Hafdís Björg gerir upp 2020: „Reyndi gríðarlega á hugarfarið mitt og framtíðarplön“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hafdís Björg Kristjánsdóttir, einkaþjálfari, fitnessdrottning og athafnakona hefur líkt og margir aðrir ekki farið varhluta af þeim afleiðingum sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir daglegt líf okkar í ár.

Hafdís Björg er einyrki og með eigin rekstur sem hefur að mestu verið lokaður vegna samkomutakmarkanna. Sama á við um skóla sona hennar, en hún er einhleyp fimm barna móðir, og skildi fyrr á árinu, eftir að hafa tekið aftur saman við og reynt hjónabandsráðgjöf með fyrrum eiginmanni sínum.

„Úff þetta blessaða ár! Mikið er ég fegin að því er að ljúka, en þrátt fyrir mjög erfiða tíma þá hefur þetta kennt manni svo margt og endurstillt lífsviðhorfið og framtíðarplönin. Ég og Gunnar reyndum aftur að taka saman, sem gekk ekki upp. Við héldum þó áfram að fara í ráðgjöf hjá Tedda í Lausninni bara til þess að geta átt góð og eðlileg samskipti þrátt fyrir skilnaðinn. Það hjálpaði okkur helling og samskiptin okkar eru mjög gagnrýnd af mörgum, en við erum bara svo ótrúlega góðir vinir og þetta samband okkar í dag er svo ótrúlega dýrmætt,“ segir Hafdís Björg.

„Úff þetta blessaða ár! Mikið er ég fegin að því er að ljúka“

Þúsund sinnum betri vinir en hjón

Hún og Gunnar Sigurðsson kynntust árið 2016 þegar bæði kepptu á Arnold Classic, sem er stærsta fitnessmót í heimi, haldið ár hvert í Bandaríkjunum. Þau urðu strax góðir vinir og sambandið þróaðist hratt. Hafdís Björg var þá einstæð þriggja drengja móðir og Gunnar átti ekki börn. Þrátt fyrir að Hafdís hafi verið ákveðin í því að gifta sig ekki aftur og eiga ekki fleiri börn, breytti hún afstöðu sinni í báðum efnum. Þau ákváðu að eignast barn og sonurinn Ingimar fæddist. Þau giftu sig síðan í ágúst 2018, og þá hafði annað barn laumað sér með og var Hafdís Björg gengin 21 viku með soninn Sigurð. Hjónin ákváðu að skilja stuttu fyrir fæðingu hans, en tóku þó aftur saman og ákvaðu að vinna í sínum málum, sem eins og áður segi gekk ekki.

„Að skilja við Gunnar var besta ákvörðunin fyrir okkur bæði, enda erum við þúsund sinnum betri vinir heldur en nokkurn tímann hjón. Við sjáum það mjög vel í dag, þótt þetta hafi verið yndislegt inn á milli,“ segir Hafdís Björg.

„Að skilja við Gunnar var besta ákvörðunin fyrir okkur bæði“

Hún segir marga hafa gert athugasemdir við hversu góðir vinir þau eru eftir skilnaðinn, og segir Hafdís Björg þau fá endalaust athugasemdir um samskipti þeirra og fyrirkomulag þeirra hvað synina varðar.

„Þegar hann er með strákana og fer til dæmis út á róló með þá þá heyrir hann stundum í mér hvort ég vilji kíkja á þá eða ef ég fer með gengið að snúast þá heyri ég stundum í honum og býð honum með,” segir Hafdís Björg og segir þetta fá fólk til að hneyklast og pirrast og þá byrji skilaboðin til hennar: „Eruð þið byrjuð saman?“, „Er ekki pabba helgi?“, „Af hverju kallar hann ennþá strákana þína stjúpsyni sína?“, „Á hann ekki bara tvo yngstu?“, „Af hverju er hann heima hjá ykkur?“, „Hvað finnst eldri strákunum um þetta?“, „Af hverju er hann með Flex, er hann ekki hundurinn þinn?“, „Af hverju ertu að deila Instagram myndum frá honum?“, „Af hverju er hann að tagga þig á myndum?”

Hafdís Björg veltir fyrir sér af hverju afstaða fólks sé svona til þeirra samskipta og sambands.

„Við viljum bæði setja alla strákana okkar í forgang og gerum allt til þess að hjálpast að með þá og stundum hvort annað. Er ekki eðlilegt að við viljum njóta sem mest með börnunum okkar? Að við reynum að samstilla okkur og uppeldið á strákunum svo þetta verði sem minnsta rót fyrir alla?,“ segir hún. „Hversu sjúkt er það að það sé eðlilegra að takmarka tíma hvors annars með börnunum okkar frekar en að leyfa hvort öðru að njóta sem mest með börnunum okkar?,“ segir hún og bætir við að hún gerir sér fulla grein fyrir að fólk sem fer í gegnum skilnað sé í mismunandi aðstæðum og oft flóknum.

„Ég veit það eru allskonar ástæður fyrir skilnaði og allskonar tilfinningar sem geta spilað inn í, en ég veit það líka að það er hægt að vinna úr hlutunum og leysa málin! Ég og Gunnar höfum lært helling í gegnum okkar skilnað. Við fórum úr því að rífast eins og hundur og köttur, yfir í engin samskipti, yfir í það að bjóða hvort öðru í mat og eiga notalegar samræður við matarborðið með börnunum okkar.”

Segist hún sem dæmi oft taka synina á „pabbadögum“ þegar Gunnar fer á æfingu, tekur aukavakt í vinnunni, fer í bíó eða jafnvel á deit með annarri konu. Og hann geri slíkt hið sama fyrir hana. „Okkur fannst þetta skrítið í byrjun ég viðurkenni það alveg, en núna erum við svo ótrúlega þakklát fyrir þessi dýrmætu samskipti og furðum okkur á því að fólk sé að hafa svona sterkar skoðanir á þessu því það telst eðlilegra að þegar það eru pabba- eða mömmudagar þá eru það bara okkar dagar og tímar með strákunum. Það er eðlilegra að tuða, rífast eða jafnvel eiga sem minnst samskipti eftir skilnað þrátt fyrir að vera að ala upp einstaklinga saman. Þetta hefur ekkert að gera með mig og Gunna heldur snýst þetta allt saman um alla strákana okkar.“

Hafdís Björg og synirnir fimm
Mynd / Aðsend

Öruggt og fallegt heimili það besta við árið

Eftir skilnaðinn leitaði Hafdís Björg að nýrri íbúð fyrir sig og synina og segir það klárlega það besta við árið þegar þau fluttu aftur í Hlíðarnar í Reykjavík og komu sér vel fyrir þar.

„Við erum með öruggt heimili og íbúðin okkar er fullkomin, þetta ár kenndi mér að heimilið er okkar öryggi og griðastaður svo það var númer eitt, tvö og þrjú að byggja upp öryggi fyrir þá og heimili sem blómstrar í takt við okkar líf. Ég elska að koma heim til mín og umhverfið er líka bara svo ótrúlega fallegt. Að finna fyrir þessu öryggi og njóta þessarar fegurðar er mér ómetanlegt. Eins væmið og það hljómar þá líður mér bara nákvæmlega svona,“ segir Hafdís Björg og bætir við að árið hafi einnig kennt henni að „forgangsraða upp á nýtt og að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut.“

Mikilvægt að sinna grunnþörfum sonanna

Synirnir fimm hafa þó ekki farið varhluta af áhrifum heimsfaraldursins á íþrótta- og skólastarf. Tveir þeirra eru í leikskóla og þrír í grunnskóla ásamt því að stunda íþróttir. Hafdís Björg brást við með því að setja æfingaaðstöðu upp á heimilinu og sinna grunnþörfum þeirra betur.

„Strákarnir mínir eru allir ótrúlega líkir mér, ef ég sinni ekki mínum grunnþörfum þá fúnkera ég ekki. Sama á við með þá. Þannig að þegar að leikskólarnir og allt lokuðu þá vissi ég bara að þeir þyrftu extra mikla athygli, hreyfingu og næringarríkan mat. Ég setti upp æfingaaðstöðu heima þar sem allir tóku þátt í æfingum í hádeginu og fengu sína útrás, við fórum út í göngutúra eða ég fór út að skokka með eldri strákana og voffa. Ég var einnig mjög þakklát þegar nágranninn henti upp trampólíninu, þeir eyddu tímunum saman á því og urðu vel þreyttir eftir mikið hopp og skopp,“ segir Hafdís Björg.

„Strákarnir mínir eru allir ótrúlega líkir mér, ef ég sinni ekki mínum grunnþörfum þá fúnkera ég ekki“

Hún segir að þó að oft gangi mikið á, þá séu þau öll orðin nánari. „Auðvitað gat reynt á bræðraástina í þessu öllu saman, en ótrúlegt en satt þá varð þetta til þess að við urðum öll miklu nánari. Strákarnir fóru að leika sér meira saman, mér fannst ég kynnast þeim upp á nýtt þar sem ég hafði notað vinnuna mína svolítið sem flótta. Ég var alltaf í vinnunni til þess að þurfa ekki að díla við erfiðleikana í hjónabandinu mínu. Ég áttaði mig á því að ég var ekki bara að flýja það, heldur var ég að missa af börnunum mínum. Það var líka ástæðan fyrir því að ég vinn mun styttri vinnudaga í dag heldur en ég gerði áður og nýti kvöldin eftir að allir eru farnir í háttinn í tölvuvinnuna.“

Hafdís Björg hefur í mörg ár verið ein af þeim fremstu í fitnessheiminum
Mynd / Anna María Írisardóttir Stílisering / Steinunn Markúsdóttir

Atvinnumennskan á bið

Hafdís Björg hefur keppt í fitness bæði hér heima og erlendis með góðum árangri. Erlendis hefur hún meðal annars keppt á Arnold Classic í Bandaríkjunum, sem er stærsta mót í heimi og hefur hún sagt áður að hún stefndi á atvinnumennsku í fitness. Ertu enn gallhörð á því?

„Ohh ekki segja þetta! Ég er búin að segja Arnold 2017-2018-2019 en hætt við vegna barneigna, þjálfaranum mínum og æfingafélaga til mikillar gleði. En 2020 átti að vera stóra árið okkar Hrannar og ætluðum við að halda áfram að sópa að okkur titlum hér og erlendis en það verður þá bara 2021! Markmiðin eru eins, bara smá frestun,“ segir Hafdís Björg. Hrönn sem hún vísar til er Hrönn Sigurðardóttir, vinkona Hafdísar Bjargar og margfaldur Íslandsmeistari í fitness.

„Markmiðið mitt hefur alltaf verið að ná PRO titlinum en það er markmið sem ég setti mér á Arnold 2016 og er það bara fyrir mig til þess að gera alltaf betur á næsta móti og halda mér við efnið. Ég elska þetta sport og umhverfið í kringum það, endalaus ferðalög, kynnast fullt af fólki og upplifa nýja hluti. Ég er bara rétt að byrja.“

„Markmiðið mitt hefur alltaf verið að ná PRO titlinum en það er markmið sem ég setti mér á Arnold 2016“

Atvinnan í lamasessi sem reyndi verulega á

Hafdís Björg er sinn eigin yfirmaður í öllum sínum störfum, hún starfar sjálfstætt sem einkaþjálfari í World Class, er með eigið fyrirtæki, snyrti-, nudd- og trimstofu í Faxafeni 14 og einnig rekur hún netverslun með fitnessvörur. Samkomutakmarkanir hafa valdið því að atvinna hennar hefur að mestu legið niðri allt árið.

„Eins og aðrar snyrti- og nuddstofur á landinu höfum við þurft að loka mest megnið af árinu og hefur það verið mjög krefjandi. Fyrirtækið hafði ekki náð eins árs aldri fyrir fyrstu lokunina svo það var enginn stuðningur sem við höfðum rétt á og síðan þegar kom að næstu lokun þá var fyrirtækið ekki búið að sýna nógu mikinn hagnað til þess að eiga rétt á neinum stuðningi svo ég hef haldið þessu á floti eftir minni bestu getu,“ segir Hafdís Björg og segir ástandið hafa tekið verulega á sig.

„Mig langaði alveg nokkrum sinnum að skríða undir sæng og aldrei fara á fætur aftur því þetta reyndi gríðarlega á hugarfarið mitt og framtíðarplön. Þannig að já þetta var bara drulluerfitt, en eftir að við fengum að opna á ný í nóvember þá hefur þetta verið að malla í réttan farveg og við sjáum fram á frábæra tíma og nýjungar hjá okkur í Virago.“

Aðspurð um hvort hún sé búin að setja sér áramótaheit eða markmið fyrir 2021 segir hún:
„Einhverra hluta vegna hræðist ég að setja niður plön fyrir næsta ár þar sem 2020 átti sko að vera árið mitt,“ segir Hafdís Björg og hlær.

„En ég stefni á að byggja Virago upp og gera það að þeirri stofu sem ég sé fyrir mér. Vinna með dásamlegu fólki og njóta með fólkinu mínu! Vonandi verja sumrinu út í Bulgaríu með strákunum mínum.“

„Einhverra hluta vegna hræðist ég að setja niður plön fyrir næsta ár þar sem 2020 átti sko að vera árið mitt.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -