Gefa heimilinu hlýlegan svip

Deila

- Auglýsing -

Hitt og þetta um pottaplöntur.

Pottaplöntur gefa heimilinu hlýlegan svip. Þær launa umönnina með því að skapa betra andrúmsloft í íbúðinni og fegurð þeirra gleður augað. Allir geta ræktað blóm. Það eina sem þarf til er að muna eftir að vökva og gefa áburð af og til. Þegar byrjað er að rækta er gott að hafa eftirfarandi í huga.

Göt í botninum tryggja eðlilegt frárennsli vökva frá rótunum.

Veldu góða potta
Góðir pottar hafa eitt eða fleiri göt í botninum. Það er til að tryggja eðlilegt frárennsli vökva frá rótunum. Ef vatn liggur um of að rótunum rotna þær og jurtin deyr. Í raun og veru er hægt að planta blómum í hvaða ílát sem er og margir kjósa að planta þeim beint í leirpotta eða skálar. Þá er vikur eða steinar settir í botninn til að tryggja frárennslið. Það er líka gaman að setja saman lítinn garð í grunnum skálum. Þá þarf að tryggja að plönturnar eigi vel saman að því leyti að þær þurfi svipað birtumagn og vökvun.

Plastpottar hafa þann kost að þeir eru léttir og auðvelt að færa þá til ef á þarf að halda. Þeir eru einnig sérhannaðir til að vel renni frá þeim. Þeim má auðveldlega koma fyrir ofan í postulínspottum eða skálum og þeir drekka ekki í sig vatn þegar vökvað er eins og leirpottar gera stundum.

Val á pottamold
Fyrsta flokks gróðurmold er hægt að kaupa í gróðurhúsum og blómabúðum. Þar má einnig finna mold sem er sérhönnuð fyrir ákveðnar tegundir blóma eins og þykkblöðunga, blómstrandi blóm og fleira. Sumar gerðir innihalda ákveðið magn áburðar og almennt gildir að ekki þarf að gefa plöntunni áburð fyrstu mánuðina eftir að henni er plantað eða umpottað. Það er gott að blanda moldina sandi ef það hentar jurtinni. Sumir blanda moldina kristöllum sem draga í sig vatn og halda rakanum lengur.

Kynntu þér hvaðan jurtin er upprunnin áður og sjáðu til þess að hún fái næga birtu, njóti nægilegs yls og raka.

Staðarval
Veldu vandlega stað fyrir hverja plöntu eftir birtustigi, raka og hita. Kynntu þér hvaðan jurtin er upprunnin áður og sjáðu til þess að hún fái næga birtu, njóti nægilegs yls og raka. Það hentar ekki öllum plöntum að vera í eldhúsi eða á baðherbergjum þar sem mikill raki er. Sumar jurtir mega alls ekki vera í gluggakistum fyrir ofan ofn því þar er of mikill hiti. Til að mynda þurfa rósir, þar með taldar Hawaii-rósir, að minnsta kosti sex klukkustundir af beinu sólarljósi á dag. Þeim hentar þess vegna best að vera við eða í glugga móti suðri. Burknar á hinn bóginn þrífast vel í skugga og þola mikinn raka.

Stórt eða lítið
Stórum pottum undir stórar plöntur er best að koma fyrir á sínum stað áður en jurtinni er plantað í þá. Þegar búið er að koma moldinni og blóminu fyrir í þeim geta þeir verið þungir og erfiðir að flytja til svo best er að breiða plast í kringum þá og vinna þannig við plöntun eða umpottun. Settu vikur, smásteina eða grisju yfir götin í botninum, síðan er potturinn fylltur að um það bil hálfu, þá er jurtinni komið fyrir og fyllt upp með mold allt í kringum. Þrýstið vel að og tryggið að moldin sé það þétt að plantan haldist vel á sínum stað og standi bein.

Fyrsta flokks gróðurmold er hægt að kaupa í gróðurhúsum og blómabúðum.

Vökvun
Vökvaðu jurtina vel í upprunalega pottinum um það bil klukkustund áður en þú flytur hana milli potta og einnig eftir að hún er komin á þann stað sem henni er ætlað að vera á. Færðu hana varlega úr upprunalega pottinum með því að kreista hann nokkrum sinnum þar til þú finnur að jurtin er alveg laus. Fylgstu vel með næstu daga og vökvaðu um leið og moldin er farin að þorna. Þetta hjálpar rótunum að koma sér vel fyrir á nýjum stað.

Fleiri en ein
Ef verið er að koma fleiri en einni jurt fyrir í sama potti er þeim öllum komið fyrir áður en fyllt er upp með mold allt í kringum þær. Hafið að minnsta kosti 3-5 cm bil milli jurtanna og passið að hvergi verði mold eftir á blöðunum. Ef það er strjúkið hana burtu annars getur moldin skemmt blöðin.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir