. Og á meðan ég sá aðrar minningar í lit í dáleiðslunni voru þessar svarthvítar; þær voru greinilega grafnar svo ofboðslega djúpt. Heilinn nær ekki utan um svona lagað, utan um þessa grimmd. Þetta sprengir svolítið skilningsrammann í manni og þess vegna lokaði heilinn á þetta í 29 ár. En hjartað geymdi sársaukann.“

  Þegar foreldrar Friederiku sneru aftur heim segist hún hafa hlaupið í fang móður sinnar og ekki viljað sleppa henni. Og þótt heilinn hafi lokað á hryllinginn og hún ekki munað nákvæmlega eftir atburðunum segir hún að sér hafi aldrei liðið vel nálægt hjónunum eftir þetta. „Ég man til dæmis eftir því að einu sinni var ég hjá móðurömmu minni þegar þau komu þangað í heimsókn og ég fór ekki úr fanginu hennar allan tímann, nema þegar mér var skipað að knúsa hjónin og þakka fyrir bangsa sem þau færðu mér að gjöf. Mér þótti vænt um alla bangsana mína og svaf með þá, en þessi tiltekni bangsi var alltaf bara lengst úti í horni og fékk ekki að koma nálægt rúminu mínu. Ég man líka eftir því að þau heimsóttu okkur eftir að við fluttum og mér leið alveg rosalega illa og var illt í maganum. Ég gat gat samt ekki útskýrt hvers vegna þótt ég viti í dag hver ástæðan hefur verið fyrir vanlíðaninni.“

  Hefur eiginlega misst fjölskylduna sína í Þýskalandi
  Eftir tímann í dáleiðslunni þar sem þessar hræðilegu minningar komu upp á yfirborðið, leitaði Friederike til Stígamóta þar sem hún segist hafa mætt miklum skilningi og loksins fengið hjálp. En auk þess sem hún var að vinna úr þessum atburðum sem gerðust þegar hún var þriggja ára, var hún líka að glíma við afleiðingar af kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir þegar hún var fimm ára og sjö ára.

  Fyrra atvikið gerðist heima hjá vinkonu móður hennar sem átti son sem var átta árum eldri en Friederike. Hún segist hafa orðið mjög hrædd þegar hún áttaði sig á því hvað hann var að reyna að gera og náði að komast út úr herberginu og hlaupa til móður sinnar. „Þær vinkonurnar voru að spjalla og vildu endilega að ég færi aftur inn til hans og skildu ekkert í því að ég harðneitaði því. Og þótt hann hafi ekki náð að ganga alla leið, man ég bara hvað ég var hrædd; hjartað barðist svo hratt í brjósti mér. Og vanlíðanin var mjög mikil.“

  Þegar Friederike var sjö ára varð hún fyrir misnotkun af hendi bróður síns, sem var þá sextán ára. „Ég var reyndar svo heppin, ef svo má segja, að dyrabjallan hringdi áður en hann gat klárað. En ég man að það síðasta sem hann sagði var: %ITALIC: „Við höldum áfram seinna.“ Ég fór að forðast að vera ein með honum eftir þetta. En þetta er flókið. Þetta var bróðir minn, sem ég leit upp til. Hann var að mörgu leyti fyrirmyndin mín; mér fannst hann sterkur einstaklingur sem fór sínar eigin leiðir og fólk skildi kannski ekki, eftir að ég fór að segja frá því hvað gerðist, af hverju ég var honum náin eftir þetta. Því við vorum náin systkinin en hann reyndi þó að koma upp á milli mín og systur minnar; við vorum nánar og hann vildi það ekki. Ég hugsa að það sé að vissu leyti aðeins flóknara þegar svona gerist innan fjölskyldunnar,“ segir Friederike hugsi. „Ég til dæmis hef mjög lítið samband við foreldra mína í dag og hef eiginlega misst fjölskylduna mína í Þýskalandi.“

  Sárt að finna ekki stuðning
  Áður en Friederike leitaði til Stígamóta sendi hún bréfpóst til foreldra sinna, systur sinnar og guðmóður þar sem hún sagðist hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu bróður síns og að hún ætlaði að fara að vinna úr því. „Það fór alls konar ferli í gang,“ segir Friederike.

  „Foreldrar mínir fóru í hálfgerða afneitun; vissu kannski ekki hvað þau ættu að segja. Systir mín fór í panikk yfir því að missa okkur bæði, mig og bróður okkar, og hún tók enga afstöðu, hvorki með mér né honum. Það var sárt. Ég hefði viljað heyra að ég gæti leitað til hennar og heyra að henni þætti vænt um mig. Guðmóðir mín var sú eina sem stóð nokkurn veginn með mér. Pabbi sagði ekki neitt, hann tjáði sig ekkert um þetta. Mamma virtist trúa mér í fyrstu en svo sagðist hún hafa talað við heimilislækninn okkar, sem tengist fjölskyldunni og ég þekki mjög vel. Hún sagði hann hafa sagt að maður þyrfti nú að passa sig á að tala um kynferðisofbeldi úr því að engin nauðgun hafi átt sér stað. Það var eins og hníf hefði verið stungið í hjartað mitt,“ segir Friederike og tárin renna niður kinnarnar. Við tökum okkur stutt hlé áður en hún er tilbúin að halda áfram.

  „Það var alveg ofboðslega sárt að finna að fjölskyldan mín var ekki tilbúin að sýna mér stuðning. Það er í rauninni enginn skilningur á þessu af þeirra hálfu. Sumarið eftir að ég sagði þeim frá þessu fór ég í frí til Þýskalands með manninum mínum og dætrum okkar og bróðir minn lét skíra barnið sitt á sama tíma. Ég treysti mér ekki til að fara í skírnina og enginn skildi í því; foreldrum mínum fannst fáránlegt af mér að láta svona, ég yrði að mæta í skírnina og botnuðu ekkert í því þegar ég sagðist ekki geta farið. En ég komst í gegnum þessa Þýskalandsferð án þess að hitta bróður minn sem skildi auðvitað ekki neitt í því heldur, þar sem ég var þá ekki búin að tala við hann um að ég væri að vinna úr kynferðisofbeldinu. Og enginn áttaði sig á því hvers vegna við töluðum ekki bara saman; fólk virtist ekki skilja að ég var bara logandi hrædd við hann.“

  Um hálfu ári síðar sendi Friederike bróður sínum bréf þar sem hún sagðist meðal annars muna eftir þessu ofbeldi sem hann beitti hana þegar hún var sjö ára. Hún sagðist ekki vilja ásaka hann, heldur bara láta hann vita af því að hún væri búin að segja frá þessu og væri að vinna í sínum málum. „Ég sagði að þetta útskýrði svolítið hvernig líf mitt hefði verið fram að þessu. En hann hefði ekki völd yfir mér lengur og ég vildi bara koma þessu frá. Ég fékk stutt og mjög harðort bréf til baka þar sem hann sagði að það væri gott að ég hafi fundið mig sem fórnarlamb og ástæðu fyrir öllu því slæma í mínu lífi sem hefði mistekist. Ég var auðvitað ekki að meina að líf mitt væri misheppnað; ég var bara að lýsa minni vanlíðan í áfallastreitu. Ég var búin að ljúka háskólanámi, þar á meðal framhaldsnámi í sérkennslu, sem mér finnst ekki benda til mislukkunnar,“ segir Friederike og brosir smávegis út í annað.

  „En hann sagði að í sínum augum væri ég dauð og það þýddi ekkert fyrir mig að reyna að hafa samband við hann aftur; hann myndi hvorki opna frá mér tölvupósta né bréf og hvað þá svara símtölum frá mér. Og ég veit að þá verður það bara þannig. Hann er ofboðslega fastur fyrir og hlutirnir eru annaðhvort svartir eða hvítir. Þannig að ef hann segir að ég sé dauð fyrir sér þá er það bara þannig. Svo sendi konan hans, sem hafði verið besta vinkona mín þegar ég bjó í Þýskalandi, mér líka langt bréf þar sem hún sagðist meðal annars vorkenna börnunum mínum, ég væri geðveik og dauð í hennar augum.“

  Tóku afstöðu með bróðurnum
  Árið eftir komu foreldrar Friederike í heimsókn til Íslands og hún segir að sér hafi virst þau búin að jafna sig. „Við fórum í sumarbústað og ég man að mér leið eins og ég væri loksins búin að finna það sem ég hefði þráð að finna frá mömmu minni frá því ég var barn. Þarna sýndi hún mér, eiginlega í fyrsta sinn, hlýju, móðurást og skilning. Svo ári seinna komu þau aftur en þá var hún greinilega búin að tala við bróður minn og búin að taka afstöðu með honum. Ég vil að mín upplifun og mínar tilfinningar séu viðurkenndar en skilaboðin sem ég fæ eru þau að þetta hafi verið eitt skipti og hann bara verið unglingur. Einnig að hann hefði ekki haft val því konan hans hefði sótt um skilnað að hans sögn og að móðir mín voni að við systkinin munum nú takast í hendur við jarðarför þeirra pabba þegar að því kemur … Þarna brotnaði ég alveg saman. Ég man að um kvöldið fór ég í bíó með manninum mínum og ég grét allan tímann í bíó og í bílnum. Um kvöldið lá ég bara í rúminu og grét og sagði við manninn minn að mig langaði ekki að lifa lengur. Samt átti ég tvær yndislegar dætur og yndislegan mann,“ segir Friederike og lítur á blaðamann. „Ég missti lífsviljann þarna. En sem betur fer bara í smástund.“

  Friederike segir að það sé líf eftir áfall, grimmd og ofbeldi.

  Aðspurð hvernig sambandið við foreldra hennar sé í dag, svarar Friederike að hún geri það aðallega fyrir dætur sínar að hafa samband við þau: „Þær tala aldrei um ömmu og afa og ef þær vilja ekki hafa samband við þau ætla ég ekki að neyða þær til þess. Þær fóru einu sinni einar til Þýskalands þar sem þær dvöldu hjá foreldrum mínum. Þeim fannst margt skrýtið þarna úti og ég var fegin því að þær sáu að þau eru ekki fullkomin því fjarlægðin gerir oft fjöllin blá, en þarna sáu þær sjálfar að þetta var ekki alveg eðlilegt ástand. Foreldrar mínir og fjölskylda er ekki vont fólk en það er bara svo margt óheilbrigt í gangi. Og það smitast auðvitað út í andrúmsloftið. Hvað mig varðar er löngunin til að vera í sambandi við fjölskylduna mína í Þýskalandi mjög lítil; djúpar tengingar eru ekki lengur til staðar því það er svo mikið ósætti í loftinu.“

  Og það er greinilegt að þetta er búið að hafa mikil áhrif á öll samskipti innan fjölskyldunnar. Friederike segist meðal annars ekki hafa verið viðstödd jarðarför ömmu sinnar, sem henni þótti vænt um, þar sem hún vildi ekki hitta bróður sinn. „Og við fórum ekki í 75 ára afmælisveislu pabba, þótt við værum úti í Þýskalandi á þeim tíma. Geturðu ímyndað þér hvernig andrúmsloftið hefði verið?“ spyr hún blaðamann sem kinkar kolli. „Auðvitað hefði ég getað mætt og forðast bara bróður minn en hverjum hefði verið greiði gerður með því? Andrúmsloftið hefði ekki verið afslappað og þetta hefði haft áhrif á alla. Fjölskyldan er bara brotin og það er ekki hægt að laga þetta. Það er of seint að ætla að fara að byggja upp eitthvert traust úr því sem komið er.“

  „Maður verður að vinna úr hlutunum“
  Friederike segir að foreldrar hennar hafi ekki rætt málin við hjónin sem misnotuðu hana þegar hún var þriggja ára. Og ekki unglinginn sem beitti hana kynferðisofbeldi þegar hún var fimm ára, en hann er nú látinn. „Ég spurði mömmu einu sinni hvers vegna hún hefði ekki talað við hjónin, hvernig hún gæti látið eins og ekkert væri eftir það sem þau gerðu mér. En hún sagði að þau myndu hvort eð er bara neita þessu. Eins og það gerði það bara að verkum að það væri ástæðulaust að tala við þau um þetta og taka upp hanskann fyrir dóttur sína. Ég bara skil ekki hvernig er hægt að segja ekki neitt eftir að búið er að gera barninu þínu eitthvað svona. Mamma varð sjálf fyrir kynferðisbroti sem barn og varð vitni að því þegar bróðir hennar var misnotaður en hefur aldrei unnið neitt úr því. Hún segir bara að það sem tilheyri fortíðinni sé best geymt þar og engin ástæða til að ýfa það upp. Hún segist þakklát fyrir að það sem kom fyrir hana sé fallið í gleymsku en hún getur ekki gleymt þessu; svo mikið veit ég. Maður verður að vinna úr hlutunum; maður kemst ekki yfir svona áföll af sjálfu sér.

  Hvernig áhrif hafði þessi lífsreynsla í barnæsku á líf þitt þegar þú varst að alast upp?
  „Ég sé það í dag að ég var ofboðslega kvíðin sem barn. Mér var alltaf illt í maganum og það var auðvitað bara vegna kvíða en maður getur ekki nafngreint kvíðann þegar maður er barn. Ég var alltaf róleg og feimin en kát og glöð áður en ósköpin dundu yfir. Ég sé það á myndum að ég er miklu alvarlegri á þeim sem voru teknar eftir að þetta allt gerðist en þeim sem voru teknar áður. Þetta markaði unglingsárin þó mest. Ég var mjög óörugg með sjálfa mig og mér leið alltaf kjánalega með sjálfa mig. Eins og gerist oft með fórnarlömb kynferðisofbeldis fór ég snemma að vera með kærasta og ég fiktaði við áfengi og þakka fyrir að vera ekki með fíknigen fyrir því. Ég var unglingur í uppreisn. Og ástandið versnaði auðvitað til muna þegar við fluttum yfir í smábæinn þegar ég var fjórtán ára. Ég varð mjög þunglynd eftir flutningana og það kveikti á áfallastreituröskuninni við þá. Mér gekk illa í náminu; náði prófunum en bara rétt svo. Ég var sannfærð um að ég væri ógeðslega heimsk, því þótt ég legði mig alla fram um að læra gekk mér illa á prófum. En það var auðvitað bara vegna kvíðans,“ segir Friederike.

  „Ég eignaðist kærasta sem var fimm árum eldri en ég þegar ég var fjórtán ára og hann var fyrsta manneskjan sem ég sagði frá því sem gerðist með bróður mínum. Hann bjargaði mér algjörlega, því ég hefði örugglega tekið eigið líf ef ekki hefði verið fyrir hann. Ég man meira að segja eftir því að hafa ætlað að fleygja mér út um glugga en hann togaði í mig og dró mig inn. Ég man ekki á hvaða hæð við vorum en ég hefði í það minnsta slasast mjög alvarlega, ef ekki dáið, við fallið. Í raun fór ekki að birta til hjá mér fyrr en ég flutti til Íslands. Mér fannst gott að komast í burtu. En þangað til ég var 35 ára, og var búin að vinna í sjálfri mér, fannst mér ég bara vera skíturinn undir skónum hjá fólki,“ segir hún alvarleg.

  „Þá voru þrjú ár liðin frá því ég opnaði á allt það sem gerðist og fór að tala um það. Það var mikið a-ha augnablik þegar ég áttaði mig á því að það var risastór ástæða fyrir þessu öllu saman. Og ég man að þegar ég var að fara að tala við ráðgjafa hjá Stígamótum í fyrsta sinn, þá fann ég fyrir ofboðslegum kvíða; mér var óglatt og ég grét og grét. Ég spurði sjálfa mig hvort ég gæti yfirhöfuð farið í Stígamót því þetta hafði ekki verið nauðgun í beinum skilningi þess orðs. En ég var búin að lesa mér til um kynferðisofbeldi og áttaði mig alveg á því að ég hafði lent í því. Ráðgjafinn hjá Stígamótum sagði mér að ég væri með áfallastreituröskun og þegar ég fór að lesa mér til um það þá komu öll púslin í lífi mínu saman. Ég allt í einu skildi hvers vegna mér hafði liðið svona illa sem unglingur, hvers vegna mér hafði gengið illa í prófunum, hvers vegna ég hafði verið með sjálfsvígshugsanir og svo framvegis.“

  Finnur loks hugarró
  Í dag segist Friederike vera hamingjusöm með manninum sínum og dætrunum tveimur. Hún segist líka eiga yndislega tengdafjölskyldu sem hafi stutt hana í þessu öllu saman og nefnir þar sérstaklega tengdamóður sína.

  Friederike stundar jóga og hugleiðslu sem hún segir að hafi án efa hjálpað sér í gegnum erfiðleikana. Hún er menntaður jógakennari og stofnaði fyrirtækið Hugarró sem hún starfrækir í Hafnarfirði, nánar tiltekið í húsnæðinu þar sem St. Jósepsspítali var áður til húsa og heitir nú Lífsgæðasetrið. Þar kennir hún Kundalini-jóga og Sat nam Rasayan-núvitundarheilun. Hún hefur einnig lokið námi sem leiðsögumaður, leikskólakennari, Rope yoga-kennari, sérkennari og sem heilari. Hún segir að jógað og hugleiðslan hafi hjálpað sér mikið í ferlinu við að vinna úr þessari hræðilegu reynslu og hún hafi fundið mikla heilun í þögninni. Því þegar allt var tjáð var það sársaukinn sem sat eftir.

  „Allt í einu fattaði ég að það eru engin orð til að vinna úr þessu öllu saman eða til að lýsa þessari reynslu minni; það eru engin orð sem geta lýst sársaukanum en þetta var svo gríðarlegur sársauki eftir allt sem hafði gengið á. Og mér fannst þetta svo mikil ósanngirni. Ég fann líka fyrir höfnun af hálfu foreldra minna, sérstaklega mömmu sem gaf mér þarna smávegis móðurást sem ég var búin að þrá svo heitt í þrjátíu ár en svo tók hún hana frá mér aftur. Ég missti auðvitað líka pabba minn sem er of meðvirkur með mömmu til að standa með mér. Og ég missti systur mína sem ég átti gott samband við. Kannski eiga þau auðveldara með að útiloka mig svona af því að ég bý í öðru landi og er langt í burtu. En foreldrar mínir líta ekki á þetta sem höfnun af sinni hálfu. Þau hafa samband við mig öðru hvoru og láta eins og ekkert hafi ískorist. Ég get ímyndað mér að þeim finnist þetta frekar stafa af því að ég sé svo erfið, þrjósk og langrækin. Ég eigi bara eitthvað bágt.“

  Friederike segist loks finna fyrir hugarró. „Áður vaknaði ég á hverjum degi með kvíðakast. Núna vakna ég, stunda mitt jóga og hugleiði. Ég geri líka öndunaræfingar sem geta hjálpað manni í ýmsum erfiðleikum. Og þær er hægt að gera hvar sem er; maður getur alltaf andað. Djúpöndun er líka verkfæri sem ég get notað til að undirbúa mig áður en kvíðakastið kemur. Ég finn vissulega stundum fyrir kvíða og verð stressuð, eins og til dæmis í morgun fyrir þetta viðtal, en kvíðaköstin hafa snarminnkað og koma ekki oft núna. Þau vara líka ekki eins lengi og þau gerðu áður. Í hugleiðslu þjálfar maður hugann til að vera hlutlaus í staðinn fyrir að sveiflast upp og niður. Þegar ég fer í djúpar sveiflur veit ég að það er viss hreinsun í gangi, það er hreinsun í því að gráta. Maður er alltaf að bæla niður einhverjar tilfinningar en þær ná manni á endanum. Það er ekki hægt að vera alltaf að klóra bara í yfirborðið; það þarf að hleypa þessum tilfinningum út.“

  Fortíðin sár en öll reynsla er lærdómur
  Friederike segist reyna að líta á alla reynslu sem lærdóm, sama hversu erfið hún sé. „Fortíðin mín er ofboðslega sár en hún er hluti af mér. Hefði ég ekki gengið í gegnum þetta allt saman þá væri ég ekki á þeim stað sem ég er núna og ég er þakklát fyrir það. Ég myndi ekki óska neinum að lenda í svona áföllum en þó get ég sagt að ég sé svolítið þakklát fyrir þessa reynslu því hún hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég held að viðhorf okkar til þess sem við göngum í gegnum skipti máli; sjáum við þetta sem hræðilegan hlut eða eitthvað sem fer í reynslubankann? Mér finnst eiginlega erfiðara að segja fólki frá reynslu minni og sjá viðbrögðin heldur en að segja frá henni.“

  Hún þagnar augnablik og heldur svo áfram: „Það væri auðvelt að líta á þetta allt saman sem ekkert nema hræðilegt og sumir tala um sálarmorð. En þetta er að mínu mati ekki morð. Þetta er hræðilegt. Og þetta er áfall. En þetta er ekki sálarmorð. Ég vil heldur ekki vera fórnarlamb; í dag er ég við völd í mínu lífi. Í dag get ég tjáð mig og staðið með sjálfri mér. Stundum fer maður í skömmina en maður verður að minna sig á að það er bara eitthvað gamalt sem brýst fram í samskiptum við fólk. Ég er ekki fullkomin en ég passa mig á að biðjast afsökunar og útskýra að mér líði illa sem hefur kannski valdið einhverjum pirringi hjá mér. Ég er líka meðvituð um það að sú staðreynd að ég glími við áfallastreituröskun hefur áhrif á fólkið í kringum mig líka; manninn minn og börnin mín. Mín einlæga ósk er að hjálpa öðrum með reynslu minni og vinna með jóga og trauma. Ég vil gefa fólki von. Það er líf eftir áfall, grimmd og ofbeldi. Við verðum bara sterkari fyrir lífið. Við erum svo miklir sigurvegarar; að hafa lifað þetta af og ná að dvelja í kærleikanum, þrátt fyrir allt.“

  Það er kominn tími til að slá botn í viðtalið. Blaðamaður spyr að lokum hvað Friederike finnist best við að búa á Íslandi? „Frelsið. Í Þýskalandi er allt í svo föstum skorðum. Þar hefði ég bara lært eitthvað eitt og unnið við það út ævina. Þar hefði ég ekki getað unnið sem grunnskólakennari, kennt jóga á kvöldin og verið svo leiðsögumaður á sumrin. Hér hef ég rými til að vera ég sjálf. Svo er náttúrufegurðin hér ótrúleg og það er stutt í náttúruna; ég finn hugarró við að horfa út um gluggann og virða fyrir mér fegurðina. Mér finnst æðislegt að búa á Íslandi.“

  Er ekkert sem þú saknar við Þýskaland?
  „Nei, ég sakna einskis þaðan. Nema kannski bestu vinkonu minnar. En nei, ég er bara góð hér,“ segir Friederike að lokum og hlær létt.

  Myndir / Hallur Karlsson
  Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum