Fullkomið uppeldi er ekki til

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Háskólagráður Hiroe Terada fengju sjálfan Georg Bjarnfreðarson til að roðna en hún hefur meðal annars lokið doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Henni finnst mikilvægt að kenna börnum strax frá unga aldri að tjá tilfinningar sínar og undirbýr nú útgáfu barnabóka. Bækurnar eru ætlaðar til þess að efla sjálfstraust barna og þrautseigju svo að þau geti notið ævintýra lífsins til fulls. Þær taka einnig á algengum aðstæðum sem allir foreldrar þekkja og eru kannski skondnar eftir á en geta tekið á taugarnar á meðan á þeim stendur.

Hiroe fæddist í Sapporo í Japan árið 1978 en hefur búið á Íslandi síðastliðin sextán ár. Hún segir tilviljun hafa ráðið því að hún kom hingað í júlí 2003. Hún hafði þá stundað nám í alþjóðlegum menntavísindum við Harvard-háskóla og þar sem hún velti fyrir sér framhaldinu bauðst henni óvænt starf á Íslandi í gegnum sjálfboðasamtökin Council for Global Education.

Hún starfaði sem verkefnastjóri hjá Íslensku menntasamtökunum á árunum 2003-2005 en fór svo að vinna á leikskóla sem verið var að opna í Garðabæ og starfaði þar í ellefu ár. „Ég talaði enga íslensku svo ég vann á deildinni fyrir yngstu börnin og heillaðist strax af því hvað þessi litlu börn, alveg niður í rúmlega eins árs, voru virk. Mér fannst mjög áhugavert að fylgjast með þeim tjá sig og hvernig þau virtust skilja miklu meira en ætla mætti miðað við aldur. Það varð kveikjan að doktorsnámi mínu við Háskóla Íslands.“

Skilja meira en þau geta tjáð

Hiroe lauk doktorsprófi í í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2017. Hiroe hafði áður lokið AA-prófi í alþjóðafræðum frá Santa Barbara City College árið 1999, BA-prófi í alþjóðafræðum (Peace and Conflict Studies) frá University of California, Berkeley árið 2001 og M.Ed.-prófi í alþjóðlegum menntavísindum frá Graduate School of Education, Harvard háskóla árið 2003.

Doktorsritgerð Hiroe bar heitið „Icelandic and Japanese preschoolers’ attributions in social interactions involving a child’s moral transgression and a teacher’s expressed blame“ – Hugmyndir íslenskra og japanskra leikskólabarna um hegðun barna og viðbrögð kennara: Félagslegar aðstæður í leikskólastarfi“. Hiroe segir niðurstöður hafa sýnt fram á að yngstu börnin skilji meira en þau geti tjáð.

Bókaflokkur Hiroe kallast ORAN og GUTAN en hún bæði skrifar sögurnar sjálf og teiknar myndirnar.

„Á síðustu 20 til 30 árum hefur orðið mikil þróun í rannsóknum á þessu sviði því áður hélt fólk að svona ung börn skildu ekki neitt. En sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á að það sem við héldum að fimm ára börn skildu gætu eins árs gömul börn líka skilið og jafnvel nokkurra vikna gömul börn. Mér fannst þetta mjög áhugavert og fór að velta því fyrir mér að fáar ungbarnabækur hafa tilfinningahlaðna söguframvindu af því að lengi vel voru ung börn talin hafa lítinn skilning á tilfinningalífi og hugsunum annarra. Hins vegar hafa rannsóknir í þroskasálfræði ungra barna á síðustu áratugum leitt í ljós að skilningur barnanna á þessum þáttum er mun meiri en áður var talið. Lestur þessara bóka ýtir undir félagslegan og tilfinningalegan þroska barnanna. Mér fannst vanta sögubækur, með smá söguþræði og eitthvað sem tengdist tilfinningum; skemmtilegar og einfaldar bækur til að styrkja tengsl barna og foreldra/forráðamanna og efla sjálfstraust. Mér finnst mikilvægt að kenna börnum strax frá unga aldri að tjá tilfinningar sínar. Svo áttaði ég mig á því að mig langaði að gera slíkar bækur sjálf og byrjaði bara á því. Ég stefni á að útgáfufyrirtækið mitt, ORAN bókaútgáfan, gefi fyrstu bækurnar út í lok sumars.“

Engin fullkomin uppeldisleið

Hiroe segir hugmyndina að eigin bókaútgáfu hafa kviknað þegar sonur hennar byrjaði í fyrsta bekk í grunnskóla. „Hann var örlítið kvíðinn fyrir því, eins og er algengt hjá börnum á þessum aldri. Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti hjálpað honum að losna við kvíðann og hvernig ég gæti hvatt hann áfram svo ég fór að afla mér upplýsinga á Netinu. Ég rakst á bækur á Amazon sem ég pantaði og fór að notast við en ég hugsaði strax að þessar bækur væru mikilvægt verkfæri sem myndi örugglega nýtast mörgum foreldrum. Svo ég hafði samband við höfundinn og fékk þýðingarréttinn á bókunum.“

Bókaflokkurinn ber heitið Hugarperlur og er efnið ætlað börnum frá fjögurra til tíu ára aldurs. Bækurnar eru að sögn Hiroe hugsaðar til að efla sjálfstraust barna og þrautseigju og taka á algengum aðstæðum sem allir foreldrar þekkja; til dæmis þegar börnin taka fýlukast eða gera eitthvað af sér og vita ekki hvernig þau eiga að bregðast við. „Góð vinkona mín, Þórdís Bjarney Hauksdóttir leikskólakennari, er að þýða þessar bækur fyrir mig af ensku yfir á íslensku. Ég fékk líka mjög hæfileikaríkan íslenskan tónlistarmann til að semja fyrir mig tónlist sem mun fylgja bókunum.“

„Ég ákvað að mig langaði að gera eitthvað sem gerir mig ánægða. Svo áttaði ég mig á því að mig langaði að vinna með barnabækur og nú er draumurinn að verða að veruleika.“

Hiroe dregur nokkrar bækur sem eru á ensku upp úr töskunni og sýnir svo blaðamanni bækurnar sem hún er að búa til sjálf, en þær eru á íslensku. Bókaflokkur Hiroe kallast ORAN og GUTAN en hún bæði skrifar sögurnar sjálf og teiknar myndirnar. Blaðamaður flettir í gegnum bækurnar og hefur á orði þetta sé ótrúlega vel gert. Hiroe þakkar hógvær fyrir og segir að það hafi tekið um það bil ár að hanna söguhetjuna. Sér hafi þótt kominn tími til að gefa út nýja tegund barnabóka fyrir allra yngstu börnin, en bækurnar um Oran og Gutan eru ætlaðar börnum upp að fjögurra ára aldri.

„Fullkomin leið til uppeldis/barnasálgæslu finnst ekki,“ segir hún brosandi, „en leiðin til góðs uppeldis er gagnkvæmur skilningur. ORAN- og GUTAN-bækurnar sýna lesendum algengar en erfiðar aðstæður sem skapast á milli barnsins, þ.e. Orans, og foreldris/umsjónaraðilans, þ.e. Gutans. Bækurnar hjálpa lesendum að átta sig á að erfiðleikar eru eðlilegur hluti samskipta, og oft skemmtilegir í upprifjun, og hver hindrun gefur foreldri/umsjónarmanni tækifæri til að mynda sterkari tengsl við barnið. Og þessar bækur eru mjög skemmtilegar.“

Hiroe hefur búið á Íslandi síðastliðin sextán ár og segir tilviljun hafa ráðið því að hún kom hingað í júlí 2003.

