2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þótt sannleikurinn sé óþægilegur er lygin verri“

  Kristín Ósk Gestsdóttir, eða Kiddý eins og hún er alltaf kölluð, er lærður kokkur og starfar sem slíkur í Hlaðgerðarkoti hjá Samhjálp. Hún hefur fengið sinn skerf af áföllum í lífinu sem hún hefur tekið með æðruleysi og þakkar það að stóru leyti trúnni á Guð. Kiddý leitaði lengi uppruna síns en móðir hennar var gefin þegar hún var þriggja daga gömul og fékk aldrei að vita hver faðir hennar væri en augljóst var að hann hlaut að vera af erlendu bergi brotinn. Kiddý hefur nú fengið svör við mörgum spurningum sem brunnu á henni en því miður lifði móðir hennar ekki til þess dags. Foreldrar Kiddýjar létust í snjóflóðinu í Súðavík árið 1995.

  „Ég vissi að eitthvað hefði komið fyrir þegar ég vaknaði þennan mánudag í janúar 1995,“ segir Kiddý þar sem við höfum komið okkur fyrir á kaffihúsi á fallegum haustdegi. „Ég sef yfirleitt mjög fast og er ekki þessi svokallaða A-manneskja sem vaknar snemma en eitthvað vakti mig eldsnemma þennan morgun. Ég man að ég vaknaði og reisti mig upp í rúminu og leit á klukkuna sem var hálfsjö. Ég fékk strax á tilfinninguna að eitthvað hefði gerst.“ Fimmtán mínútum síðar hringdi síminn. „Bjarni, maðurinn minn, var í símanum. Hann var staddur hjá foreldrum mínum í Súðavík en ég var hér í bænum þar sem við bjuggum. Hann sagði að það hefði fallið snjóflóð; hann hefði vaknað í snjónum og veðrið væri gjörsamlega klikkað. Hann sagði mér að kveikja á útvarpinu og hlusta á fréttir, hann ætlaði að fara út að leita að foreldrum mínum.“

  Kristín segist hafa farið fram og kveikt á útvarpinu en ekkert var minnst á snjóflóð. „Ég man að Gulli Helga og Jón Axel voru með útvarpsþátt á þessum tíma og ég skildi ekkert í því að þeir væru bara að grínast; vissu þeir ekki að það hafði fallið snjóflóð í Súðavík?“

  Allt datt í dúnalogn

  Ekkert var minnst á snjóflóð fyrr en í hádegisfréttunum þennan dag. Þá fékk þjóðin að vita hvað var að gerast í Súðavík, að snjóflóð hefði fallið á gömlu byggðina kl. 06:25 um morguninn. „Fólkið á staðnum vissi ekki einu sinni strax hvað hafði gerst,“ segir Kiddý. „Ég hringdi í Maríu systur mína, sem bjó þarna ásamt börnunum sínum, um leið og ég var búin að tala við Bjarna og færði henni fréttirnar. Hún hafði ekkert heyrt en þau bjuggu ekki á snjóflóðasvæðinu. Það sem mér fannst ótrúlegt var að finna hvernig allt datt í dúnalogn hérna í bænum þegar fréttirnar af snjóflóðinu bárust. Andrúmsloftið varð rosalega sérstakt, maður fann fyrir svo mikilli samkennd og miklum samhug meðal fólks. Maður fór kannski í búðina og þar bað fólk Drottin að blessa mann, kirkjur fylltust af fólki sem fór þangað að biðja fyrir íbúum Súðavíkur, aðstandendum og björgunarmönnum.“

  „Eftir jólin hringdi hún svo og sagðist vera búin að pakka jólaskrautinu alveg svakalega vel niður í kassa sem hún hefði á tilfinningunni að hún myndi aldrei opna aftur.“

  Kiddý bjó í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Geir Guðbjartssyni, og ellefu ára syni þeirra, Stefáni. Bjarni hafði farið til Súðavíkur til að vinna við smíðar og gisti hjá tengdaforeldrum sínum sem bjuggu þar. „Þetta gerðist auðvitað snemma um morgun svo flestir voru sofandi þegar snjóflóðið féll. Baddi segist hafa rumskað við einhverjar drunur en svo bara vaknað í snjónum, það hafi verið eins og hann hafi verið að synda án þess að vita í hvaða átt hann væri að synda. Það er auðvitað ótrúlegt að hann skyldi hafa náð að koma lifandi út úr þessu en það vildi honum líklega til lífs að í herberginu þar sem hann svaf var gluggi við vegginn sem flóðið féll á, þannig að það myndaðist einhver loftþrýstingur eða eitthvað svoleiðis. Foreldrar mínir sváfu hins vegar við vegg þar sem ekki var gluggi og hann féll ofan á þau þannig að þau létust samstundis. Bjarni náði að bjarga Daníel, öðrum fjölskyldumeðlim á unglingsaldri úr flóðinu. Hann rétt sá glitta í höndina á honum og dró hann upp úr snjónum. Síðan hlupu þeir á nærfötunum einum klæða í næsta hús í skjól.“
  Kiddý segir alla sem vettlingi gátu valdið hafa farið út að leita að fólki. Vegna óveðursins var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið var því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis og biðin eftir hjálp var löng. Alls létust fjórtán í snjóflóðinu, þar af átta börn.

  „Skrýtið að missa bæði fólkið sitt og eiga eiginlega ekkert eftir það“

  AUGLÝSING


  Kiddý og móðir hennar heitin, Hrafnhildur Kristín, eða Habbý eins og hún var alltaf kölluð, voru góðar vinkonur og töluðu saman í síma að minnsta kosti annan hvern dag. „Mamma var ótrúleg kona, hún fann alltaf á sér þegar eitthvað stórt var að fara að gerast,“ segir Kiddý. „Hún þráspurði hvort við ætluðum ekki að koma vestur um jólin. En við fórum ekki. Eftir jólin hringdi hún svo og sagðist vera búin að pakka jólaskrautinu alveg svakalega vel niður í kassa sem hún hefði á tilfinningunni að hún myndi aldrei opna aftur. Hún tók það sérstaklega fram að allt væri rosalega vel merkt og ég gæti bara gengið að þessu vísu. En auðvitað fannst ekkert dót eftir snjóflóðið nema örfáir hlutir og þar á meðal gipskrukka sem mamma hafði föndrað og var alveg heil. Það var meira að segja ein smákaka í henni og KitchenAid-hrærivélin hennar fannst líka. Hún stóð þetta af sér og ég nota hana enn, það væri nú góð auglýsing fyrir þá,“ segir Kiddý og hlær létt. „En það var skrýtið að missa bæði fólkið sitt og eiga eiginlega ekkert eftir það. Nema jú, auðvitað minningar. Þær verða alltaf hér,“ segir Kiddý og bendir á höfuðið á sér.

  Kvöldið áður en snjóflóðið féll voru Bjarni og Habbý heima. „Baddi sagði mér að mamma hefði verið að lesa í eldgamalli Biblíu og hún hafi verið að stúdera faðirvorið því það var öðruvísi orðað í þessari útgáfu en við erum vön. Svo fóru þau að tala um faðirvorið og hvað það sé í raun frábær bæn … Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni … Og það gladdi mig svo þegar Baddi sagði að faðirvorið hefði verið það síðasta sem mamma hugsaði um þegar hún lagðist á koddann. Mér fannst gott að vita að það hafi verið orðin sem hún sofnaði með í síðasta sinn.“

  „Mér hefur alltaf fundist eins og systkini mín eigi eitthvað sameiginlegt sem ég á ekki.“

  Það er auðheyrt á Kiddý að trúin skipar stóran sess í lífi hennar en hún segist þó ekki uppalin í kirkju. Fjölskylda hennar bjó um tíma beint á móti Fíladelfíukirkjunni og þar fór Kiddý í sunnudagaskólann ásamt systkinum sínum og krökkum úr hverfinu. „Þar voru mörg börn og sungnir þessir gömlu barnasálmar. Svo fór maður heim með biblíumyndir,“ segir Kiddý brosandi. „Þannig að trúnni var sáð í hjartað mitt þegar ég var á barnsaldri en ég gerði svo ekkert með það í mörg ár.“ Kiddý segir að sér hafi fundist eitthvað vanta í líf sitt en það hafi ekki verið fyrr en hún var á ferðalagi í Seattle í Bandaríkjunum árið 1991 sem hún hafi áttað sig á því hvað það var sem hafði vantað. „Það var trúin. Vinur okkar Bjarna bjó í Kanada en hitti okkur í Seattle og spurði hvort við vildum ekki koma með honum í kirkju. Við vorum alveg til í að prófa það og fórum á svona ekta svertingjasamkomu í pínulítilli kirkju og það var alveg frábær upplifun. Þetta var svo lifandi og skemmtilegt, það var klappað og kallað og sungið og þetta snerti mig svo að ég fann að þetta langaði mig að fá inn í mitt líf. Eftir þetta var ekki aftur snúið, ég var komin „heim“ ef svo má segja.“

  Lækningamáttur í tónlistinni

  Kiddý missti ekki aðeins foreldra sína í flóðinu, heldur lést líka eins árs gömul bróðurdóttir hennar sem hafði verið skírð í höfuðið á ömmu sinni og var alnafna hennar. „Og maður þekkti flesta sem létust, svo sorgin var mikil,“ segir Kiddý alvarleg. „En ég fékk mjög mikinn styrk frá trúsystkinum mínum í Fíladelfíu, þau komu til dæmis heim og elduðu eða komu með mat. Þeim var virkilega umhugað um okkur. Og ég veit að trúin hjálpaði mér í gegnum þetta. Það voru margir sem komu heim til okkar, líka þeir sem höfðu misst ástvini í flóðinu, og ég man alltaf eftir því þegar einn maður sagðist ekki skilja hvernig ég gæti verið svona sterk og tekið á móti öllum sem komu til að votta samúð en samt verið ósköp eðlileg. Hann spurði hvers vegna ég lægi ekki bara grátandi inni í rúmi, hann sagði að einhvern veginn væri andrúmsloftið öðruvísi hjá okkur. Ég er sannfærð um að það hefur verið út af trúnni. Hún gaf mér svo mikinn styrk.“

  Og Kiddý segir að það gefi von að trúa því að kannski bíði okkar eitthvað betra og meira. „Kristnir hafa þessi fyrirheit um að við munum öll mætast á ný og það gefur manni svo mikla von að hugsa að þetta sé kannski ekki alveg búið. Ég trúði því að mamma, pabbi og Hrafnhildur litla væru komin á góðan stað. Þar fæ ég að hitta þau aftur einn daginn. Jarðarförin var mjög átakanleg og sorgin alltumlykjandi í fullri Dómkirkjunni en þegar ég gekk á eftir kistunum þegar þær voru bornar út úr kirkjunni hugsaði ég að kannski væri allt í lagi að brosa og gefa fólki styrk með því og segja að þetta yrði allt í lagi. Það er auðvitað rosalega erfitt að missa ástvini en þetta er dálítið eins og þegar maður fær sár. Það kemur ör sem er alltaf þarna og minnir mann á. En maður er ekki alltaf að fikta í því, maður lærir að lifa með því.“

  Kiddý hefur sungið í kór Fíladelfíu um margra ára skeið og hún segist líka hafa fundið lækningu í tónlistinni. „Ég man að Óskar Einarsson, kórstjórinn minn, hringdi í mig rétt eftir snjóflóðið og bað mig að hitta sig í kirkjunni. Ég fór að hitta hann og hann sagðist ekki eiga nein orð en hann vildi gefa mér þetta … Svo settist hann við píanóið og byrjaði að spila. Þá brotnaði ég saman og fann hvaða áhrif tónlistin getur haft. Ég fæ meira að segja smávegis gæsahúð þegar ég tala um þetta,“ segir Kiddý og sýnir blaðamanni gæsahúðina á handleggnum. „Tónlist hefur svo mikinn lækningamátt. Á þessum tíma hlustaði ég mikið á lögin hans Kirks Franklin, sem er mjög þekktur í gospelheiminum. Eitt laga hans greip mig við fyrstu hlustun og það brást ekki að ég fór alltaf að gráta þegar ég hlustaði á það. Ég gerði íslenskan texta við þetta lag, My life is in your hands, eftir snjóflóðið, sem hefur töluvert verið sunginn við ýmis tilefni, og mér finnst textinn eiginlega vera minn vitnisburður í lífinu. Innihald hans er á þá leið að við erum örugg í höndum Guðs. Þótt vinirnir fari og ýmislegt gangi á í lífinu þá eigum við skjól hjá honum og erum í hans höndum ef við bara leyfum okkur að hvíla þar. En þú þarft að rétta út höndina til að hann grípi þig, þú þarft að vilja það. Sumir eru sterkir og vilja ganga í gegnum lífið án þess að stóla á eitthvað æðra en sjálfa sig og það er líka í góðu lagi. Ég bara fann að ég þurfti hjálp frá einhverju sem var stærra en ég og getur hjálpað mér í gegnum þau verkefni sem lífið færir mér.“

  Fannst hún alltaf eitthvað frábrugðin systkinum sínum

  Þegar blaðamaður spyr hvernig æska Kiddýjar hafi verið, brosir hún út í annað og segir að það sé svolítið flókið mál að tala um. Maðurinn sem hún kallar föður sinni í viðtalinu og lést í snjóflóðinu, Sveinn Gunnar Salómonsson, var ekki blóðfaðir hennar heldur stjúpfaðir. Og maðurinn sem Kiddý taldi blóðföður sinn, og móðir hennar var gift, var ekki heldur blóðfaðir hennar.

  „Ég er sem sagt rangfeðruð,“ segir Kiddý. „Ég var fyrsta barn mömmu sem var bara sautján ára þegar hún eignaðist mig. Tveir menn komu til greina sem faðirinn, annar þeirra var Gestur, maðurinn sem ég er kennd við og mamma giftist. Mamma og Gestur eignuðust svo fjögur börn til viðbótar en einn bróðir minn lést eftir tæpan sólarhring. Mér hefur alltaf fundist eins og systkini mín eigi eitthvað sameiginlegt sem ég á ekki. Við fengum öll mikið frá mömmu en svo er eitthvað í viðbót hjá hinum systkinum mínum sem þau hafa en ég ekki en get ekki sett fingurinn á. Mér hefur bara alltaf fundist ég aðeins öðruvísi en þau og var alltaf að segja það við mömmu. Þegar ég var um það bil sextán ára þá sagði hún mér að Gestur væri ekki pabbi minn en hún var auðvitað búin að sjá það þótt tveir menn hefðu komið til greina.

  Veistu hver líffræðilegur faðir þinn er?

  „Já, mamma sagði mér það. Ég hitti hann aldrei en föðuramma mín sá mig þegar ég var nýfædd. Þegar ég var nítján ára, að læra kokkinn á Lækjarbrekku, var hringt í mig í vinnuna. Í símanum var maður sem kynnti sig, sagðist vera tengdur blóðföður mínum og spurði hvers vegna ég vildi hafa samband við hann. Mér satt að segja dauðbrá og kom alveg af fjöllum og vissi ekki um hvað maðurinn var að tala um. Þá hafði mamma rekist á blóðföður minn og spurt hvers vegna hann hefði aldrei samband við dóttur sína. Ég spurði manninn í símanum hvort blóðfaðir minn vildi hitta mig og hann sagði að það kæmi sér mjög illa, svo ég sagði að við skyldum þá bara sleppa því og lagði á. Svo fór ég inn á klósett og grét en þá var það líka bara búið. Þarna fékk ég staðfest að það væri enginn áhugi til staðar af hans hálfu, hann átti auðvitað konu og börn og kannski flókið að blanda mér inn í það allt saman. Mörgum árum seinna var ég að fletta Morgunblaðinu og sá dánartilkynningu þessa manns en hún snerti mig ekki neitt. Ég las minningargreinarnar, svona til að gera mér aðeins grein fyrir því hvernig maður hann var, hvað hann gerði og svoleiðis. En það er þetta með að leita uppruna síns, þú veist aldrei hvernig útkoman verður. Maður heyrir langoftast góðu sögurnar sem enda vel þegar fjölskyldur sameinast og allt gengur dásamlega. Sem er frábært en ég þekki hitt af eigin reynslu, þar sem enginn áhugi er til staðar og það er þá bara þannig. Það fer ekki allt eins og maður ætlast til, eða langar. Þess vegna þarf maður að einbeita sér að því að hlúa að sínum allra nánustu. Fólkinu sem er til staðar í lífi manns.“

  Grét heilu dagana og vildi fá litlu systur aftur

  Fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna þegar Kiddý var sex ára. Gestur fór að vinna við krabbaveiðar í Alaska og Kiddý segir að hann hafi gert það gott enda verið duglegur og vel liðinn í vinnunni. „Við fluttum í flott hús og lífið var bara rosalega gott. Mamma eignaðist góðar vinkonur og þær hittust oft með börnin. Svo byrjaði Gestur að drekka. Hann drakk mjög illa og varð ofbeldisfullur með víni. Það voru aldrei til neinir peningar og engir reikningar borgaðir því peningarnir fóru allir í að kaupa áfengi. Þegar ég var um átta ára urðum við að flytja úr húsinu og fluttum í fátækrahverfi sem heitir Holly Park. Þar bjuggu eiginlega þeir allra fátækustu. Vinkonur mömmu hurfu en hún var fljót að eignast nýjar. Mamma var sjálf dökk yfirlitum og eignaðist margar hörundsdökkar vinkonur þarna í fátækrahverfinu og var þannig lagað bara ein af þeim. Meira að segja gekk mamma svo langt með þessum vinkonum sínum að hún fór í Black Panther-samtökin til að berjast fyrir réttindum svartra,“ segir Kiddý. „Við fórum á æskulýðsfundi hjá Black Panther og vorum örugglega eina hvíta fólkið sem hefur verið í þessum samtökum. Ég man að við vorum að búa til mótmælaspjöld og skrifa á þau að löggur væru svín og eitthvað þvíumlíkt,“ segir hún hlæjandi en verður svo alvarleg. „Drykkjan hjá Gesti hafði farið stigversnandi og þegar ég var tíu ára vildi mamma flytja heim til Íslands. Hún hafði ekki kjark til að skilja við hann þarna úti því hún var bara ein með okkur. Við vorum eiginlega send heim með stimpil á rassinum því við vorum bláfátæk og bara baggi á þjóðfélaginu þannig lagað svo það þótti eins gott að senda okkur bara heim.“

  Habbý flutti með börnin til móður sinnar sem bjó í tveggja herbergja risíbúð í timburhúsi á Laugaveginum. „Þá fékk hún kjark til að slíta samvistum við Gest og skildi við hann eftir tíu ára hjónaband,“ segir Habbý. „Mamma kynntist fljótlega öðrum manni, Sveini Gunnari, sem hún bjó með til dauðadags. Þau fluttu með okkur til Svíþjóðar um miðbik sjötta áratugarins og þar kynntist ég Bjarna. Mamma kynnti okkur og vildi fá hann fyrir tengdason en ósk hennar rættist og við erum saman enn í dag,“ segir Kiddý brosandi.

  „Mamma talaði oft um hvort það hafði verið rétt að slíta okkur í sundur og hún sá alltaf eftir þessari ákvörðun.“

  Hún segir lífið samt ekki hafa verið dans á rósum þegar til Íslands var komið árið 1972 eftir skilnaðinn við Gest. Heimilisaðstæður voru ekki góðar og fátæktin mikil. „Mamma var orðin einstæð með fjögur börn og vann þrjú störf til að reyna ná endum saman. Við vorum bara virkilega fátæk. Yngsta systir mín Tanya, fæddist á meðan við bjuggum úti í Bandaríkjunum og var í pössun hjá vinahjónum á meðan mamma var í vinnunni en við eldri systkinin vorum byrjuð í skóla. Þegar Tanya var fjögurra ára vildu þessi hjón ættleiða hana og mamma gaf það eftir. Þetta voru yndisleg hjón og mamma taldi þau geta veitt Tönyu það sem hún gat ekki. Hún gerði þetta samt ekki af fúsum og frjálsum vilja því hennar aðstaða var ekki nógu góð og hún hélt sjálfsagt að þetta væri fyrir bestu. Við fengum að halda sambandi við hana og erum í miklu sambandi enn þann dag í dag en þetta tók alveg rosalega á okkur og ég man að ég grét heilu dagana. Ég vildi bara að litla systir kæmi aftur. Mamma talaði oft um hvort það hafði verið rétt að slíta okkur í sundur og hún sá alltaf eftir þessari ákvörðun.“

  Tvöfalt leyndarmál

  Habbý hafði sjálf verið gefin þremur dögum eftir fæðingu, árið 1945. Kiddý segir að líffræðileg móðir hennar hafi ákveðið að gefa hana frá sér því hún hafi ekki verið í stakk búin til að eiga hana. Hún hafi átt son fyrir sem hún hélt en ekki fundist hún ráða við annað barn. „Hún hélt meðgöngunni leyndri og reyrði sig til að fela kúluna. Mamma var oft mjög lasin fyrstu mánuði ævi sinnar. Þetta var rosalega mikið leyndarmál og það vissi enginn að þessi kona hefði átt annað barn, hún faldi meðgönguna alla tímann, fæddi mömmu í leyni, ekki á sjúkrahúsi sem sagt heldur í heimahúsi og svo gaf hún hana strax frá sér.“
  Kiddý segist alltaf hafa kallað hjónin sem ættleiddu móður hennar afa og ömmu. „Mamma var gefin til yndislegra hjóna en kjörfaðir mömmu dó þegar hún var fimm ára svo ég kynntist honum aldrei. En mamma skar sig úr íslenska fjöldanum. Hún var með mjög dökka húð og dökkt, krullað hár. Á þessum tíma var ekki algengt að sjá fólk hér með þennan litarhátt. Mamma hélt alltaf fyrir olnbogana og vildi helst aldrei ganga í neinu stutterma eða ermalausu því þú veist hvernig húðin á olnbogunum og í hnésbótunum er, hún krumpast og verður dekkri. Þegar mamma var lítil og fór í sund sögðu konurnar sem unnu í lauginni að mamma yrði að þvo sér betur og skrúbba olnbogana og hnésbæturnar því hún væri skítug. Og mamma skrúbbaði og skrúbbaði en liturinn breyttist auðvitað ekki neitt.“

  Þótt kjörmóðir Habbýjar hafi verið yndisleg kona segir Kiddý að það hafi aldrei mátt tala um að Habbý hefði verið gefin og ætti í raun aðra líffræðilega mömmu og þekkti ekki pabba sinn. Enda hafi tíðarandinn verið annar og óþarft þótt að ræða svona hluti, það gerði engum gott. „Mamma náði nú samt að komast að því hvað líffræðilega móðir hennar hét og mörgum árum seinna, örugglega þegar hún var komin vel á fimmtugsaldurinn, hafði hún samband við þessa konu. Í ljós kom að hún hafði flutt til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum þar sem hún hafði unnið í bómullarverksmiðju alla tíð. Maðurinn sem hún átti drenginn með gegndi herþjónustu hér á landi og hefur sennilega verið færður til og verið í burtu um langt skeið. Konan fæddi svo mömmu í millitíðinni en hann var ekki faðirinn. Hún sagði aldrei frá meðgöngunni eða mömmu. Þau hjónin fluttu svo fljótlega til Bandaríkjanna og hún hélt áfram að láta eins og ekkert hefði ískorist. Þegar mamma hafði samband við hana var þessi maður hennar dáinn. Eina sem mamma vissi var að hún ætti tvö hálfsystkini en hún og líffræðilega móðir hennar fóru að skrifast á.“

  Góða frænkan frá Íslandi var dóttirin og systirin

  Þegar Habbý fór í sumarfrí til Flórída, sem hún gerði á hverju ári, ákvað hún að heimsækja líffræðilega móður sína. Kiddý segir að Habbý hafi orðið hissa á því að vera kynnt sem góð frænka frá Íslandi en enn þá var dóttirin leyndarmál. Líffræðilega móðirin hafi verið hrædd um umtalið sem kynni að spretta í kringum það að hún hafi gefið dóttur sína frá sér aðeins þriggja daga gamla. „Mamma vildi hins vegar vita hver pabbi hennar var. Og eina svarið sem hún fékk var að hann héti Jose Gonzales sem er nú bara eins og að heita Jón Jónsson á Íslandi,“ segir Kiddý. „Ég efaðist satt að segja um að hún hefði vitað hvað hann hét og hélt að hún hefði bara kastað þessu fram til að segja eitthvað. En auðvitað veit maður ekki hvað er satt og hvað er logið. Og það er svolítið erfitt, og sárt, að vita það ekki. Mamma eyddi þarna heilum degi með systur sinni og langaði svo að segja henni að þær væru systur en vildi ekki gera það móður þeirra vegna. Svo hún var bara góða frænkan frá Íslandi.“

  Líffræðilega móðir Habbýjar sagði henni að hún væri búin að setja allan sannleikann í erfðaskrána sína og hægt yrði að lesa það allt saman eftir hennar dag. Það kom hins vegar ekki til þess á meðan Habbý lifði að sögn Kiddýjar. „Svo gerðist það að María systir mín hringir í þessa systur hennar mömmu, hún fann símanúmerið hennar, kynnti sig og sagði henni að Habbý væri dáin. Þessi kona fer þá að tala um hvað Habbý hefði verið góð frænka, þær hefðu eytt heilum degi saman og hún hefði verið svo yndisleg. Þá ákvað systir mín að segja henni sannleikann. Konan hrópaði þá upp yfir sig að hún hefði fundið þetta á sér og skildi ekki hvers vegna mamma sín hefði ekki verið búin að segja sér sannleikann. Það er svo vont að lifa svona í lygi. Þótt sannleikurinn sé óþægilegur þá er lygin verri og það er svo mikill léttir þegar sannleikurinn fær loksins að koma út. Það hlýtur að vera hræðilegt að fara í gegnum allt lífið með svona lygi á bakinu. Eins og að vera í fangelsi.“

  Þegar við Kiddý hittumst er hún nýbúin að fá niðurstöður úr DNA-rannsókn sem hún hafi ákveðið að fara í þar sem hún hafi viljað gera tilraun til að leita uppruna síns. Hún hafi margoft verið spurð hvaðan hún sé ættuð, dökkt yfirbragðið veki forvitni og fólk spyrji hvort hún sé íslensk, útlensk, blönduð eða jafnvel svört. „Flestir hafa giskað á að ég eigi rætur mínar að rekja eitthvert til Suður-Ameríku eða á suðrænar slóðir,“ segir Kiddý. „Nú er sem sagt komið á hreint að ég er ættuð frá Mexíkó. Og maður með eftirnafnið Gonzales hafði samband við mig en við erum skyld í þriðja og fjórða ættlið. Það er erfitt að fá fullnægjandi upplýsingar að svo stöddu. Það má segja að ákveðnum spurningum hafið verið svarað um uppruna fjölskyldu okkar því núna get ég alla vega sagt að ég er að hluta til frá Mexíkó. Ég á samt ekki von á því að það verði eitthvert húllumhæ og einhvers konar sameiningar fjölskyldufíesta, en maður veit aldrei. En líffræðilega amma mín hafði þá rétt fyrir sér eftir allt saman og ég viðurkenni að ég skammaðist mín fyrir að hafa haldið að hún hafi logið til um faðerni mömmu.“

  Gat ekki neitað því að hún tryði á kraftaverk

  Kiddý og Bjarni eiga tvö börn, Stefán, 35 ára og Maríu, 17 ára. Barnabörnin eru tvö, Stefán Kári, sjö ára og Kristín Embla, rúmlega eins árs. „Mig langaði að eiga þrjú, fjögur börn og var alltaf að reyna að eignast fleiri en það gekk ekki. Það eru átján ár á milli barnanna okkar og ég var í alvöru búin að ákveða að ég myndi ekki eiga fleiri þegar við vorum lengi búin að reyna að eignast annað barn. Vinkona mín gaf mér lítinn blöðung um þakklæti og þakkarbænir og sagði mér að prófa að þakka fyrir það sem ég ætti í stað þess að vera alltaf að biðja um eitthvað. Við gerum það öll, þú veist. Við biðjum alltaf um eitthvað þegar við erum að biðja til Guðs. Svo ég fór að telja upp allt það sem ég var þakklát fyrir; manninn minn, son minn, fjölskylduna, góða heilsu, þak yfir höfuðið … Og einn daginn í vinnunni leið mér alveg ferlega illa og sagði konu sem ég vann með að ég væri orðin eitthvað slöpp. Hún sagði að ég væri ólétt en ég spurði hvort hún kynni annan, ég væri búin að segja henni að ég gæti ekki orðið ólétt. „Trúirðu ekki á kraftaverk?“ spurði hún þá og ég gat ekki neitað því. Svo ég fór og keypti mér óléttupróf sem var jákvætt. Ég trúði þessu ekki. Ég fór meira að segja til vinkonu minnar sem bjó í kjallaranum í húsinu mínu, hún var sjúkraliði, til að sýna henni prufuna og fá annað álit,“ segir Kiddý og hlær.

  „Þótt sannleikurinn sé óþægilegur þá er lygin verri og það er svo mikill léttir þegar sannleikurinn fær loksins að koma út. Það hlýtur að vera hræðilegt að fara í gegnum allt lífið með svona lygi á bakinu.“

  „Og hún sagði að það færi ekki á milli mála að prófið væri jákvætt. Þannig að ég fór og keypti einhvern helling af óléttuprófum sem voru öll jákvæð. Og ég trúi því að það hafi verið kraftaverk. Ég er viss um að það var af því að ég fór að sýna þakklæti fyrir allt það góða sem ég hafði þótt ég hefði ekki allt sem mig langaði í. Núna bið ég ekki lengur eins og ég gerði einu sinni, Í staðinn fyrir að biðja um eitthvað þá þakka ég Guði fyrir það sem ég hef. Líka þegar mér líður illa eða vantar svar við einhverjum spurningum. Ég segi: Sýndu mér … Verði þinn vilji.“

  Texti Kiddýjar, Þú skalt ekkert óttast, sem hún samdi eftir snjóflóðið í Súðavík:
  Þú skalt ekkert óttast
  og engu kvíða í dag.
  Til er Hann sem huggar
  já, Hann sem bætir hag.
  En veistu að þú átt vininn Jesú,
  sem að veit um öll þín sár.
  Og ef hjarta þitt er þjakað,
  Hann þerrar öll þín tár.

  Ó, því stöðugt ég fæ staðist
  og styrk þú veitir mér.
  Ég er örugg því að eitt er víst,
  Ég er í höndum þér.

  Óvissa og einsemd,
  áhyggjur og neyð.
  Kunningjar sem hverfa
  og hvergi opin leið.
  En veistu að þú átt vininn Jesú,
  sem að veit um öll þín sár,
  og ef hjarta þitt er þjakað,
  Hann þerrar öll þín tár.

  Með Jesú ég fæ staðist,
  því Jesús bjargar mér.
  Ég er örugg elsku frelsari,
  ég er í höndum þér.

  Texti / Guðrún Óla Jónsdóttir
  Myndir / Unnur Magna
  Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum