Framandi sýn á landslag og gróður

Deila

- Auglýsing -

Sigríður Bachmann var aðeins fimmtán ára þegar hún hóf störf á ljósmyndastofu Guðmundar A. Erlendssonar ljósmyndara. Eitthvað við myndavélina, filmurnar og úrvinnslu mynda heillaði hana því upp frá þessu hefur hún meira og minna kannað heiminn í gegnum linsuna. Nýlega hélt hún sýningu í Bókasafni Kópavogs á myndum unnum með blandaðri tölvutækni sem hún hefur sjálf þróað.

Yfirskrift sýningarinnar var Framandi sýn en Sigríður hefur að undanförnu verið dugleg við að vekja athygli á þeim á samfélagsmiðlum. „Þetta eru myndir af landslagi, blómum og gróðri sem sem ég hef tekið að mestu í Kópavogi og nágrenni segir Sigga. „Ég hef verið að þróa þessa tækni sem er bland af ljósmyndun og tölvutækni undanfarin sex ár og segja má að hún veiti framandi sýn á umhverfið. Ég kenndi mér sjálf á tölvu, tók hreinlega í hnakkadrambið á sjálfri mér og sagði: Ég skal, vil og get.“

Sigríður Bachmann

Og Sigga gat. „Tilgangurinn með myndunum er að sýna fólki hvað tölvan er mögnuð fyrir skapandi list, og hugsun,“ segir hún. „Allir geta skapað, eina sem sköpunargáfan krefst er að menn hugsi út fyrir rammann og móti nýja sýn. Sköpunarferlið virkjar gleðistöðvar heilans, svo þetta ferli hefur verið mjög gefandi og gefið mér skemmtilega tilfinningu.“

Mynd / Sigríður Bachmann

Víðtæk reynsla

Sigga vann hjá Guðmundi Erlendssyni í þrettán ár en fór svo í Iðnskólann og lauk prófi í ljósmyndun. „Eftir ljósmyndaraprófið vann ég hjá nokkrum ljósmyndurum, meðal annars aðstoðaði ég meistarann minn, Guðmund, þegar hann fór í frí og svo framvegis, tók passamyndir á Hlemmi og fleira. Svo fór ég að vinna hjá Sigurgeiri Sigurjónssyni í Svipmyndum og vann þar í um það bil tíu ár.“

Hún lét síðar drauminn rætast og rak eigin ljósmyndastofu í mörg ár, fyrst í Garðastræti en flutti hana svo upp í Mosfellsbæ. Á þeim tíma var hún þekkt fyrir að kjósa að taka svarthvítar myndir þegar flestir aðrir voru farnir að taka eingöngu í lit. Henni fannst þær listrænni og gera meiri kröfur til sín sem ljósmyndara. Hún naut þess líka að taka myndir af gæludýrum og börnum. „Mér fannst mikilvægt að varðveita æskuna,“ segir hún. „Þau eru svo fljót að vaxa og fyrr en varir er æskan horfin. Þá er svo mikilvægt að eiga minningarnar.“

 „Allir geta skapað, eina sem sköpunargáfan krefst er að menn hugsi út fyrir rammann og móti nýja sýn.“

Mynd / Sigríður Bachmann

Mannamyndir voru eiginlega sérgrein hennar og Sigga var ekki mikið fyrir að fegra fólk eða fótósjoppa. „Hver lína í andliti fólks segir sögu,“ segir hún. „Ég vildi halda í karakterinn, sýna manneskjuna eins og hún er. Sjálfsævisaga okkar er dregin upp í þessum línum.“

Mynd / Sigríður Bachmann

Hugsanlega hefur þetta viðhorf hennar eitthvað að gera með að hún ólst upp í hinu alræmda braggahverfi Camp Knox. Þar kynntist hún öllu litrófi mannlífsins og lærði fljótt að lesa manneskjurnar. Fátæktin dró fram öfgarnar, bæði hið góða og verri hliðarnar. Um tíma bjó Sigga einnig í Suður-Afríku við mikið ríkidæmi. Hún var í sambúð með auðugum manni en  sambandið gekk ekki upp og hún segist þá hafa gert sér grein fyrir að hamingjan fylgdi ekki peningum. Eftir að hún kom aftur heim sneri hún sér alfarið að myndatökum og átti langan og farsælan starfsferil. Sigga er nú komin á eftirlaun en hefur ekki alveg getað sleppt myndavélinni og þessar áhugaverðu ljósmyndir eru afrakstur könnunarleiðangra hennar um Kópavoginn.

Mynd / Sigríður Bachmann
- Advertisement -

Athugasemdir