Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Framboð Helgu Völu kom Heiðu á óvart: „Ég tel mig vera betri varaformann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þeir sem til mín þekkja vita að ég er annars meira fyrir að framkvæma hlutina en að tala um þá eins og sést kannski bara þegar fólk skoðar þau verkefni sem ég held utan um […] Ég læt verkin tala,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir. Heiða hefur gegnt embætti varaformanns Samfylkingar síðustu ár og verið viðloðandi flokkinn um árabil. Það kom því mörgum á óvart að þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir skyldi skora Heiðu á hólm með því að bjóða sig fram til embættisins – ekki síst Heiðu sjálfri. Fram undan er landsfundur þar sem tekist verður á um stólinn og framtíð Samfylkingarinnar.

Helga Vala hefur lýst yfir framboði sínu til varaformanns Samfylkingar. Þar með tekur hún slaginn við þig, sem hefur gegnt embættinu síðustu þrjú ár. Líturðu á framboð hennar sem vantraust við þitt starf?
„Auðvitað mega allir gefa kost á sér ef þeir telja sig betur til forystu fallnir en þeir sem eru fyrir. Hins vegar kom þetta framboð frá Helgu Völu mér á óvart,“ játar Heiða. „Ég hef ekki fengið neina gagnrýni frá henni á mín störf eða ráð um hvað mætti gera öðruvísi. Hún hefur vissulega rétt á þessu. Hún hefur verið öflug í þinginu og mér finnst hún eiga fullt erindi þar. Það verður síðan bara landsfundar að ákveða hvora okkar þeir vilja hafa í þessu hlutverki. En ég tel mig vera betri varaformann og ég vona að fólki finnist það líka.“

„Ég hef ekki fengið neina gagnrýni frá henni á mín störf eða ráð um hvað mætti gera öðruvísi.“

Óheppilegt að varaformaður krefjist þess að fá athygli

Hvað kosti telurðu þig hafa fram yfir Helgu Völu?
„Mér finnst ég hafa marga kosti sem hafa nýst í þessu starfi, þótt aðrir hafi örugglega sína kosti líka,“ svarar Heiða, eins og sannur pólitíkus. „Ég tel til dæmis skipta máli að forysta Samfylkingarinnar hafi breidd sem endurspeglist meðal annars í því að formaður og varaformaður starfi ekki á sama vettvangi, þinginu. Stjórnmálaflokkum hættir nefnilega til að vera mjög uppteknir af störfum þingsins og það vill gleymast að einn þriðji af hinu opinbera fer fram á sveitastjórnarstiginu. Þaðan kem ég. Ég gegni hlutverki varaformanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég tel það mikilvægt á meðan formaðurinn er á þingi.“

Heiða Björg hefur verið varaformaður flokksins síðustu þrjú ár. Hún telur að það væri óheppilegt að vera varaformaður sem er alltaf að krefjast þess að fá athygli þegar það er í raun formaðurinn sem á að vera andlit flokksins og tala út á við.

Heiða kveðst lítt gefin fyrir að hreykja sér en segir þó liggja í augum uppi að mikil uppbygging hafi átt sér stað innan flokksins síðustu ár. „Við Logi [Einarsson] tókum auðvitað við Samfylkingunni á skrítnum tíma. Flokkurinn hafði nánast þurrkast út af þingi og við unnum dag og nótt við að byggja hann upp ásamt breiðum hópi af góðu fólki. Núna ríkir samstaða innan flokksins og gleði. Fólk er sammála um að stefnan, jafnaðarmannastefnan skipti máli, ekki hvaða fólk gegni hvaða stöðum. Mér finnst áríðandi þegar svona mikilvæg ár eru fram undan, þar sem kosið verið í alþingiskosningum og borgarstjórnarkosningum, að við höldum í þennan samstöðuanda og þennan baráttuanda fyrir jafnaðarmannastefnunni.“

Hún tekur fram að samstarfið við Loga sé gott. Þau séu samstiga og skipti með sér verkum. „Formaðurinn er auðvitað talsmaður okkar á meðan varaformaðurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna, sérstaklega innan flokksins. Ég tel að það væri óheppilegt að vera varaformaður sem er alltaf að krefjast þess að fá athygli þegar það er í raun formaðurinn sem á að vera andlit flokksins og tala út á við.“

- Auglýsing -

Lætur verkin tala

En hvar greinir hana og Helgu Völu á – svona málefnalega séð? Um hvað mun þessi slagur snúast?
Heiða hugsar sig um. „Ég er ekkert endilega viss um að það sé munur á skoðunum okkar,“ segir hún svo. „Við erum auðvitað báðar í sama flokki og fylgjum sömu stefnu og það verður engin stefnubreyting hjá Samfylkingunni sama hvor okkar vinnur. En við leggjum áherslu á mismunandi hluti og hvað við teljum vera mikilvægast. Ég held að fólk sjái það með hliðsjón af okkar málflutningi. Ég hef lagt mikla áherslu á velferðarmálin, á mannréttindi. Að við séum öll jöfn í samfélaginu. Þar hef ég lagt mig mikið fram. Þeir sem til mín þekkja vita að ég er annars meira fyrir að framkvæma hlutina en að tala um þá eins og sést kannski bara þegar fólk skoðar þau verkefni sem ég held utan um, til dæmis hjá borginni. Ég læt verkin tala.

En ætli munurinn á okkur Helgu Völu felist ekki í okkar ólíku þekkingu og ólíka persónuleika,“ heldur hún áfram. „Ég sá einhvers staðar að hún líkti okkur við söngkonurnar í ABBA, sem mér fannst reyndar ekki alveg viðeigandi. Ég vona í það minnsta að ég hafi átt að vera Agnetha, því hún var alltaf vinsælli,“ segir hún og hlær.

- Auglýsing -

Blöskraði óréttlætið

Það er auðheyrt að Heiða brennur fyrir samfélagsmálum. Voru þau ástæða þess að hún sneri sér að pólitík?
„Algjörlega,“ segir hún hiklaust. Mér finnst mikilvægt að þeir sem fari út í stjórnmál brenni fyrir því að breyta, því samfélagið er að mörgu leyti óréttlátt. Það eru stórar hópar sem ekki fá sömu tækifæri og aðrir. Það var ein ástæða þess að ég hætti í mínu annars ágæta starfi hjá Landspítalanum, þar sem ég rak stóra einingu, máltíðareiningu starfsmanna og sjúklinga, með 150 starfsmenn og fór út í stjórnmálin. Ég var bara ekki tilbúin að sætta mig við að það tæki einhver hundrað ár að konur fengju sömu tækifæri og karlar í samfélaginu. Ég vildi breyta því. Þess vegna gekk ég til liðs við kvennahreyfingu Samfylkingarinnar.

Svo á ég á barn með fötlun og ég fann að hans tækifæri í lífinu voru skertari en annarra. Ég upplifði þetta á eigin skinni. Þegar hann var í grunnskóla sagði þar starfsmaður við mig: „Heiða, ég hef engar áhyggjur af syni þínum, hann hefur svo sterkt bakland.“ Þetta sat í mér og ég fór að hugsa: „Hvað með öll börnin sem ekki eiga sterkt bakland? Því það skiptir ekki bara máli fyrir mig að mitt barn hafi tækifæri í lífinu,“ segir hún, „það skiptir máli fyrir mig að öll börn fái tækifæri.

Sjálf er ég alin upp af strangheiðarlegu verkafólki, sem átti óskaplega lítinn pening þegar það var búið að borga af húsnæðislánunum sínum. Ég þekki því af eigin raun hvernig er að hafa bara ekkert allt of mikið á milli handanna og veit að getur tekið á, sérstaklega börn. Þess vegna langar mig að vinna að því að sem fæst börn alist upp við skort og að börn í erfiðum heimilisaðstæðum trúi að þau geti unnið sig úr þeim og hafi tækifæri til að mennta sig og eiga öðruvísi líf. Þetta skiptir mig miklu mál og ég finn að ég get gert gagn. Það heldur mér gangandi í þessu, þessi tilhugsun um að ég geti gert gagn. Ef ég tryði því ekki gæti ég bara hætt í stjórnmálum.“

„Þetta var ekkert mjög úthugsað hjá mér“

Foreldarnir sem Heiða talar um eru Hilmir Helgason vinnuvélstjóri og Lovísa Snorradóttir sem starfaði í heimilishjálp, en Heiða er fædd og uppalin á Akureyri, elst fjögurra barna. Bróðir hennar kom í heiminn þegar hún var þriggja ára og tæpu ári síðar bættust við tvíburasystur. Á þeim tíma voru engin dagvistunarúrræði þannig að móðirin hafði oft í nógu að snúast ein heima með fjögur börn, í 30 fermetra íbúð á tímabili.

„Á þessum tíma var ég svona 10-12 ára og ég tók hlutverk mitt sem elsta barn mjög alvarlega, reyndi eftir fremsta megni að hjálpa foreldrum mínum og vera ábyrg. Mamma skúraði á kvöldin og ég eldaði kvöldmatinn. Mér fannst bara sjálfsagt að leggja hönd á plóg og auðvitað lærði maður helling á þessu, eins og að elda. Eftir á hyggja má hins vegar segja að ég hafi alið með mér svolítinn afkomuótta við það að alast upp við að fara sparlega með hverja krónu og ég var óhóflega sparsöm fram á fullorðinsár. Ótta sem ég þurfti svo að tækla þegar ég eignaðist seinna eigin fjölskyldu og maka sem horfði allt öðruvísi á hlutina.“

Heiða segir að foreldrar sínir hafi verið og séu enn róttækt fólk. Faðir hennar hafi alltaf verið í verkalýðsfélaginu og hún hafi sem barn alltaf verið meðvituð um að þau fjölskyldan væru að berjast fyrir betri heimi. Það sé því kannski ekki skrítið að leiðin hafi legið í Samfylkinguna þegar komið var fram á fullorðinsár. Í raun hafi enginn annar flokkur komið til greina. En leiðin í flokkinn hafi þó verið svolítið óvenjuleg.

„Ég kem inn í flokkinn í gegnum kvennahreyfingu Samfylkingarinnar, en ekki í gegnum háskólapólitíkina eins og margir,“ útskýrir hún. „Enda fór ég, þessi sjálfstæða týpa sem ég var þarna orðin, út í háskóla til Svíþjóðar að læra næringarfræði þar sem hún var ekki kennd á Íslandi. Eftir heimkomu gekk ég svo til liðs við kvennahreyfingu flokksins og hvatti Hrafnhildi Ragnarsdóttur til að bjóða sig fram til formennsku og lofaði á móti að gefa kost á mér í stjórn. Seinna þegar við hvöttum konur til forystu í stjórnmálum var skorað á mig að gefa kost á mér, það varð eiginlega til þess að ég ákvað að taka þetta skref og hef ekki séð eftir því.“

Heiða segir að með hliðjsón af sínum bakgrunni sé kannski ekki skrítið að leiðin hafi legið í Samfylkinguna þegar komið var fram á fullorðinsár.

Heiða er gift Hrannari Birni Arnarssyni sem á sjálfur stjórnmálaferil að baki. Þau kynntust 2003 og gengu í hjónaband 2006 en hann hafði þá verið áberandi innan Samfylkingarinnar og þurft að takast á við ýmis krefjandi verkefni. Það hefur ekki dregið úr löngun Heiðu að fara út í pólítík? „Góð spurning,“ segir hún. „Nei, veistu, í raun hugsaði ég ekki út í það, þótt ég hafi auðvitað fylgst með Hrannari vinna með Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, að því að bjarga Íslandi úr þeirri kreppu sem ríkti, með öllu því álagi sem því fylgdi. Nei, ég einblíndi í raun á þá hugsun að við eigum helst öll að gefa kost á okkur í stjórnmálum, alla vega í einhvern tíma á lífsleiðinni og reyna að gefa til samfélagins.“

Reyndust stjórnmálin vera í líkingu við það sem hún hafði hugsað sér þegar á hólminn var komið?
„Ég viðurkenni að ég vissi kannski ekkert ofboðslega mikið hvað ég var að fara út í. Ég var bara áhugasöm að taka þátt og ákvað þess vegna að gefa kost á mér. Þetta var ekkert mjög úthugsað hjá mér,“ segir hún og brosir.

„Hins vegar hefur komið skemmtilega á óvart hvað heimur stjórnmála getur verið góður, í raun betri en ég bjóst við. Í borginni þar sem ég er borgarfulltrúi er auðvitað tekist hart á um stór mál og utan frá séð geta stórnmálin virkað eins og vígvöllur. Þar spilar inn í að leiðinlegu málin fá oftast meira pláss í fjölmiðlum. En mér hefur alltaf verið vel tekið og ég hef eignast góða samstarfsmenn bæði innan Samfylkingarinnar og í öðrum flokkum. Almennt vinnum við þétt saman og erum að ná árangri saman. Enda tel ég að ef við ætlum að gera það þá eigum við að horfa meira í það sem við eigum sameiginlegt og hvar við getum unnið saman og eyða minni tíma í að reyna að klekkja á fólki eða segja ljóta hluti um það.“

„Engin óráðsía í gangi“

Ég bendi á að margir upplifi samt mikla ólga innan borgarstjórnar. Störf meirihlutans hafa verið umdeild. Braggamálið, pálmatrén, framúrkeyrsla Sorpu. Sumir telja stjórnleysi og óráðsíu ríkja í Ráðhúsinu.

„Mér finnst sjálfsagt að gagnrýna það sem má betur fara,“ svara Heiða yfirvegað. „Framkvæmd Braggans var til dæmis klárlega ekki eins og á að vera. Við höfum ekki reynt að hylma yfir það. En það er engin óráðsía í gangi. Borgin stendur vel og henni er vel stjórnað. Og vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt þá gætum við ekki, ekki einu sinni þótt við vildum, stjórnað borginni jafnilla og sumir vilja láta í veðri vaka.

„Framkvæmd Braggans var til dæmis klárlega ekki eins og á að vera. Við höfum ekki reynt að hylma yfir það. En það er engin óráðsía í gangi.“

En auðvitað leggjum við okkur fram um að stjórna vel og mér finnst ég sjá jákvæðar breytingar á borginni. Sem dæmi erum við að byggja upp þjónustu fyrir fólk með fatlanir. Erum að opna fleiri hjúkrunarrými. Erum að gjörbylta þjónustu velferðarsviðs. Erum meira að horfa í að veita þjónustu sem fólk óskar eftir heldur en að ákveða þjónustu fyrir það í einhverju excel-skjali, eins og var kannski meira áður fyrr. Eins og bara þegar ekklar, menn sem voru í sorg, leituðu til félagsþjónustunnar og var þá boðið þrif, en vantaði kannski annars konar aðstoð. Við erum að vinna í því að snúa kerfinu. Hlusta á fólkið, frekar en að ákveða hlutina fyrirfram. Þetta eru bara nokkrar breytingar og ég er ánægð með þær og stolt af þeim.“

Átök Eflingar og borgarinnar tóku á

Hérna gríp ég fram í og bendi á að ekki deili nú allir þeim skoðun með Heiðu að hlutirnir séu að þróast í rétta átt í Reykjavík. Kaupmenn í miðbænum hafi sem dæmi sett út á meirihlutann einmitt fyrir að hlusta ekki á þá með því að fjölga göngugötum í borginni. Meirihlutinn hafi líka verið gagnrýndur fyrir úrræðaleysi í málefnum heimilislausra og þegar kjaraviðræður stóðu yfir sakaði Efling hann um hræsni og óbilgirni.

„Varðandi miðbæinn og Laugaveginn þá sjáum við samkvæmt könnunum að Reykvíkingar eru ánægðir með þá þróun sem á sér stað,“ bendir Heiða á. „Hverfisgatan er orðin frábærlega flott. Þar hafa sprottið upp mörg fyrirtæki. Og ekki má gleyma nýja Hafnartorginu. Fyrir utan það veit ég að þau hjá umhverfis- og skipulagssviði hafa lagt sig fram um að vera í góðu samtali og eru opin fyrir margvíslegum lausnum, því að sjálfsögðu viljum við sem blómlegasta miðborg. Það skiptir máli fyrir mannlífið. Við þurfum bara einhvern veginn að finna leið þarna á milli þannig að Reykvíkingar séu ánægðir og kaupmennirnir líka.

Hvað varðar heimilislausa, þá þurfti að bæta þjónustuna og við höfum sett tvöfalt meira fjármagn í þann málaflokk.“

Hvað með gagnrýni Eflingar? Hvernig fannst þér, með þinn bakgrunn, að vera sökuð um að tala niður til verkalýðsstétta?
„Ég styð alltaf baráttu verkalýðsfélaga fyrir bættum kjörum og mér fannst mikið af kröfum Eflingar skiljanlegar. Mér fannst þetta hins vegar mjög erfiður tími,“ játar Heiða fúslega. „Mér fannst mjög miður að það þyrfti að koma til þess að það þyrfti að fara í verkfall. Ég hefði á allan hátt viljað að við gætum komið í veg fyrir það.

Ég hefði líka viljað geta haft meiri áhrif á samningaviðræðurnar. Stjórnmálamenn hafa hins vegar ekki umboð til þess heldur samninganefndir og við urðum að leggja traust okkar á það að þær næðu saman. Sem betur fer gerðist það og ég held að samningurinn sem náðist loks sé ásættanlegur fyrir báða aðila þótt við í Reykjavík séum svolítið gagnrýnd fyrir það að hafa samið of vel við Eflingu. Við eigum bara að vera stolt af því og standa við þann samning. Þarna eru stórar og mikilvægar kvennastéttir sem eru á of lágum launum. Þannig að þetta var mikilvægt skref, sem ég er ánægð með að við skyldum taka. En af hverju þetta tók svona langan tíma skal ég ekki segja. Þeir sem sátu við samningaborðið eiga svar við því.“

Flokksmenn og kjósendur dæma um ábyrgð Ágústs Ólafs

Ég minni á að flokkurinn hefur líka sætt harðri gagnrýni fyrir að taka ekki nógu vel á öðru máli, máli þingmanns sem fór í tveggja mánaða leyfi í kjölfar þess að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar veitti honum áminningu vegna „ósæmilegrar hegðunar hans í garð konu“, eins og það var orðað í fjölmiðlum.

„Þetta mál sem kom upp með Ágúst [Ólaf Ágústsson] var gríðarlega erfitt,“ segir Heiða alvarleg. „Ég reyndi að svara því jafnheiðarlega og ég gat. Ég stend alltaf með þolendum í svona málum. Hann vann úr þessu eins og hann taldi best og axlaði ábyrgð á því sjálfur.“

Hún segir að öllum flokkum sé hollt að fá gagnrýni og aðhald í svona málum. „Borgarstjóri Kaupmannahafnar, sem er varaformaður jafnaðarmannaflokksins í Danmörku, var til dæmis að segja af sér vegna þess að hann hafði áreitt konur. Þar er ráðherra kominn með ákæru. Það er svo mikilvægt að við [stjórnmálamenn] sýnum samfélaginu að svona mál eru ekki léttvæg. Að við sýnum að við tökum svona mál alltaf alvarlega.

Hvort Samfylkingin hefði getað gert eitthvað meira í þessu máli … Við fylgdum því ferli sem við höfðum sett upp innan flokksins. Ég held að það hafi sýnt sig hversu mikilvægt það var. Þetta var niðurstaðan. Núna mun flokkurinn velja aftur hverja hann vill bjóða fram til Alþingis. Ég geri ráð fyrir að Ágúst ætli að sækjast aftur eftir þingsetu. Það verður í höndum flokksfólks og kjósenda hver niðurstaðan verður, hver tekur sæti á Alþingi.“

Lítt gefin fyrir sviðsljósið en samt ekki hlédræg

Þegar ég bendi á að sumum hafi þótt Heiða halda sig helst of mikið til hlés í þessu máli er hún fljót til svars. „Í þessu máli veitti ég ansi mörg viðtöl og fékk þá gagnrýni að ég hefði haft mig of mikið í frammi,“ segir hún.

En getur verið að henni hætti stundum til að vera of … hlédræg? „Nei, það myndi ég nú ekki segja og í raun alls ekki,“ bætir hún við ákveðin. „En mér hefur ekki fundist mikilvægast að fá hrós fyrir mín verk eða þegar ég get látið gott af mér leiða. Mér finnst mikilvægara að láta verkin tala heldur en að vera í sviðsljósinu.“

Spurð hvort hún nái almennt að brynja sig fyrir gagnrýni af þessu tagi, segist Heiða almennt geta það. „Ef ég veit að ég hef staðið mig eins vel og ég get þá geri ég það, en auðvitað tek ég réttmætri gagnrýni á kerfið okkar, því mér finnst leiðinlegt að við skulum ekki hafa náð lengra á ákveðnum sviðum en raun ber vitni. Ég tek til dæmis nærri mér að við skulum ekki vera komin lengra á veg í þjónustu við fatlaða,“ nefnir hún. „Ef gagnrýni er hins vegar ósanngjörn, þá getur manni sárnað í smástund,“ játar hún og brosir dauft.

Sótti sér handleiðslu

Nærðu alltaf að skilja að vinnu og einkalíf?
Nei, ég er ekki alveg nógu góð í því. En ég er að vinna í því. Ég hef sótt mér handleiðslu til að skilja betur að „vinnutýpuna“ og „Heiðu-týpuna“ svo ég geti líka verið góða mamma, dóttir og vinkona. En þetta er stundum svolítið flókið af því mér finnst svo ótrúlega gaman í stjórnmálum og brenn fyrir því sem ég er að gera.

Ég reyni auðvitað að kúpla mig frá vinnu öðru hvoru,“ tekur hún fram. „Stundum förum við fjölskyldan eitthvert í burtu, kannski bara í einn dag, til að brjóta upp rútínuna. Stundum skelli ég mér í þakklætisgöngu, sem er nokkuð sem ég lærði af Sirrý Arnardóttur fjölmiðlakonu. Þá geng ég um og þakka fyrir það sem á vegi mínum verður, náttúruna, fuglana. Svo elda ég. Ég er svolítill ástríðukokkur og get gleymt mér í eldhúsinu. Reyndar nenni ég því alls ekki alltaf en það fær mig til að slaka á. Síðan á ég tvær dætur, 12 og 14 ára og get dottið inn í lífið með þeim. Það getur verið skemmtilegt og mikil núvitund fólgin í því,“ segir hún og kímir.

Heiða kveðst lítt gefin fyrir að hreykja sér en segir þó liggja í augum uppi að mikil uppbygging hafi átt sér stað innan flokksins síðustu ár.

Spurð hvort hún sé hamingjusöm, segist Heiða vera það. Hún segir það til dæmis gefandi að koma í gegn málum sem breyta lífi fólks til hins betra. „Sem dæmi var frábært að stofna ofbeldisvarnanefnd sem „móniterar“ ofbeldi í borginni. Við höfum hrint úr vör fullt af verkefnum sem styðja við fólk sem verður fyrir ofbeldi og draga úr líkum á að fólk verði fyrir ofbeldi. Bjarkarhlíð var til dæmis verkefni sem við keyrðum af stað nokkrar konur og varð að veruleika,“ bendir hún á. „Það eru svona hlutir sem skipta máli.“

Erfitt að horfa upp á fullorðið fólk ljúga

Heiða játar þó að vinnan sé ekki alltaf dans á rósum. „Auðvitað tekur sumt á. Eins og innanflokksátök. Fólk sem sýnir minni kærleika til samstöðunnar og meiri kærleika til sjálfs sín. Það þekkist í öllum flokkum. Ég er líka ósátt við ósanngjarna gagnrýni og ósanngjarnar yfirlýsingar. Eins og þegar borgarfulltrúi stígur í pontu og segir ósatt,“ segir hún, án þess að nefna nokkur nöfn. „Ég, miðaldra konan, á bara enn erfitt með að horfa upp á fullorðið fólk segja ósatt og trúa því að það vilji það. Þetta tengist bara uppeldinu þar sem foreldrar mínir lögðu áherslu á að maður ætti fyrir sínum útgjöldum og segði alltaf satt.“

Hún viðurkennir líka að það hafi var áskorun að taka við sæti varaformanns í Samfylkingunni á sínum tíma, þótt það hafi verið gefandi. „Við sem komum inn í þetta unnum dag og nótt þar sem flokkurinn átti ekki pening og sjálfboðaliðar héldu úti heimasíðunni okkar. Nú erum við komin með starfsmenn, nýja skrifstofu, lógó og heimasíðu og tilbúin í þessi tvö ár sem eru fram undan. Nú þurfum við bara að ná trausti almennings og fylgi, svo að við eigum rödd á Alþingi og vonandi í ríkisstjórn líka.“

Reynslan af borgarmálum gæti nýst í ríkisstjórn

Finnst þér koma til greina að vinna með hvaða flokki sem er í ríkisstjórn?
„Þegar ég fór út í stjórnmál hugsaði ég að maður ætti aldrei að útiloka neitt og vinna með öllum. En í ríkisstjórn verður maður auðvitað að vinna með fólki sem vill vinna að sömu markmiðum og maður sjálfur. Formaðurinn hefur sagt að Samfylkingin fari ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki. Ég bakka hann upp í því. Ég get ekki séð að stefnuáherslur þessara flokka séu það líkar okkar að það sé til árangurs að starfa með þeim.“

En er ekki hættulegt að gefa út svona yfirlýsingar, getur ekki allt gerst í pólitík? Það voru til dæmis ekki margir sem sáu fyrir sér að Vinstri græn færu í ríkisstjórn með Sjálfstæðiflokki eftir að þau höfðu gagnrýnt flokkinn linnulaust í aðdraganda kosninga.

„Jú, eflaust er það hættulegt. En mér finnst þá mikilvægt að maður standi við yfirlýsingarnar sem maður gefur. Kjósendur vilja vita með hverjum maður hyggst starfa. Fyrir borgarstjórnarkosningar síðast lögðum við það til dæmis í hendur kjósendum hvort þeir vildu áframhaldandi samstarf Samfylkingar í meirihluta eða hvort þeir vildu Sjálfstæðisflokkinn,“ minnir Heiða á.

„Hvað varðar ríkisstjórnarsamstaf, þá er starfandi ríkisstjórn búin að gera alls konar ágæta hluti en hún er ekki að breyta samfélaginu og ég tel að það væri ekki rétt fyrir Samfylkinguna að taka þátt í ríkisstjórn sem skilaði engum breytingum.“

„Formaðurinn hefur sagt að Samfylkingin fari ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki. Ég bakka hann upp í því. Ég get ekki séð að stefnuáherslur þessara flokka séu það líkar okkar að það sé til árangurs að starfa með þeim.“

Þannig að þú telur að samstarfi við hina flokkana kæmi frekar til greina?
„Já, og ég held að reynsla okkur úr Reykjavíkurborg gæti reynst vel. Við erum búin að starfa þar í fjögurra flokka meirihluta og það gengur ljómandi vel. Ef fólk á í hreinskiptum samskiptum þá getur verið hollt fyrir meirihluta að vera samsettur úr fleiri flokkum. Þetta gamla fyrirkomulag að einn flokkur stjórni öllu er ekkert endilega málið. Þótt ég myndi auðvitað ekki hafna því ef fólk fæli Samfylkingunni það,” segir hún og hlær.

Útilokar ekkert

Það er farið að síga á seinni hluta samtals okkar. Ég beini talinu aftur að landsfundinum sem er framundan og spyr með hvaða hugarfari Heiða ætli í slaginn við Helgu Völu.
„Ég er auðvitað varaformaður Samfylkingarinnar. Ég er búin að vera það í svolítinn tíma og er nokkuð bjartsýn og kát með árangurinn af starfinu sem við höfum unnið hingað til og undanfarið hef ég fundið mikið traust. Þannig að ég fer inn í þetta allt saman með opnum hug og kærleika. Síðan verðum við bara að sjá hvernig úr því spilast. Ég vona bara að út úr þessum landsfundi komi það allra besta,“ segir hún og brosir.

Hverju ætlarðu að beita þér sérstaklega fyrir ef þú sigrar?
„Að við höldum áfram að efla innra starf í Samfylkingunni og auðvelda aðgengi hins almenna flokksfélaga að því. Eiga í góðu samtali við fólk um land allt og sjá til þess að það upplifi flokkinn sem sinn samastað. Síðan mun ég beita mér fyrir því að stilla upp ásamt formanninum lista öflugra talsmanna flokksins fyrir þing- og borgarstjórnarkosningar. Við þurfum svo að móta stefnu flokksins í mars og apríl á næsta ári. Þannig að það eru mjög spennandi hlutir og stór verkefni fram undan. Þetta er mikil vinna og ég er til í hana.“

Muntu starfa áfram innan flokksins ef þú lýtur í lægra haldi fyrir Helgu Völu?
„Ég er auðvitað kosin borgarfulltrúi og ég mun halda því starfi áfram óháð þessu hlutverki,“ svarar hún rólega. „Hingað til hef ég sinnt þeim hlutverkum sem flokkurinn hefur falið mér og ég mun gera það áfram.“

Ef þú værir ekki í pólitík hvað værirðu þá að gera?
„Ég held að mínir hæfileikar liggi svolítið á sviði stjórnunar. Það tengist eflaust uppeldinu þegar ég var að stússast með yngri systkini mín,“ segir hún brosandi. „Þannig að ég hugsa að ég væri einhvers staðar í stjórnunarstöðu.“ Hún segist líka vel geta hugsað sér að vera með einhvers konar ráðgjafarfyrirtæki seinna meir og stuðlað að því að þjóðin borði hollari og umhverfisvænni mat. Þar sé svo sannarlega verk að vinna.

En þingseta, spyr ég. Kæmi hún einhvern tímann til greina?
„Það er ekki það sem ég er að stefna að núna, alls ekki,“ svarar hún. „Enda finnst mér við vera að ná árangri í Reykjavík. En hvað framtíðin ber í skauti sér … Það verður bara að koma í ljós. Ég útiloka ekkert.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -