2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sigursteinn Másson um nýju þættina: „Áskorun að fást við íslensk sakamál“

  „Nálægðin hér og tengslin gera það að verkum að málin verða oft viðkvæmari en í stærri þjóðfélögum,“ segir Sigursteinn Másson um gerð nýrrar syrpu af Sönnum íslenskum sakamálum.

  Hvar finnurðu þessi sakamál? „Fyrstu 16 þættirnir eru blanda af endurgerðum þáttum sem áður voru framleiddir sem þættir fyrir sjónvarp undir heitinu Sönn íslensk sakamál þar sem efnistök eru á ýmsan hátt önnur sem og mál sem ekki hafa áður verið tekin til umfjöllunar. Ég legg áherslu á fjölbreytni málanna en einnig að umfjöllunin bæti einhverju við það sem áður hefur komið fram. Það er af nægu að taka.“

  Eru þetta ekki oft viðkvæm mál þar sem ættingjar og fleiri sem tengjast brotamanninum/mönnunum eru jafnvel enn á lífi? „Jú, það er sérstök áskorun að fást við sönn íslensk sakamál vegna smæðar samfélagsins. Nálægðin hér og tengslin gera það að verkum að málin verða oft viðkvæmari en í stærri þjóðfélögum. Þetta gat verið erfitt með sjónvarpið þar sem gerendur, fórnarlömb, vitni og aðstandendur veigruðu sér stundum við því að koma í viðtal en þetta er einfaldara þegar maður er bara að vinna með hljóð og fólk þarf ekki að óttast að þekkjast í Hagkaup um kvöldið. Með heimildaþáttunum um sakamál í gegnum árin held ég að ótti fólks við að koma fram í slíkum þáttum hafi minnkað.

  Gerendur jafnt sem fórnarlömb og aðrir átta sig í auknum mæli á að það að koma fram og segja frá, opna fyrir erfiða reynslu, getur styrkt viðkomandi á margan hátt. Þetta er eins og annað þegar fréttamennska er annars vegar að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er hin gullna regla og virði maður hana er margt hægt að gera og mörgu hægt að segja frá án þess að meiða nokkurn.“

  AUGLÝSING


  Áskorun að takast á við nýjan miðil

  Þurftirðu að takast á við nýjar áskoranir við að miðla þessu efni í gegnum Storytel? ,,Það er alltaf í sjálfu sér áskorun að takast á við sönn sakamál í hvaða formi sem er en í nær þrjá áratugi hefur vinna mín við fjölmiðla aðallega verið tengd sjónvarpi. Það er mjög ólíkt á margan hátt að vinna að heimildarþáttum þar sem myndefnið gegnir lykilhlutverki og svo aftur þar sem allt snýst um hljóðið. Það er mjög spennandi fyrir mig og mitt góða samstarfsfólk að vinna með þetta form, skapa hljóðmyndir fyrir hlustendur þar sem í raun þeir sjálfir eru við stjórnvölinn. Það er undir hverjum og einum hlustanda komið hvernig myndir hann býr til í huganum af fólki og atburðum með því að virkja ímyndunaraflið. Sveigjanleikinn er meiri en sjónvarp eða kvikmyndir geta gefið manni. Báðir miðlar eru ákaflega heillandi og ég finn mig í hvorutveggja en nú um stundir einbeiti ég mér að þessu áhugaverða verkefni með Storytel.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum