2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Líkama mínum leið ekki eins og honum átti að líða“

  Thelma Ásdísardóttir varð landsþekkt þegar Gerður Kristný skráði sögu hennar í bókinni Myndin af pabba – Saga Thelmu sem kom út árið 2005. Síðan hefur Thelma unnið ötullega að því að hjálpa brotaþolum ofbeldis, meðal annars með því að vera ein af stofnendum Drekaslóðar þar sem hún hefur lyft Grettistaki síðustu níu árin. Hún hefur þó ekki eingöngu tekist á við við andlegar afleiðingar ofbeldisins en síðastliðið eitt og hálft ár hefur hún einbeitt sér að því að koma líkamanum í form og árangurinn er ótrúlegur, 74 kíló horfin og líðan hennar er betri en nokkru sinni fyrr.

   

  Thelma prýddi forsíðu 33. tölublaðs Vikunnar. Vegna fjölda fyrirspurna birtum við nú viðtalið við þessa mögnuðu konu í heild sinni á vefnum.

  „Ég er búin að vera að gera alveg helling fyrir sjálfa mig,“ segir Thelma og ljómar öll. „Ég var lengi í mikilli ofþyngd, var bara vel feit og hef aldrei verið feimin við að viðurkenna það, lít ekki á það sem neina skömm. Fyrir mér var þetta bara staðreynd; ég var feit og þurfti að taka á því.“

  Hvað hún hafi gert til að koma líkamanum í betra horf segir Thelma að hún hafi tekið á nánast öllum þáttum sem hafi verið í ólestri.

  AUGLÝSING


  Thelma var á góðum stað andlega og ákvað að taka á líkamlega þættinum líka.

  „Ég hafði vitað það í nokkurn tíma að þetta væri verkefni sem kæmi að því að ég myndi fara í,“ segir hún. „Ég fann að líkama mínum leið ekki eins og honum átti að líða, hann var ekki í sínu rétta elementi. Þannig að ég undirbjó mig vel, gerði áætlun og ákvað að taka þetta í skrefum en ekki kasta mér í einhver glórulaus læti. Ég hafði prófað það áður og veit að svona kúrar og einfaldar töfralausnir virka náttúrlega bara alls ekki til lengdar þannig að ég skoðaði hvað virkar fyrir mig. Mamma skammaði mig stundum fyrir það þegar ég var lítil að vera þverhaus, en stundum er gott að geta fengið það sem ég kalla innra frekjukast svo ég ákvað að nú væri kominn tími til að bretta upp ermar og gera eitthvað í málunum.“

  Sykurleysið kom hlutunum á hreyfingu

  Beðin að útlista það hvað nákvæmlega hún hafi verið að gera er Thelma snögg til svars, enda segir hún að sér finnist óskaplega gaman að tala um þá leið sem hún hefur farið.

  „Fyrsta skrefið var að auka vatnsdrykkju,“ útskýrir hún. „Ég hef reyndar alltaf verið dugleg við að drekka vatn en ég ákvað að halda betur utan um það. Svo fór ég að ganga og ég gleymi aldrei fyrsta göngutúrnum sem var um það bil fjögur hundruð metrar, því eftir hann leið mér eins og ég hefði klifið fjall. Núna geng ég hiklaust tíu kílómetra á dag án þess að finna fyrir því, þannig að ýmislegt hefur breyst. Svo fór ég að fasta með hléum, það er að segja borða bara hluta úr degi. Ég byrjaði á því að fasta í sextán klukkutíma og hef svo aukið það smátt og smátt og er borða núna í fjóra tíma á dag og fasta í tuttugu tíma. Þetta var í rauninni aldrei neitt sérstakt átak, miklu auðveldara en ég hélt það yrði.

  „Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið drasl í matnum sem við borðum.“

  Ég var svo fegin að losna við morgunmatinn og allar þessar reglur um að maður verði að borða, mér fannst það léttir að þurfa ekki að vera að stressa mig á því. Annað sem ég gerði var að fara að borða alveg hreinan mat, tók út öll aukefni og fór að velja mun betur það sem ég læt ofan í mig. Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið drasl í matnum sem við borðum. Fyrsta Bónusferðin eftir þessa ákvörðun stóð í nærri þrjá klukkutíma því ég þurfti að lesa listann yfir innihaldsefni hverrar vöru svo nákvæmlega. Þegar ég var búin að halda mig við þessar reglur í um það bil hálft ár, búin að auka hreyfingu og föstu og passa að borða hreinni mat, fór ég í það stóra verkefni að taka sykurinn algjörlega út. Ég hafði minnkað sykurneyslu verulega en þarna tók ég út allan viðbættan sykur, líka allan gervisykur. Það var í rauninni fyrst þá sem ég fékk einhver fráhvarfseinkenni. Þetta var talsverð barátta, ekki það að margt af þessu hefur verið barátta en þarna fann ég sterkast fyrir viðbrögðum líkamans, hann varð bara reiður,“ segir Thelma og skellihlær.

  Fyrsta skrefið í nýjum lífsháttum tók Thelma í febrúar 2018, fyrir einu og hálfu ári, en það er ár síðan hún tók sykurinn út og hún segir að það hafi eiginlega verið fyrst þá sem hún fór að sjá verulegan mun á sér.

  „Þegar þetta var allt komið saman, fastan, sykurleysið og hreini maturinn, fóru stórir hlutir að gerast,“ segir hún. „Síðan ég tók sykurinn út hafa 63 kíló farið en í heildina eru farin 74 kíló, þannig að það er farinn heill karlmaður af konunni,“ bætir Thelma við og skellir aftur upp úr. „Þetta er allt, allt annað líf. Lífsgæðin eru allt önnur og meiri. Ég er ekki alveg búin, því ég veit að líkami minn mun segja mér hvenær ég er komin akkúrat þangað sem ég vil vera en breytingarnar eru alveg rosalegar. Líðanin og heilsuástandið er mun betra og ýmsir lífsstílstengdir sjúkdómar eru horfnir. Ég stefndi í sykursýki 2, var ekki komin með greininguna því ég var ekki komin yfir eitthvert rautt strik en ég var á hraðri leið þangað. Ég var með kæfisvefn, bakflæði, óþol fyrir alls konar mat, ofnæmisviðbrögð við svifryki og þetta er allt saman horfið. Blóðsykurinn, kólesterólið, vítamín og steinefni eru öll komin í fullkomið jafnvægi, þannig að þetta eru afgerandi breytingar fyrir utan það að líkamleg geta mín er allt önnur.“

  Er að uppgötva eigin stíl

  Hvað með andlegu líðanina? Finnur Thelma breytingu á henni með bættu líkamlegu ástandi?

  „Já, algjörlega,“ segir hún ákveðin. „Ég hef unnið mjög mikið með sjálfa mig í áratugi, þannig að andleg heilsa mín hefur verið nokkuð sterk mjög lengi og þegar ég fór að vinna úr þeim afleiðingum sem æska mín hafði, lærði ég tiltölulega snemma að þykja vænt um mig eins ég var. Þannig að mér þótti alveg vænt um sjálfa mig og líkama minn þótt ég væri í mikilli yfirþyngd, væri feit og gæti ekki gert alls konar hluti. Ég hef ekki verið í einhverju sjálfshatri þótt ég hafi verið feit en auðvitað er alveg óskaplega gaman að geta gert margt af þessu sem ég get gert núna. Ég hef getað opnað ýmsar dyr sem voru lokaðar fyrir mér áður. Til dæmis svona skemmtilega hluti eins og að ég er að uppgötva stílinn minn, hvað stíl ég hef í klæðnaði og svona. Áður gat ég ekkert pælt í því, ég þurfti bara að kaupa það sem ég komst í, ef ég fann bol sem ég komst í þá bara keypti ég hann í tveim, þremur litum. Hugsunin var meira bara, já þetta passar, ég kaupi þetta en núna passa ég í allt sem mig langar að passa í og get algjörlega valið sjálf. Ég stóð allt í einu frammi fyrir því að hafa enga hugmynd um hvaða stíl ég hefði, vissi ekkert hvernig ég vildi vera. Núna finnst mér að hin sanna Thelma sé komin í ljós og ég finn að ég er að túlka mig eins og ég raunverulega er. Göngulagið mitt breyttist, til dæmis. Ég geri náttúrlega helling af alls konar æfingum og geng mjög mikið og allt þetta hefur hjálpað mér til að koma í ljós eins og ég er í raun og veru. Það er óskaplega gaman. Ég var í einhverjum hjúp sem ég vildi ekki vera í. Ég hafði vitað lengi að ég myndi þurfa að taka á þessu einhvern daginn en ég hef bara verið á bólakafi í svo mörgu öðru að þetta sat á hakanum.“

  Mynd / Hákon Davíð

  Spurð hvort að líkamlega átakið hafi samt ekki verið mun auðveldara en öll andlega vinnan eftir uppvaxtarárin samþykkir Thelma það.

  „Þetta var ekki jafnerfitt, nei,“ segir hún. „Og auðvitað hvergi nærri eins sársaukafull vinna þótt þetta hafi vissulega verið erfitt á köflum. Ég vil leggja áherslu á að það er engin auðveld lausn til, þetta er ekki auðvelt og mér dettur ekki í hug að reyna að halda því fram. Auðvitað hef ég átt marga tíma þar sem mig hefur langað til að kasta þessu öllu frá mér og háma í mig einhverja vitleysu eða sleppa tökunum. Þá þarf ég að öskra á sjálfa mig inni í höfðinu til að fá mig til að gera það sem ég vil gera. Mér finnst fólk svo oft vera að leita að einhverri lausn sem virkar án þess að það þurfi að hafa fyrir því, hún er bara ekki til þetta kostar allt mikla vinnu og sjálfsaga. Ég hugsaði þetta þannig að það þýddi ekki fyrir mig að gera neitt nema það sem ég gæti hugsað mér að gera það til frambúðar, ekkert sem heitir kúr eða tímabil eða neitt slíkt, bara að stíga þau skref sem ég ætla að halda mig við það sem eftir er ævinnar, það skilar árangri. Ég veit að sumt fólk hefur verið að gera því skóna að ég hafi farið í aðgerð til að grennast, en ég gerði það svo sannarlega ekki, þetta er vel hægt án þess að leggjast undir hnífinn.“

  Birtingarmynd ofbeldis víðari

  Thelma er fimmtíu og tveggja ára gömul, þótt hún segist reyndar aldrei skilgreina sig út frá aldrinum og byrjaði að vinna í sjálfri sér þegar hún var tuttugu og fimm ára þannig að sú vinna hefur staðið meira en hálfa ævi hennar og hún hefur notað árangurinn til að hjálpa öðrum þolendum ofbeldis. Fyrir níu árum stofnaði hún ásamt öðrum Drekaslóð til að hjálpa fólki sem beitt hefur verið ofbeldi og hún segir samtökin engan veginn anna eftirspurn, það séu alltaf mun fleiri sem vilja leita sér hjálpar en hægt sé að taka á móti.

  „Við gætum gert miklu, miklu meira,“ segir hún. „En við, eins og svo mörg önnur samtök, erum alltaf að ströggla við peningaleysi þannig að það er langur biðlisti hjá okkur og við höfum í rauninni aldrei náð að anna eftirspurninni, svo það er ljóst að þörfin fyrir svona samtök er mikil.“

  Hvað kom til að Thelma og samstarfsfólks hennar ákváðu að stofna samtökin Drekaslóð? Fannst þeim Stígamót og önnur samtök sem vinna við að hjálpa þolendum ofbeldis ekki vera að standa sig?

  „Jú, jú, Stígamót eru að gera fína hluti í því sem þau eru að gera, en þau eru með tiltölulega þrönga nálgun,“ segir hún. „Sömuleiðis Kvennaathvarfið, Blátt áfram og fleiri, þau eru öll að gera frábæra hluti. Við hins vegar sáum að birtingarmynd ofbeldis er talsvert víðari og fjölbreyttari heldur en lagt hefur verið upp með. Til dæmis verða karlmenn fyrir alls kyns ofbeldi, ekki eingöngu kynferðislegu. Þeir verða líka fyrir ofbeldi í parasamböndum, konur beita líka ofbeldi og við höfum orðið vör við það að fólk sem hefur verið beitt ofbeldi af hendi kvenna leið mörgu eins og ekki væri tekið mark á því og var hrætt við að tala um það. Leið eins og það væri eitt á báti þar sem ekki hefur verið rætt mikið um það ofbeldi sem konur beita.

  „…konur beita líka ofbeldi og við höfum orðið vör við það að fólk sem hefur verið beitt ofbeldi af hendi kvenna leið mörgu eins og ekki væri tekið mark á því og var hrætt við að tala um það.“

  Þetta er svipað og mér leið áður en ég leitaði mér aðstoðar með það ofbeldi sem ég var beitt, þannig að við vildum bara víkka þetta svolítið, taka alla þessa merkimiða af. Við vitum líka að það er gríðarlega algengt að fólk á kannski margvíslega sögu, hefur verið beitt ofbeldi í æsku og er jafnvel líklegra til að lenda í ofbeldisaðstæðum á fullorðinsárum. Við vildum að fólk kæmi algjörlega á sínum forsendum til okkar og ræða það sem það sjálft vildi ræða þannig að málin sem til okkar koma eru mjög fjölbreytt. Bæði erum við með hátt hlutfall af karlmönnum sem koma til okkar og mig minnir að í fyrra hafi hlutfall kvenna sem höfðu beitt ofbeldi verið tæplega fjörutíu prósent. Við erum með fjölbreyttan hóp og fólk sem finnst það eiga erfitt með að leita sér aðstoðar hjá hinum samtökunum flykkist til okkar með sín mál.“

  Hjá Drekaslóð er rúmlega eitt stöðugildi, sem Thelma segir alltof lítið, en mun fleiri koma að rekstri Drekaslóðar í sjálfboðavinnu, sem Thelma segir ekki eiga að vera normið.

  „Við erum fimm sem störfum hjá Drekaslóð núna,“ segir hún. „En við gætum verið með fimm full stöðugildi og það gætu allir haft meira en nóg að gera. Okkur vantar bara peninga til að halda úti þeirri þjónustu sem þarf.“

  Umræðan á ekki að vera eingöngu kynjuð

  Oft heyrist sagt að það að opna umræðuna um ofbeldi, sérstaklega gagnvart börnum, muni hjálpa til við að draga úr ofbeldinu, er Thelma á þeirri skoðun að umræðan virki þannig?

  Mynd / Hákon Davíð

  „Það er dálítið erfitt að átta sig á því hver raunverulega staðan á frömdu ofbeldi er miðað við umræðuna,“ segir hún. „Vegna þess að auðvitað koma hæðir þar sem umræðan flæðir og byltingar eins og #Metoo og fleiri þar sem mikil áhersla er á umræðuna og þá auðvitað fær fólk þá tilfinningu að það sé allt vaðandi í ofbeldi á Íslandi. Það er hins vegar ekki endilega merki þess að ofbeldi sé að aukast, heldur er fólk að koma fram með það. Auðvitað er ýmislegt í umræðunni sem er út og suður en í heildina þá er ég rosalega hlynnt góðri umræðu því við vitum að það er í þögninni og skuggunum sem ofbeldið þrífst best. Þannig að því meira sem við ræðum um það og því meiri upplýsingar sem við höfum, þeim mun betur hljótum við að vera í stakk búin til þess að takast á við vandamálið. Mig persónulega langar að sjá meiri fjölbreytni í umræðunni. Mig langar til dæmis að við stígum út úr þessum römmum.

  Þessi umræða hefur verið svo kynjuð og ég held að það hafi verið nauðsynlegt til að koma henni af stað en mig langar að sjá okkur fara að stíga næstu skref af meiri festu. Við sjáum það til dæmis mjög skýrt hérna í Drekaslóð að ofbeldi er ekki eingöngu kynbundið vandamál. Við sjáum það til dæmis að þegar karlmenn koma fram með reynslusögur af ofbeldi sem þeir hafa verið beittir af hendi kvenna þá fá þeir öðruvísi viðmót hjá samfélaginu heldur en konur. Mér finnst það alltaf svolítið sorglegt. Einhvers staðar á leiðinni ákvað ég að prófa að snúa alltaf kyninu við og hugsa söguna af ofbeldinu út frá því hvað mér myndi finnast ef það væri kona sem væri að segja hana en ekki karl. Í upphafi fann ég að það breytti viðhorfi mínu til ofbeldisins og þá hugsaði ég; þetta er ekki jafnrétti, jafnrétti hlýtur að eiga að virka þannig að bæði kyn geti til jafns komið fram með sína reynslu og fengið sambærileg viðbrögð, þannig að ég ákvað að breyta því aðeins hvernig ég hugsaði þetta.“

  Kom það Thelmu á óvart hversu margir karlmenn leita til samtakanna?

  „Já, það gerði það reyndar,“ viðurkennir hún. „Við vorum sjö sem komum að þessu í upphafi og við vorum ekki alveg viss um hvað myndi gerast og það kom mér dálítið á óvart hvað hlutfall kvenna sem beita ofbeldi er miklu hærra en ég hafði ímyndað mér. Svo fór ég að kynna mér þetta betur, fór að skoða erlendar rannsóknir og þá sé ég að þetta er alveg í takt við það sem við sjáum gerast í nágrannalöndunum þar sem verið er að skoða þetta nánar, þannig að þetta kemur mér ekki á óvart í dag.“

  Á erfitt með að treysta fólki fyrir sér

  Spurð hvort hún, með sína reynslu í farteskinu, hafi ekki í upphafi átt erfitt með að treysta karlmönnum til að takast á við þessi mál, svarar Thelma að auðvitað hafi hún átt erfitt með að treysta fólki almennt, það hafi ekki verið bundið við karlmenn.

  „Ég er enn lengi að byggja upp traust til fólks,“ segir hún. „Það tekur mig töluverðan tíma. En ég geri mér alveg grein fyrir því og þetta er ekki eitthvað sem ég myndi segja að skerði lífsgæði mín í dag. Ég stíg varlega til jarðar með það hverjum ég treysti algjörlega fyrir mér en ég á mína tryggu og góðu vini sem ég veit að ég get treyst fullkomlega.“

  „Ég er enn lengi að byggja upp traust til fólks.“

  Spurð um fjölskylduaðstæður sínar, hvort hún eigi mann og börn, kveðst Thelma ekki eiga mann eins og er en hins vegar eigi hún dásamlegan son.

  Mynd / Hákon Davíð

  „Ég á besta son í heimi og yndislegan tengdason,“ segir hún og ljómar öll. „Þannig að ég lít á mig sem fjölskyldukonu þótt það sé lítil og krúttleg fjölskylda. Ég bý ein með kisunni minni núna og hef það eins gott og hugsast getur. Ég glímdi auðvitað við allar afleiðingarnar sem koma fram í bókinni áður en ég fór að vinna með ofbeldið. Líðan mín var algjörlega út og suður, ég treysti engum og hefði eflaust fengið flestar greiningarnar á þeim tíma. Í dag er ég búin að vinna svakalega mikið úr þessu öllu saman og er í grunninn mjög hamingjusöm manneskja, sérstaklega eftir að ég tók líkamann í gegn. Ég ætla nú ekki að segja að það sé síðasta verkefnið mitt, maður er auðvitað aldrei búinn og er að læra á meðan maður lifir og ég ætla aldrei að hætta því en mér finnst ég vera komin á ofsalega sterkan og góðan stað í lífi mínu. Nú stefni ég að því að ferðast, meðal annars til Japans sem mig hefur dreymt um síðan ég var barn, og ég veit að það eru mjög góðir og spennandi hlutir fram undan.“

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson
  Förðun / Hildur Emilsdóttir með Urban Decay

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum