2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gleðilega árshátíð!

  Það er alltaf stemning í kringum undirbúninginn fyrir árshátíðir og það að fara á eina slíka. Skipulagningin hefur mikið að segja, enda er að mörgu að huga áður en farið er af stað og best er að gera ráð fyrir lengri tíma en styttri í undirbúning. Það er ekkert gaman að þurfa að hlaupa út á síðustu stundu og í stressi.

  Vikan tók saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir árshátíðarundirbúninginn.

  Byrjaðu tímanlega. Tíminn flýgur gjarnan frá manni þegar maður er að græja og gera. Þess vegna er betra að gefa sér meiri tíma og eiga þá frekar smástund aflögu til að slaka á áður en haldið er af stað. Gerðu ráð fyrir að það taki tíma að klára förðun og hárgreiðslu og ef þú ætlar að lakka neglurnar þarftu líka að gera ráð fyrir góðum tíma í það.

  Gerðu ráð fyrir að það taki tíma að klára förðun og hárgreiðslu. Mynd / Jamie Street

  Góður nætursvefn. Hvíldin er mikilvæg áður en haldið er á árshátíð. Hafir þú ekki náð góðum nætursvefni nóttina áður, skaltu reyna að næla þér í að minnsta kosti stuttan fegurðarblund áður en þú byrjar að hafa þig til. Það getur haft mikið að segja um stuðið sem þú ert í og það vill enginn sofna ofan í súpuna og missa af öllum skemmtiatriðunum.

  AUGLÝSING


  Neglurnar. Það er alltaf gott og notalegt að fara í góða handsnyrtingu. Vel snyrt naglabönd og fallega lagaðar neglur setja punktinn yfir i-ið áður en neglurnar eru lakkaðar. Hægt er að slá tvær flugur í einu höggi og biðja um lökkun í lok handsnyrtingarinnar.

  En ætlir þú að lakka þig sjálf skaltu hafa í huga að gefa þér góðan tíma og ekki láta það bíða fram á síðustu stundu. Það þarf að gefa lakkinu tíma til að þorna áður en byrjað er að gera eitthvað annað. Það er ferlega fúlt að reka sig í á meðan lakkið er enn að þorna og skemma það. Svo getur gert illt verra að ætla að laga skemmdina.

  Föt og skór. „Í hverju ætlarðu að vera?“ er það fyrsta sem hárgreiðslukonan mín spyr mig að þegar ég sest í stólinn hjá henni fyrir stór tilefni, því greiðslan fer eftir dressinu. En það getur líka verið kvíðavaldandi að vita ekki í hverju maður ætlar að fara svo það er bara hið besta mál að vera búin að ákveða það með góðum fyrirvara. Háir hælar eru alltaf sparilegir en stundum verða þægindin að vera í fyrirrúmi.

  Ef ekki er sitjandi borðhald á árshátíðinni, getur verið mjög þreytandi að standa upp á endann í háum hælum. Ef kostur er, mælum við með því að þú hafir aukaskó meðferðis. Það er til dæmis hægt að fá sæta ballerínuskó eða pæjulega strigaskó til að fara í þegar líður á kvöldið.

  Matur. Gættu þess að fara ekki af stað á árshátíðina á tóman maga ef þú ætlar að drekka áfengi. Það er ágætt að reyna að hafa máltíðina í hollari kantinum; til dæmis brauðsneið með góðu áleggi eða gott salat.

  Ekki gleyma að borða vel fyrir árshátíðina.

  Veskið. Hver kannast ekki við að vera á leiðinni út um dyrnar og henda í flýti ofan í veskið hlutum sem á að taka með. Og uppgötva svo þegar á staðinn er komið að það vantar eitthvað. Jafnvel eitthvað mikilvægt eins og rauða varalitinn. Það er því gott að vera búinn að ákveða hvað maður ætlar að hafa með í veskinu og jafnvel taka það til kvöldinu áður. Það sem við mælum með að hafa meðferðis er:

  • Kreditkort og/eða peningar
  • Húslyklar
  • Farsíminn
  • Aukahleðsla fyrir símann því rafhlaðan getur verið fljót að tæmast ef tekið er mikið af myndum og myndböndum.
  • Lítill snyrtispegill
  • Púður
  • Varablýantur og varalitur
  • Lím fyrir gerviaugnhárin ef þau skyldu losna
  • Hælsærisplástur

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is