Hún segir bókaútgáfuna vissulega vera mikla vinnu en hún sé svo heppin að eiga hæfileikaríka vini sem hafi hjálpað henni heilmikið. „Það hafa allir verið boðnir og búnir að hjálpa og vinir mínir sem eru til dæmis leikskólakennarar, sálfræðingar, talmeinafræðingur, grafískur hönnuður og geðlæknir hafa allir deilt ástríðu sinni og þekkingu til að skapa nýjar bækur sem nýtast til að bæta vellíðan barna.“

Mikilvægt að þróa samskipti í eigin persónu

Hiroe segist vona að bækurnar komi bæði foreldrum og börnum að góðum notum. „Foreldrar vilja alveg tala um tilfinningar en kunna það kannski ekki. Og börnin kunna það ekki heldur. Þau þurfa líka þjálfun í því. Þess vegna lít ég á bækurnar sem verkfæri fyrir foreldrana og börnin til að tjá tilfinningar. Það eru allir svo uppteknir, nú fara til dæmis samskipti mikið fram á samfélagsmiðlum en það er mjög mikilvægt að þróa líka samskipti í eigin persónu og það hefur sýnt sig að það að lesa fyrir börnin er mjög gott samskiptatæki. Áður en ég eignaðist börnin mín, sem eru núna fjögurra og sex ára, þá hélt ég að ég skildi börn. Ég með alla mína menntun, jafnvel doktorsgráðu í menntavísindum, ætti nú að vita sitthvað um börn, ekki satt? En ég áttaði mig á því þegar ég var farin að ala upp mín eigin að ég vissi ósköp lítið,“ segir Hiroe og hlær dátt.

„Og höfum það alveg á hreinu að það er ekkert til sem heitir fullkomið uppeldi eða fullkominn uppalandi. Foreldrahlutverkið er mjög krefjandi og oft og tíðum erfitt en það má ekki gefast upp. Stundum eru börnin mín alveg að gera mig gráhærða en maður verður bara að taka því og skilja að þannig tímar koma líka. Svo er það stundum þannig að börn haga sér á einhvern hátt, pirra mann kannski eða reyna á taugarnar, af því að þau eru að tjá tilfinningar sínar með hegðuninni. En maður áttar sig ekki á því fyrr en eftir á hvað olli henni. Það getur verið fyndið eftir á þótt það reyni svakalega á meðan það er í gangi. En þarna komum við aftur að því hvað væri gott að hafa eitthvað verkfæri til að hjálpa barninu að tjá tilfinningar sínar. Svo það geti sagt frá hvað er að þjaka það.“

Talið berst aftur að samfélagsmiðlum og Hiroe segir það áhyggjuefni hversu mörg börn þjáist af kvíða. „Auðvitað er kvíði þekkt vandamál um allan heim en það er ansi mikið um það á Íslandi. En einmitt þess vegna er svo mikilvægt fyrir krakka að læra strax að tjá sig um tilfinningar sínar. Því hvernig áttu að geta tjáð þig um þær þegar þú ert orðinn unglingur ef þú hefur aldrei fengið þjálfun í því áður? Og ég held að góð samskipti foreldra og barna gætu haft heilmikið að segja í baráttunni við kvíðann.“

Lífið einfaldara hér

Það er langur vegur frá Japan til Íslands. Blaðamaður spyr hvort Hiroe sakni einhvers frá heimalandinu? „Ég hugsa ekki svo mikið um það; ég reyni alltaf að lifa í núinu. En jú, ég viðurkenni að ég sakna matarins þótt það sé nú hægt að fá miklu betra sushi á Íslandi núna heldur en þegar ég var nýflutt hingað,“ segir Hiroe og skellir upp úr.

