2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Góðar stundir við matarborðið

  Nokkur sniðug ráð til að þjappa fjölskyldunni saman við matarborðið.

  Flestir hafa þörf fyrir að hafa einhvers konar reglu á hlutunum. Ein máltíð á dag þar sem fjölskyldan kemur saman og nýtur þess að borða góðan mat er ágæt regla. Að borða af og til af fallegu leirtaui, jafnvel við dúklagt og skreytt borð, er góð leið til að allir njóti þess að taka þátt í þessari athöfn. Fyrirhöfnin og ræktin sem lögð er við þessar sameiginlegu máltíðir segir börnunum ekki bara að það sé gott og notalegt að borða heldur sé það að matast ekki síður félagsleg athöfn þar sem njóta má samneytis við aðra.

  Ef þið fúlsið sjálf við spergilkáli, gulrótum eða rófum getið þið ekki búist við að börnin ykkar borði slíkt.

  Enginn ætti að flýta sér eða komast upp með að skófla í sig af diskinum og þjóta síðan út. Þetta eru góðar stundir til að spjalla og rækta hvert annað.

  Enginn fjölskyldumeðlimur ætti að taka að sér það hlutverk að borða leifarnar frá hinum og öllum ætti að vera leyft að leifa. Það að hætta þegar maður er orðinn saddur gefur barninu þínu til kynna að maður eigi ekki að borða yfir sig heldur aðeins nóg. Mæðurnar kláruðu venjulega leifarnar af diskunum í gamla daga og sögðust vera að draga hina að landi. Sannleikurinn er hins vegar sá að oft var ekki of mikið til og móðirin var einfaldlega að borða sig sadda af leifunum. Nú á dögum er vandamálið frekar að of mikið sé til heldur en hitt. Engin þörf er á að henda matnum. Afganga má nota sem uppistöðu í nýja rétti í mörgum tilfellum, sem nesti eða koma sér upp safnkassa og þá verða matarleifarnar smátt og smátt að áburði í garðinn eða mold fyrir pottaplöntur.

  AUGLÝSING


  Látið ekkert trufla máltíðir. Símar, sjónvörp og tölvur geta beðið meðan borðað er.

  Passið mataræðið. Ef þið fúlsið sjálf við spergilkáli, gulrótum eða rófum getið þið ekki búist við að börnin ykkar borði slíkt. Látið alltaf meðlætið ganga hringinn við borðið og alla fá sér eitthvað smávegis af öllu.

  Gerið það að reglu að allir verði að reyna einn bita af nýjum rétti áður en þeir hafna honum. Það er eðlilegt að mönnum þyki matur misgóður en stundum neitar fólk að prófa eitthvað bara vegna þess að það þekkir ekki tiltekinn mat. Þetta getur hins vegar orðið til þess að fólk missir af því að borða einstaklega góðan mat og það er hluti af skemmtuninni þegar ferðast er til framandi landa að prófa þjóðlega rétti. Ef barn er vanið á að smakka á nýjungum í matargerð er það líklegra til að halda því áfram eftir að fullorðinsaldri er náð.

  Flestir borða aðalmáltíð dagsins á kvöldin og hér á landi yfirleitt á bilinu milli klukkan sex og átta. Finnið hvaða tími hentar ykkur og ykkar fólki best og miðið þá við hvenær þið finnið fyrir mesta hungri ekki hvenær sjónvarpsfréttirnar eru eða hvenær allir eru örugglega komnir heim. Ef ómögulegt er að koma því heim og saman að allir borði saman vegna vinnu er betra að annað foreldrið setjist niður með börnunum meðan þau eru svöng og borði með þeim en að börnunum sé gefið snakk til að létta þeim biðina eftir aðilanum sem vantar. Séu unglingar á heimilinu er ágætt að gera þeim ljóst að ein af fáum reglum, sem þið foreldrarnir viljið ekki að séu brotnar, er einmitt sú að mæta tímanlega í mat.

  Börn ættu ekki að venjast því að foreldrar þeirra setjist aldrei til borðs með þeim vegna þess að þeir séu of uppteknir af að þjóna matarþörfum hinna.

  Það er líka mikilvægt að börnin læri að virða foreldra sína sem manneskjur og hluti þess felst í að virða rétt þeirra til að borða í friði. Börn ættu ekki að venjast því að foreldrar þeirra setjist aldrei til borðs með þeim vegna þess að þeir séu of uppteknir af að þjóna matarþörfum hinna.

  Foreldrar sem þurfa að sýna sjálfum sér aðhald í mataræði ættu að huga vel að því hvaða skilaboð þeir senda börnunum. Ef þeir eru sífellt að tala um að þetta og hitt sé bannað en syndsamlega gott verður það eftirsóknarvert í hugum barnanna, jafnvel eitthvað sem barnið verður endilega að fá sér og borða í laumi. Betra er að leyfa bæði sjálfum sér og börnunum að smakka allan mat en gæta þess vel að borða minna af því sem er fitandi en hinu.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is