2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Glæsileg og listræn

  Tískuhús Ninu Ricci er þekkt fyrir mýkt og glæsileika.

  Á meðan hún lifði var Nina Ricci þekkt fyrir hve snilldarlega henni tókst að endurspegla persónuleika viðskiptavina sinna í þeim klæðum sem hún hannaði handa þeim. Hún reyndi ævinlega að undirstrika kvenleikann, jafnvel meðan strákaleg snið voru hátíska. Tískuhús hennar er enn þann dag í dag þekkt fyrir mýktina og glæsileikann.

  Tískuhús Ninu Ricci var þekkt fyrir glæsilega kjóla sína og kvikmyndastjörnur völdu gjarnan hennar hönnun.

  Réttu nafni hét þessi merkilega kona Maria Nielli en hún stytti nafn sitt í Nina. Hún fæddist árið 1883 í Turin á Ítalíu en fjölskyldan flutti til Flórens þegar Nina var fimm ára og seinna til Frakklands.

  Aðeins þrettán ára réð hún sig í vinnu hjá kjólameistara og átján ára var hún gerð að yfirmanni stofunnar og fjórum árum síðar að helsta hönnuði hennar.

  AUGLÝSING


  Hún giftist Luigi Ricci árið 1904 og þau eignuðust soninn Robert ári síðar. Nina og Robert voru alla tíð mjög náin og þegar hún stofnaði eigið tískuhús árið 1932 var hann hennar hægri hönd. Hönnun Ninu sló umsvifalaust í gegn og fyrirtækið óx með ógnarhraða.

  Það vakti athygli að hún kaus að leggja efnin beint á gínur og vinna þannig. Auk þess var hún einstaklega lagin við að nýta efnin til fulls og ef mynstur var í efnunum tókst Ninu ævinlega að draga það fram þannig að það nyti sín og drægi fram fallegan vöxt kvenna.

  Kjólar hennar þóttu einstaklega glæsilegir og árið 1937 hneykslaði hún marga með samkvæmiskjól þar sem hálsmálið var opið niður að mitti en efnismikið þannig að fellingarnar lögðust yfir brjóstin á siðsamlegan hátt.

  Kjólar hennar þóttu einstaklega glæsilegir og árið 1937 hneykslaði hún marga með samkvæmiskjól þar sem hálsmálið var opið niður að mitti en efnismikið þannig að fellingarnar lögðust yfir brjóstin á siðsamlegan hátt.

  Þetta þekkja allir í dag en bolir, kjólar og blússur eru með þessu sniði en það þykir þokkafullt og setur sérlega fallegan svip á flíkur.

  Robert með frábært nef

  Rétt fyrir síðustu aldamót var merki Ninu Ricci hafið til vegs og virðingar að nýju og hér má sjá kjóla í anda hennar úr nýlegri línu.

  Robert var einstaklega fær ilmvatnshönnuður og hann átti frumkvæðið að því að ilmurinn L’Air du Temps kom á markað árið 1948. Það var hinn heimsfrægi glerlistamaður Marc Lalique sem hannaði glasið sem var valið fallegasta ilmvatnsglas 20. aldarinnar. Á tappanum voru tvær dúfur að kankast á og dúfan hefur upp frá því verið nokkurs konar tákn Ninu Ricci. Þetta er sérlega kvenlegur og mildur ilmur sem er löngu orðinn jafnklassískur og tímalaus og Chanel no. 5.

  Robert var líka mikill listunnandi og hann tengdi tískuhúsið við æðri listir, einkum myndlist og dans. Hann átti einnig í samstarfi við alla helstu hönnuði sem honum voru samtíða og tískuhúsið varð fljótt þekkt fyrir hve allt var vandað og vel hannað. Hönnuðurinn Jules Francois Crahay varð yfirhönnuður hússins árið 1954 en Nina hafði áfram yfirumsjónina. Hann yfirgaf húsið árið 1963 og þá Gerard Pipart við.

  Nina lést árið 1970, áttatíu og sjö ára að aldri, en Robert hélt merkinu á lofti allt til 1988 er hann féll frá. Crahay hafði þá snúið aftur og eignast fyrirtækið. Katalóníumaðurinn Mariano Puig keypti svo tískuhús Ninu Ricci árið 1998 og með honum tóku ferskir vindar að blása á ný um húsið. Svíinn Lars Nilson var ráðinn aðalhönnuður þess en árið 2006 tók Olivier Theyskens við af honum. Árið 2009 tók svo Peter Copping við en hann vann áður fyrir Louis Vutton. Fatalína hans hefur nokkrum sinnum þótt bera af öllu í París.

  Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is