2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Var fullur af fordómum og fanatík

  Ef þú sérð rauðbirkinn mann með rússneska húfu skreytta hamri og sigð og rauða skjóðu í annarri hönd ganga í hægðum sínum um miðbæinn þá er það er það örugglega Valdimar Tómasson ljóðskáld.

   

  Þú gætir líka rekist á hann á Prikinu, á Kaffitári í Kringlunni og fleiri kaffihúsum. Jólin eru honum passlega að skapi en hann ætlar þó að hella sér út í jólabókaflóðið með ljóðasafni sínu frá 2007-2018. Hann segir að kaldur mánudagsmorgun í nóvember séu sín jól.

  Valdimar er úr sveitinni en hann ólst upp í Vík í Mýrdal og var aðeins 16 ára þegar hann flutti til höfuðborgarinnar. Hann hefur mestmegnis haldið sig í miðbænum þar sem hann hefur slitið mörgum skósólanum frá Aðalstræti og upp að Hlemmi en sjálfur býr hann við Rauðarárstíg með tveimur köttum, Láru og Kleópötru. „Það voru dálítil viðbrigði að koma á mölina. Ég hafði einkum umgengist fólk sem var fætt um og eftir 1900 og féll svo sannarlega ekki í hóp jafnaldra minna í fyrstu. Tungutak mitt var allt annað en þeirra en eftir því sem árin hafa liðið þá hef ég nálgast þá en til að byrja með var ég eins og risaeðla í hópnum. Ég ólst upp við hreint og tært tungutak og vona að ég hafi ekki glutrað því niður hér á mölinni.“ Upp úr skáldinu renna oft hendingar úr kvæðum, rímur, vísur og óháttbundin skáldskapur. „Ég hef gott ljóðaminni en þegar kemur að því að nota minnið í öðrum tilgangi eins og hvað ég eigi að kaupa í búðum og hégómasjoppum, þá er það ekki eins burðugt.“

  Kynntist ljóðum fyrst í gegnum Skólaljóðin

  AUGLÝSING


  En hver voru fyrstu kynni Valdimars af ljóðum? „Ég, eins og flestir í grunnskóla, lærði að meta ljóð með lestri bláu Skólaljóðanna. Mér gekk alltaf vel að læra ljóð utan að en í sveitinni var svo sem ekki mikið af ljóðabókum. En þegar ég flyt hingað á mölina uppgötva ég alveg nýjan heim sem eru fornbókasölur eins og Bókina á Laugavegi 1, Fornbóksöluna á Laufásvegi 4, Fornbókamarkað Helga Tryggvasonar á Amtmannsstíg og Hverfisgötu 16, að ógleymdum Braga Kristjónssyni sem var að flytja í Hafnarstræti 4. Einnig var gaman að heimsækja Egil Bjarnason, revíu- og óperutextaþýðanda, og ekki má undanskilja kaffibollahangsið á Laugavegi 1 hjá þeim sómadrengjum Gunnari Valdimarssyni og Snæ Jóhannessyni. Snær var einstaklega fróður um prentsögu og fágætar bækur og var ásamt Braga þolinmóður að leiðbeina mér og svara mínum fyrirspurnum. Fyrst var erindi mitt einkum leit að þjóðlegum fróðleik sem og áhugaverðum sagnaþáttum. Þá fór ég einnig að viða að mér einni og einni kvæðabók sem endaði með algjörum vírus og þráhyggju,“ segir hann íhugandi. „Fyrst las ég eingöngu eldri skáld eins og Davíð Stefánsson, Stefán frá Hvítadal, Huldu, Jónas og fleiri sem ortu háttbundin ljóð, rímur og miðaldakveðskap.“

  Valdimar vill ekki gera mikið úr kunnáttu sinni á þessu sviði en kunnugir segja hann mjög fróðan. „Ég er enginn sérfræðingur en ég hef kynnt mér þetta nokkuð vel og það gefur mér oft innblástur. Ég var lengi vel fullur af fordómum gagnvart óháttbundnum ljóðum og fannst það óttalegt holtaþokuvæl og vandræðaskáldskapur. Það rjátlaðist hins vegar fljótt af mér þegar ég komst í kynni við móderníska ljóðlist og fór að tína upp bækur slíkra höfunda. Ég byrjaði á því að lesa bók Jóns Óskars, Skrifað í vindinn, en þar blönduðust saman háttbundin ljóð og óháttbundin og þá fór ég að hafa upp á módernískum ljóðskáldum og virkilega að njóta þeirra.“

  Draumurinn um ljóðskáldið

  Sjálfur byrjaði Valdimar sem af kunnugum er kallaður Ljóða-Valdi á því að yrkja háttbundið en fljótlega fór hann að yrkja óháttbundið sem hann segir miklu meiri áskorun. Hans fyrsta ljóðabók var Enn sefur vatnið og kom út 2007. En þó að Valdimar hafi verið 36 ára þegar hún kom út orti hann flestöll ljóðin frá 17-23 ára aldri og geymdi þau vel í skjóðu sinni. Síðan hafa komið út eftir hann bækurnar Sonnettugeigur 2013, Dvalið við dauðalindir 2017 og Vetrarland 2018. Helstu yrkisefnin eru ástin, dauðinn og náttúran. Valdimar átti hins vegar aldrei von á því að hann yrði ljóðskáld. „Ég vann lengi fyrir mér sem pylsusali í Austurstræti, ræstitæknir, barþjónn og bóksali og fleiri böðulsins störf. Leiðin lá því ekki beint til ljóðskáldsins.“

  Forlagið gaf síðan út allar bækurnar í safni undir heitinu Ljóð 2007-2018. Valdimar Tómasson. Hann segir það ákveðinn heiður fyrir sig að út sé komið safn ljóða sinna. Bækurnar hafa fengið góðar móttökur og selst mjög vel. „Það er þessi hljóða hæga velgengni sem ég hef upplifað. Ljóðið er í eðli sínu ekki flaðurgjarnt, það fer ekki með skautum. Þess á fólk að njóta eitt og sér líkt og tilbeiðslu í einrúmi en ekki hrópa það á torgum úti,“ segir hann.

  HVAÐA BÆKUR ERTU MEÐ Í RAUÐU SKJÓÐUNNI?

  Í rauðu skjóðunni sem Valdimar skilur vart við sig er að finna safn bóka. „Í skjóðunni núna eru Sæfarinn sofandi, Veðrahjálmur og Jórvík eftir Þorstein frá Hamri, Kvæðabók og Stund og staðir, Eldhylur og Haustaugu eftir Hannes Pétursson, Ljóðúrval Nínu Bjarkar Árnadóttur. Sálumessa og Heimskaut eftir Gerði Kristnýju og Laufin, trén og vindarnir ljóðaúrval Jóns Óskars.

  Þrá

  Síðan þú fórst
  Hafa aðeins tárin
  Strokið kinnar mínar

  Og vægðarlaust myrkrið
  Vaggað mér í svefn.

  Sonnetta

  Ég fagna því er bjartur dagur dvín
  og dýpi myrkurs hylur alla vegi
  en hvergi nem ég blik af björtum heimi
  og bjarmi vonar læðist heim til sín

  Og hljómur þagnar í holund lífsins vekur
  en haustmyrkrið í krafti sínum ríkir
  og hverja von þú vesöld tæra sýkir
  er veglaus angist hugarlendur þekur

  Ó, kom þú dauði, þið djúpu feigðarrætur
  og dveljið hjá mér, svæf mig eilíflega
  er einn ég reika ráðlaus utan vega
  mér reynist koma þín sem vínguð nætur

  Ó, dýra myrkur, dauðans perluglit
  Ég dvel í kyrrð við svalan feigðarþyt.

  Texti / Unnur H. Jóhannsdóttir
  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum