„Fyrir mér er þríþraut hugleiðsla”

Deila

- Auglýsing -

Amanda Marie Ágústsdóttir kynntist þríþraut eftir að hún eignaðist yngra barn sitt og þá var ekki aftur snúið því fjölbreytileikinn og það hve krefjandi sú íþróttagrein er höfðaði sterkt til hennar.

Amanda Marie fæddist og ólst upp í Michigan, úthverfum Detroit-borgar. Þar hóf hún íþróttaferilinn ung og keppti meðal annars með háskólaliðum í Bandaríkjunum í sundi.

Viðtal við Amöndu Marie er að finna í nýjustu Vikunni.

„Já, ég keppti í sundi og hlaupum sem barn og unglingur,“ segir hún. „Ég byrjaði mjög ung að keppa, í kringum 5 eða 6 ára aldurinn. Ég naut þess að synda og náði mjög góðum árangri og keppti í „national“-keppnum í Bandaríkjunum. Ég synti fyrir Athens High School og Oakland Live Y’ers Oly. Ég byrjaði að keppa í hlaupum í kringum 14 ára og hafði mjög gaman af því líka.“

Amanda Marie flutti til Íslands árið 2010 og bjó um tíma í Hveragerði. Þá þjálfaði hún sund hjá sunddeild Ungmennafélags Selfoss. Nú starfar hún sem einkaþjálfari hjá World Class.

Ég vildi komast aftur í form og missa þyngdina eftir tvær meðgöngur.

En hvenær kviknaði áhugi þinn á þríþraut? „Ég byrjaði að æfa þríþraut eftir að ég eignaðist yngra barnið mitt. Ég vildi komast aftur í form og missa þyngdina eftir tvær meðgöngur. Ég átti rosalega erfitt með að mæta í ræktina aðeins með það markmið að léttast og þetta varð því mjög neikvæð upplifun fyrir mig. Ég vildi leggja áherslu á heilbrigði frekar en bara hvernig ég líti út þar sem það er svo miklu meira falið í heilbrigðum lífstíl en bara það. Ég sá einn daginn á Facebook að gamli sundþjálfarinn minn hafði klárað þríþraut og staðið sig mjög vel og ég fékk innblástur. Ég fann að þetta var eitthvað sem mig virkilega langaði til að prófa. Ég hafði bakgrunninn úr sundinu og hlaupinu og þurfti bara að læra að hjóla.“

Margt þríþrautarfólk lýsir því hvernig það hefur strax á fyrsta æfingardegi heillast af íþróttinni og ekki getað annað en haldið áfram.

Hvað gerir þríþrautina ólíka öðrum íþróttum? „Það sem ég elska við þríþrautina er hvað æfingarnar eru fjölbreyttar, til dæmis þegar þú keppir í sundi þá er rosalega mikið synt, kannski 14-20 klukkustundir á viku bara í lauginni og því auðveldara að brenna út. En í þríþrautinni æfi ég allar þrjár greinarnar auk þess sem ég geri styrktaræfingar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að þetta snúist líka um það hversu krefjandi þríþrautin er, ekki bara líkamlega heldur andlega.

Ég held að margir njóti þess líka að hjóla og hlaupa í íslenskri náttúru, Ísland býður upp á margar rosalega fallegar, skemmtilegar og krefjandi hlaupa- og hjólaleiðir. En þegar öllu er á botninn hvolft þá held ég að þetta snúist líka um það hversu krefjandi þríþrautin er, ekki bara líkamlega heldur andlega. Þetta snýst ekki bara um það hvað líkami þinn kemst langt heldur þarf hugurinn að fylgja. Fyrir mér eru hlutar af þríþrautinni því eins og hugleiðsla, ég fylgist með því þegar hausinn dettur í neikvæðni að leiðrétta það. Þríþrautin er svo margþætt, ég hef aldrei hugsað um það að hætta. Það eru alltaf nýjar keppnir og ævintýri fram undan,“ segir Amanda Marie en viðtal við hana er í nýjustu Vikunni.

- Advertisement -

Athugasemdir