„Annars líður mér ofboðslega vel á Íslandi og ég er mjög þakklát fyrir tækifærin sem mér hafa boðist hér. Ég hugsa oft um það að ef ég væri í Japan þá hefði mér örugglega aldrei dottið í hug að stofna mitt eigið útgáfufyrirtæki og gerast rithöfundur. Ísland er svo frábært að þessu leyti; það er svo mikill sköpunarkraftur hér og fólk er alltaf til í að prófa nýja hluti og sjá bara hvað gerist. Og fólk festist ekki endilega í einhverju fari eins og er algengt í Japan. Þetta er líka menningarlegs eðlis. Tveimur árum eftir að ég flutti hingað sá ég viðtal við íslenskan mann, kennara, sem hafði farið að læra óperusöng á Ítalíu. Ég man að ég dáðist svo að honum og hugsaði með mér að þetta væri óhugsandi í Japan; þar skiptir fólk ekki um starfsvettvang. Ef einhver fær svona hugmynd, að hætta að kenna og fara að læra óperusöng eða hvað sem er, þá myndu allir reyna að stoppa viðkomandi og strá efasemdarfræjum í huga hans. Sannfæra hann um að hann væri nú í föstu starfi, með öruggar tekjur, hann væri of gamall og svo framvegis. Japanir eru svo varkárir á meðan Íslendingar eru óhræddari við að stökkva til.“ Hiroe hlær og segir að millivegurinn væri auðvitað bestur.

„Ég veit að ég er mjög heppin að vera hér. Ég hugsa að ef ég hefði verið í Japan þá hefði ég kannski alltaf efast um sjálfa mig og látið efann stoppa mig. Það hjálpar líka hvað Ísland er lítið land; það er auðvelt að fá aðstoð og allir þekkja einhvern sem getur aðstoðað. Lífið á Íslandi er einfaldara en í Japan. Vinnudagurinn er til dæmis mun styttri hér. Og starfsumhverfið er ekki gott fyrir fjölskyldufólk í Japan; vinnudagurinn er gríðarlega langur og leikskólar þurfa að vera opnir fram eftir því foreldrar vinna langan vinnudag. Fólk nýtir jafnvel ekki frídagana sína, eins og í fæðingarorlofi, þar sem það skammast sín og vill ekki láta aðra vinna vinnuna fyrir sig. Fólk vill ekki taka veikindadaga heldur fer til vinnu með grímu fyrir vitunum.“ Hiroe hristir höfuðið. „Japanir eru mjög duglegir í vinnu og samviskusamir. En vinnusemin er farin að hafa áhrif því fólk eignast færri börn og japanska þjóðin er að eldast sem þýðir færri skattgreiðendur. Svo það er verið að reyna að sporna við þessu og breyta þróuninni.“

„Höfum það alveg á hreinu að það er ekkert til sem heitir fullkomið uppeldi eða fullkominn uppalandi. Foreldrahlutverkið er mjög krefjandi og oft og tíðum erfitt en það má ekki gefast upp.“

Hiroe segir þó eitt og annað sameiginlegt með þjóðunum tveimur, enda séu þær báðar eyjaþjóðir. Í Japan séu til dæmis líka eldfjöll og heitir hverir. „Ég veit að margir Íslendingar hafa áhuga á japanskri menningu og fara þangað til að læra. Það er eitthvað sem dregur þjóðirnar að hvor annarri. Mér finnast Íslendingar líka duglegir að hugsa um aðra og setja sjálfa sig jafnvel í annað sæti. Kannski er það eitthvað sem svona eyjaþjóðir eiga sameiginlegt; eyjaskeggjarnir hugsa um aðra og hjálpa hver öðrum.“

Hún segir þó alveg á hreinu að eitt eigi þjóðirnar alls ekki sameiginlegt. Og það sé veðrið. Íslenska veðrið sé alls ólíkt því japanska. „Ég var alla vega ekki búin að búa lengi hér þegar ég skildi af hverju Íslendingar flykkjast til heitari landa í febrúar,“ segir hún og skellir upp úr. „En hér er gott að búa og Íslendingar eru frábærir.“

Hægt er að fræðast meira um bækur Hiroe á vefsíðunni www.oran.is.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

­Ísold og Una Lind eiga von á barni

Parið Ísold Ugga­dóttir, kvik­mynda­gerðar­kona, og Una Lind Hauks­dóttir, mannfræðingur, eiga von á barni. Parið tilkynnti gleðitíðingin í...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -