Haltu ró þinni!

Í nánum samböndum verða samskipti oft ansi tilfinningarík og áköf, ekki hvað síst ef óuppgerðar sakir liggja í bakgrunninum. Það skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða foreldra og börn, systkini, fyrrum maka eða nána vini, særindin hleypa öllu í uppnám og iðulega koma menn ekki því til skila sem þeir helst vildu segja. Hér koma nokkur góð ráð til að tryggja að það takist.

Skrifaðu niður það sem þú vilt segja

Skrifaðu á blað eða í tölvupóst þar sem þú setur fram nákvæmlega þau skilaboð sem þú vilt koma á framfæri. Með því móti getur þú lesið textann yfir, strokað út, eytt, bætt við og lagað eftir þörfum. Mundu að enginn tilgangur er með að skrifa slík bréf í reiði.

Gerir þú það skaltu brenna þau og ákveða að leyfa neikvæðum tilfinningum að fuðra upp með reyknum. Hugsaðu bréfin þín sem jákvæðar staðhæfingar og staðreyndir, eitthvað sem er grunnur að betri samskiptum. Ef til að mynda togstreitan snýst um samskipti vegna barna er gott að byrja á jákvæðum staðhæfingum, t.d.: Ég vil að börnin mín eigi í góðum og uppbyggandi samskiptum við hitt foreldri sitt. Mér er mikið í mun að gera allt hvað ég get til að það megi verða. Hvað getum við gert til að það takist? Þegar svarið kemur, ekki stökkva upp á nef þér umsvifalaust. Gefðu þér tíma, horfðu eins hlutlausum augum á orðin og þú getur og veltu fyrir þér hvort hér sé grunnur sem hægt er að byggja á.

Mundu að persónulegar árásir og skítkast skilar ekki neinu, ekkert frekar en að bregðast við slíku.

AUGLÝSING


Temdu þér góðvild

Það er alveg sama hversu illa aðrir særa okkur, reiðin mun alltaf fara verst með þann sem nærir hana. Hver og einn verður að leita leiða til að ná sátt innra með sér og með því að sýna sjálfum sér sömu hlýju og þú myndir sýna besta vini þínum verður auðveldara að fyrirgefa. Þegar deilur koma upp innan fjölskyldna eru mjög oft grafin upp gömul atvik, mistök úr fortíðinni sem flestir höfðu vonast til að væru gleymd. Þetta er erfitt, einkum þegar þau dúkka upp aftur og aftur. Besta leiðin til að leggja slíka drauga í gröf sína í eitt skipti fyrir öll er að viðurkenna eigin sök og taka fulla ábyrgð á henni. Ekkert EN er leyfilegt.

Í stað þess að segja: „Já, fyrirgefðu, ég veit að ég kom illa fram þarna en þú gerðir nú þetta.“ Prófaðu að segja: „Þetta var algjörlega rangt af mér. Mér þykir það mjög leitt og vona að þú getir einhvern tíma fyrirgefið mér.“ Skilyrt iðrun og yfirbót er engin iðrun. Hvað svo sem hinn gerði á þinn hlut afsakar ekki þína hegðun. Þú getur seinna komið á framfæri þínum sárindum og krafist þess að þér sé bættur skaðinn.

Virkjaðu baklandið

Þegar sorg, erfiðleikar og tilfinningalegar krísur verða á vegi manns í lífinu er gott að virkja baklandið. Kalla til fjölskylduna og vinina. Talaðu um líðan þína og biddu um stuðning. Ekki draga fólkið þitt inn í deilur og krefjast þess að það taki afstöðu, biddu það heldur um að hlusta á hvaða tilfinningar bærast með þér. Það að einhver hafi sagt þetta eða gert hitt skiptir engu. Segðu: „Ég er illa særð/ur. Mér finnst ég einskis virði. Hafa misst allt.“ eða „Ég hefði aldrei trúað að þetta kæmi fyrir mig. Ég hef verið svikin/n“ Það er líka leyfilegt að tala um reiðina, sorgina, söknuðinn, óttann og kvíðann fyrir framtíðinni. Leyfðu þeim að bregðast við öllum þessum erfiðu tilfinningum þínum án þess að það feli í sér að fordæma aðra og hafna þeim.

Ekki hræðast að bregða út af vananum

Þegar átök og deilur koma upp í nánum samböndum, hvort sem það er í tengslum við skilnað eða vegna einhvers konar uppákomu innan fjölskyldunnar eða í vinahópnum kallar það ævinlega á breytingu á högum fólks. Pör eru vön að gera hlutina saman og gera þau á ákveðinn hátt. Systkinahópurinn á einnig sína föstu siði og sömuleiðis vinirnir.

Meðfylgjandi ráð birtust í þriðja tölublaði Vikunnar.

Þegar og ef eitthvað verður til að skapa sundrung og óeiningu í hópnum verður að stokka það allt upp. Í stað þess að líta á það sem missi má nota tækifærið til að búa til nýjar venjur og skapa siði sem geta orðið til varanlegrar gleði. Aðalatriðið er að reyna að sýna sanngirni og skipuleggja sig vel fram í tímann. Það er vitað að margir munu halda áfram í sínu fari, prófaðu þess vegna eftir skilnað að bjóða vinunum til þín á öðrum tímum en venja var að hittast eða búðu til ný tilefni. Það gefur öllum tækifæri til að finna nýjar leiðir til að nálgast þig án þess að missa tengsl við aðra.

 

 

 

 

 

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is