Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hanna Rún: „Var skikkuð í lyfjapróf eftir sigur og var lömuð tímabundið eftir fæðingu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hanna Rún Bazev Óladóttir hefur verið í sviðsljósinu í 25 ár þrátt fyrir að vera rétt um þrítugt. Gríðarleg vinna og metnaður hefur skilað henni á verðlaunapalla víðs vegar um heiminn. Hanna Rún er einn farsælasti dansari þjóðarinnar en hefur upplifað að velgengni skilar sér ekki alltaf í vinum og vinsældum. Hún segist vera sjálfri sér nóg og bestu stundirnar eigi hún heima hjá sér.

Varð fyrir aðkasti og einelti

„Foreldrar mínir settu mig í dans þegar ég var fjögurra ára, ég var alltaf dansandi og kennararnir sögðu mig með einhvern aukatakt þrátt fyrir að ég væri ung,“ segir Hanna Rún sem keppti á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti 1997 og vann með dansherra sínum í ballroom-dönsum og latíndönsum.

„Ég var sex ára og man mjög vel eftir mótinu, bara eins og þetta hafi gerst í síðustu viku, var í gulum kjól og svo bleikum kjól og fannst þetta allt mjög sérstakt. Allar stóru stelpurnar hjálpuðu okkur, enda við ung og kunnum ekkert á þetta,“ segir Hanna Rún og tekur fram að á þessum tíma hafi mikill fjöldi keppt í öllum flokkum og erlend pör komið hingað til keppni. Segir hún sorglegt hversu fáir keppi í dansi í dag hérlendis.

Í grunnskóla varð Hanna Rún fyrir aðkasti og einelti og segir það aðallega hafa falist í því að hún var skilin útundan.

„Þegar ég varð eldri fann ég hvað ég var óvelkomin hjá stelpunum, þannig að ég var mikið með strákunum. Svo var ég bara ótrúlega mikið ein. Ég sagði foreldrum mínum frá þessu og þau útskýrðu fyrir mér að þetta væri afbrýðisemi.

Ég skildi ekki af hverju, sjálf átti ég tvær vinkonur sem voru mjög efnilegar í fimleikum og ég var svo montin að þekkja þær. Á tímabili hugsaði ég um hvort ég fengi að vera með ef ég stæði mig illa.

- Auglýsing -

Foreldrar mínir sögðu að ég væri ekki að æfa mig og leggja allt þetta á mig til að fara út á gólfið og dansa illa til að geta leikið við stelpurnar, þá væru þær ekki alvöruvinkonur.

Ég var nörd og mikill einfari, elskaði að mála, hanna kjóla, spila á hljómborð og er þannig enn í dag. Ég er algjörlega sjálfri mér nóg,“ segir hún í viðtali við Rögnu, blaðamann Vikunnar.

Þýsku þjálfararnir voru harðir

- Auglýsing -

Hanna Rún segir að strax í upphafi hafi verið lögð mikil áhersla á dansinn, parið tæki þátt í keppnum og þau sett á tveggja klukkustunda æfingar með unglingahópnum og erlendum þjálfurum.

„Þýsku þjálfararnir voru harðir og sögðust ekki ætla að draga úr því þó að við værum með. Við fórum í æfingabúðir til Þýskalands og ég var oft að fá frí úr skóla og því var sýndur mikill skilningur. Ég tók bara skólabækurnar með, foreldrar mínir voru alltaf með mér og systur mínar oft líka.

Þegar keppni var þá fórum við jafnvel tíu dögum fyrr og vorum á fullu að æfa í æfingabúðum fram að keppninni. Við vorum mikið að sýna á skemmtunum og árshátíðum hér heima líka, allar helgar seint um kvöld,“ segir Hanna Rún aðspurð hvort þetta hafi ekki verið erfitt og álag fyrir hana sem lítið barn.

„Ég varð strax hugfangin og ætlaði að vera best. Það komst ekkert að annað en dansinn. Ég teiknaði kjóla, horfði á dansinn á vídeóspólum aftur og aftur, og spáði í hvað ég vildi gera betur, horfði á eldri flokkana, hvað þau þar væru að gera sem við gerðum ekki. Ég þekki ekki annað en að vera með strangan þjálfara og ef hann öskraði á mig þá var það af því að ég var ekki að gera eins og ég átti að gera. Þannig var ég ekkert að drolla af því ég vildi að þjálfarinn yrði ánægður. Svo höfðum við mánuð til að bæta okkur þar til hann kæmi næst.“

Lömuð eftir fæðingu

„Í fyrstu tilraun var stungið í taug og það sem gerðist var að innri vöðvinn, lærvöðvinn sem er aðalvöðvinn í dansinum lamaðist. Læknar gátu lítið svarað mér og mér bara sagt að ég yrði að bíða.“

„Okkur langaði í annað barn, gátum ekki hugsað okkur að eiga bara eitt og langaði í strák og stelpu. Við vildum ekki hafa of langt á milli og þetta er bara fullkomið, það er fimm og hálft ár á milli þeirra,“ segir Hanna Rún, sem lenti í erfiðleikum í fæðingunni líkt og þeirri fyrri, en þó mun alvarlegri þar sem mænudeyfing misheppnaðist.

„Það þurfti að gera hana þrisvar, í fyrstu tilraun var stungið í taug og það sem gerðist var að innri vöðvinn, lærvöðvinn sem er aðalvöðvinn í dansinum lamaðist. Læknar gátu lítið svarað mér og mér bara sagt að ég yrði að bíða og sjá. Við vorum búin að bóka okkur í sýningar sem við þurftum að aflýsa af því ég gat ekki einu sinni beygt mig niður til að sækja hleðslutækið mitt þá bara hrundi ég í gólfið.

Í dag er ég orðin alveg góð og finn ekkert fyrir því að eitthvað hafi gerst í fætinum. En þetta voru fjórir mánuðir sem fóturinn var lamaður, sem voru mjög lengi að líða og mér var sagt að því lengri tími sem liði því verra yrði það. Ég var farin að hugsa að ég gæti aldrei dansað aftur,“ segir Hanna Rún, sem glímdi við fleiri erfiðleika eftir fæðinguna.

„Ég er með ofvirkan skjaldkirtil og grenntist mjög hratt þrátt fyrir að borða og borða. Hárið hrundi næstum allt af mér, bæði vegna skjaldkirtilsins, sjokksins yfir fætinum og meðgöngunnar.

Ég var farin að skoða hárkollur ef ég myndi missa hárið alveg og hugsa hvernig ég myndi líma þær á mig í keppnum. Það jákvæða við þetta allt var að það var COVID og ég gat falið þetta, var með hárband á myndum og hitti fáa.

Ég er mjög bakteríuhrædd og það fékk enginn að koma heim. Svo fékk ég einhverja dropa sem hjálpuðu helling með hárvöxtinn, auk þess sem ég var ekkert að lita hárið og það fékk að ná sér.“

Fer sjaldan í veislur

Hanna Rún segist lítið finna fyrir heimsfaraldri fyrir utan þau áhrif sem hann hefur haft á dansinn.

„Ég fer sjaldan í veislur eða slíkt, mér finnst gott að vera heima og gæti bara verið heima í einangrun í eitt ár. Ég er að syngja, sem ljóð, spila á píanó, mála, steina og hanna kjóla. Bestu vinkonur mínar búa í Noregi og úti á landi, við hittumst sjaldan, en það nægir okkur. Svo tala ég við fólk á netinu.“

Skikkuð í lyfjapróf eftir sigur

Nikita bað Hönnu Rúnar þegar hún var ófrísk að syninum. „Hann var búinn að fá leyfi foreldra minna og pabbi smíðaði hringana. Nikita langaði að sjá Gullfoss og Geysi en alltaf kom eitthvað upp á, að lokum krafðist hann þess að fara og fór á hnén við Gullfoss. Gunnar, mótorhjólaprestur í Digraneskirkju, og vinur pabba, átti að skíra soninn og var síðan á leið í frí. Ég vildi að hann gifti okkur, þannig að við ákváðum að kýla bara á brúðkaup í leiðinni með viku fyrirvara. Svona virka ég best, ég vil ekki hafa of langan tíma í skipulag. Skírnin og brúðkaupið var í kirkju, sem var falleg og mikið skreytt, og þegar kom að skírn dótturinnar vildi ég að hún fengi eins og sendi því boðskort um glimmerþema. Sem kom engum á óvart og ég steinaði allt hátt og lágt, meðal annars fallegan bekk fyrir hana.“

Þegar Hanna Rún hafði náð sér tóku dansæfingar við að nýju og fékk hún báða mennina í lífi sínu til að aðstoða sig við að koma sér aftur í gang. „Fyrsta æfingin var rosalega erfið og ég fann hreyfingarnar allt öðruvísi og hugsaði; „hvar eru magavöðvarnir“ … maginn á mér var eins og hlaup. Það var mjög freistandi að gera eins og aðrir höfðu sagt, hætta að dansa og vera bara mamma. Ég bað pabba að hringja í mig alla morgna til að segja mér að gera æfingar. Ég bað Nikita á æfingum um að neita þegar ég bæði um taka pásur. Þetta gerðu þeir, og þetta var það sem ég þurfti, og smátt og smátt fór að ganga betur. Við kepptum á Íslandsmeistaramótinu þegar sonur okkar var sex mánaða, unnum og ég var sett í lyfjapróf. Komnar voru sögur um að ég væri að taka eitthvað inn þar sem ég hefði komið snemma til baka og búin að grennast hratt. Ég var mjög pirruð þar sem ég fékk ekki að tala við neinn eftir sigurinn heldur tekin til hliðar og látin pissa í glas meðan staðið var yfir mér. Að sama skapi sannaði ég að ég hefði ekki tekið neitt ólöglegt inn til að koma mér aftur í form.“

 

Heimild:

Ragna Gestsdóttir. 2021. „Farin að hugsa að ég gæti aldrei dansað aftur.“ Vikan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -