2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Fyrst ég komst í gegnum þennan hrylling þá kemst ég í gegnum hvað sem er“

  Þegar Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir var sextán ára ákvað hún að fara í megrun til að missa örfá kíló. Megrunin þróaðist fljótlega út í átröskunina anorexíu og Katrín segir að undir það síðasta, áður en hún komst í bata, hafi hún verið orðin eins og gangandi beinagrind og lífið óbærilegt. Katrín sagði sögu sína í viðtali við Vikuna.

   

  Katrín segist hafa verið grönn sem barn og alveg fram á unglingsárin. Hún byrjaði að æfa ballett þegar hún var fimm ára og þegar hún komst á kynþroskaaldurinn hafi líkaminn farið að taka breytingum sem truflaði hana. Hún hafi stefnt að því að leggja ballettinn fyrir sig og gert sér grein fyrir því að hún væri með of mjúkar línur til að eiga raunhæfan möguleika á að ná langt. Hún var samt staðráðin í því að reyna og stefndi að því að taka inntökupróf í erlenda dansskóla. Þegar hún var sextán ára ákvað hún því að fara í megrun til að missa örfá kíló.

  „Ég borðaði eins lítið og ég gat og hætti að leyfa mér nokkurn skapaðan hlut.“

  „Ég kenni ballettinum ekki um átröskunina en það er nú bara þannig að eftir því sem maður er grennri dansari verða línurnar fallegri. Ég var að fá mjaðmir og rass og það var erfitt að vera á ballettæfingu fyrir framan spegilinn, á sokkabuxum og sundbol, í fjóra, fimm tíma á dag, sex sinnum í viku og vera eiginlega með það á heilanum hvað var að koma fyrir líkamann og hvernig hann var að breytast. Þá fór minn veiki haus að segja mér að ég yrði að grennast til að ná mínum markmiðum.“

  Það varð nokkurs konar stjórntæki að borða ekki neitt

  AUGLÝSING


  Eftir að grunnskólanámi lauk fór Katrín í Menntaskólann í Reykjavík, MR. Hún segir að auk þess að hafa stefnt að því að fara í inntökupróf í erlendum ballettskólum hafi hún fundið fyrir miklum viðbrigðum að byrja í MR, þar sem hún skaraði ekki lengur fram úr í námi eins og hún hafði gert í grunnskóla. „Allt í lífi mínu var einhvern veginn í rugli og ég hafði ekki stjórn á neinu. Nema jú, ég gat stjórnað því hvað ég borðaði. Eða borðaði ekki, öllu heldur,“ segir Katrín. „Þegar ég lít til baka var það því nokkurs konar stjórntæki að borða ekki neitt.“

  Eftir fyrsta árið í MR fór Katrín til Svíþjóðar að keppa í einstaklingskeppni í ballett. Þar kom erlendur danskennari að máli við hana og það reyndist örlagaríkt samtal.

  Þegar Katrín var sextán ára ákvað hún að fara í megrun en megrunin þróaðist fljótlega út í anorexíu.

  „Hann sagði mér að ef ég ætlaði að ná langt í ballettinum yrði ég að styrkja mig. Ef til vill sá hann að ég var allt of grönn og orkulaus og meinti þetta þannig að ég yrði að borða og styrkja mig. En ég auðvitað túlkaði þessi orð hans þannig að ég yrði að fara að gera æfingar með fram því að borða ekki neitt. Þannig að þegar ég kom heim eftir keppnina bjó ég mér til æfingaprógramm og gerði æfingarnar samviskusamlega á hverjum degi. Ég borðaði auðvitað eins lítið og ég gat og hætti að leyfa mér nokkurn skapaðan hlut. Ég fór til dæmis aldrei út að borða með vinkonum mínum eða í saumó, hætti að borða sælgæti og var bara alltaf heima. Sársvöng.“

  Stanslaust hungur, stress og vanlíðan

  Katrín segir að þessu hafi ekki bara fylgt hungur og vanlíðan heldur mikið stress því það hafi tekið á að spinna stanslausar lygar til að koma sér hjá því að mæta í veislur og saumaklúbba. „Ég var stöðugt að hugsa um hverju ég gæti logið til að komast hjá næsta partíi eða hvernig ég gæti sleppt því að borða nokkuð í jólaboðinu sem ég neyddist til að mæta í með mömmu og pabba. Hausinn var á fullu að hugsa um afsakanir og skipulagningu langt fram í tímann og það fylgdi þessu mikið stress og kvíði. Ég missti hárið á þessum tíma og held að það hafi auðvitað fyrst og fremst stafað af vannæringu en líka af stressi.“

  „Ég vaknaði allar nætur í svitabaði og lakið og sængin rennandi blaut. Ég átti alveg rosalega erfitt með að sofa því ég var auðvitað svo ógeðslega svöng.“

  Hún segist alltaf hafa reynt að vera vöknuð á undan hinum í fjölskyldunni á morgnana til að geta þóst vera búin að borða morgunmat. Hún hafi líka gætt þess að foreldrar sínir sæju hana borða þegar hún kom heim seint á kvöldin eftir að hafa verið í skólanum og á ballettæfingu allan daginn og fram á kvöld. Lífið hafi verið orðið mikill blekkingarleikur og henni hafi þótt sárt að ljúga að foreldrum sínum, sem vissulega hafi séð að ekki væri allt með felldu.

  „Ég man til dæmis eftir einu skipti þar sem mamma hafði látið mig fá grjónagraut í nestisboxi til að taka með mér í skólann. Ég tæmdi úr boxinu við stoppistöðina á meðan ég beið eftir strætó þarna um morguninn og ég fékk hrikalegt samviskuvit því ég vissi að mamma og pabbi höfðu áhyggjur af mér.“

  Lystarstol ekki réttnefni

  Katrín segist hafa gert sér grein fyrir því að hún olli fjölskyldu og vinum áhyggjum og það hafi aukið mjög á vanlíðanina, sem nóg var af fyrir. „Mér var alltaf kalt og illt í maganum. Það eina sem ég hafði orku í var að koma heim og liggja undir teppi og lesa bók. Meltingin var auðvitað í tómu rugli og hormónakerfið líka. Ég vaknaði allar nætur í svitabaði og lakið og sængin rennandi blaut. Ég átti alveg rosalega erfitt með að sofa því ég var auðvitað svo ógeðslega svöng. Mér finnst þess vegna orðið lystarstol ekki réttnefni yfir þennan sjúkdóm því maður er alltaf að hugsa um mat og er alltaf svangur. Maður er ekki með neitt lystarstol, heldur neitar sér einfaldlega um að borða. Þessu öllu fylgdi mikið þunglyndi og ég var með miklar sjálfsvígshugsanir,“ segir Katrín og þagnar um stund.

  Katrín prýddi forsíðu fyrsta tölublaðs Vikunnar á árinu.

  „Anorexía er geðsjúkdómur,“ heldur hún áfram, „og af öllum geðsjúkdómum er hæsta dánartíðnin úr anorexíu. Og ég var orðin svo uppgefin á þessu öllu og þunglynd að ég hugsaði mjög mikið um að svipta mig lífi. Lífið var bara ekkert skemmtilegt lengur. Eina sem ég hafði orku í að gera var að liggja undir teppi og lesa bók, enda var ég alltaf svo þreytt. Lífið snerist allt um það hvernig ég ætti að komast hjá því að borða og þegar maður sveltir sig svona fer hormónakerfið allt í rugl svo það vantar hamingjuboðefnin í heilann. Svo þetta verður bara algjört svartnætti.“

  „Lífið var bara ekkert skemmtilegt lengur.“

  Hún segist einhvern tíma hafa reynt að útskýra það með teikningu hvernig sér leið og útkoman varð bara nokkurs konar svarthol. „Mér leið eins og eitthvað héldi mér fastri, það væri eitthvað að klemma sig utan um mig og ég gæti ekki sloppið. Ég þráði að mér myndi batna en samt sá ég enga leið út, ég vissi ekki hvernig ég ætti að fara að því. Ég grét á hverju einasta kvöldi og bað Guð um að hjálpa mér. Ég man eftir einu tilviki þar sem ég lá uppi í rúmi hjá mömmu og ég hreinlega öskraði og grét því ég var svo heltekin af sorg og þreytu af þessu öllu saman. Mér fannst ég bara ekki geta meir. Þetta er barátta upp á líf og dauða.“

  Var tæplega 40 kílóum undir kjörþyngd

  Katrín er 179 sentímetrar á hæð og var komin niður í 43 kíló svo hún var um þrjátíu og sex kílóum undir svokallaðri kjörþyngd. Að því kom að faðir hennar, sem er læknir, spurði hana hvort hún væri til í að láta sér batna og tala við geðlækni sem hann þekkti. Katrín hugsaði sig ekki tvisvar um, heldur sagði strax já.

  Mynd / Aðsend

  „Ég man að ég fann fyrir rosalegum létti. Ég hafði alveg áttað mig á því að það væri bara tvennt sem biði mín; að gera eitthvað í málunum eða deyja. Það var svo gott að einhver skyldi hafa tekið ákvörðunina fyrir mig að fara til læknis og ég varð strax staðráðin í að láta mér batna. Ég vissi samt allan tímann að þetta yrði undir sjálfri mér komið. Þetta væri verkefni sem enginn annar gæti leyst fyrir mig, ég yrði að vinna vinnuna þótt ég fengi hjálp við hana. En þarna fékk ég loks trú á að einhver gæti hjálpað mér að komast út úr þessu hræðilega svartnætti.“

  „Þetta er svo hræðilegt að það er eiginlega ólýsanlegt.“

  Katrín byrjaði hjá geðlækni árið 2010, þegar hún var sautján ára, og þar með hófst vegferð hennar að bata. Hún segir þó að batinn hafi ekki komið undir eins, heldur hafi ferlið tekið tíma.

  Mynd / Unnur Magna

  „Mér batnaði ekki alveg strax þótt það kæmu mörg mjög góð tímabil inn á milli. Ég hélt áfram að taka tímabil þar sem ég léttist þar til ég var orðin tuttugu og eins árs. Árið 2013 náði ég loks fullum bata. Þá hætti ég að líta á sveltið sem eitthvert tæki til að verða falleg. Í dag lít ég svo á að mér sé batnað fullkomlega og ég held satt að segja að ég gæti ekki farið að svelta mig þótt ég reyndi. Núna er það hluti af mínum lífsstíl að borða mikið af hollum mat en ég leyfi mér líka að borða sælgæti og það sem telst ekki endilega hollt því maður verður líka að njóta. Annars væri ég bara komin í einhverja aðra þráhyggju, þótt ég væri ekki lengur með anorexíu. Ég myndi ekki vilja fara í einhvern annan ramma þar sem ég væri að telja allt ofan í mig eða borða bara kjúkling og egg. Ég borða svona um það bil það sem ég vil en áttatíu prósent af því er hollt.“

  Katrín segist ekki myndu óska sínum versta óvini að ganga í gegnum glímuna við anorexíu. „Þetta er svo hræðilegt að það er eiginlega ólýsanlegt. Ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa sigrað þessa baráttu og hugsa að fyrst ég komst í gegnum þennan hrylling þá kemst ég í gegnum hvað sem er. Og mér finnst ég vera svo mikill sigurvegari.“

  Myndir / Unnur Magna

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is