Furðulegt stefnumót

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni. 

Fyrir mörgum árum, á meðan ég var ungur og einhleypur, lét ég eftir vinkonu minni að fara á blint stefnumót með ungri konu sem hún vildi endilega að ég kynntist.

Á þessum tíma var ég í háskólanámi, 25 ára gamall, hafði átt nokkrar kærustur en ekki orðið nein mikil alvara úr þeim samböndum.

Eitt föstudagskvöldið skellti ég mér í Broadway, sem þá var afar vinsæll skemmtistaður í Breiðholti. Ég skemmti mér konunglega, hitti marga sem ég þekkti og dansaði einhver ósköp.

Þegar ballið var að verða búið hitti ég Önnu, gamla vinkonu mína sem ég hafði endurnýjað kynnin við og var í talsvert miklu sambandi við á þessum tíma. Við höfðum verið saman í skóla í mörg ár en eftir stúdentspróf fórum við hvort í sína áttina. Anna eignaðist barn með kærastanum sínum og fór í sambúð og ég í framhaldsnám. Hún skildi tveimur árum seinna og bjó ein með dóttur sinni. Hún fór sjaldan út að skemmta sér og ég var eiginlega steinhissa að sjá hana. Og mjög glaður. Við vorum einstaklega góðir vinir.

Ég var edrú þetta kvöld og bauðst til að skutla henni heim. Vinur minn sem ég hafði farið með á ballið hafði horfið á braut með fallegri konu og gaf mér merki um að hann færi með henni og þyrfti ekki far, svo ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af honum. Á leiðinni heim með Önnu talaði hún mikið um kunningjakonu sína sem ég hreinlega YRÐI að kynnast. Við værum jafngömul og hefðum svo svipuð áhugamál og ættum örugglega vel saman. Anna væri búin að segja þessari vinkonu sinni allt um mig, meira að segja sýnt henni mynd af mér, og nú gæti vinkonan ekki beðið eftir því að kynnast mér. Hún spyrði Önnu reglulega að því hvort hún væri ekki búin að tala við mig.

Ég gretti mig, ekki sérlega sáttur við þetta og sagði að ég væri alls ekki að leita mér að kærustu og það væri frekar mikið að gera hjá mér í skólanum á næstunni.

Hálffúll en svolítið spenntur

Anna linnti ekki látunum og að lokum samþykkti ég að hitta ungu konuna. Ég stakk upp á notalegum stað sem var mjög vinsæll á þessum tíma, góður matur þar og að auki hægt að færa sig í kósí sæti eftir matinn. Ég væri til í að hitta hana þar strax annað kvöld, laugardagskvöldið, og bjóða henni í mat. Anna var mjög ánægð með mig en ég hálffúll út í sjálfan mig fyrir að láta plata mig til að fara á blint stefnumót. Jafnframt var ég svolítið spenntur. Ég hafði aldrei prófað slíkt áður og kannski yrði þetta bara allt í lagi.

Ég var mættur um áttaleytið og Bryndís kom skömmu seinna og gekk rakleiðis til mín, enda hafði hún séð mynd af mér. Ekki voru margir komnir á þessum tíma en ég vissi að allt myndi fyllast um kvöldið, það gerðist vanalega. Ég hafði borðað þarna áður með vinum mínum og var ánægður með staðinn.

Ég hafði séð svolítið eftir því að hafa valið þennan stað til að hitta Bryndísi, hann var rómantískur og kósí, og hún gæti misskilið eitthvað. En þegar Bryndís gekk í salinn sá ég ekki eftir neinu. Hún var mjög myndarleg, hávaxin og ljóshærð og hreinlega stórglæsileg. Anna hafði sannarlega ekki ýkt fegurð hennar en hún hafði lýst henni svo vel fyrir mér að ég þekkti hana um leið.

 „Ég hafði séð svolítið eftir því að hafa valið þennan stað til að hitta Bryndísi, hann var rómantískur og kósí, og hún gæti misskilið eitthvað. En þegar Bryndís gekk í salinn sá ég ekki eftir neinu.“

Bryndís var líka glaðleg sem mér fannst aðlaðandi og hún virkaði skemmtileg. Ég pantaði fordrykk handa okkur og á meðan við lásum matseðilinn fórum við að spjalla saman. Ekki man ég alveg hvað Bryndís pantaði sér en hún lét fylgja með að þetta væri uppáhaldsmatur fyrrverandi manns hennar. Það fundust mér skrítnar upplýsingar og brosti bara en henni var greinilega fúlasta alvara.

Yfir matnum töluðum við um allt á milli himins og jarðar í þeim tilgangi að kynnast hvort öðru. Sitt af hverju átti eftir að koma mér á óvart þetta kvöld.

Einkennilegt umræðuefni

Eftir því sem leið á kvöldið fór mér að líða einkennilega, Bryndís var stórskrítin, fannst mér, og ég hugsaði Önnu þegjandi þörfina fyrir að hafa komið mér í þessar aðstæður. Hún hafði sagt að við hefðum sömu áhugamál en ég varð ekki var við það. Hún hlustaði á allt öðruvísi tónlist en ég, las lítið á meðan ég var algjör bókaormur og fylgdist líka vel með fréttum. Hún var algjörlega áhugalaus um allt sem tengdist fréttum og ég komst fljótlega að því hvar áhugi hennar lá.

Bryndís sagði mér að hún ætlaði að mála vegg í stofunni hjá sér fjólubláan. „Þannig er það hjá fyrrverandi manninum mínum og mér finnst það svo flott.“ Þegar við ræddum um námið mitt spurði ég hana hvort hún ætlaði að bæta frekar við menntun sína, en hún hafði tekið sér frí frá námi eftir stúdentspróf. „Jú, ég ætla í háskólann, í viðskiptafræði. Fyrrverandi maðurinn minn er viðskiptafræðingur.“

Ég hætti smám saman að reyna að leyna undrun minni yfir þessum yfirlýsingum um fyrrverandi manninn hennar en Bryndís var algjörlega ónæm fyrir viðbrögðum mínum. Þegar ég lyfti augabrúnum og sagði svolítið þurrlega „ja, hérna,“ eða „þú segir ekki,“ færðist hún bara í aukana, ef eitthvað.

Ekki virtist hún vera miður sín yfir skilnaðinum við þennan stórfenglega fyrrverandi eiginmann, þá hefði hún eflaust ekki sótt svona fast að hitta mig, eins og Anna hafði sagt mér. Hún hafði fyrrverandi eiginmann sinn gjörsamlega á heilanum og náði að koma honum að við hvert tækifæri. Ekkert umræðuefni var svo ómerkilegt að hún næði ekki að minnast á hann og frábæran smekk hans.

Hvað í ósköpunum var Anna að hugsa? Það voru tvö ár síðan Bryndís skildi og miðað við hvað hún gat talað um sinn fyrrverandi við mig, bláókunnugan manninn, þar að auki mann sem hún hafði áhuga á að kynnast nánar, gat ég ímyndað mér að hún væri óstöðvandi við vini sína. Eða öfugt, að þeir hefðu gefist upp á að hlusta á hana tala um hann, svo hún notaði tækifærið þegar hún fékk nýja áheyrendur.

Heim fyrir miðnætti

Ég gat ekki stillt mig þegar nokkuð var liðið á kvöldið og spurði hana: „Af hverju skildir þú við þennan mann, þú virðist ekki geta gleymt honum?“

Hún svaraði feimnislaust: „Það var hann sem vildi skilja við mig, hann þurfti að einbeita sér að náminu en við erum voða góðir vinir.“

Tíminn leið löturhægt, fannst mér, en maturinn var mjög góður svo ég gat allavega huggað mig við það. Klukkan ellefu sátum við inni á barnum og ég hugsaði í örvæntingu um hvernig ég gæti losnað við hana á kurteislegan hátt. Hún var bókstaflega að drepa mig úr leiðindum. Ekki bara það að hún hefði sinn fyrrverandi á heilanum, heldur átti hún erfitt með að halda þræði í samræðum eftir því sem vínglösunum fjölgaði.

Ég tjáði henni skömmu seinna að ég yrði að drífa mig heim, stutt væri í erfitt próf. Ég laug því en það var vissulega nóg að gera hjá mér í skólanum. Bryndís gerði ekkert til að leyna vonbrigðum sínum og í stað þess að verða mér samferða í leigubílnum sagðist hún ætla að vera lengur. Hún hefði sannarlega ekki búist við að kvöldið okkar endaði svona snemma.

„Ég hætti smám saman að reyna að leyna undrun minni yfir þessum yfirlýsingum um fyrrverandi manninn hennar en Bryndís var algjörlega ónæm fyrir viðbrögðum mínum.“

Ég þakkaði henni fyrir samveruna og reyndi að vera vingjarnlegur. Hún tautaði á móti: „Það var ekkert,“ og þakkaði ekki einu sinni fyrir matinn. Svo dreif ég mig út og fór beint heim. Ég vildi ekki eiga á hættu að hitta Bryndísi á öðrum skemmtistað seinna um kvöldið og ég var líka búinn að fá nóg. Ég held að ég hafi aldrei áður verið kominn heim af djamminu fyrir miðnætti.

Næst þegar ég hitti Önnu spurði ég hana hvað hún hefði eiginlega verið að hugsa að senda mig á blint stefnumót með þessari manneskju.

Anna varð eins og spurningamerki í framan og ég sagði henni allt af létta. Hún starði á mig og fór svo að hlæja. Ég smitaðist af hlátrinum og við fengum hálfgert hláturskast, enda var þetta auðvitað ekkert annað en bráðfyndið.

Anna hafði ekki þekkt Bryndísi lengi en hélt að hún væri ágætismanneskja. Vissulega hafði hún heyrt hana minnast á sinn fyrrverandi en alls ekki neitt á borð við það sem ég þurfti að þola. Henni datt aldrei í hug að hún myndi tala nánast stöðugt um hann við mig, manninn sem hún var svo yfir sig spennt að hitta. Önnu datt helst í hug að hún hefði verið stressuð og þess vegna látið svona. Ég hélt ekki. Bryndís var örugg með sig þetta kvöld og virtist finnast þessi blessaði maður fínasta umræðuefni á stefnumóti með öðrum manni.

Anna viðurkenndi fyrir mér að hún hefði klagað mig fyrir sér og sagt að ég hefði orðið frekar fúll og leiðinlegur þegar líða fór á kvöldið. Hún hefði engan áhuga á því að hitta mig aftur. Henni fannst líka einstaklega móðgandi að ég fór svona snemma. Eins gott að hún hitti fólk sem hún þekkti, annars hefði ég eyðilagt fyrir henni kvöldið. Ég fór að hlæja aftur þegar Anna sagði mér frá þessu.

Ég hef ekki séð Bryndísi eftir þetta en frétti nýlega af henni í gegnum Önnu sem þó hefur ekki verið í miklum samskiptum við hana. Hún missti svolítið álit á henni eftir þetta kvöld og dauðsá eftir því að hafa reynt að koma okkur saman.

Bryndís flutti út á land ekki svo löngu seinna eftir stefnumótið. Hún varð ekki viðskiptafræðingur eins og hennar fyrrverandi, en mér skilst að hún hafi gifst ágætum manni og eignast með honum nokkur börn.

Ég get enn brosað yfir þessu misheppnaða stefnumóti og þótt ég hafi lent í ýmsum uppákomum seinna í þeirri deildinni var ekkert þeirra stefnumóta jafnofboðslega leiðinlegt og súrrealískt og þetta.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...

Bassafanturinn genginn út

Þröstur Jónsson, fyrrum bassaleikari pönkrokksveitarinnar Mínus, og Martina Klara, eru nýtt par.Parið skráði sig í samband í...