Guðmundur Ingi segir fangelsisvist mannskemmandi ef engin endurhæfing á sér stað

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags fanga og þar með talsmaður fanga gagnvart yfirvöldum og út á við. Félagið var stofnað fyrir fimmtán árum með það að markmiði að stuðla að auknum tækifærum fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og farsællar endurkomu út í samfélagið. Auk þess hefur félagið leitast við að styðja við aðstandendur og gefa bæði föngum og öllum sem tengjast þeim von.

Nú er ákvæði í lögum um að fangelsisvist eigi að fela í sér betrun. Hvað vantar helst upp á, að þínu mati, til að það geti orðið? „Stjórnvöld eiga að taka ákvörðun um að leggja niður refsistefnu og taka upp endurhæfingarstefnu,“ segir Guðmundur. „Áður en það verður gert mun aldrei takast að endurhæfa dómþola. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur fallið frá refsistefnunni enda nefnast lögin Lög um fullnustu refsinga.
Í því sem var kallað heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga fyrir nokkrum árum var orðinu „betrun“ hent inn á nokkrum stöðum og orðið skilgreint eftir að Afstaða hafði mótmælt því að hvergi væri minnst á endurhæfingu fanga. En endurhæfing getur auðvitað aldrei orðið að veruleika í fangelsunum ef ekki er til heildstæð stefna í endurhæfingu fanga. Það þarf í fyrsta lagi að gera markvissa áætlun fyrir hvern og einn dómþola. Þetta var í lögunum fyrir endurskoðunina en tekið út vegna skorts á fjármagni. Þá þarf að innleiða starfsþjálfun, verknám, námskeið, atvinnu, tómstundir, íþróttir, meðferðir og úrræði til að styrkja fjölskylduböndin. Allt eru þetta lyklarnir sem þarf til að stuðla að farsælli endurhæfingu dómþola.“

„Að fara í fangelsi skemmir. Það þarf að finna önnur úrræði en fangelsi eða sektir.“

Rannsóknir hafa sýnt að fangelsisvist hefur margvísleg sálræn áhrif á fólk. Hvaða leiðir eru, að þínu mati, færar til að auka líkur á að afleiðingarnar verði ekki varanlegar? „Að fara í fangelsi skemmir,“ segir hann. „Það þarf að finna önnur úrræði en fangelsi eða sektir. Þeir sem þó þurfa að fara í fangelsi ættu frekar að vera vistaðir í opnum fangelsum eða á áfangaheimilum ef hægt er því þar er lífið líkast því sem gerist í samfélaginu.
Með því að vista fólk í lokuðum fangelsum tefjum við þroskaferli, ýtum undir andleg veikindi til skemmri og lengri tíma, félagsfælni og fleira í þeim dúr, ásamt því að kynna ungt og óharðnað fólk fyrir harðari dómþolum. Hægt væri að draga úr neikvæðum áhrifum með því að koma má einstaklingsbundinni meðferðar- og vistunaráætlun, fylgja henni eftir og ívilna ef vel gengur.“

Vantar stuðning við aðstandendur og hvernig ætti hann að vera? „Afstaða er í raun eina úrræðið sem aðstandendur fanga hafa á þessum erfiðustu tímum lífs þeirra. Við sinnum daglega erindum aðstandenda og vegna þess hversu þessi þáttur starfseminnar hefur vaxið þá höfum við stofnað dótturfélag Afstöðu sem sinna mun aðstandendum enn betur. Félagið nefnist Aðgát, aðstandendafélag, og verður með aðstöðu í höfuðstöðvum Afstöðu í Holtagörðum. Við höfum fengið glæsilegan hóp fagfólks til liðs við okkur og eiga aðstandendur fanga að geta fengið öll svör og stuðning á einum stað. Í raun strandar eingöngu á fjárhagslegum stuðningi frá stjórnvöldum til þess að reka Aðgát á fullum afköstum og við skorum á ríki og sveitarfélög að leggja okkur lið.“

Hvað tekur við þegar komið er út? „Eftirfylgni er engin í kerfinu og því tekur raunverulega ekkert við eftir afplánun. Dómþoli kemur aftur út í samfélagið með tóma tösku en þungan skuldabagga. Oftar en ekki hafa tengsl við fjölskyldu rofnað og því bíður þeirra að hoppa á milli sófa hjá félögum. Ekkert húsnæði, engin atvinna og engin aðstoð er uppskrift að því að dómþolar leiti í vímuefni og afbrot að nýju. Sumir eru aðeins lausir í nokkra daga þangað til að þeir eru komnir aftur í fangelsi,“ segir Guðmundur.

Hvaða úrræði þurfa að vera til staðar? „Stjórnvöld verða að vera viljugri til að vinna með grasrótinni. Afstaða hefur reynslu og þekkingu á málaflokknum en getur ekki hrint öllum góðum hugmyndum í framkvæmd án samstarfs við ríki og sveitarfélög. Félagið myndi vilja taka á móti þeim sem lokið hafa afplánun á jafningagrundvelli á áfangaheimilum. Þar væri hægt að veita eftirfylgni, ráðgjöf og meðferð til lengri tíma.
Einnig þyrfti að vera samfella úr verknámi, starfsnámi eða öðru námi í fangelsi og út á vinnumarkaðinn, jafnvel í samstarfi við Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, Virk og fleiri. Þá þyrfti að vera öflugt heilbrigðisteymi sem sér um eftirfylgni, til dæmis í tengslum við geðheilbrigði, lyfjamál og fleira. Og í lokin, enn og aftur, þarf öflugt samstarf Afstöðu, sveitarfélaganna og ríkisins,“ segir Guðmundur en á heimasíðu Afstöðu, afstada.is, er að finna fréttir og upplýsingar um starfsemi félagsins.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -