2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

   „Hægt að sækja sálarbrotin“

  Meðal Indíána Norður-Ameríku störfuðu svokallaðir shamans. Vestrænir menn kusu að kalla þá töfralækna en galdurinn felst í að þeir tengjast andaheiminum til að veita lækningu og líkn. Eva Arna Ragnarsdóttir er að læra þessi fræði. Hún er snyrtifræðingur, svæðanuddari og reikimeistari og nýtir alla þessa þekkingu til að draga úr streitu og auka vellíðan þeirra sem til hennar leita.

   

  Líklega þætti flestum þetta nokkuð nóg en Eva Arna var einnig lengi flugfreyja og fararstjóri. Hún grípur enn í hvoru tveggja þegar hún er kölluð til. „Ég hef mestmegnis starfað sem flugfreyja,“ segir hún. „Þótt ég sé snyrtifræðingur hefur stærstur hluti starfsferilsins snúist um flug. Þegar ég var yngri var ég úti í Sádi-Arabíu og flaug fyrir Atlanta um allan heim. Ég var samt með mína snyrtistofu. Ég var þessi týpíska íslenska ofurkona, var í fullri vinnu, rak fyrirtæki og var að farða uppi á Stöð 2. Fyrir um tuttugu árum fór ég í viðtal við Nýtt líf og sagði frá þessu og stuttu síðar veiktist dóttir mín af heilahimnubólgu.“

   Náttúruleg andlitslyfting

  Eva Arna segist því þekkja af eigin raun hvernig hægt sé að keyra sig nánast í kaf í vinnu en hún er brosmild og hefur ákaflega róandi nærveru. Það er varla hægt að ímynda sér að þessi kona þekki streitu af eigin raun. Undanfarið hefur hún þróað og boðið upp andlitsmeðferð sem kalla mætti mótandi andlitslyftingu eða sculptural facelift technique. Fæstir gera sér grein fyrir hversu mjög þreyta, stress og áhyggjur setjast að í andliti og meðferðinni er ætlað að vinna gegn því. En í hverju felst hún?  „Náttúruleg andlitslyfting er andlitsmeðferð til að lyfta og styrkja háls og andlitsvöðvana, meðferðinfelst í öflugu nuddi sem styrkir og stinnir vöðvana,“ segir Eva Arna. „Í byrjun er sogæðakerfi líkamans virkjað og að henni lokinni fær húðin meiri ljóma, kjálkalína og kinnbein mótast og verða meira áberandi. Hver einasta hreyfing í nuddinu hefur sinn tilgang þar sem litlu vöðvarnir í andlitinu eru virkjaðir með nuddi. Munnholið er líka nuddað til að ná betur til smáu andlitsvöðvana, bæði efri partur andlits og neðri og losar það um spennu í kjálkum og andliti. Eins dregur meðferðin úr þrota og bjúg í andliti.

  „Ég trúi því að í andliti séu mikið af ósögðum tilfinningum og orðum og viðskiptavinurinn kemst í tengingu við sjálfan sig í slökuninni. Mín upplifun er að þetta er ekki síður andleg meðferð en líkamleg.“

  Ég legg mikið upp úr slökun í þessari meðferð og fyrir mér er þetta heilandi andlitsmeðferð þar sem bringa, háls og andlit eru dekruð með yndislegu nuddi og eins verður mikil tilfinningalosun þar sem ég trúi því að í andliti séu mikið af ósögðum tilfinningum og orðum og viðskiptavinurinn kemst í tengingu við sjálfan sig í slökuninni. Mín upplifun er að þetta er ekki síður andleg meðferð en líkamleg.

  AUGLÝSING


  Höfundur þessarar sérstöku tækni Sculptural Facelift er rússneskur og heitir Yakov Gershkovich og hefur hann þróað þessa meðferð í 20 ár og kennt hana víða um heim í 7 ár. Þessi meðferð hefur farið sigurför um heiminn og er orðin sú vinsælasta á markaðnum. Hugmyndin á bakvið meðferðina var að þróa og finna upp tækni til að þjálfa andlitsvöðvana og styrkja á sama hátt og við æfum líkamsvöðvana. Þessi kröftuga andlitsmótun er án aðgerðar eða inngrips með efnum og gengur út á að styrkja andlitsvöðva og losa um spennu í kjálkum og andliti. Þetta er sögð vera uppáhalds andlitsmeðferð Meghan Markle, Jennifer Aniston og fleiri stórstjarna. Hún hentar bæði fyrir karla og konur og hjálpar fólki að verða besta útgáfan af sjálfur sér. Eins er þetta tilvalið fyrir þá sem eru með bótox eða önnur fyllingarefni til að fá virkni í vöðvana. Ég hafði fylgst með henni hjá Yakov í nokkur ár og sjálf verið í hugleiðingum um hvernig hægt væri að styrkja andlistvöðvana á árangursríkan hátt án inngrips með efnum.“

  Bætir eigin þekkingu við

  Það varð til þess að hún lærði tæknina af Yakov í Póllandi en hún setur einnig sinn svip á það sem hún er að gera. „Ég hef komið með allt það besta úr svæðanuddinu og þeim andlegu fræðum sem ég hef verið að læra inn í þetta,“ segir hún. „Ég ákvað til dæmis að ljúka nuddinu með smáheilun og dekri að mínum hætti. Það sem mér finnst svo fallegt við þessa meðferð er að hver einasta hreyfing hefur tilgang og ásetning. Ég er nánast í eigin heimi meðan á henni stendur, fer í nokkurs konar trans, er að hreyfa mig allan tímann til að ná fallegu flæði. Mér finnst þessi meðferð helst líkjast fallegri tónlist. Þetta er þess vegna ekki eingöngu andlitsnudd heldur svo miklu meira.“

  Lokaði á skyggnina í mörg ár

  „Shaman er einhver sem talinn er hafa aðgang að og áhrif í heimi góðra og slæmra anda. Hann fer í trans í helgiathöfn og ástundar spádóma og heilun.“ Þetta er ein skilgreining á starfi shamans sem finna má á netinu. Transkennt ástand og hreyfingar til að skapa líknandi flæði er því ekki fjarri þeim sem þekkir til shaman-fræða. Eva Arna er einnig svæðanuddari og ýtir þess vegna einnig á kveðna punkta í líkamanum meðan á meðferðinni stendur. Hún beitir einnig aðferðum reikiheilunar. En hvað vakti upphaflega áhuga hennar á fræðum eins og reiki og shaman?

  „Ég held að það sé eitthvað sem ég fæddist með,“ segir Eva Arna. „Þegar ég var barn skynjaði ég, liggur við, orku betur en orð. Þá bæði sá ég framliðna og skynjaði hluti sem ég hélt að allir fyndu fyrir. Á unglingsaldri fannst mér þetta mjög óþægilegt. Þetta var vissulega ákveðið áreiti á mann. Sem barn og unglingur hafði ég engan áhuga á svona hlutum og lokaði því alveg á skynjunina í ansi mörg ár. Síðan fer ég að vinna sem fararstjóri úti á Krít árið 2013 og mamma deyr sama ár. Þá fer aftur allt að opnast án þess að ég hafi beðið um það. Ég fór á ný að skynja ákveðna orku í kringum fólk og stundum þarf engin orð, ég bara veit hvað er í gangi í hjá manneskjuna. Ég þurfti ekki annað en að leyfa mér að fylgja með flæðinu og finna hvað væri að gerast.

  „Ég fór á ný að skynja ákveðna orku í kringum fólk og stundum þarf engin orð, ég bara veit hvað er í gangi í hjá manneskjuna.“

  Í nokkur ár hef ég verið í mikilli sjálfsvinnu, meðal annars hjá Jóhönnu Jónasar í Brennan-heilun og það var hún sem kynnti mig fyrir shaman-náminu sem ég er núna búin með ár. Kennari minn er æðisleg kona, Patricia White Buffalo og er einn fremsti og frægasti shaman í Bandaríkjunum ef ekki bara í heiminum. Þetta er í fyrsta skipti sem hún býður upp á svona nám á Íslandi svo þá má eiginlega segja að ég hafi bara leyft mér að fylgja straumnum þangað sem hann ber mig.“

  Sækja brot af sálu sinni

  Auk þess að kalla til góða anda öðrum til aðstoðar og hjálpar snúast shaman-fræðin um að aðstoða einstaklinga við tengjast aftur sjálfum sér og verða heilir. „Þú ert svolítið að fara heim,“ segir Eva Arna. „Í öllum þessum hraða og áreiti sem er í dag höfum við aftengst sjálfum okkur. Shaman er eitt það besta sem ég hef kynnst í langan tíma. Þar erum við að nota svo mikið hjartastöðina, fara í alls konar ferðalög og fá svör. Shaman trúa á endurheimt sálar. Þegar við lendum í áföllum hverfur brot af sálu okkar bara til að verja okkur. En hægt er að sækja sálarbrotin í sérstökum hugleiðslum. Þá erum við að púsla okkur saman bæði úr þessu lífi og fyrri lífum. Við erum að laga orkusviðið verða heil á ný. Egóið okkar stjórnar ansi mikli en um leið og við förum inn í hjartastöðina verður allt skýrt. Þar eru öll svörin.

  „Þrátt fyrir að ég hafi alltaf verið mjög andleg hef ég upplifað ótrúlega hluti í þessu ferli. Ég sé veggina falla einn af öðrum.“

  Patricia kemur hingað þrisvar á ári. Hún átti sjálf mjög erfiða ævi og hefur afskaplega sterka orku. Hún kenndi í mörg ár í Barbara Brennan-skólanum sem er einn virtasti heilunarskóli í Bandaríkjunum. Þegar hún kemur hingað förum við í alls konar ferðalög, dönsum transdansa, ómum og fleira. Þrátt fyrir að ég hafi alltaf verið mjög andleg hef ég upplifað ótrúlega hluti í þessu ferli. Ég sé veggina falla einn af öðrum. Ég hef alltaf verið mikil tilfinningamanneskja og þegar ég var yngri fann ég svolítið til þess að öðrum fannst það óþægilegt. Til dæmis var oft sagt: „Ekki segja þetta við Evu, þá fer hún bara að gráta.“ Ég fór þess vegna að reyna að fela viðbrögð mín, verða meiri nagli. Í dag fagna ég þessu öllu og leyfi því að koma eins og mér er eðlilegt. Við erum öll með okkar verkefni og verðum að passa okkur að vera ekki að dæma aðra heldur vinna úr okkar.

  Mynd / Hákon Davíð

  Ég hef alltaf verið mikill náttúruunnandi en nú tengist ég móður Jörð á allt annan hátt rétt eins og Indíánarnir gerðu. Ég glímdi við kvíða frá því ég var barn og skildi aldrei af hverju. Ég ólst upp við mikið ástríki og hlýju og var þess vegna alltaf að leita svara við hvaðan þessi kvíði minn kemur. Ég var hrædd við að fara í skólasund og hrædd við vatn. Í shaman-hugleiðslu upplifði ég að vera skilin eftir ein úti í skógi og síðan drekkt. Þarna skildi ég hvaðan hann kom þessi ótti sem hafði haldið aftur af mér að sumu leyti þótt ég vissulega hefði gert marga skemmtilega og spennandi hluti. Nú stunda ég hugleiðslu á hverjum degi, tengist sjálfri mér og tengist móður Jörð. Þetta eru svo góð tól sem maður fær í shaman og magnað að upplifa þegar maður finnur að tekist hefur að ná í eitt sálarbrot.“

  Shaman-heilun er heildræn og þar ríkir sú sama trú og finna má indverskri og kínverskri læknisfræði að líkami og sál séu eitt. Aldrei nægi að lækna líkamalega kvilla eingöngu því sálin verði einnig að fylgja. Nútímaástundun þessara fræða snýst um að opna augu fólks fyrir andlegri hlið sinni og sinna þeirri hlið heilsu sinnar. Að gefa sér tíma til að njóta slökunar og dekurs á bekk hjá snyrtifræðingi er án efa liður í að gæta hennar hvort sem menn vilja trúa á mátt shaman-heilara eða ekki.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is