Goð, galdrakrakkar og allt þar á milli  

Deila

- Auglýsing -

Ungmenni víða um heim kusu uppáhaldssögupersónur sínar á dögunum og útkoman kemur í raun ekki á óvart. Persónurnar í efstu sætunum voru að auki allar komnar á hvíta tjaldið sem gæti hafa vakið enn meiri áhuga á þeim.

Percy Jackson

Percy trónir á toppnum í þessari vinsældakosningu en fyrsta bókin um hann kom út á íslensku árið 2011. Sú heitir Eldingarþjófurinn og segir frá hinum 12 ára Percy sem hefur fram að því verið rekinn úr öllum þeim skólum sem hann hefur farið í. Nú er hann kominn í nýjan skóla þar sem hann eignast bæði vini og óvini. Hann kemst að því að faðir hans er sjávarguðinn Póseidon og lendir í æsilegum ævintýrum í kjölfarið, sem halda síðan áfram í annarri bókinni, Skrímslahafinu, sem kom út í íslenskri þýðingu 2013. Bækurnar eru eftir Rick Riordan og hafa báðar verið kvikmyndaðar (2010 og 2013). Annabeth Chase, vinkona Percy, nýtur einnig mikilla vinsælda og hafnaði í fjórða sæti listans.

Katniss Everdeen

Katniss úr þríleiknum Hungurleikunum sló í gegn, fyrst í bókunum og síðan kvikmyndunum sem gerðar voru eftir þeim. Hún er flott kvenhetja, afar úrræðagóð, enda lífsbaráttan með eindæmum hörð í fylkinu sem hún býr í. Önnur söguhetja úr þessum bókum, Finnick Odair, hafnaði í tólfta sætinu og Peeta Mellark í því nítjánda.

Harry Potter

Galdrastrákurinn sjálfur með örið á enninu situr í þriðja sæti listans í þessum fádæma vinsæla bókaflokki. Bækurnar sem eru eftir J.K. Rowling voru rifnar úr hillum verslana volgar úr prentsmiðjunni og fengu börn um allan heim til að líta upp úr tölvunum til að fara að lesa. Fullorðnir hrifust ekki síður af þessum bókum. Bíómyndirnar eftir sögunum urðu einnig vinsælar, enda sérlega vandaðar og góðar.

Hermione Granger

Í fimmta sæti listans er klára galdrastelpan hún Hermione, vinkona Harrys Potter og Rons Weasley. Fleiri persónur bókanna komust að sjálfsögðu á listann. Albus Dumledore, skólastjóri Hogwart-skóla (13. sæti), Ginny Weasley (29.) og Ron Weasley (44.) Luna Lovegood endaði í 32. sæti.

Hanna Baker

Bókin Þrettán ástæður, 13 Reasons Why, eftir Jay Asher kom út fyrir nokkrum árum en þegar sjónvarpsþættir voru gerðir eftir bókinni vöktu þeir mikla athygli. Hanna, aðalsöguhetja bókanna og þáttanna, er í sjötta sæti sem uppáhaldssögupersónan.

Augustus Waters

Augustus er önnur aðalsöguhetja hinnar dásamlegu bókar Skrifað í stjörnurnar og hafnaði í sjöunda sæti listans. Bókin heitir á frummálinu The Fault in Our Stars og er eftir John Green. Einhverra hluta vegna hafnaði hin aðalsöguhetjan, Hazel Grace, mun neðar, eða í 40. sæti þessa lista. Að sjálfsögðu var gert fínasta bíómynd eftir bókinni.

… og vitrar, vampírur og fylgjur

Neðar á listanum sitja margar eftirminnilegar persónur. Þar má nefna Gandalf úr Föruneyti hringsins (14. sæti). Twilight-tvíeykið, vampíran Edward (22.) og Bella (36.) létu sig ekki vanta. Lýra Belacqua (50.) úr þríleiknum um Gyllta áttavitann er þarna líka, ansi neðarlega þó. Gera átti kvikmyndir eftir öllum þremur bókunum en sú fyrsta og eina mætti svo mikilli mótstöðu frá kristnum trúarhópum vestanhafs að ekki var lagt í að gera fleiri.

 

 

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir