2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þá var ekki annað en kasta sér í drulluna og vona að maður lifði af“

  Lífshlaup Kristjáns Guðlaugssonar hefur verið viðburðaríkara en flestra Íslendinga. Lengst af bjó hann í Noregi og starfaði við blaðamennsku og heimsótti m.a. stríðshrjáð svæði og varð vitni að ógnum sem flestir hafa aðeins heyrt fréttir af að eigi sér stað. Nýlega gaf hann út ljóðabókina Ullin brók og hangið kjöt, en þar er að finna safn ljóða frá ýmsum tímabilum ævi hans og þar endurspeglast minningar bæði sárar og hlýjar.

   

  Voru ljóðin þá leið fyrir þig til að halda í móðurmálið? „Já, það má segja það,“ svarar Kristján. „Ég hef alltaf verið ljóðelskur, alveg frá því ég var barn og haft gaman af að stuðla og ríma. Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hefðbundnum ljóðum og það er orðið lítið af því í dag að menn yrki með hefðbundnum hætti. Reyndar hef ég ort órímuð ljóð líka og það er eitthvað af þeim í bókinni en mér þykir best að stuðla og ríma.“

  Í bókinni skín í gegn að þar fer maður sem svíður misskiptingin og ójöfnuðurinn í heiminum. Ertu róttækur? „Ég var það á sínum tíma. Var rekinn úr Menntaskólanum við Hamrahlíð vegna þess að ég var svona uppreisnarseggur. Við tilheyrðum engum flokkum eða neinu þess háttar. Ingvar Brynjólfsson var kennari þar á þessum tíma. Hann kallaði okkur kristilega anarkista. Þannig var að engar konur voru í ritstjórn skólablaðsins. Ég vildi bæta úr því og teiknaði auglýsingaspjald. Á því var grískur penis með vængjum og spurt: Stelpur viljið þið ekki koma í ritstjórnina? Þetta fór eitthvað í taugarnar á Guðmundi Arnlaugssyni skólameistara og hann lét mig víkja úr skóla. Ég átti eftir ár í skólanum þegar þetta var og fór á fund Einars Magnússonar, rektors í MR, og hann leyfði mér að taka stúdentspróf þaðan samtímis prófum hjá 5. bekkingum í Hamrahlíðarskólanum þannig að ég kláraði ári fyrr en félagar mínir þaðan en þeir voru fyrsti árgangur til að klára þann skóla.“

  Bylting í sendiráðinu í Stokkhólmi

  AUGLÝSING


  Kristján las sem sagt saman námsefni tveggja bekkja í öðrum skóla með aðrar áherslur en sá sem hann hafði verið rekinn úr svo það verður að teljast allnokkuð afrek að hafa náð stúdentsprófinu. Kristján hafði raunar setið fyrsta árið í MR og var því ekki alveg ókunnugur skólanum en engu að síður hefur hann þurft að vera næmur og góður námsmaður. „Ég var í svolítið annarri aðstöðu en samnemendur mínir því ég var giftur,“ segir hann. „Það var nú þannig á þeim tíma að menn giftu sig ungir en lítið orðið um það í dag. Við skildum síðar og ég á með henni tvær dætur. Í bókinni er að finna ljóð til annarrar þeirra. Strax eftir stúdentspróf fluttum við hjónin til Gautaborgar og ég fór að vinna í Volvo-verksmiðjunum. Ég átti erfitt með að fá vinnu hér heima því mikið atvinnuleysi var á þessum árum. Þar kynntist ég róttækri kommúnistahreyfingu og gerðist kommúnisti.“

  „En við fórum aðeins lengra því við vorum svo róttækir. Í stað þess að setjast niður fórum við inn og hentum sendiráðsritaranum út. Við tókum yfir sendiráðið.“

  Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru að sá sem ekki verði sósíalisti af að kynna sér stjórnmál sé fáviti. Ertu kannski sammála honum? „Já, ég er hjartanlega sammála Þórbergi,“ segir Kristján og brosir en hann er meðal þeirra sem rætt er við í heimildamyndinni Bráðum verður bylting eftir Hjálmtý Heiðdal. Þar er telft saman tveimur byltingarkenndum atburðum er settu svip á íslenskt samfélag árið 1970, annar var er þingeyskir bændur sprengdu upp stífluna í Laxá í Aðaldal en hinn var taka sendiráðs Íslands í Stokkhólmi. Ellefu íslenskir námsmenn fóru inn í sendiráðið í 20. apríl 1970 og drógu rauðan fána að húni og lýstu yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn. Kristján var þeirra á meðal. Hvað gekk ykkur til?

  „Hér á Íslandi var mikil óðaverðbólga en námslánin héldu sér. Það varð því sífellt erfiðara fyrir námsfólk að lifa af lánunum vegna þess peningarnir urðu minna og minna virði. Það varð til hreyfing meðal námsmanna sérstaklega á Norðurlöndum sem beindist að því að laga þessi mál. Úr varð að ákveðin var setumótstaða eða fólk ætlaði að setjast niður í sendiráðunum til að mótmæla. En við fórum aðeins lengra því við vorum svo róttækir. Í stað þess að setjast niður fórum við inn og hentum sendiráðsritaranum út. Við tókum yfir sendiráðið. Þetta varaði reyndar ekki nema tvo tíma og lögreglan kom og tók okkur. Hún vissi ekkert hvað hún átti að gera við okkur en við sátum inni í einhverja fjóra eða fimm tíma. Sendiherrann óskaði ekki eftir að neinir eftirmálar yrðu og bað lögregluna að láta okkur fara.“

  Nýlega gaf Kristján út ljóðabókina Ullin brók og hangið kjöt þar sem hann rifjar upp ýmsar minningar, bæði ljúfar og sárar. Mynd / Unnur Magna

  Skorinn upp á tréborði í Kína

  Hann brosir og það er ekki alveg laust við að glampi kvikni í augum byltingarsinnans við að rifja þetta upp. Á þessum tíma ríkti raunar mikill frelsis- og umbreytingaandi um alla Evrópu. Vorið í Prag átti sér stað árið 1968 og lauk með innrás Sovétmanna, stúdentar mótmæltu í París og hin svokallað 1968 hreyfing hafði gríðarleg áhrif meðal ungs fólks um allan heim. Voruð þið innblásnir af því öllu? „Já, við vorum það og sluppum með skrekkinn,“ heldur Kristján áfram. „Eftir þetta flutti ég til Lundar og nam kínversku og kínverska sagnfræði. Maður fær hins vegar enga vinnu við það. Mig langaði að kynnast kínverskum kommúnisma, sögu landsins og læra tungumálið. Ég fór svo til Kína og var þar í átta mánuði.

  Þar lenti ég í að maginn á mér sprakk. Ég var tekinn og bundinn niður á tréborði og skorinn upp með acupunktur. Það leið náttúrlega bara yfir mig um leið og þeir stungu  hnífnum í mig. Þetta voru frábærir læknar engu að síður og gerðu allt rétt. Það þurfti að taka burtu þrjáfjórðu hluta magans. Upp úr þessu skildi ég við þáverandi konu mína og fór til Noregs, kynntist þar konu sem ég giftist seinna og við bjuggum saman í þrjátíu ár. Stóran hluta þess tíma starfaði ég sem blaðamaður og var fréttastjóri á dagblaði í Stavangri.“

  Þótt friður hafi alla tíð ríkt á Norðurlöndunum voru víða umbrot á þessum árum. Þú kynntist því var það ekki? „Já, ég fékk leyfi frá ritstjóranum til að fara til Júgóslavíu þegar stríðið var þar. Ég var í Dubrovnik og þurfti að ganga milli tveggja hótela, yfir brú sem þar var og hún var sprengd svo ég datt niður sjö metra, braut á mér bakið á tveimur stöðum og báða ökklana. Lá hálfan mánuð í kjallara sjúkrahússins í Dubrovnik þar til keyrt var með mig á sendiferðabíl með palli upp til Lieb þaðan sem hægt var að fljúga. Ég á þær minjar frá Júgóslavíu enda er ég heiðursborgari í Dubrovnik. Ég skrifaði mikið um stríðið og um það sem gerðist í borginni. Þeir mátu það svo mikils að þeir gerðu mig að heiðursborgara.“

  „Þeir skutu nú á okkur landamæraverðirnir og þá var ekki annað en að kasta sér niður í drulluna og vona að maður lifði af.“

  Pakkaði látnu barni í dagblöð

  En hvernig var fyrir mann ofan af Íslandi, lengst af búsettan á Norðurlöndum, þekkjandi ekki annað en frið og að mestu saklausan gagnvart ofbeldinu að koma inn í svona aðstæður? „Alveg hrikalegt,“ segir Kristján. „Ég fór líka í kúrdísku héröðin. Var að læra tyrknesku í Ankara um tíma og fór þaðan með rútu inn í Írak meðan stríðið geisaði þar. Það var alveg hörmulegt. Þeir skutu nú á okkur landamæraverðirnir og þá var ekki annað en að kasta sér niður í drulluna og vona að maður lifði af. Ég man sérstaklega eftir konu sem ég hitti þar. Hún kom gangandi á móti mér með barnið sitt dáið af hungri. Ég hjálpaði henni að pakka því inn í dagblað og grafa það. Svona atriði sá ég á hverjum degi meðan ég dvaldi þarna. Ég var þarna bara í tvær vikur, enda mikill matarskortur og ég vildi ekki þiggja mat af þessu fólki. Hafði raunar litla lyst sjálfur. Mér þótti þessi reynsla engu að síður dýrmæt og skrifaði mikið um Kúrdistan og kúrdísku héröðin. Ég á marga kúrdíska vini úti í Noregi. En svo tekur allt enda. Það þarf að skipta um fréttastjóra. Þeir verða gamlir og þreyttir og ég var búinn að vera það lengi að ritstjórinn minn bað mig að víkja. Ég gerði það fúslega og vann sem venjulegur blaðamaður í fimm ár.“

  Hvernig kunnir þú við blaðamennskustarfið? „Afskaplega vel. Það er eitthvað nýtt að gerast á hverjum degi og þú veist aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það er eiginlega það sem heillaði mig mest. Mikið af þessu er auðvitað skylduvinna og maður þarf að gera þetta og gera hitt og það er ekki allt jafnskemmtilegt.“

  Var oft einmana sem barn

  Þú ert fæddur á Akranesi, ertu uppalinn þar? „Nei, pabbi minn, Guðlaugur Einarsson,  var bæjarstjóri þar og við fluttum þaðan þegar ég var átján mánaða. Ég átti fremur erilsama æsku, kom frá brotnu heimili og var svolítið á vergangi um tíma. Ólst meðal annars upp hjá ömmu minni, fór fyrst til móðurömmu minnar en síðan til föðurömmu. Pabbi minn giftist svo aftur þegar ég var níu og þá bjó ég hjá honum og stjúpu minni. Þau bjuggu í Laugarneshverfi en pabbi vildi að ég væri í Austurbæjarskóla. Þar voru allir vinir mínir og ég lenti í hálfgerðu einelti þegar ég kom heim vegna þess að ég var ekki í Laugarnesskóla með strákunum þar. Ég var oft mjög einmana á þessum árum.  Þegar ég var fimmtán ára skildu pabbi og stjúpa mín. Þá flutti ég inn til Guðrúnar, systur minnar. Hún er eiginlega svona reserve-mamma mín. Ég tók landsprófið frá Réttarholtsskóla og fór þaðan í menntaskóla.“

  Guðrún er fimm árum eldri en Kristján. Hún var lengi blaðamaður á Morgunblaðinu en hefur á síðustu árum helgað sig bókaskrifum svo áhugasvið þeirra systkina liggja greinilega á svipuðum slóðum og milli þeirra ríkir vinátta þótt þau hafi lengst af búið í hvort í sínu landinu.

  „Einn daginn ákvað ég að fara til Íslands. Ég veit ekki hvað kallaði í mig, það var eitthvað. Ég keypti mér hér íbúð og þegar ég var búinn að búa hér í hálft ár hitti ég konu mína, Huld, og við höfum búið saman í þrettán ár. Síðastliðið haust fluttum við til Granada á Spáni og búum þar. Ég var orðinn sjötugur og kominn tími til að pakka saman og hugsa um eitthvað annað en að vinna. Síðastu þrjú, fjögur árin vann ég við að dreifa fötum á Landspítalnum, konan mín var að vinna þar og mér leiddist að vera einn heima. Það vantaði starfsmann með henni og ég sótti um. En svo endaði með að mér fannst komið nóg og fór að huga að því að hætta,“ segir Kristján.

  Þrátt fyrir að honum hafi þótt starfsævin orðin nógu löng gat hann ekki verið alveg iðjulaus eins og ljóðabókin, Ullin brók og hangið kjöt, ber merki um. Hvernig var að safna saman ljóðunum og líta yfir farinn veg á þennan hátt? „Mikið af þessu eru söngvar,“ segir hann. „Það hefði verið gaman að láta nóturnar fylgja með en ég bara klikkaði á því.“

  Semur þú lögin sjálfur? „Ég hef gert það en hef einnig samið nýja texta við eldri lög. Ég á meðal annars textann við Ísland úr Nató sem margir þekkja. Elsta dóttir mín var óróleg í maganum. Ég bjó þá í Gnoðarvoginum og var með hana úti í vagni að reyna að rugga henni í svefn og var að syngja Waltzing Mathilda undir. Ég var á leið í Keflavíkurgöngu síðar um daginn og byrjaði að syngja Ísland úr Nató, Ísland úr Nató með þessu lagi. Þegar ég kom inn settist ég niður og skrifaði textann og flutti hann svo í fyrsta sinn í göngunni þennan dag.“

  Ljóðabók Kristjáns.

  En þegar þú fórst að raða saman ljóðunum og skoða þau aftur, var þá eitthvað sem rifjaðist upp eða kallaði á þig? „Já, ótalmargt og margar minningar vöknuðu. Það er náttúrlega svolítil biturð í mörgum þessum lögum og vottur af heimsendaspá sem ég rek til þess að ég átti erfitt uppdráttar í æsku og í unglingaskóla. Ég held að það hafi litað margt í mínu lífi og svo þessi afhylling kommúnismans. Ég orti auðvitað um öreigana og gegn auðvaldinu.“

  Hugsanlega þykir einhverjum ljóð um stéttabaráttu, Kárahnjúkavirkjun og fleiri sögulega atburði vera tímaskekkja en þegar betur er að gáð er mannlegt eðli samt við sig og við endum á ljóðinu, Af íslenskum þingmönnum.

  Sjáðu litlu fíflin í flibba og fannhvítri skyrtu

  með fjórsnúna keðju úr gulli við fínbúin úr

  þeir sitja gjarnan mæddir á salgylltum þingum

  og þrasa og fjasa

  ráða fram úr vandræðum, armæðum, volæðum

  heillar þjóðar

  nudda svo og dudda í níu manna ráðum

  fimm manna, fjögurra manna, fimmtán manna nefndum

  halda margan ræðustúf og ræskja sig og sperra

  rækta með sér titla og tindrandi orður

  spássera um strætin með sposkan svip

  spyrja og svara og taka ofan hattinn

  heilsa og vinka og veifa flott

  koma fram í sjónvarpi, útvarpi með andvarpi

  ljúga svo að þjóðinni lipurri tungu

  tafsa og kjamsa, tuldra og humma

  takast í hendur og svara út í hött

  sitja gjarnan kokteilboð

  með kóngmennum og kjörfurstum

  kynnast dýrum greifum og greifafrúm

  snússa sig og sjússa og sitja og standa

  eins og þeim er sagt

  eins og þeim er fyrirlagt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum