2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ljúfar jólastundir í Bakkastofu

  Rithöfundurinn Ásta Kristrún Ragnarsdóttir flutti ásamt eiginmanni sínum, Stuðmanninum Valgeiri Guðjónssyni, til Eyrarbakka fyrir nokkrum árum. Saman sinna þau líflegu og skemmtilegu menningarstarfi í Bakkastofu sem áður hýsti Gamla kaupfélagið.

   

  Nú fyrir jólin kom út bók Ástu Kristrúnar Það sem dvelur í þögninni þar sem hún segir sögu átta formæðra sinna. Hún bauð til veislu til að fagna bókinni með nokkrum yngri afkomendum kvennanna í bókinni.

  Þessar þrjár bækur eiga það sameiginlegt að fjalla að hluta til um ævi Kristrúnar Hallgrímsson. Þær eru Loftklukkan eftir Pál Benediktsson, Margar myndir af ömmu eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur og svo Það sem dvelur í þögninni eftir Ástu Kristrúnu.

  Ásta Kristrún og Valgeir hafa verið par og svo hjón allt frá því að fyrsta Stuðmannplatan kom út árið 1975. „Þá kom hljómsveitin fram nafnlaust og með grímur svo ég vissi ekki að bláeygði maðurinn sem gerði hosur sínar grænar fyrir mér væri í þessari hljómsveit – hljómsveit sem ég hlustaði á í útvarpinu í bílnum þegar ég vann við mælingar hjá Vegagerðinni,“ segir hún og skellir upp úr.

  AUGLÝSING


  Fljótlega eftir að þau komu á Eyrarbakka sá Ásta Kristrún að beinast lá við að nýta hæfileika þeirra hjóna og ánægju þeirra af því að gleðja fólk á góðri stundu. „Á þeim grunni byggir Bakkastofa sem börnin okkar reka. Við Valgeir höfum boðið gestum upp á breytilegar og oft sérsniðnar dagskrár sem eru blanda af tónlist og sögum. Við lítum þá bæði til erlendra gesta og svo Íslendinga sem vilja njóta menningar og innihaldsríkra stunda með okkur hjónum. Íslenskir gestir eru auðvitað himinsælir að heyra gamla goðið spila í návígi lögin sem þeir elska og við svo persónulegar aðstæður. Þegar við gleðjum erlenda gesti er Valgeir í aðalhlutverki og ég meira sem húsfreyja. Hann flytur þá efni úr Saga Music 101 verki sínu sem er mögnuð tónlistar- og sagnastund á ensku.“

  „Þá kom hljómsveitin fram nafnlaust og með grímur svo ég vissi ekki að bláeygði maðurinn sem gerði hosur sínar grænar fyrir mér væri í þessari hljómsveit – hljómsveit sem ég hlustaði á í útvarpinu í bílnum þegar ég vann við mælingar hjá Vegagerðinni.“

  Menningarstarf hjónanna á Bakkastofu varð óvænt til þess að Ásta Kristrún hóf að skrifa bók. „Fyrir um tveimur árum kom hópur mætra kvenna til okkar og ein þeirra vann við bókaútgáfu. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að gera eitthvað meira með þær sögur sem ég hef í blóðinu frá bernskuárum mínum.“

  Ári síðar, eða um síðustu áramót, bar sama konan dyra og sagðist hafa rætt sögur mínar við aðra útgáfu sem hún hefði nýhafið störf hjá. Sú útgáfa væri í eigu kvenna og þær voru allar mjög spenntar fyrir því að ég skrifaði bók í mínum anda. Ég hafði skömmu áður veikst alvarlega og átti að taka því rólega, en það hefur eflaust hjálpað til við að lenda þessari ákvörðun.“

  Viðtalið í heild ásamt uppskriftum má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Hún sá fyrst í hendi sér að byrja á Kristrúnu langalangömmu sinni sem var fædd 1806 í Auðbrekku í Hörgárdal og enda á Kristrúnu föðurömmu sinni sem fleiri höfðu skrifað um. „Sögur þessara tveggja Kristrúna eru fullar af spennu, ást og sorgum. Þegar ég var farin af stað sá ég að engin þeirra kvenna sem á eftir komu máttu missa sín. Þannig urðu til átta sérkaflar um einstakar konur,“ segir hún.

  Þegar áhrifamiklar og djúpar sögur hafa lifað í fjölskyldum, líkt og þær sem finna má í bók Ástu Kristrúnar, er þörfin til að miðla þeim til afkomenda afar sterk. Þegar kom að því að halda veislu fyrir Vikuna ákvað Ásta Kristrún því að hringja í langömmubörn Kristrúnar föðurömmu sinnar og bjóða þeim. Kristrún átti fimm börn og fjögur þeirra ólust upp hér á landi. „Mér þótti spennandi að láta á það reyna hvort fulltrúar þriðju kynslóðar frá ömmu vildu koma til að gleðjast í nafni hennar og formæðranna sem ég skrifa um í bók minni. Það gekk smurt fyrir sig og öll reyndust þau áhugasöm.

  Ástu Kristrúnu þótti við hæfi að tengja máltíðina við sögu Eyrarbakka og fjölskyldunnar. „Aðalrétturinn og eftirrétturinn sem ég bauð gestum okkar upp á voru eldaðir upp úr uppskriftabókum formæðra minna úr Húsinu hér á Eyrarbakka á 19. öld. Okkur þykir þetta afar hagstæð og skemmtileg lausn fyrir jólaboð stórfjölskyldnnar sem vill prófa eitthvað nýtt og elda má mikið magn af án mikils höfuðverkjar. Forrétturinn er hins vegar úr nútímanum þótt laufabrauð fylgi með.“

  Viðtalið í heild ásamt uppskriftum má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum