2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þess virði að leggja allt til hliðar til að aðstoða börnin“

  Líklega eru það engar ýkjur að mæður eru tilbúnar að fórna öllu fyrir börn sín. Hanna Kristín Skaftadóttir var fljót að finna að margt væri hægt að bæta til að hjálpa börnum með sértækar málhamlanir. Hún hófst handa við að búa til námsefni fyrir þau og nú hafa þessar bækur stutt við og eflt þroska ótal barna víða um heim. Hanna Kristín vinnur nú að endurútgáfu þeirra en hún er búsett í Bandaríkjunum, með syni sína tvo Mikael Björn, níu ára og Benedikt Bjarna, ellefu ára og dótturina Emilíu, sem hún eignaðist í mars í fyrra.

  Hanna Kristín sökkti sér í lestur fræðigreina um málhamlanir eftir að hún fékk að vita að Mikael Björn ætti við slíkt að stríða. Hún tileinkaði sér aðferð sem kallast tákn með tali (TMT), sem er tjáskiptaaðferð sem var upphaflega þróuð fyrir börn með málþroskaröskun. Hún aðlagaði aðferðina að þörfum ungra barna og tókst á hálfu ári að kenna syni sínum, sem þá var nánast ómálga, meira en hundrað orð. Sú staðreynd að í dag gengur honum mjög vel í skóla og talar reiprennandi bæði íslensku og ensku er nánast eins og kraftaverk.

  Hvað er að þínu mati mikilvægast þegar börn glíma við málhömlun?
  „Það er þrennt sem ég tel afar mikilvægt: hefja málörvun snemma við um það bil átta mánaða aldur, sleppa öllum skjátíma fyrir börn undir tveggja ára og takmarka mjög notkun eftir þann aldur og að lokum að endurtaka orðin skýrt með táknrænum tilþrifum. Mimi-bækurnar hjálpa mikið til við þetta. Fyrir Mikael sjálfan held ég að það hafi skipt sköpum fyrir hann hér í Hanover að ég leyfi enga skjánotkun á heimilinu á virkum dögum og takmarka skjánotkun um helgar við tvær klukkustundir á dag fyrir strákana mína sem þó eru orðnir þetta gamlir. Í stað þess að eyða tíma við skjáinn hafa báðir strákarnir mínir sökkt sér í lestur íslenskra og enskra bóka eða íþróttir og bæði ég og aðstandendur þeirra sjáum mikinn mun á þeim. Það var ekki mikið mál fyrir þá að aðlagast enskunni því að með því að fá þá til að lesa mikið og stunda íþróttir þar sem þeir heyrðu enska tungumálið mun meira þá aðlöguðust þeir auðveldlega.“

  Þið eruð búsett í Bandaríkjunum, er sérstök ástæða fyrir því? „Ég flutti til Bandaríkjanna með þáverandi manni mínum sem er í sérfræðinámi í almennum skurðlækningum við Dartmouth-háskólasjúkrahúsið,“ segir Hanna Kristín. „Strákarnir mínir hafa unað sér svo vel hér að við ílengdumst. Við Sindri, fyrrverandi maðurinn minn, búum enn saman hér í Bandaríkjunum og þrátt fyrir skilnaðinn erum við ágætir félagar og sambúðin gengur vel. Sjálf hef ég verið með annan fótinn á Íslandi þar sem fyrirtækið mitt og viðskiptavinir eru þar og ég er að kenna á Íslandi annað slagið. En annars hefur verið alveg dásamlegt að búa hér í Hanover. Mikil náttúrufegurð, lítið en þétt samfélag og skólakerfið til fyrirmyndar.“

  AUGLÝSING


  Hefur haldið tugi námskeiða

  Samhliða því að nýta aðlagaða útgáfu tákna með tali að Mikael, skrifaði Hanna Kristín barnabækur um söguhetjuna Mimi. Í þeim eru sagðar stuttar sögur þar sem notast er við einföld tákn með tali til að laða fram orðmyndun barna, en það var barnsfaðir hennar sem teiknaði myndirnar fyrir bækurnar. Þess má geta að Mikael, sonur Hönnu Kristínar, kallaði sjálfan sig Mimi og þaðan kemur nafnið á söguhetjunni. Í kjölfar útgáfu fyrstu bókanna fór Hanna Kristín í nám í málvísindum og þroskasálfræði barna við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum sem hún nýtti til að þróa aðferðina frekar. Gefnar voru út sjö bækur á níu mánuðum sem nutu mikilla vinsælda meðal aðstandenda og fagfólks og aðstoðuðu fjölda barna á máltökutíma sínum.

  „Síðan árið 2014 hef ég haldið nokkra tugi námskeiða í tákn með tali-aðferðafræðinni víða um Ísland og einnig nokkur í Bandaríkjunum. Ég hef bæði unnið með foreldrum/aðstandendum sem og leikskólastarfsmönnum og fengið afskaplega góða endurgjöf frá þeim varðandi börnin sem þau hafa verið að sinna. Síðastliðið ár var ég formaður Máleflis, hagsmunasamtaka í þágu barna og ungmenna með tal- eða málþroskaraskanir. Ég hef aðstoðað einstaka foreldra eftir þörfum og séð frábæran árangur í máltöku þeirra barna. Mér dettur strax til hugar ein stúlka sem byrjaði að tákna nafn sitt með kórónutákni og það gladdi foreldrana alveg einstaklega mikið og mig í leiðinni. Það að vita til þess að maður sé að aðstoða foreldra að loks ná til ómálga barna sinna vermir sannarlega hjartarætur.“

  Vinnan skilar árangri

  Það er mikið álag að sinna barni með sérþarfir og foreldrar þurfa oft að fórna miklu. Áttu einhver ráð handa fólki í þeirri stöðu? „Já, ég er sammála því að það þarf oft að fórna miklu en mitt ráð væri þá helst að líta þannig á að börnin manns eru svo fljót að vaxa úr grasi og það er algjörlega þess virði að leggja annað til hliðar til að aðstoða þau. Með málhömlunina þá er það oft tímabundið verkefni og því meiri vinnu sem maður leggur í það þegar þau eru ung því betur aðstoðar það börnin. Í dag er lítið sem ekkert hægt að nema málhömlunina hjá Mikael og hann er tvítyngdur og kennarar í skólanum hans hér í Bandaríkjunum fundu ekkert fyrir því að hann glímdi við neins konar málþroskaröskun, enda fékk hann mikla aðstoð á sínum tíma.

  Eitt af því sem gefur Mimi saga, tákn með tali-vörunum sérstöðu er að þær eru sérsniðnar að börnum á aldursbilinu átta mánaða til fimm ára og taka teikningarnar, form og uppsetning, mið af aldri barnanna. Uppröðun bókanna fylgir röðum grunnþarfa barnanna og einnig er litavalið þannig að það haldi mátulega athygli ungra barna. Snemmtæk íhlutun í málörvun barna er afar mikilvæg og eru sífellt að koma fram rannsóknir sem benda til þess að sterkt samhengi sé á milli mikilvægi þess að grípa fljótt inn í að aðstoða börn við máltöku. Jafnvel þó svo ekki séu nein sértæk vandamál til staðar þá er virk örvun í máltöku jákvæð og mikilvæg fyrir öll börn og nýtist sérstaklega vel tví- og fjöltyngdum börnum.“
  Hver eru framtíðarmarkmið þín? „Sem stendur er nóg að gera hjá mér og viðskiptafélaga mínum, Þórunni Jónsdóttur, hjá Poppins & Partners þar sem við sérhæfum okkur í viðskiptaráðgjöf til nýsköpunarfyrirtækja og við Þórunn erum saman í að endurútgefa Mimi-bækurnar og breyttum nafni Mimi Creations í Mimi Saga. Aðallega vegna þess að okkur fannst að verkefnið þyrfti að bera íslenskt heiti og Mimi Saga er flott á íslensku og ensku og er vissulega saga Mimi (Mikaels). Þess fyrir utan hef ég verið að vinna að doktorsverkefni mínu í endurskoðun við Háskóla Íslands.

  Síðan fyrstu bækurnar komu út hefur mikið vatn runnið til sjávar og eru nú í bígerð fjórar nýjar bækur um Mimi og vini hans. Þá eru í boði rafræn námskeið fyrir aðstandendur og fagfólk.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum