2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Gómsæt hollusta

  Í veganúar er tilvalið að nota tækifærið til að prófa sig áfram og matreiða ávexti og grænmeti á nýjan hátt. Þá er líka gaman að prófa nýjar tegundir sem menn hafa kannski ekki notað í matargerð áður.

  Epli

  Þótt epli séu alls ekki framandi ávextir eru þau mun margbreytilegri en margir gera sér grein fyrir og hægt að nota á ótrúlega margvíslegan hátt. Þau eru tínd af trjánum, gul, græn, rauð og hvorutveggja. Þau eru auðug af C-vítamínum og saðsöm séu þau borðuð milli mála. Græn epli eru súrari en hin og henta þess vegna mjög vel í alls konar austurlenska rétti, grauta og í salöt. Rauð epli eru góð í kökur og í fiskrétti. Þau eru sæt og gefa mjúkt bragð. Gulu eplin eru þarna mitt á milli en mjög margir kjósa að nota þau einmitt þess vegna. Annars eru til ótal tegundir epla og hver hefur sín sérkenni. Flestir eiga sína uppáhaldstegund og ekkert að því að nota hana en aðalatriðið er að bæta eins og einu epli í sósuna, pottréttinn, ofan á fiskinn, í salatið eða búa til eplamauk.

  Grasker

  Nú orðið eru grasker farin að fást í íslenskum matvörubúðum. Þau eru Íslendingum nokkuð framandi en eru bæði einstaklega bragðgóð og auðveld í matreiðslu. Þau eru rík af A-vítamíni og því góð fyrir sjónina. Í þeim er sömuleiðis gnægð phytosterols en það lækkar magn kólesteróls í blóði. Grasker er best að baka í eldföstu formi smurðu með olíu, einnig er hægt að steikja þau á pönnu, grilla eða steikja með lauk og öðru grænmeti. Þau eru góð í pottrétti og sem meðlæti með mat. Bandaríkjamenn bera gjarnan fram graskersböku á þakkargjörðardaginn en þær eru einstaklega bragðgóðar.

  AUGLÝSING


  Smjörhnetugrasker (butternut squash)

  Butternut squash er graskerstegund en í stað þess að að vera kringlótt er það svona eins og flaska í laginu. Þau eru ákaflega næringarrík og full af hollum trefjum. Þau er hægt að elda á sama hátt og önnur grasker.

  Rósakál

  Rósakál hefur slæmt orðspor úti í heimi og mörg börn eiga þar vondar minningar af því að vera neydd til að borða það. Líklega svipað og sum börn hér á landi voru pínd til að borða rófur. En þessar litlu grænu kúlur eiga þetta alls ekki skilið. Þær eru einstaklega góð uppspretta járns og meinhollar á allan hátt. Að auki sérlega góðar með alls konar steikum, í salöt og með fiskibollum. Rósakál er gott að steikja á pönnu og bera fram með ristuðum hnetum. Það má líka baka, grilla og sjóða, nú eða gera úr því súpu. Það er sérlega gott að salta kálið svolítið og pipra.

  Fíkjur

  Mjúkar, djúprauðar að innan en svartar að utan eru þær sérstaklega fallegar að bera fram á diski. Fíkjur er hægt að borða einar og sér, í salötum og svo hentar þær ofboðslega vel í sultur og kryddmauk. Þær eru sagðar jafna blóðsykur mjög vel en í þeim er mikið kalíum sem er gott til að halda blóðþrýstingi lágum.

  Blómkál

  Undanfarin ár hafa menn uppgötvað hversu fjölhæft blómkál er. Það má búa til úr því ígildi hrísgrjóna og bera fram með mat, nota það í stað hveitis í pítsubotn, blanda því við kjöt- eða fiskhakk til að mýkja og þétta bollur og bera það fram með mat eldað á allrahanda máta. Blómkál er ríkt af K- og C-vítamíni en þessi vítamín geta dregið úr bólgum í líkamanum. Í því er einnig mikið af fólötum sem hentar barnshafandi konum vel.

  Rauðrófur

  Sumir segja að rauðrófur séu tískugrænmetið um þessar mundir og vissulega hafa þær verið mun meira áberandi á matsölustöðum en áður var. Þær eru járnríkar og sérlega góð uppspretta jurtanæringarefna er kallast betalains en það eru andoxunarefni sem draga mjög úr bólgumyndun í líkamanum. Að auki er í þeim umtalsvert magn fólata, kalíums og mangans en það dregur úr líkum á blóðtappamyndun.

  Perur

  Perur eru dæmigerður trjáávöxtur, mjúkar, ferskar og sætar og því góð uppistaða í alls konar eftirrétti. Þær eru líka mjög góðar í salöt og ef menn hafa ekki smakkað þær bakaðar fylltar með berjasultu með andasteik þá er ekki seinna vænna að prófa. Perur eiga ekki síður vel við reykt kjöt en melónur. Að skera þær í þunnar sneiðar og bera fram með tvíreyktu hangikjöti er hreint lostæti. Þær eru trefjaríkar og innihalda mikið af C-vítamíni og kopar. Rauðvínssoðnar perur eru frábær eftirréttur en þær má einnig sjóða í sírópi.

  Granatepli

  Granatepli eru ný af nálinni hér. Rauð safarík fræin eru bragðgóð en líka svo falleg að það setur einhvern hátíðarsvip á alla rétti að dreifa þeim yfir. Ekki skemmir fyrir að þau eru meinholl, full af andoxunarefnum, trefjum og kalíumi. Allt þetta er mjög hollt fyrir hjarta- og æðakerfi, jafnar blóðþrýsting og bætir meltingu.

  Trönuber

  Íslendingar hafa ekki notað trönuber mikið en þau eru holl og góð. Þau eru trefjarík, innihalda mikið af C-vítamíni og þykja sérlega góð fyrir þarmaflóruna. Þau bæta meltingu á öllum stigum en nýjustu rannsóknir sýna að þau eru ekki eins áhrifarík gegn blöðrusýkingum og áður var talið þótt vissulega geti gagnast mjög vel gegn slíkum sýkingum á byrjunarstigi að drekka vel af vökva og pissa oft.

  Sætar kartöflur

  Ekki er langt síðan að fáar kartöflutegundir voru á markaði hér á landi. Þeim er óðum að fjölga. Þessi meinhollu jarðepli eru góð uppspretta A- og C-vítamína, eru trefjarík og saðsöm. Sætar kartöflur má elda á ótal vegu og þær eru alltaf góðar. Algengast er líklega að baka þær í olíu eða smjöri en þeim matsölustöðum fjölgar sem bjóða upp á sætar franskar kartöflur. Það er sjálfsagt fyrir fólk að prófa heima að djúpsteikja þær. Auðvelt er að sjóða sætar kartöflur og gera úr þeim kartöflustöppu. Þær passa mjög vel sem meðlæti með öllum mat.

  Ber

  Ber eru einna sætustu og bestu ávextirnir. Þau eru ofboðslega holl og næringarrík og svo ótrúlega góð. Jarðarber, bláber, krækiber, vínber, hindber, rifs, sólber, kirsuber og svo framvegis, það er sama hvar er borið niður öll ber eru frábær. Þau eru lostæti ein og sér, frábær í alla eftirrétti, góð í salöt og úr þeim má gera sultur, mauk, grauta og sósur. Í flestum berjum er K-vítamín en það er ákaflega vanmetið næringarefni því það á mikinn þátt í að viðhalda beinþéttni ævina á enda. Allir ættu því að njóta þess að fara í berjamó og safna vetrarforða af þeim berjum sem bjóðast hér og borða fylli sína af berjum hvern dag án samviskubits.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is