2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gamli tíminn allsráðandi í Amsterdam

  Friðsæld, skemmtileg byggingalist og góður matur einkenna borgina Amsterdam.

  Fjöldi áhugaverðra bygginga er í Amsterdam.

  Sumir segja að Amsterdam sé ávallt eins. Sömu brýrnar liggja yfir síkin og fleyttu fólki þurrum fótum yfir á hinn bakkann fyrir þrjú hundruð árum. Húsin eru há, mjó og litrík með furðulegum og skemmtilegum kvistum upp úr þökunum og flest voru þau byggð þegar ríkir kaupmenn byggðu borgina á sautjándu öld.

  Nokkur úthverfi eru með nútímalegum brag en þangað leita gestir sjaldnast, heldur halda sig í miðborginni þar sem gamli tíminn er allsráðandi. Rafljósin gefa borginni hins vegar aðeins skrautlegra yfirbragð en hún hafði áður og allar brýr eru baðaðar ljósum á kvöldin. Bátar og reiðhjól eru eftir sem áður algengustu samgöngutækin.

  Ein skemmtilegasta leiðin til að skoða Amsterdam er að taka sér far með einum af mörgum bátum sem sigla um síkin. Um borð er leiðsögumaður sem segir ferðamönnum undan og ofan af sögu borgarinnar og bendir á helstu kennileiti. Húsin speglast í kyrrlátu vatninu og víða má sjá húsbátafólk dytta að heimilum sínum.

  AUGLÝSING


  Áhugaverð söfn

  Eitt af fáum húsum með nútímalegu yfirbragði í miðborginni er Van Gogh-safnið. Þar er að finna meira en tvö hundruð málverk eftir þennan helsta meistara hollenskrar málaralistar. Skammt frá borginni, nálægt litlum bæ sem kallast Otterlo, er annað safn með myndum eftir impressjónista og póstimpressjónista sem kennt er við Helene Kröller-Müller. Sú kona byrjaði snemma að safna myndum eftir þessa meistara og keypti þær flestar fyrir fáeinar krónur. Í dag er safnið hins vegar margra milljóna virði. Safnið er svo stórt að besta leiðin til að komast yfir að skoða það er að taka eitt af mörgum reiðhjólum sem eru við innganginn og hjóla í gegnum salina.

  Annað skemmtilegt safn er heimili Rembrandts í gamla gyðingahverfinu. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja en málarinn ætlaði sér um of þegar hann byggði þetta hús árið 1639 því að árið 1660 var hann tilneyddur til að lýsa sig gjaldþrota og flytja úr því. Níu árum síðar lést hann í sárri fátækt. Hús hans hefur nú verið gert upp og þar eru til sýnis meira en 250 teikningar og koparstungur eftir listamanninn, þar á meðal fræg mynd af konu hans, Saskíu, en hún dó ung. Fleiri myndir eftir Rembrandt er að finna í Rikjsmuseum eða Ríkislistasafninu; þar á meðal eru Næturverðirnir, Gyðingabrúðurin og sjálfsmynd sem hann málaði á pappaspjald í fátækt sinni og eymd eftir að velmegunarárunum lauk.

  Hús Önnu Frank

  Flestir sem til Amsterdam koma láta ekki hjá líða að heimsækja hús Önnu Frank. Þetta fyrrum kryddvöruhús er orðið að safni þar sem sjá má hvar fjölskylda Önnu hafði hreiðrað um sig á þröngu lofti, ásamt annarri gyðingafjölskyldu. Þarna bjó fólkið frá árinu 1942 og fram til 1944 en þá sveik einhver þau í hendur nasista. Sennilega hefðu örlög Önnu og hennar fólks ekki þótt merkilegri en einhverra annarra þeirra sex milljóna gyðinga sem létust í fangabúðum nasista ef ekki hefði komið til dagbók Önnu sem lýsir fallegri lífssýn og friðarvilja. Þrátt fyrir að hún byggi við ömurlegar aðstæður skrifaði hún í dagbók sína: „Ég trúi enn á hið góða í manninum.“

  Þessi óvenjulega stúlka var handtekin aðeins örfáum mánuðum áður en stríðinu lauk og hún dó í Belsen-fangabúðum, þremur vikum áður en Bandamenn brutust inn í þær. Enn má sjá ljósmyndir af kvikmyndastjörnum fimmta áratugar síðustu aldar skreyta veggi herbergis Önnu. Þar eru líka merki sem sýna hversu hratt hún hækkaði þau tvö ár sem fjölskyldan hírðist þarna í felum.

  „Enn einn frægur sonur borgarinnar, sem vert er að minnast á, var heimspekingurinn René Descarte. Á minningarskildi um hann við heimili hans er að finna eftirfarandi áletrun: „Hvaða annað land nýtur svo fullkomins frelsis.“

  Enn einn frægur sonur borgarinnar, sem vert er að minnast á, var heimspekingurinn René Descarte. Á minningarskjöld um hann við heimili hans er að finna eftirtalda áletrun: „Hvaða annað land nýtur svo fullkomins frelsis?“ Descarte var að tala um Holland en mörgum íbúum Amsterdam þykir orðið nóg um frelsið. Sala og notkun á kannabisefnum er lögleg þar en mörgum íbúum er ami að hasskaffihúsunum og eiturlyfjaneytendunum sem lagt hafa undir sig sum hverfi borgarinnar. Engu að síður er borgin ótrúlega friðsæl og fæstir verða varir við að hún sé á nokkurn hátt öðruvísi en aðrar borgir Evrópu.

  Aðalmynd: Svipmikil húsin og upplýstar brýrnar eru einkennandi fyrir Amsterdam.
  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is