2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Íslendingar kunna vel að meta vörurnar

  Miðbær Reykjavíkur heillar ekki bara hinar svokölluðu miðbæjarrottur. Ferðamenn eru yfir sig hrifnir. Það er þess vegna ekkert undarlegt að íslenskur myndlistarmaður hafi séð tækifæri í að fanga töfra hjarta Reykjavíkur og koma þeim til skila á listrænan hátt. Jóhann Ludwig Torfason er maðurinn á bak við það fyrirtæki.

   

  Fyrirtækið þitt heitir Hjarta Reykjavíkur, hvers vegna valdir þú það nafn?

  „Nafnið kom tiltölulega fyrirhafnarlaust í kollinn á mér,“ segir hann. „Þetta er auðvitað almennur og þekktur frasi og því mikil áskorun að taka slíkt traustataki og gera að sínu. Nafnið rímar svo einstaklega vel við það sem við gerum, þ.e. að vinna með húsin í bænum og búðarkettina.“

  Þið framleiðið ýmsar vörur sem hverfast um myndir úr miðbæ Reykjavíkur. Þær eru unnar á listrænan og skemmtilegan hátt þar sem umhverfi og köttum er skeytt fallega saman. Hver er þinn bakgrunnur?

  AUGLÝSING


  „Ég er menntaður í myndlist með sérstaka áherslu á grafík sem miðil. Úr grafík fór ég í málverk og þaðan í stafræna myndvinnslu. Byrjaði sem frekar „expressjónískur“ listamaður en leitaði fljótlega í raunsæi sem tók öll völd við stafrænu vinnsluna. Í verkum mínum var ég oftast með nokkuð kaldhæðna gagnrýni á neyslumenninguna og fjöldaframleiðslu. Ég bjó til gervifyrirtækið „Pabbakné“ sem framleiddi verkin mín en sjálfur var ég óbreyttur starfsmaður á plani. Þegar ég síðan byrjaði þetta bras með Hjarta Reykjavíkur, fékk Pabbaknéð kennitölu og virðisaukaskattsnúmer og því mætti segja að nú sé skrattinn búinn að hitta ömmu sína! Ásamt myndlistarvafstri hef ég mikið verið að kenna, sér í lagi í Listaháskólanum þar sem ég kenndi prentverk í fjölmörg ár.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Hvernig hefur þetta gengið?

  „Verslunin byrjaði fyrir ári síðan á Hjartatorginu eða Hjartagarðinum en við fluttum okkur um set í september síðastliðnum upp á Laugaveg, þar sem umferðin er vitaskuld mun meiri. Þá tók salan kipp og hefur gengið ágætlega síðan eða fram að kórónufaraldrinum. Þá dalaði auðvitað allt. Við búum þó að þeirri gæfu að Íslendingar kunna að meta vörur okkar ekki síður en ferðamenn.“

  „Við búum að þeirri gæfu að Íslendingar kunna að meta vörur okkar ekki síður en ferðamenn.“

  Leikur með liti og skugga

  Þú skeytir saman ýmsum myndum og þær eru eins og millistig milli teikninga og ljósmynda. Hvernig vinnur þú þetta?

  „Allar vörurnar byrja sem teikning af völdu húsi,“ segir Jóhann. „Þá hefst klippivinna og uppröðun sem mynda tiltekna heild. Teikningarnar eru að öllu leyti unnar í tölvu og frá upphafi hef ég fylgt þeirri reglu að teikna húsin í svokallaðri ísómetríu, þ.e. án fjarvíddar. Ég hef alltaf verið hrifinn af slíkri sérvisku og það er jafnframt áskorun að ná fram raunsæi með þeim hætti. Skuggaspilið í húsunum eykur á þrívíddartilfinninguna og heildin verður því dálítið sérstök, ljósmyndaraunsæi og samt alls ekki.“

  Yfir öllu á þínum myndum af miðbænum er einhver tærleiki og ferskleiki. Er það með ráðum gert að draga slíkt fram? „Þegar ég byrjaði fyrir alvöru að teikna upp húsin gerðist það nánast sjálfkrafa að ég „dubbaði“ aðeins upp húsin. Gerði þau örlítið fínni og skýrari en þau eru í raun þótt ég væri alveg trúr stílgerðinni. Litirnir eru hreinni og í samsetningu margra húsa er ég óragur við að tefla saman skrautlegri litasúpu. Auk þess fer ég mátulega langt í smáatriði, hengi mig kannski í nákvæman útskurð á gluggaumgjörð en set ekkert í gluggana og hreinsa út smáatriði sem mér þykja óþörf fyrir heildarmyndina. Að auki er ekkert á myndunum sem venjulega finnst í borgarlandslagi, engir ljósastaurar, bílar, ruslafötur eða fólk. Aðeins einn og einn köttur fær að vera með. Með þessu móti næst skýr og tær mynd af fegruðu en kaótísku borgarlandslagi,“ segir Jóhann, en áhugasamir geta skoðað vörur hans á Facebook-síðu Hjarta Reykjavíkur eða Heart of Reykjavik.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum