Þriðjudagur 18. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Gargandi snillingur eða viðkvæmt blóm og allt þar á milli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvar þú ert í röðinni í systkinahópnum segir heilmikið um þig og einnig í hvaða mánuði þú fæddist.

Því hefur verið fleygt fram að elsta systkinið sé gáfaðast og það yngsta sé skemmtilegast … auðvitað vita allir að það eru miðbörnin sem bera af …

Svona að öllu gamni slepptu má hér finna fróðleik um þig eftir því hvar í systkinaröðinni þú ert. Einnig um mánuðinn sem þú fæddist í. Þess ber að geta að engar vísindalegar rannsóknir liggja hér að baki, þetta er allt til gamans gert.

Hvar ertu í systkinaröðinni?

Fjölskyldumynstur geta verið flókin, ekki síst á Íslandi, og ef þú ert t.d. yngsta barn föður þíns en miðbarn móður þinnar, skaltu bara velja það sem þér finnst passa betur við þig, eða þér hugnast betur.

Einbirnið – það ábyrga

Sagt er um einbirni að þau séu einbeitt, afar skipulögð, ábyrg og áreiðanleg. Veröld þeirra getur verið svolítið svört og hvít og þess vegna geta sum þeirra átt erfitt með að fyrirgefa, það tekur þau að minnsta kosti góðan tíma. Þau eru kröfuhörð, finnst ekki auðvelt að viðurkenna að þau hafi rangt fyrir sér og best er að gagnrýna þau varlega og af nærgætni, þau eru nefnilega mjög viðkvæm og auðsæranleg.

- Auglýsing -

Elsta barnið – leiðtoginn

Vísindalegar rannsóknir hafa reyndar sýnt að elsta barn skorar oft hærra í mælingum á greind en yngri systkinin og eftir því sem árin á milli eru fleiri, þeim mun meiri munur. Elstu börnin eru sögð vera náttúrulegir leiðtogar sem setja markið oft mjög hátt. Þau gætu náð langt í stjórnmálum, orðið framkvæmdastjórar eða talsmenn ýmissa samtaka. Þessum hópi er hægt að skipta í tvennt, annars vegar eru þau hugulsömu og nærgætnu og hins vegar þau sem eru árásargjörn og hrista upp í hlutunum. Þessi elstu geta verið mislynd og tilfinningasljó í garð annarra, einnig ýtin og yfirþyrmandi. Mörg þeirra þykjast vita allt en flest þeirra treysta yfirleitt sjálfum sér betur en öðrum.

Miðbarnið – það vinsæla

- Auglýsing -

Miðbörnin eru sögð búa yfir góðum hæfileikum í mannlegum samskiptum og velja fremur friðsamlegu leiðina en að rugga bátnum. Þau eru með báða fætur á jörðinni, yfirveguð og sjá báðar hliðar á málum. Þeir eiginleikar gera þau að bæði góðum sáttasemjurum og leiðbeinendum. Þau eru vinsæl en þykja ekki eins drífandi og t.d. elstu systkinin eru, eiga stundum erfitt með að standa við markmið sín og sveigja jafnvel af leið til að geðjast öðrum. Þeim hættir líka til þess að taka á sig sökina fyrir eitthvað sem þau vita að aðrir hafa gert.

Því hefur verið fleygt fram í gegnum tíðina að elsta systkinið sé gáfaðast og það yngsta sé skemmtilegast.

Yngsta barnið – það skemmtilega

Það má með sanni segja að yngstu börnin séu klappstýrur heimilisins. Þau hafa afar góða hæfileika í mannlegum samskiptum og vita fátt skemmtilegra en að skemmta öðrum. Þau eiga auðvelt með að kynnast nýju fólki og að láta fólki finnast það velkomið. Þau þrífast vel í stórum hópi, eru hrókar alls fagnaðar og óhrædd við að taka áhættu. Yngstu börnin geta þó orðið fljótt leið á hlutunum og missa stundum athyglina þegar þau þurfa að halda sig við eitthvað eitt of lengi. Að einhverju leyti eru þau sjálfhverf og gera stundum óraunhæfar væntingar til annarra, ekki síst maka síns og ætlast til þess að sambandið/hjónabandið sé eintóm gleði. Þolinmæði er ekki ein af dyggðum yngsta barnsins.

Mánuðurinn þinn

Janúar

Metnaðargjarn og nokkuð alvörugefinn dugnaðarforkur. Hefur gaman af því að læra og gæti orðið góður kennari eða leiðbeinandi. Vinnusamur og góður skipuleggjandi, mikill snyrtipinni. Kann að gera aðra hamingjusama en má vara sig á afbrýðisemi. Rólega, þögla týpan þar til hún kemst í uppnám.

Febrúar

Víðsýn manneskja sem hugsar út fyrir rammann. Febrúarfólk býr yfir hæfileikum og greind og einnig heiðarleika og tryggð. Það þarf frelsi og eltir takmark sitt af staðfestu og auðmýkt. Getur verið feimið og kjarklítið og vill frekar stjórna á bak við tjöldin en vera áberandi.

Mars

Aðlaðandi, ástríkt, hlédrægt og örlítið feimið fólk. Það er heiðarlegt í eðli sínu, gjafmilt og samúðarríkt. Greiðvikni einkennir það og mjög erfitt er að reita það til reiði. Auðvelt er að treysta því fyrir leyndarmálum en sjálft er það leyndardómsfullt og kýs frið og ró fram yfir flest annað.

Apríl

Kraftmikill, einbeittur og athafnasamur einstaklingur. Svolítið fljótfær og ef einhver reitir hann til reiði segir hann hluti sem hann meinar ekki og sér eftir. Aðlaðandi með gott sjálfstraust og hefur hæfileika til að leysa vandamál, sín og annarra. Sterkur persónuleiki, hugrakkur og hefur stálminni.

Maí

Hrókur alls fagnaðar í góðum félagsskap, hefur skarpa hugsun og djúpar tilfinningar. Yndisleg sál sem nýtur þess að gleðja aðra. Maífólkið hefur sterkan vilja, er þrjóskt og stundum auðvelt að reita það til reiði. Það hefur góða hæfileika til að hvetja aðra til dáða.

Júní

Hugsjónamanneskja sem á auðvelt með að gera áætlanir fram í tímann. Hugurinn er oft á fleygiferð og fara þarf vel að júnífólkinu til að hafa áhrif á það. Það er hugmyndaríkt, kurteist og kann að koma fyrir sig orði, það er vandlátt og kýs aðeins það besta.

Júlí

Júlífólkið er dult, svolítið þögla týpan og hefur einstaklega góða návist. Það hefur ráð undir rifi hverju og gott að leita til þess, það er heiðarlegt og hefur einlægan áhuga á öðru fólki og tilfinningum þess. Stundum er erfitt að skilja það og á móti kemur að það á líka erfitt með að skilja aðra.

Ágúst

Ágústfólkið lifir fyrir húmor og gleði, það er aðlaðandi, ráðagott, viðmótsþýtt og umhyggjusamt. Oft er það of örlátt en sér samt ekki eftir þeim gjöfum sem það gefur. Þótt það sé nokkuð ánægt með sjálft sig þyrstir það líka eftir hrósi og viðurkenningu þegar því finnst ástæða til.

September

Fólk fætt í september er skipulagt, nákvæmt, varkárt og viðmótsþýtt. Það er tryggt vinum sínum en finnst ekkert leiðinlegt að benda fólki á mistök þess. Orð þess eru marktæk, það býr yfir rósemd og yfirvegun og hefur einlæga samúð með þeim sem eiga um sárt að binda. Góðir starfskraftar.

Október

Þeir sem fæddust í október eru viðmótsþýðir og aðlaðandi, búa yfir innri styrk og ytri fegurð, leika ekki tveimur skjöldum, eru heiðarlegir og vilja fá allt upp á borðið í samræðum. Októberfólkið á auðvelt með að eignast vini og kemur fram við alla af sömu vinsemd og virðingu.

Nóvember

Hugmyndaríkt og stundum svolítið óskiljanlegt fólkið sem fætt er í nóvember en það eru svo sem ekki allir sem skilja snillinga … Þessi manneskja er einstök á sinn hátt, er skörp og gæti mögulega búið yfir skyggnigáfu. Sterkur persónuleiki sem er varkár og sífellt á verði.

Desember

Baráttumanneskja sem býr yfir tryggð og gjafmildi, er metnaðargjörn og þarfnast hróss. Hún drífur í hlutunum og það má alveg segja að hún sé eilífðarunglingur því hún hefur gaman af því að leika sér, hversu gömul sem hún er. Desemberfólk er félagslynt og það er gaman að vera í návist þess.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -