2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hægt að breyta viðbrögðum sem valda vanlíðan

  Hann segir margs konar misskilning í gangi varðandi dáleiðslu eins og þá að fólk missi stjórnina í henni. Jón Víðis, dáleiðari og töframaður, leiðir lesendur Vikunnar í allan sannleika um hvað dáleiðsla er og hvað hún getur gert.

  „Dáleiðsla er vitundarástand sem felur í sér aukna einbeitingu, takmarkaða athygli og aukna getu til að bregðast við tillögum. Vitundarástand þýðir í raun að það er hægt að vera vakandi, sofandi eða í dáleiðslu. Það kannast allir við að vera annars hugar, utan við sig eða dreyma dagdrauma, þetta er allt ástand sem fólk fer í við dáleiðslu. Þá er hægt að vera í misdjúpri dáleiðslu en fólk er alltaf meðvitað og getur munað allt sem fram fer. Það getur líka staðið upp og gengið út í miðri dáleiðslu ef það kærir sig um, fólk missir aldrei stjórnina þó að það geti litið þannig út fyrir þann sem horfir á. Í dáleiðslu eykst einbeitingin og athyglin á umhverfið minnkar. Í rauninni er öll dáleiðsla sjálfsdáleiðsla þannig að allt sem dáleiðarinn gerir er að hjálpa fólki að koma sér sjálfu í dáleiðsluástand,“ segir Jón og heldur áfram. „Í dáleiðslu erum við að vinna með hugann og ímyndunaraflið. Þannig að dáleiðsla virkar á allt sem er huglægt og nýtist því vel til þess að aðstoða fólk sem glímir við kvíða og kvíðatengda hluti eins og lofthræðslu, flughræðslu, kóngulóarfælni, innilokunarkennd og svo framvegis. Með því að nota dáleiðslu er hægt að minnka þessar tilfinningar eða jafnvel losa sig alveg við þær.

   ,,Meðvitaði hugurinn sér um alla rökhugsun á meðan undirvitundin geymir allt sem þú kannt og veist. Undirvitundin veit líka hvernig á að bregðast við öllum aðstæðum sem upp hafa komið áður og gerir það.“

  Þar sem dáleiðarar vinna með ímyndunaraflið þá notum við töluvert af samlíkingum og dæmisögum sem fólk samsamar sig við og getur breytt hugsun og hegðun í samræmi við það. Dáleiðsla er öflugt tæki þegar kemur að því að breyta vana eins og að hætta að reykja. Þegar fólk reykir þá er stór hluti af því tengdur aðstæðum og umhverfi og það er þar sem dáleiðslan hjálpar fólki, að reykja ekki í hugsunarleysi og minna sig á hvers vegna það vilji vera reyklaust.“

  Hann segir það sama eiga við þegar fólk vill léttast, að stinga ekki einhverju upp í sig í hugsunarleysi og átta sig á að það er að innbyrða mat. „Þá hefur fólk einnig komið til mín til þess að losna við einhvern sem það er komið með „á heilann“ hvort sem það eru gamlir vinir, samstarfsfélagar eða fyrrverandi maki. Það hefur gengið mjög vel og hugsanir um viðkomandi hafa hætt að stjórna lífinu eins og áður.“

  AUGLÝSING


  Meðvitaði hugurinn og undirvitundin

  Það má skipta huganum upp í meðvitaða hugann og undirvitundina að sögn Jóns. „Meðvitaði hugurinn sér um alla rökhugsun á meðan undirvitundin geymir allt sem þú kannt og veist. Undirvitundin veit líka hvernig á að bregðast við öllum aðstæðum sem upp hafa komið áður og gerir það. Meðvitaði hugurinn, rökhugsunin síar svo út það sem ekki er þörf á lengur. Rökhugsunin er hins vegar ekki nógu fljót að stoppa allar hugsanir sem upp koma. Meðvitaði hugurinn hefur ekki aðgang að undirvitundinni og á því erfitt með að breyta viðbrögðunum. Með dáleiðslu er hægt að tala beint við undirvitundina og breyta viðbrögðum við því sem áður hefði kallað á t.d. mat, sígarettu, vanlíðan eða hræðslu og komið þannig í veg fyrir það sem fólk gerði áður en bregðast í staðinn við eins og það vill meðvitað gera.“

   „En dáleiðsla sem skemmtiatriði og dáleiðsla í meðferðartilgangi eru algerlega aðskilin fyrirbæri.“

  En hvað virkar dáleiðsla lengi? „Hún virkar eins lengi og þú þarft á henni að halda. Ef þú vilt breyta vana þá breytist hann og er varanlegur, t.d. hverfur fælni yfirleitt algjörlega. Ef þú vilt bæta samskipti við einhvern þá verða þín viðbrögð betri en það breytir því ekki hvernig hinn aðilinn hegðar sér og þú getur fallið aftur í sama mynstur ef þú leyfir þér það. Jón segir að einn hópur öðrum fremur hafi nýtt sér dáleiðslu. „Það eru íþróttamenn sem vilja bæta sig í sinni íþrótt. Ég hef til dæmis hjálpað sundmanni að ná betri árangri, hlaupara að komast yfir þröskuld í hlaupi og golfara að halda einbeitingunni.

  Dáleiðsla og töfrar

  Jón er einnig töframaður og ég spyr hann nánar út það. „Ég kynntist dáleiðslu aðeins öðruvísi en margir aðrir og sem töframaður sá ég dáleiðslu sem tækifæri til að bæta við mig og vera með öðruvísi sýningar. Enda taldi ég dáleiðslu vera eins konar „trikk“. Það sem kom mér hins vegar verulega á óvart var að dáleiðsla raunverulega virkar, það er hægt að ná fram breytingum sem maður vill ná fram. Bíómyndir og sviðsdáleiðarar sem hafa komið til Íslands hafa kynnt dáleiðsluna sem leið til að „stjórna“ fólki, það gefur mjög ranga mynd af dáleiðslunni, en það er með sviðsdáleiðslu eins og töfrabrögð að þar er ekki allt sem sýnist.

   „Það sem kom mér hins vegar verulega á óvart var að dáleiðsla raunverulega virkar, það er hægt að ná fram breytingum sem maður vill ná fram.“

  Það er mikilvægt í sviðsdáleiðslu að koma vel fram við alla sem koma upp á sviðið og að fólk upplifi að það hafi staðið sig vel og sé ánægt með sína frammistöðu. Því bið ég fólk aldrei um að gera eitthvað sem er neikvætt eða því gæti liðið illa með eftir að sýningu lýkur. Það er hins vegar hægt að gera skrýtna hluti eins og biðja fólk um að gleyma nafninu sínu, látast vera einhver annar en það er eða sjá ekki hluti sem eru raunverulega á staðnum eða sjá ofsjónir. Þetta er hægt að gera þannig að það sé skemmtilegt að horfa á og fólk hafi góða upplifun með að hafa tekið þátt í því.

  Ég hef verið með dáleiðslusýningar og sýnt þar nokkur töfrabrögð í bland. En dáleiðsla sem skemmtiatriði og dáleiðsla í meðferðartilgangi eru algerlega aðskilin fyrirbæri. Ég nota ekki sviðsdáleiðslu á fólk sem kemur til mín í meðferðardáleiðslu þar sem dáleiðslan er notuð til að hjálpa fólki að vera einbeittara í að ná þeim árangri sem það ætlar sér eða að losna við þær hugsanir eða langanir sem hafa áður truflað það,“ segir dáleiðarinn að lokum. Nánari upplýsingar má finna á daleidslumidstodin.is og þá er dáleiðsluskólinn Hugarefling, daleidsluskolinn.is sem Jón er í forsvari fyrir að byrja með dáleiðslunámskeið í haust, sem henta öllum sem vilja læra dáleiðslu, einnig til að láta sér líða betur eða hjálpa öðrum til að ná því sama.

  Texti / Unnur H. Jóhannsdóttir
  Myndir / Hákon Davíð  Björnsson

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is