2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Fríðu og Dýrið í nýju ljósi

  Sagan af Fríðu og Dýrinu hefur reynst mörgum hugleikin, enda boðskapurinn sá að kærleikurinn sé fórnfús og geti sigrað verstu álög. Nú er á lokastigi vinnslu kvikmynd byggð á þessu gamla ævintýri þar sem íslenskt landslag kemur mjög við sögu og setur tóninn á nýstárlegan hátt. Hér eru einnig dregnar fram dekkri hliðar sögunnar og sjónarhornið annað en menn eiga að venjast. Berta Andrea Snædal leikur eitt aðalhlutverkið og er að vonum spennt að sjá lokaútgáfuna í kvikmyndahúsi.

  Berta Andrea segir að um sé að ræða „indie“-mynd og ævintýrið gamla fært í drungalegan íslenskan búning. En hver er forsaga kvikmyndarinnar Ófreskjan sem byggð er á sögunni um Fríðu og Dýrið? „Max Gold, leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar, fannst sagan um Fríðu mjög áhugaverð,“ segir Berta Andrea.

  „Hún fórnaði eigin frelsi til að bjarga pabba sínum og lærði svo að elska manninn sem hélt henni nauðugri. Þetta er sem sagt kona sem leyfir ást sinni á mönnunum í lífi sínu að svipta sig frelsinu. Það er eitthvað sem hefur ekki verið skoðað í þeim útgáfum sem til eru af sögunni, alla vega ekki svo ég viti til. Þessi útgáfa er öll sögð út frá sjónarhorni Fríðu og fer ekki leynt með gallana sem fylgja slíkri ást.“

  Leikstjórinn heillaðist af Íslandi

  AUGLÝSING


  Fleiri íslenskir leikarar komu að gerð myndarinnar, meðal annars Ingi Hrafn Hilmarsson sem lék hitt aðalhlutverkið á móti Andreu og með minni hlutverk fóru t.d. Helga Braga, Siggi Sigurjóns og Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Hvers vegna kaus leikstjórinn að setja íslenskan blæ á söguna? „Max heillaðist af Íslandi og langaði að gera myndina hér. Það reyndist henta mjög vel því „budgetið“ var lítið og hvar sem við vorum litu rammarnir svo vel út. Það þurfti því ekki að eyða miklum peningum í leikmynd. Max vildi líka nýta íslenska menningu í myndina og leitaði mikið ráða hjá mér, Inga og öðrum við að læða inn ýmsum vísbendingum í þjóðsögur, siði og annað séríslenskt. Ég vil meina að það gefi myndinni einstakan blæ sem aðrar útgáfur hafa ekki.“

  „Max vildi líka nýta íslenska menningu í myndina og leitaði mikið ráða hjá mér, Inga og öðrum við að læða inn ýmsum vísbendingum í þjóðsögur, siði og annað séríslenskt. Ég vil meina að það gefi myndinni einstakan blæ sem aðrar útgáfur hafa ekki.“

  Myndin hefur verið lengi í vinnslu, hvers vegna var það?

  „Max skrifaði handritið fyrir um það bil sex árum,“ segir Berta Andrea. „Hann kom til Íslands seinnipart árs 2014, hélt prufur fyrir myndina og réði mig og Inga Hrafn Hilmarsson sem aðalleikara. Í janúar 2015 tókum við upp efni fyrir „proof of concept“ sem Max nýtti til að reyna að tryggja fjárfesta fyrir myndina. Hann fékk peninga frá framleiðslufyrirtækjum tvisvar eða þrisvar á næstu fimm árum og það leit allt út fyrir að tökur væru að fara í gang, en vegna annarra verkefna sem fyrirtækin voru með í gangi voru stöðugar tafir. Eftir eitt af þessum skiptum skrifaði hann annað handrit, Silicon Beach, og tók þá mynd upp í Los Angeles fyrir svo gott sem enga peninga. Ég lék stórt hlutverk í þeirri mynd en ég var þá á öðru ári í the American Academy of Dramatic Arts í Los Angeles. Ég þorði ekki að biðja um frí í skólanum þá daga sem ég var í tökum af því að ég hafði heyrt að skólastjórinn segði stundum nei við slíku, þannig að ég talaði við leiklistarkennarann minn um þetta og hún sagði mér að hringja mig bara inn veika. Ég gerði það. Silicon Beach fór á nokkrar hátíðir úti í Bandaríkjunum, meðal annars eina sem haldin var í Chinese Theater á Hollywood Boulevard og það var mjög sérstök tilfinning að sjá sjálfa mig á því fræga hvíta tjaldi.

  Reynslan við það að gera kvikmynd í fullri lengd fyrir svo litla fjárhæð fékk Max til að endurskoða Fríðu og Dýrið og hann réðst að endurskrifa handritið til að minnka framleiðslukostnað. Hann fann tvo eða þrjá minni fjárfesta sem höfðu mikla trú á honum og hann setti allt í gang til að hefja tökur sumarið 2019. Max tókst að finna duglegan, skemmtilegan og hæfileikaríkan hóp af fólki sem vann linnulaust í rúma tvo mánuði að gerð myndarinnar. Hann réði íslenska leikara í næstum öll hin hlutverkin og Guðmundur Ingi, Helga Braga og Siggi Sigurjóns voru öll augljóslega stórkostleg. Eitt hlutverk var leikið af tékkneskri leikkonu, Hönu Vagnerova, sem er yndisleg og virkilega flott leikkona. Þetta var lítill en virkilega kröftugur hópur og okkur tókst að gera ótrúlega mikið fyrir ótrúlega lítið fé.“

  Mynd / Hákon Davíð

  Ætlaði til Bretlands en endaði í Hollywood

  Hvers vegna kaust þú að læra leiklist í the American Academy of Dramatic Arts í Los Angeles?

  „Þegar ég ákvað að fara í prufu þangað árið 2015 hafði ég aðallega skoðað skóla í Bretlandi. Ég lék þá í Stúdentaleikhúsinu og vinkona mín sem lék með mér þar mætti á frumsýningu og sagði mér að hún hefði komist inn í skóla í Hollywood. Ég ákvað að skoða hann og sá að þetta var mjög virtur og góður skóli, svo ég ákvað að skella mér líka í prufur, sem voru sem betur fer enn í gangi. Ég fór í prufu í júní og flutti út í ágúst, þannig að þetta gekk allt frekar hratt fyrir sig.“

  Hvernig var að búa og læra í kvikmyndaborginni? „Það var virkilega gaman að vera í Hollywood og svona nálægt öllum kvikmyndaverunum og stórstjörnunum. Ég skæpaði vikulega við fjölskylduna mína sem spurði í hvert skipti hvaða frægu manneskju ég hefði rekist á þá vikuna, enda gerðist það reglulega að ég hefði frá einhverju slíku að segja. Maður verður eiginlega hálfdofinn fyrir svona atvikum, mér þóttu þau mun merkilegri árið 2015 en þremur árum seinna.

  Námið gaf svo góðan verndarhring, það var gott að hafa samfélag í kringum sig af fólki í sömu stöðu og kennurum sem pössuðu upp á mann og vöruðu við hinum ýmsu gryfjum Hollywood, sem við vitum að eru margar. Svo maður hafði alltaf eitthvert að leita ef tækifærin virkuðu grunsamleg. Það var líka nokkuð stórt samfélag Íslendinga úti sem reyndist dýrmætt.“

  Verður sýnd á Sundance og South by Southwest

  Nú er kvikmyndin um Fríðu og Dýrið á lokametrunum. Hvenær er búist við að hún verði frumsýnd og hvar? „Það er áætlað að myndin verði tilbúin í lok júlí eða byrjun ágúst en þá er skilafrestur fyrir kvikmyndahátíðirnar sem Max stefnir á, Sundance og South by Southwest,“ segir Berta Andrea. „Þessar stóru kvikmyndahátíðir taka bara við myndum sem hafa ekki verið frumsýndar og þess vegna mun myndin ekki koma út fyrr en eftir að hún hefur farið þangað, sem verður í byrjun 2021. Það er hins vegar leyfilegt að vera með einkasýningar fyrir þann tíma, svo við Ingi munum líklegast halda eina slíka í lok sumars fyrir vini og vandamenn.“

  „Ég er mjög hrifin af „indie“-kvikmyndaheiminum í Hollywood og mun halda áfram að fóta mig þar.“

  Berta Andrea hélt nýlega út til Los Angeles til að segja frá myndinni á hátíðinni the Nordic Oscar Weekend. Þangað voru mættir ýmsir Norðurlandabúar sem getið hafa sér gott orð í kvikmyndabransanum í Hollywood á undanförnum árum. Að hennar sögn var magnað að sjá samfélag fólks frá Norðurlöndunum koma saman til að hjálpa öðrum frá svipuðum slóðum til að gera það sama. Býstu við að vinna fleiri svona verkefni í framtíðinni?

  „Þetta hefur verið mikið ævintýri, bæði erfitt og stórskemmtilegt. Ég er mjög hrifin af „indie“-kvikmyndaheiminum í Hollywood og mun halda áfram að fóta mig þar. Vonandi mun næsta verkefni samt taka aðeins styttri tíma. Ég er loks byrjuð á að sækja um vinnuleyfi til að geta unnið aftur í Bandaríkjunum og vonast til að það verði komið þegar myndin kemur út. Þar til þá vinn ég að eigin verkefnum sem eru enn á frumstigi hér á Íslandi, og leitast auðvitað eftir því að taka þátt í verkefnum annarra,“ segir Berta Andrea að lokum en spennandi verður fyrir Íslendinga að sjá myndina og upplifa að hve stórum hluta hún er íslensk.

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is